Fréttatíminn - 22.12.2016, Blaðsíða 20
20 | FRÉTTATÍMINN | Fimmtudagur 22. desember 2016
Þorlákur Einarsson heillaðist af
dulúð helgisiða þegar hann fór
með besta vini sínum inn í kaþ-
ólsku kirkjuna í Reykjavík, aðeins
sjö ára gamall. Frá barnsaldri
hefur hjarta hans verið opið fyrir
andlegum málefnum.
„Ég er ekki spenntur fyrir merki-
miðum því í þeim felst möguleikinn
á yfirlæti og aðgreiningu, en ef ég á
að staðsetja mig öðru hvoru megin
á ásnum, myndi ég segja að ég væri
trúaður og kristinn maður.“
Þorlákur kynntist kirkjustarfi að-
eins sjö ára gamall og höfðaði það
meira til hans en íþróttirnar sem
strákarnir í skólanum stunduðu.
Hvernig er að hafa Jesú sem fyrirmynd
í heimi sem hverfist um veraldleg gæði
og afrek einstaklingsins? Þau Þorlákur
Einarsson og Sigrún Rut López Jack hafa
ólíkar ástæður fyrir því.
Að trúa á
guð í friði
Hjartað er
móttækilegt „Ég trúi bæði á guðlegt eðli Jesú og lít á hann sem hinn fullkomna mann. Hann er líka flókinn enda uppreisnarmaður. Hann
var oft óþægilegur því hann barðist gegn norminu sem endaði auðvitað með því hann var tekinn af lífi.“ Mynd | Hari
Þóra Tómasdóttir
thora@frettatiminn.is
„Ég rambaði inn í kaþólsku kirkj-
una á Íslandi með besta vini mín-
um sem var kaþólikki, þó ég hafi
ekki verið það sjálfur og hef aldrei
orðið. Þannig komst ég í beint tæri
við það trúarlíf. Áhuginn var sjálf-
sprottinn hjá mér. Ég ólst ekki upp
við trú og foreldrar mínir voru
heldur ekki kirkjurækið fólk þó
þau hafi veitt mér ákveðna grunn-
fræðslu. Móðir mín kenndi mér
Faðir vorið og eina mótstaðan sem
ég fékk frá henni var að það lægi
ekki á að gerast kaþólikki, því ég
varð auðvitað spenntur fyrir því
í upphafi.“
Þorlákur segist hafa heillast af
helgisiðunum þegar hann kom inn
í kaþólsku kirkjuna. „Ég var ekki sá
fyrsti og ekki sá síðasti sem heillað-
ist af því „litúrgíu“. Þetta var mjög
framandlegt fyrir íslenska krakka.
Ég fékk því undanþágu til að ger-
ast kórdrengur, því ég var ekki kaþ-
ólikki, og fannst upphefð að fá smá
hlutverk. Þarna var ég ekki bara
smákrakki. Ég átti nefnilega enga
samleið með skipulögðu íþrótta-
starfi, hvorki KR né andanum á fót-
boltavellinum í skólanum. Það ríkti
ákveðin einsleitni í tómstundastarfi
fyrir krakka á þessum aldri og það
var ekkert svo margt í boði. Kaþ-
ólska kirkjustarfið höfðaði til mín
og gerði mig svolítið ábyrgan. Mað-
ur þurfti að vakna á morgnana og
mæta á staðinn. Það gaf mér tilgang
sem var gott fyrir egóið hjá átta ára
strák.”
Á skjön við jafnaldra
Þorlákur segir KFUM einnig hafa
verið áhrifavald í sínu lífi en hann
fór þrisvar í sumarbúðir þeirra í
Vatnaskógi sem barn.„Mig langaði
bara í sumarbúðir en var ekkert að
velta fyrir mér inntaki þeirra. Bæði
þar og í kaþólsku kirkjunni upplifði
ég að við krakkarnir værum tekin
alvarlega. Það var talað við okkur í
augnhæð. Í kjölfarið fór ég að sækja
fundi hjá KFUM á Amtmannsstíg.“
Honum þótti ekkert erfitt að taka
þátt í skipulögðu kirkjustarfi þó það
hafi mögulega verið á skjön við við-
teknar venjur jafnaldranna. „Ef það
er eitthvað sem ég fékk í uppeldi,
þá var það að vera óhræddur við
að skera mig úr, og að forðast allan
hópsálarþrýsting. Það gerði skref-
in miklu auðveldari fyrir mig. Auk
þess hafði ég besta vin minn með
mér og velti því aldrei fyrir mér að
þetta væri skrítið.”
Þorlákur er sannfærður um að í
mörgum börnum sé forvitni og and-
legt stef sem geri þau móttækileg
fyrir trúarfræðslu. „Ég fékk reynd-
ar ekki sömu trúfræðslu og kaþ-
ólsku krakkarnir í söfnuðinum, ég
gekk bara inn í helgisiðina án þess
að skilja nákvæmlega út á hvað þeir
gengu. En ég heillaðist af dulúðinni
sem fylgdi kaþólsku kirkjunni. Enn
í dag minnist ég þess sem einu af
stóru augnablikunum í lífi mínu
þegar ég var um það bil tólf ára
gamall og Jóhannes Páll páfi kom
til Íslands. Að vera í guðsþjónustu
með páfanum var eins stórt og það
gerist.“
Kærleiksboðskapurinn ristir dýpst
Þó Þorlákur hafi kynnst kirkjustarfi
kaþólikka tilheyrir hann þjóðkirkj-
unni í dag og hefur trúna fyrir sig.
„Kærleiksboðskapur nýja testa-
mentisins er það sem ristir dýpst og
kemur mest við sálarlífið hjá mér.
Ég trúi á framhaldslíf og er fullviss
um að við séum ekki ein í alheimin-
um. Að það sé til æðri máttur sem
er tilbúinn að aðstoða mig þegar
eitthvað bjátar á. Ég er hrifinn af
því sem ég les úr nýja testamentinu
og því sem Kristur boðar í baráttu
við mannlega lesti. Því lífið er alltaf
barátta við sjálfselsku og sérhlífni.
Andstaðan við það er að hugsa um
náungann og þá sem minna mega
sín.“
–Hvernig gengur þér að tileinka
þér þennan boðskap í þínu daglega
lífi?
„Ég er mjög langt frá mannlegri
fullkomnun,“ segir Þorlákur og
hlær. „En þetta snýr að litlu augna-
blikunum þar sem ég velti því fyr-
ir mér hvort ég eigi að stoppa við
gangbraut. Í hvunndeginum eru ei-
lífðarverkefni hvort ég eigi að hugsa
um eigin hag eða annarra. Um það
hefur maður val, svona um það bil
á klukkutímafresti.“
–Hvernig er samband þitt við
Jesú?
„Það tengist bæninni sem er
sennilega eitt mikilvægasta verk-
færið sem kristnir menn hafa. Að
sumu leyti er þetta okkar íhugun
en á að vera beint talsamband. Ég
upplifi kannski ekki alveg beint tal-
samband en mér finnst ég ekki tala
út í tómið. Ég held að það sé ein-
hver sem móttekur hinum megin.
Ég er þakklátur fyrir að eiga þetta
samband, því það koma augnablik
hjá hverjum og einum, þar sem við
upplifum okkur alein. Jafnvel þó við
séum í margmenni eða fjölskyldu. Í
þessu vildi ég gjarnan vera betri en
ég er og grípa til bænarinnar oftar
á dag.”
Hann segir Jesú vera sér algjör
fyrirmynd. „Ég trúi bæði á guðlegt
eðli Jesú og lít á hann sem hinn full-
komna mann. Hann er líka flókinn
enda uppreisnarmaður. Hann var
oft óþægilegur því hann barðist
gegn norminu sem endaði auðvit-
að með því hann var tekinn af lífi.“
Þorlákur segist myndi vilja iðka
trú sína meira og sækja kirkju oftar,
þó hann fari stöku sinnum.
„Ég les ritninguna og reyni að
verða betri en ég er. Stóra málið
er að hjartað er móttækilegt. Það
er búið að opna á einhverja rás hjá
mér og ég held að margir séu and-
legri en þeir segja upphátt. Það
er svo mikið „normcore“ að vera
trúleysingi að allt annað er orðið
tabú. Ég hvet fólk til að opna á þessa
hluti og jafnvel gera það áður en allt
er komið í óefni og þarf á hjálp að
halda. Það er mannlegt að leita í
andlega hjálp þegar eitthvað bját-
ar á en þakka ekki fyrir sig þegar
vel gengur. Ég myndi því hvetja fólk
til að opna á trúna því fyrir mér er
trúariðkun partur af því að vera
þakklátur í núinu.“
Sendum frítt
á næsta pósthús
ef verslað er fyrir
meira en 3.000 kr
á kunigund.is