Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Síða 107
M e n n i n g a r v e t t va n g u r i n n
TMM 2006 · 2 107
Bækur, verðlaun og tímarit
„Sem einstaklingar vitum við vel að okkar eigin ævisaga er að verulegu leyti
sagan af því hvaða bækur við lásum, hvenær og með hvaða hugarfari. Þá er ekki
síst átt við þær bækur sem ekki falla undir vísindi og fræði heldur bókmenntir
– skáldsögur, leikrit og ljóð,“ segir Árni Bergmann í sinni heillandi bók Listin
að lesa sem Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands gaf út í tilefni af sjötugs-
afmæli Árna í fyrra. Ekki þarf að fara lengra en framar í þetta hefti og skoða
„lestrarævisögu“ Sigurðar Pálssonar skálds til að sjá hvað þetta er sönn lýsing.
Í bók sinni fjallar Árni um líf í lestri – háskann við að lesa sumar bækur og
skömmina við að lesa aðrar, samband rithöfunda og gagnrýnenda og fleira og
fleira, og finnst lesanda sem hann hafi lesið ótalmargar bækur í þessari einu
– um leið og hann þráir að kynnast þeim nánar sem hann þekkti ekki fyrir.
Það telst til tíðinda í bókmenntaheiminum að írski Nóbelsverðlaunahöfund-
urinn Seamus Heaney sendi frá sér ljóðabók á útmánuðum. District and Circle
heitir hún og vísar heitið til neðanjarðarlestalínanna tveggja sem urðu illa úti
í hryðjuverkunum í London í fyrra. Enn lætur Seamus sig varða það sem gerist
í kringum hann. Skáldið kom á Listahátíð í Reykjavík 2004 ásamt sekkjapípu-
leikaranum Liam O’Flynn, og það vekur athygli Íslendings í umsögn um bók-
ina í Guardian (1. apríl) að meðal kvæðanna er eitt sem heitir „Höfn“ og fjallar
um bráðnandi jökul og háskann sem hlýst af því. Seamus Heaney fór einmitt
austur á land í heimsókninni 2004 og þeir félagar komu fram á Höfn í Horna-
firði á vegum Listahátíðar. Faber gefur bókina út.
Íslensku bókmenntaverðlaunin voru veitt 2. febrúar og hlaut Jón Kalman
Stefánsson fagurbókmenntaverðlaunin fyrir sína yndislegu hópsögu úr ís-
lensku þorpi, Sumarljós og svo kemur nóttin (Bjartur). Kjarval hlaut fræði-
bókaverðlaunin (Nesútgáfan). 6. apríl voru svo Menningarverðlaun DV veitt
og þau hlaut Guðrún Eva Mínervudóttir í bókmenntum fyrir skáldsögu sína
Yosoy en Hallormsstaður í Skógum í fræðum (báðar frá Máli og menningu).
Skondið er til þess að hugsa að Guðrún Eva var ekki tilnefnd til Íslensku bók-
menntaverðlaunanna og Jón Kalman var ekki tilnefndur til menningarverð-
launa DV. Þýðingaverðlaunin sem voru veitt á degi bókarinnar fékk Rúnar
Helgi Vignisson fyrir frábæra þýðingu sína á Barndómi eftir suður-afríska
Nóbelsverðlaunahöfundinn J.M. Coetzee.
Barnabókaverðlaun Menntaráðs Reykjavíkurborgar hlaut í ár Áslaug Jóns-
dóttir fyrir sína einstaklega hugmyndaríku og skemmtilegu myndabók Gott
kvöld (Mál og menning). Sama bók fékk Dimmalimm-myndskreytiverðlaunin
í nóvember sl. og var það annað árið í röð sem Áslaug hlaut þau. Sagan segir frá
viðburðaríkum mínútum í lífi lítils stráks meðan hann er einn heima. Hann er
ekkert hræddur sjálfur við að vera einn en bangsi er óttalegur heigull og verð-
ur ekki um sel þegar gestir fara að streyma að – enda eru þetta engir aðrir en
Hræðslupúkinn, Hrekkjusvínið, Tímaþjófurinn, Öskurapinn, Hávaðaseggur-
inn, Frekjuhundurinn og fleiri undarlegar skepnur sem allar líkamnast á við-
eigandi hátt í listilega gerðum teikningum Áslaugar.