Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Page 115
TMM 2006 · 2 115
My n d l i s t
Margrét Elísabet Ólafsdóttir
Í minningu Nam June Paik
Í byrjun þessa árs bárust fréttir af andláti kóreanska listamannsins Nam June
Paik, en hann lést í Miami í Bandaríkjunum þann 29. janúar 73 ára að aldri.
Paik heimsótti Ísland einu sinni snemma á ferli sínum og hefur æ síðan verið
minnst hér á landi sem listamannsins sem beraði á sér bossann. Guðmundur
Hermannsson rifjaði upp atburðinn í kringum þetta eftirminnilega atvik í
heimsókn Paiks til landsins fyrir fjörutíu árum í ágætri grein sem birtist í
Morgunblaðinu 3. febrúar síðastliðinn. Þar kemur fram að Paik heimsótti Ís-
land til að taka þátt í tónleikum á vegum Musica Nova, félagsskapar sem hafði
það markmið að standa fyrir flutningi á nýrri tónlist, þar með taldri raftónlist
sem þá var ný af nálinni. Þeir sem sóttu tónleika Musica Nova hafa því vænt-
anlega verið orðnir ýmsu vanir, en það sem gerðist á sviðinu í Lindarbæ þann
17. maí árið 1965 líktist ekki nema að örlitlu leyti einhverju sem áheyrendur
töldu að gæti flokkast undir tónlist. Uppátæki Paiks og samstarfskonu hans
Charlotte Moorman á sviðinu vöktu fyrst og fremst hneykslan og blaðaskrif
sem urðu til þess að Musica Nova sendi frá sér yfirlýsingu þar sem beðist var
afsökunnar á „háttalagi“ skötuhjúanna sem ekki væri hægt að kalla annað en
„ófyrirsjáanlegt slys“ (sjá Bjarki Sveinbjörnsson: Tónlist á Íslandi á 20. öld,
1998. http://www.ismennt.is/not/bjarki/Phd/Sidur/156-66.html).
Það er í sjálfu sér athyglisvert að velta því fyrir sér hvers vegna þessi uppá-
koma vakti svo heiftarleg viðbrögð að stjórn Musica Nova sá sig knúna til að
bera af sér gestina í stað þess að verja þá eins og þó hefði mátt búast við af
framsæknum félagsskap. Þá er ennfremur merkilegt að þrátt fyrir langan og
farsælan listamannsferil skuli Paiks ennþá vera minnst á Íslandi sem berrass-
aða listamannsins á sviðinu í Lindarbæ og atburðurinn ennþá tekinn sem
sérlega gott dæmi um það hve listin er óskiljanlega „vitlaus“ og langt frá
almenningi.
Atriði Paiks og bandaríska sellóleikarans Charlotte Moorman í Lindarbæ
var auðvitað tónlistargjörningur, en ætlun þeirra var aldrei að flytja tónlist á
neinn venjulegan hátt. Þetta vitum við núna og að Paik var ekki einn um að
fremja slíka gjörninga á þessum tíma. Hann var ekki beinlínis frumkvöðull
á þessum vettvangi þótt einbeitt frammistaða hans í eigin tónlistargjörning-
um og annarra hafi vakið athygli og þeir séu hluti af sögu róttækra tilrauna
listamanna á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar. Eiginlegt frumkvöðlastarf