Dagblaðið Vísir - DV - 31.07.2015, Qupperneq 25
Helgarblað 31. júlí–4. ágúst 2015 Fólk 25
Anna Kristjánsdóttir vélstýra
Til að byrja með vil ég taka fram að þær manneskjur sem ég vildi helst af öllu taka með mér get ég ekki nefnt því þær eru þræl-
bundnar í samböndum sínum og yrðu vafalaust farnar að ókyrrast eftir skamman tíma með mér, og ekki vil ég gerast hjónadjöfull.
Ég ætla því ekki að nefna neina einstaka manneskju með nafni, en vil taka fram að ég kann ekki orð í frönsku en vil læra undir-
stöðuatriði í málinu.
Viðkomandi yrði að vera góð í frönsku og þolinmóð gagnvart mér og geta leiðbeint mér í frönskunáminu meðan á dvölinni á eyði-
eyju stæði. Jafnframt þyrfti hún að vera sjálfstæð og laus við sífellt tal um þrá til fjölskyldu og vina og geta einbeitt sér að hinu
erfiða verkefni sínu, að kenna hinni treggáfuðu mér frönsku. Frönsk nunna væri sennilega mjög heppileg til verkefnisins.
Bækurnar yrðu sennilega af svipuðum toga. Kennslubók í frönsku, góð frönsk orðabók og síðan einhver góð dramatík af allt öðrum
toga til að hægt væri að hvíla sig á frönskunni, hvað um Don Kíkótí á frönsku?
Hannes Friðbjarnarson,
trommari og blaðamaður
Ég myndi taka Pétur Örn Guðmundsson, söngvara í Buffinu, með mér því hann er
fyndinn, og við eigum auðvelt með að ferðast saman. Bækurnar sem ég myndi taka eru
Tinni og dularfulla stjarnan, Tinni og svaðilför í Surtsey og Tinni og Blái lótusinn. Við
myndum nota tímann og skrifa sjónvarpsþáttaseríu, semja lög á eina plötu og bregða
hvor öðrum.
Pétur G.
Markan,
sveitarstjóri
og fótbolta-
hetja
Ég tæki með mér Björgu Magnús-
dóttur, rithöfund og dagskrár-
gerðarmann, skaphund og fyrr-
verandi sambýling. Ástæðan er
einföld – hún er skemmtilegri og
klárari en internetið og því verður
í lagi með okkur bæði í allsherjar
sambandsleysi. Allavega mig. Við
myndum sjálfsagt nota tímann
til að ræða einlægt hvers vegna
við erum svona hökkuð eintök
og hlæja að því í kjölfarið, meta
ástina heildstætt og rífast svo
duglega í lokin. Eins og góðir vinir
gera.
Ég myndi taka með mér þrjár af
bókum Arnaldar Indriðasonar
og lesa um Erlend og ævintýrin
hans. Eins og maður gerir í fríum.
Björk Eiðsdóttir, ritstýra Man Magasín
Ég myndi að sjálfsögðu taka mína allra bestu vinkounu, Selmu Björnsdóttur, með mér. Við
höfum verið vinkonur í 26 ár og án gríns aldrei orðið uppiskroppa með umræðuefni, sem hlýtur
að vera eins konar met því við erum báðar einkar málglaðar. Henni hefur aldrei tekist að fara í
taugarnar á mér og glætan að ég gæti pirrað hana, svo ég get treyst á að við myndum báðar lifa
félagsskapinn af til áramóta. Enn einn kosturinn er sá að hún gæti sungið mig í svefn á kvöldin
þegar ég er í trylltum internetfráhvörfum – ég gæti svo haldið fyrir henni vöku með mínum
sönghæfileikum.
Gallinn á þessu vali er aftur á móti sá að við erum báðar afleitir kokkar svo hætta er á því að við
myndum svelta. Því myndi ég taka MMM Matreiðslubókina hennar Mörtu Maríu með mér því
hún hefur að geyma bæði hollar og EINFALDAR uppskriftir. Ég myndi undirbúa þetta vel og láta
Mörtu kenna okkur Selmu helstu trixin í bókinni áður en í útlegð væri haldið.
Ég myndi svo taka símaskrána fyrst við höfum ekki aðgang að ja.is og það er allt of dýrt að
hringja í tíma og ótíma í upplýsinganúmerin. Á fimm mánuðum koma klárlega upp ódauðlegar
hugmyndir þegar við höfum ekkert betra að gera en blaðra allan sólarhringinn. Hvað ef við
þurfum númerið á Forsetaskrifstofu eða hjá dómsmálaráðuneytinu í hvelli og erum ekki með
símaskrá? Það má ekki gerast!
Þriðja bókin væri svo Biblían, hversu oft hef ég ætlað mér að lesa hana? Held ég verði að sætta
mig við að það gerist aldrei nema ég verði send á eyðieyju. Við Selma gætum rökrætt innihaldið
fram og til baka ... úff, var ég ekki búin að segja að við myndum lifa þessa dvöl af?
Hannes Friðbjarnarson
Tekur með sér Tinnabækur.
Björk Eiðsdóttir
Tekur með sér
Selmu Björns og
símaskrá.
Mynd Kristinn Magnússon