Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Side 67
B l ó m l e g u r g l æ pa g a r ð u r
TMM 2006 · 2 67
sviðinu allan tímann. Það gerir ekkert til þótt lesendur geti mögulega
séð í gegnum blekkingaleikinn, þegar eins vel er haldið á spilunum og
hér er bara betra að lesendur fái færi á að reyna sig við gátuna.
Útlendingar, landsbyggðarfólk og lesbíur
Íslenskir glæpasagnahöfundar eru góðir í mismunandi hlutum. Arn-
aldur Indriðason skarar fram úr í samfélagsrýni og frásagnartækni en
stundum á kostnað glæpaþáttarins, bók nýliðans Jóns Halls Stefánsson-
ar er aftur á móti afar vel fléttuð og Viktor Arnar Ingólfsson er mjög
vaxandi í þeirri deild auk þess sem honum tekst sérlega vel að skapa
stemningu. Ævar Örn Jósepsson og Árni Þórarinsson skrifa góð samtöl
sem er sorglega sjaldgæfur eiginleiki hjá íslenskum rithöfundum; blaða-
mannsreynslan nýtist þeim greinilega vel.
En þótt margt sé ólíkt á það ekki við um allt. Sumt af því sem er sam-
eiginlegt tveimur eða fleiri bókum er skemmtileg smáatriði eins og
ýmsir þræðir milli bóka síðasta árs; til dæmis finnst lík í Drekkingarhyl
í bókum Stellu Blómkvist og Þráins Bertelssonar, galdrar eru megin-
þema í bókum Yrsu Sigurðardóttur og Árna Þórarinssonar, auk þess
sem vafasamir ungir menn á eða frá Akureyri koma við sögu bæði hjá
Árna og Viktori Arnari. Stærri sameiginlegir þættir segja okkur töluvert
um bækurnar í heild. Það sem velflestir höfundarnir eiga t.d. sameig-
inlegt er góð persónusköpun (a.m.k. aðalpersóna) – og kannski er það
hluti af ástæðunni fyrir vinsældum bóka þeirra. Skemmtilega umræðu
um persónusköpun lögreglumanna í glæpasögum er að finna í Aftureld-
ingu Viktors Arnars þar sem rithöfundurinn Emil Edilon heldur ein-
dregið fram mikilvægi þess að lögreglumenn í glæpasögu séu „interess-
ant“ (101).
Allar íslensku glæpasögurnar sem út komu 2005 eiga ennfremur sam-
eiginlegt að vera samtímasögur. Það er út af fyrir sig athyglisvert því að
samtímasögur hafa ekki alltaf verið áberandi í íslenskum bókmenntum
og miðað við vinsældir sögulegra skáldsagna hérlendis hlýtur bara að
vera tímaspursmál hvenær út kemur glæpasaga sem gerist einhvern
tíma endur fyrir löngu. Hluti af bók Súsönnu Svavarsdóttur, Dætrum
hafsins, gerist reyndar í fortíðinni, þ.e. lífshlaup Herdísar, frænku aðal-
persónunnar, en glæpurinn sjálfur er framinn í samtímanum og megn-
ið af bókinni gerist þá. Arnaldur Indriðason hefur allnokkrum sinnum
látið bækur sínar gerast á tveimur plönum, í samtíðinni og fortíðinni, og
fortíðarsagan hefur þá vegið þungt. En nýjasta bók hans, Vetrarborgin,
er hreinræktuð samtímasaga.