Fréttablaðið - 10.03.2017, Blaðsíða 13

Fréttablaðið - 10.03.2017, Blaðsíða 13
Þórlindur Kjartansson Í dag Ég þekki vel til ungrar stúlku sem ólst upp við það sem smábarn að vera stöðugt boðin aðstoð við allt mögulegt sem hún tók sér fyrir hendur. Þessi sífellda og óumbeðna aðstoð varð til þess að jafnvel áður en hún gat með orðum beðið um að borða eða drekka lærði hún að segja: „Ekki hjálpa.“ Þegar hún var niðursokkin í eitthvert dundur og sá annað foreldrið skyndi- lega nálgast—jafnvel þótt það væri úr dágóðri fjarlægð—hrökk hún við, herti svo svip sinn, rétti upp lófann eins og til þess að stöðva aðvífandi ökutæki og hrópaði með öllum þeim myndug- leik sem er á valdi tæplega tveggja ára gamals barns: „Nei! Ekki hjálpa.“ Þú ert of lítill Þetta er ekki óvenjulegt. Eftir að smá- börn læra að segja „mamma“, „pabbi“ og „detta“ líður yfirleitt ekki á löngu þangað til þau eru farin að segja „ég get sjálf“. Þau eru—eins og ungviði allra dýra— áhugasöm um að læra að bjarga sér og reyna því af veikum en vaxandi mætti að framkvæma upp á eigin spýtur allar þær daglegu athafnir sem máli skipta í lífsbaráttunni. Helsta fyrirstaðan sem börnin okkar mæta í þessum metnaði sínum eru for- eldrarnir. Þegar lítil börn gera tilraunir til þess að drekka sjálf, hella í glös, borða með skeið, fara í skóna sína eða setja bíllykil í svissinn og reyna að stinga af undan ofríkinu, þá má bóka að foreldri vomi einhvers staðar yfir með yfir- þyrmandi áhyggjur af því að barnið sulli niður, meiði sig eða sé einfaldlega of lengi að gera það sem það ætlar sér. Þetta er óþolandi fyrir börnin og það er sjaldan sem þau gráta sárar heldur en einmitt þegar foreldrarnir grípa fram fyrir hend- urnar á þeim áður en þau gefast sjálf upp. Þótt foreldrar fari oftast mjúklega að þessari afskiptasemi þá telja jafnvel örlítil kríli sig sjá í gegnum þau. Börnin taka hjálpinni sjaldnast vel og líta aldrei þannig á að góður hugur eða gæska sé á bak við þessa óumbeðnu aðstoð. Þvert á móti þá grunar mig að heilarnir í þessum litlu hausum séu bullsjóðandi af heiftúðugum samsæriskenningum um raunverulegan tilgang foreldranna með „hjálpseminni“. Pínulítil börn eiga það jafnvel til að beita því óyndisúrræði að láta sem minnst fyrir sér fara til þess að fá frið fyrir afskiptaseminni. Foreldrar eru þá fljótir að kveikja á perunni og álykta undan- tekningarlaust—og réttilega—að barnið sé að gera eitthvað sem það „ætti ekki að vera að gera“. Þegar foreldrarnir koma svo loks að barninu sallarólegu að klippa sundur myndaalbúm og peningaseðla—og grípa í taumana með tilheyrandi æsingi og formælingum—þá verður barnið ekki bara hrætt, heldur hundsvekkt yfir að ekki hafi tekist að leika á fangaverði umhyggjufangelsisins. Ræktum í okkur þrjóskuna Þegar við eldumst lærum við að það er okkur öllum nauðsynlegt að læra að þiggja hjálp annarra og að veita öðrum hjálp án skuldbindingar. En því miður þá eigum við líka til, eftir því sem við fullorðnumst, að bæla niður í okkur hina eðlislægu þörf til þess að reyna til þrautar sjálf áður en við biðjum um hjálp. Þar með kæfum við þann eiginleika sem einna mestu ræður um hvernig okkur gengur að takast á við lífsins þrautir. Það er nefnilega einungis með því að takast á við sífellt erfiðari verkefni, og gefast ekki upp fyrr en í fulla hnefana, sem okkur tekst smám saman að öðlast færni og skilning á flóknum viðfangsefnum. En jafnvel þrátt fyrir góðan vilja þá getum við ekki allt. Okkur eru gefnir ólíkir kostir og öll þurfum við að kljást við ýmsa annmarka. Við þurfum líka öll að mæta óréttlæti, heimsku og til- litsleysi—þótt vissulega sé það í mjög mismiklum mæli. Og öll njótum við einhverra forréttinda og forgjafar; og öll stöndum við á ýmsum sviðum höllum fæti. Við áttum okkur á því smám saman að engum tekst að láta alla drauma sína rætast. En það þýðir svo sannarlega ekki að við séum ekki öll fær um að láta suma þeirra verða að veruleika. Að finna sitt strik Það er sama í hverju afrek og árangur lífsins er fólginn—það er líklegt að fólkið sem nær að kreista sem mest út úr lífinu eigi það sameiginlegt að láta frekar styrkleika sína og kosti skilgreina sig en sé ekki of upptekið af veikleikum sínum eða því hversu óréttlátt lífið getur verið. Og líklega er einnig hollast að kæra sig mest kollóttan um hvað öðrum kann að finnast um mann. Þeir eru eflaust ekki margir sem hafa velt fyrir sér spurningunni: „Hvað ætli Megas taki mikið í réttstöðulyftu?“ Þetta er vegna þess að það skiptir nákvæmlega engu máli. Og það er algjörlega óhugs- andi að Megas hafi áhyggjur af því hvað öðrum kann að finnast um getu hans í ólympískum lyftingum. Maður þarf ekki að vera  fullkominn til að öðlast full- komnun. Það stendur í valdi okkar sjálfra að gera það sem við getum til þess að verða hamingjusamir einstaklingar og gagnlegir fyrir fjölskyldur okkar, vini og samfélag. Og það er líka skylda okkar að leita stuðnings og hjálpar til þess að ná því markmiði þegar við þurfum á því að halda. Innri og ytri hindranir Utanaðkomandi hindranir eru oftast ekki það sem þvælist mest fyrir okkur. Það er nefnilega oftast ekki þrátt fyrir erfiðleika sem fólk finnur sitt rétta strik í lífinu; heldur einmitt vegna þeirra. Vissulega þurfum við oft hjálp—og það er nauðsynlegt að vera fær um að þiggja af auðmýkt og með þakklæti stuðning og leiðsögn annarra—en það er ekki síður mikilvægt að við ræktum þann innbyggða járnvilja sem okkur er gefinn til þess að reyna sjálf að sigrast á því mót- læti sem lífið lætur okkur þola. Þegar við mætum fyrirstöðu í lífinu ættum við að taka litlu börnin til fyrir- myndar og segja fyrst „ekki hjálpa“ og sjá hversu langt við komumst af eigin ramm- leik. Það er oftast lengra en við héldum. Ekki hjálpa mánudaga-föstudaga 7.30 -17.30 laugardaga 8.00 -16.00 sunnudaga 9.00 -16.00 Austurströnd 14 • Hringbraut 35 Fálkagata 18 • Dalbraut 1 ....................................................Sími: 561 1433 www.bjornsbakari.is 3 TEGUNDIR AF SÚRDEIGSBRAUÐUM VELDU GÆÐI! PREN TU N .IS ................................................ Þegar við mætum fyrirstöðu í lífinu ættum við að taka litlu börnin til fyrirmyndar og segja fyrst „ekki hjálpa“ og sjá hversu langt við komumst af eigin rammleik. Það er oftast lengra en við héldum. Þegar Guðný selur Karli húsið sitt er gerður um söluna samn-ingur um kaupverð, afhend- ingartíma og hvernig greiðslu skuli háttað. Svo fær kaupandinn eignina og ber að greiða á tilsettum tíma. En hvað gerist ef Karl kemst að þeirri niðurstöðu að hann sé bara búinn að borga nóg og vilji ekki borga meira? Ef hugdettan er ekki í sam- ræmi við samninginn verður Guð- nýju væntanlega ekki skemmt. Samningar eru samningar og við þá verður að standa hvað svo sem fólki finnst einhverjum árum eftir að samningar eru gerðir. Ef ekki er staðið við samninga þarf að endur- semja eða leiða vanefndir til lykta fyrir dómstólum. Við viljum flest að eignarréttur haldi og réttarríki blómstri. Píratar hafa lagt fram þingsálykt- unartillögu á Alþingi um að ríkið segi upp gildum samningi við þjóð- kirkjuna. Risastórt eignasafn henn- ar var endanlega afhent ríkinu árið 1997. Ríkið tók við þessum eignum og samdi við þjóðkirkjuna um endurgjald fyrir og þeir samningar eru lagalega fullgildir. En nú finnst Pírötum að búið sé að borga nóg og ríkið eigi bara að hætta að borga. Rifta eigi samningnum en ríkið eigi samt að halda eignunum. Ef dæmið af Guðnýju og Karli er notað leggja þeir til að Karl hætti að borga Guð- nýju af því honum finnist hann vera búinn að borga nóg. Með málflutn- ingi sínum leggja Píratar til að farnar verði aðrar leiðir en gert er ráð fyrir í réttarríki. Þeim finnst að ríkið eigi að hætta að borga en halda samt „húsinu“. Í hvaða stöðu er kirkjan sett? Hún framseldi ríkinu eignirnar til að kosta laun prestanna. Greiðsla ríkisins er ekki ríkisframlag heldur endurgjald vegna kaupa á eignum þjóðkirkjunnar. Samningur um verð gildir óháð duttlungum eða síðari tíma tilfinningum. Heilindi af beggja hálfu Samningur ríkisins og þjóðkirkj- unnar var gerður með fullri meðvit- und og heilindum af beggja hálfu. Enginn skyldi kasta rýrð á samn- ingamennina. Það var vissulega erfitt að meta verðgildi eignanna en sátt var um matið. Allt eigna- safnið var góður hluti jarðeigna í landinu og eignirnar voru og eru verðmiklar. Hvernig á að meta eign Garðakirkju nú, þ.e. landið undir öllum Garðabæ? Hvernig á að meta land undir öllum húsum í Borgarnesi, land Borgarkirkju? Hvernig metum við verðmæti Þing- valla – þó ekki sé nema kristalstært vatnið í Þingvallahrauni? Síðan má meta kirkjujarðir um allt land út frá veiðitekjum, náttúrugæðum ýmiss konar, virkjana- og ferðaþjónustu- möguleikum. Tillaga Pírata varðar að samn- ingur réttarríkisins gildi ekki gagn- vart kirkjunni. En það er mikilvægt að ríki og þjóðkirkja tali saman um þessar eignir og afgjald. Ef meiri- hluti þjóðar og þings vill rifta þessum samningi þarf að ræða um hvernig það verði gert. Samning- urinn varðar ekki aðskilnað ríkis og kirkju. Þjóðkirkjan er frjáls og að mestu óháð ríkinu og ríkið vill hafa sem minnst afskipti af henni. Svo fremi sem hún er ekki hlunn- farin getur þjóðkirkjan séð um eigin rekstur með greiðslum sem henni ber skv. samningum við ríkis- valdið – eða með því að ríkið skili eignunum eða verðmæti þeirra til kirkjunnar að nýju. Kobbi krókur og réttarríkið Sigurður Árni Þórðarson kirkjuþings- maður S k o ð u n ∙ F R É T T a B L a ð i ð 13F Ö S T u d a g u R 1 0 . m a R S 2 0 1 7 1 0 -0 3 -2 0 1 7 0 4 :4 9 F B 0 4 8 s _ P 0 3 6 K .p 1 .p d f F B 0 4 8 s _ P 0 2 5 K .p 1 .p d f F B 0 4 8 s _ P 0 1 3 K .p 1 .p d f F B 0 4 8 s _ P 0 2 4 K .p 1 .p d f A u to m a tio n P la te re m a k e : 1 C 6 A -F 5 3 4 1 C 6 A -F 3 F 8 1 C 6 A -F 2 B C 1 C 6 A -F 1 8 0 2 7 5 X 4 0 0 .0 0 1 2 A F B 0 4 8 s _ 9 _ 3 _ 2 0 1 7 C M Y K

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.