Fréttatíminn - 16.09.2016, Blaðsíða 26
26 | FRÉTTATÍMINN | Föstudagur 16. september 2016
Marglaga sýn á vináttuna
Guðmundur Arnar Guð-
mundsson flakkar nú um
heiminn með nýja kvikmynd
sína Hjartastein og kynnir
hana á kvikmyndahátíð-
um. Myndin, sem segir frá
mótunarárum og tilfinn-
ingalífi nokkurra unglinga
í íslenskri sveit, hefur vakið
mikla athygli og vann meðal
annars til verðlauna á kvik-
myndahátíðinni í Feneyjum
á dögunum, þar sem hún
fékk sérstök verðlaun sem
ætluð eru myndum sem
tengjast hinsegin málefnum.
Guðni Tómasson
gudni@frettatiminn.is
„Það er gaman að sýna myndirn-
ar sínar hér á kvikmyndahátíð-
inni,“ segir Guðmundur Arnar Guð-
mundsson, leikstjóri og höfundur
Hjartasteins í símanum milli funda
í Toronto í Kanada. „Hér eru mikl-
ir kvikmyndaáhugamenn þannig
að maður fær alvöru og krefjandi
spurningar um það sem maður er
að gera. Fólk nennir svo sannarlega
að ræða bíó og það er skemmtilegt.“
Guðmundur, sem fæddur er árið
1982, lærði myndlist við Listahá-
skóla Íslands og hefur síðan sótt
námskeið í Danmörku í handrita-
skrifum, þar sem hann hefur verið
með annan fótinn síðustu átta ár.
„Myndlistin var alltaf leið inn í
kvikmyndirnar þangað sem ég ætl-
aði mér. Myndlistarnámið var hins
vegar góður grunnur og hjálpaði
mér að fá tilfinningu fyrir mynd-
byggingu og framvindu. Mér fannst
þetta áhugaverð leið inn í kvik-
myndina. “
Handritsskrifin ágæt sjálfskoðun
Hjartasteinn er þroska- og vináttu-
saga nokkurra krakka á unglings-
aldri, en hjartað í myndinni er vin-
átta tveggja stráka sem er sterk, þó
svo að innri og ytri kraftar vilji slíta
þá í sundur. Myndin er tekin upp
á Borgarfirði eystri og innblásin af
æsku Guðmundar sjálfs. Hann segir
að á kvikmyndahátíðum hafi ungum
leikurum myndarinnar verið hrósað
sérstaklega mikið fyrir leik sinn, þó
að flestir þeirra hafi ekki leikið áður
í kvikmyndum.
„Við vildum reyna að tala af
virðingu og dýpt um reynslu ung-
linga,“ segir Guðmundur. „Reynslu-
heimur þeirra getur stundum verið
nokkuð flatur í framsetningu. Sjálf-
ur hef ég alltaf verið mjög hrifinn
af þroskasögum og góðum kvik-
myndum um þennan aldurshóp.
Eins eru þetta líka þær sögur sem
koma til mín nokkuð náttúrulega og
áreynslulaust þegar ég sest niður og
skrifa,“ segir Guðmundur og bætir
við að hann tengi vel við þessi ár í
sínu eigin lífi.
Togstreita unglingsins
„Fyrir mér voru unglingsárin rosa-
lega dramatísk,“ heldur Guðmundur
Arnar áfram. „Þú ert í rauninni ekki
kominn með fulla þjóðfélagsstöðu
og ert flokkaður dálítíð í annan
flokk. Það getur myndast mjög mik-
il togstreita í manni, því maður er að
hætta að vera barn en er samt ekki
orðinn fullorðinn. Þú stjórnar ekki
enn þínu eigin lífi en vilt fara að taka
stjórnina. Þú ert að upplifa fyrstu
ástina og fyrsta missinn. Ég missti til
dæmis góðan vin sem svipti sig lífi.
Með því að gera þessa kvikmynd hef
ég náð að skilja margt betur í mínu
lífi og náð að vinna út úr því. Ég hef
áttað mig á því að á þessum árum
var ég klárari en mig minnti, vissi
meira um heiminn en var ekki bara
ungur og vissi ekki neitt.“
Liðið sem heldur öllu uppi
Þó að Hjartasteinn sé að hluta til um
samskipti milli kynslóðanna og sam-
skipti fjölskyldna tveggja drengja,
sem myndin hverfist um, þá eru
það alltaf unglingarnir sem halda
uppi myndinni. Guðmundar Arnar
vandaði mjög til valsins á leikurum
í hlutverk þeirra. Fjölmargir komu í
prufu og þau sem urðu fyrir valinu
tóku þátt í nærri tíu mánaða undir-
búningi sem var í raun og veru mik-
ill leiklistarskóli.
„Við völdum á endanum krakka
sem voru bæði „góðir krakkar“ með
ákveðinn tilfinningaþroska og mjög
metnaðarfullir. Þetta eru allt krakk-
ar sem eru í íþróttum og við skynj-
uðum að þau væru tilbúin að leggja
mikið á sig. Við töluðum oft um það
við þá á löngu undirbúningstímabili
að þetta væri eins og lið sem væri að
undirbúa sig fyrir keppni og keppn-
in var þá tökurnar á myndinni. Þetta
held ég að hafi skilað sér.“
Einangrun og tímaleysi
Hjartasteinn gerist á nokkuð óræð-
um tíma en samt í nútímanum
og leikstjórinn upplýsir að við-
miðunarárin séu nokkurn veg-
inn 1996-2000. „Farsímanotk-
unin er í það minnsta ekki
orðin útbreidd og samskiptin
því kannski dálítið öðruvísi
en í dag.“
Eit t umfjöllunarefni
myndarinnar er líka kyn-
hneigð og óvissa um hana á
unglingsárunum. „Umræða
um þau mál er líka allt önnur
í dag en hún var á þessum við-
miðunarárum. Þá þótti bara ekkert
að því að vera opinberlega á móti
samkynhneigðum en það hefur
breyst mikið. Sagan sem við segj-
um er eiginlega í mörgum þráðum
og kynhneigðin og spurningar um
hana er ekki nema einn af þráðun-
um. Við þurftum að finna jafnvægi
þarna á milli, gera ekki of mikið úr
spurningum um kynhneigð.“
Annað jafnvægi sem leikstjór-
inn og aðstandendur myndarinn-
ar þurftu að átta sig á var samspil-
ið milli sögunnar sem er sögð og
landslags Borgarfjarðar eystri sem
setur auðvitað sinn blæ á myndina.
„Myndin er keyrð áfram af karakt-
erunum þó svo að náttúran spili líka
sitt hlutverk. Við vorum samt mjög
meðvituð um að náttúran skiptir
okkur máli þegar kemur að því að
vinna úr tilfinningum okkar. Um-
hverfið breytir okkur og við reynum
að leiða það fram án þess að nátt-
úrufegurðin taki alveg yfir.“
Hjartasteinn
verður
frumsýnd
á Íslandi
í desem-
ber.
Erlendir gagnrýnendur hafa sagt Hjartastein vera fjölbreytta og marglaga sýn á
unglingsárin. Umfjöllunarefnin séu mörg en vináttan þeirra stærst.
Myndir | Roxana Reiss/Join Motion Pictures
Leikstjórinn við tökur á Borgarfirði
eystri með Blæ Hinrikssyni og Baldri
Einarssyni.
Kvikmyndin Hjartasteinn er
persónuleg sýn leikstjórans Guð-
mundar Arnar á unglingsárin.
KATRÍNARTÚNI 12 WOWAIR.IS WOWAIR@WOWAIR.IS
BOSTON f rá
15.999 kr.*
WASHINGTON D.C. f rá
15.999kr.*
SAN FRANCISCO f rá
23.499 kr.*
LOS ANGELES f rá
24.499 kr.*
ÞAÐ ER
FLUG
Á ÞÉR!
*Verð miðast við flug aðra leið með sköttum ef greitt er með Netgíró.
nóv. - mars
okt . - mars
nóv.-mars
okt .- mars
NEW YORK f rá
15.999 kr.*
nóv. - mars