Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Page 128
B ó k m e n n t i r
128 TMM 2006 · 2
Íslands eftir fjölda ára fjarveru til að kynna sér starfsemi hryllingsleikhússins
Yosoy. Fólkið sem Ólafur hittir verður sjálfkrafa að aukapersónum í sögunni
sem Madame hefur hrundið af stað og allt sem á daga hans og aukaleikaranna
drífur verður að byggingarsteinum verksins, bæði bókarinnar sem slíkrar og
sögunnar sem verið er að rita innan í sögunni. Því dramatískari sem atburð-
irnir eru því nær þokast Madame sigrinum og því spenntari verður lesandinn.
„Eins og þú veist hefur alltaf verið snobbað meira fyrir harmleikjum en gaman-
leikjum“ segir Madame undir lokin. (378)
Það væri hægur leikur að týna sér í frumskógi umfjöllunarefnis bókarinnar.
Sagan snertir á svo mörgu og stuttar setningar sem skrifaðar eru eins og í
framhjáhlaupi gætu orðið kveikjan að mörgu miðnæturspjallinu um sjálfa til-
veruna. En það sem knýr á einna fastast við lesturinn finnst mér hafi verið
undirliggjandi pælingar um siðferði og siðferðishnignun. Sviðstjöld sögunnar
eru þetta hryllingsleikhús þar sem líkamslistamenn keppast við að ganga fram
af fólki. Þess lags sýningar eru svo sannarlega ekki nýjar af nálinni, fólk hefur
í aldanna rás sóst eftir að vera sjokkerað en hugrenningatengsl við raunveru-
leikasjónvarpið eru óhjákvæmileg og vísar Guðrún Eva oftar en einu sinni til
þess í sögu sinni. Lífið í hryllingsleikhúsinu og fólkið sem þar vinnur er ofur-
raunverulegt eins og öfgasjónvarpið:
Eva Lísa Pálsdóttir er fullkomlega úttroðin af sílíkoni; barmur, bakhluti, varir og
kinnbein. Hún fer yfirleitt ekki út úr íbúðinni sinni en henni var hjálpað inn á
kaffistofu í tilefni af komu minni. Ég gaf mig á tal við hana og sumt af því sem hún
sagði var ógleymanlegt. Hún sagðist hata raunveruleikann og að hún vildi bara vera
í þykjustunni, hún óttaðist allt sem væri náttúrulegt og fyndist hún best eiga heima
innan um það sem væri manngert. Brjóstin á henni, hvort sem þér trúið því eða ekki,
voru hönnuð af verkfræðingi hjá Boeing. (112)
Persónur Yosoy eru í ýmsu tilliti ógeðfelldar, þær eru spilltar eða týndar,
svefngenglar í eigin lífi, taka enga ábyrgð, skortir siðferði. Jói, aðstoðarmaður
hnífakastarans, er fullkomlega sjálfhverfur. Hann finnur ekki til sársauka og
er tilbúinn að svíkja alla og ljúga til að ná langt á sviði líkamslistanna. Hann er
einmana en getur einhvern veginn ekki tengst neinum. Madame er tilbúin að
spila með líf annarra til þess að vinna leikana sem hún tekur þátt í. Hún getur
heldur ekki tekið afstöðu til mannsins sem hún elskar. Ásta hefur, þrátt fyrir
miklar gáfur, kosið að umfaðma tímana sem hún lifir á með öllu því falsi og
skorti á siðferði sem því fylgir. Það er einna helst aðalpersónan, læknirinn
Ólafur, sem hefur einhvers konar siðferðilega viðspyrnu, ábyrgðartilfinningu
gagnvart náunganum, þótt honum takist sjaldnast að fylgja þeirri tilfinningu
eftir í framkvæmd. Þau eru kannski ekki alslæmt fólk, en þau hafa öll annað
hvort tekið einhliða afstöðu með sjálfu sér eða hreint enga afstöðu. Þau búa í
gerviheimi þar sem annað fólk skiptir engu máli.
Hugsuðurinn í sögunni er Ásta sem um leið er holdgervingur afsiðunar-
innar, – sílíkon-stúlka í uppreisn. Og hún berar hræsnisfullan samtímann: „Ég
fyrirlít þessa ömurlegu undirgefni við ofdekraða smábarnið í okkur sem