Dagblaðið Vísir - DV - 11.03.2016, Blaðsíða 38
34 Menning Helgarblað 11.–14. mars 2016
Þ
órunn Sigurðardóttir bók-
menntafræðingur hlaut
menningarverðlaun DV í
flokki fræðirita fyrir bókina
Heiður og huggun: erfiljóð, harmljóð
og huggunarkvæði á 17. öld.
Í rökstuðningi dómnefndar
segir: „Heiður og huggun er merki-
legt rit um bókmenntagreinar sem
voru vinsælar fyrr á öldum. Þórunn
hefur með rannsókn sinni á erfi- og
harmljóðum á 17. öld unnið braut-
ryðjandastarf í íslenskum bók-
menntarannsóknum. Verkið er afar
yfirgripsmikið og í því birtast í fyrsta
sinn á prenti textar sem varðveittir
eru í handritum. Rannsóknin er
ýtarleg og Þórunn leggur áherslu
á tengsl bókmennta og samfélags
og gefur innsýn í hugsunarhátt og
menningarheim 17. aldar og ber
saman við hugmyndir okkar tíma.
Afar vandað fræðirit og þarft inn-
legg í íslenskar bókmenntarann-
sóknir.“
Mörg ljóð prentuð
í fyrsta skipti
Dr. Þórunn Sigurðardóttir er bók-
menntafræðingur sem hefur um
árabil stundað rannsóknir á bók-
menntum síðari alda auk þess að
starfa við handritaskráningu og
útgáfu texta úr handritum. Lengst
hefur hún starfað á Stofnun Árna
Magnússonar í íslenskum fræðum,
bæði sem starfsmaður stofnunar-
innar í ýmsum verkefnum og sem
gestafræðimaður.
Þórunn segir að bókmenntir 17.
og 18. aldarinnar hafi verið furðu-
lega lítið rannsakaðar – enda hafi
almennt verið álitið að þar fyrir-
fyndist aðallega fábreyttur trúar-
legur kveðskapur undir miklum
áhrifum erlendis frá. Hún segir að
tímabilið hafi þó að mörgu leyti
verið frjótt og áhugavert.
Við rannsóknina fór Þórunn í
gegnum mikið magn handrita að
leita uppi tækifæriskvæði tengd
andláti einstaklinga. Mikið af slík-
um ljóðum er því prentað í fyrsta
skipti í bókinni.
Gaman að fólk sýni
17. öldinni áhuga
Í bókinni setur Þórunn ljóðin enn
fremur í samhengi við samfélag
þess tíma og tíðarandann sem þau
eru samin í.
Í rannsókninni voru kvæði ort
eftir andlát samtímamanna skáld-
anna flokkuð í þrjár bókmennta-
greinar, og skiptir máli fyrir lestur og
túlkun einstakra kvæða við hvaða
kvæðagrein miðað er. „Erfiljóð voru
ort til heiðurs hinum látna og fjöl-
skyldu hans, en í þeim er sagt frá
lífi hins látna í þriðju persónu frá-
sögn. Minna þessi kvæði um margt
á minningargreinar í dagblöðum í
dag,“ segir Þórunn.
„Harmljóð eru aftur á móti í
fyrstu persónu. Í þeim talar ljóð-
mælandi um sinn eigin ástvina-
missi, harm sinn og söknuð, en
kvæðin enda jafnan í sátt. Líkja
mætti þessari kvæðagrein við sál-
fræðimeðferð í nútímanum. Syrgj-
endur fá tæki (texta í bundnu
máli) til að nota í sorgarferli sínu.
Í þriðja lagi eru það svo huggunar-
kvæði þar sem ljóðmælandi ávarp-
ar ákveðna syrgjendur og mælir til
þeirra huggunarorðum.“
Þórunn segist vonast til að
þessum bókmenntagreinum og
tímabilinu verði gefinn meiri
gaumur þegar íslensk bókmennta-
saga er skoðuð í framtíðinni.
Bókin var tilnefnd til viðurkenn-
ingar Hagþenkis og hlaut Fjöru-
verðlaunin í flokki fræðibóka og
rita almenns eðlis. Hún segist upp
með sér að hljóta verðlaunin, og
þakklát fyrir að fólk sýni bók um 17.
aldar kveðskap slíkan áhuga.
Brautryðjandastarf í íslenskum
bókmenntarannsóknum
Þórunn Sigurðardóttir fyrir fræðiritið Heiður og huggun: erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld
Fræði
Efla ungar stelpur í
gegnum tónlistarsköpun
Stelpur rokka!
L
esendaverðlaun dv.is hlutu
grasrótarsamtökin Stelpur
rokka! en flestir lesendur gáfu
þeim atkvæði sitt í netkosn-
ingu sem stóð yfir í aðdraganda
verðlaunanna.
Stelpur rokka! var tilnefnt í flokki
tónlistar og sagði í rökstuðningi
dómnefndar: „Grasrótarsamtökin
Stelpur rokka! eru nú á sínu fimmta
starfsári. Þessi sjálfboðaliðareknu
samtök starfa af feminískri hugsjón
við að efla ungar stelpur í gegnum
tónlistarsköpun. Kjarninn í starf-
inu eru rokksumarbúðirnar, en þar
læra stelpur á hljóðfæri, hvern-
ig það er að spila saman í hljóm-
sveit, kynnast farsælum tónlistar-
konum og fræðast um hinar ýmsu
hliðar tónlistar og jafnréttisstarfs.
Yfir 60 hljómsveitir hafa verið stofn-
aðar í sumarbúðunum. Búðirnar
fara sífellt stækkandi og verða
settar á stofn búðir á Grænlandi og
í Færeyjum sumarið 2016.“
Árið 2015 var viðburðaríkt hjá
Stelpur rokka! en auk hinna hefð-
bundnu rokksumarbúða hef-
ur hópurinn meðal annars staðið
fyrir vetrarrokkbúðum, farið af stað
með haustdagskrá fyrir 13 til 16 ára
stelpur, átt í samstarfi við pólskar
kvennarokkbúðir og haldið tónleika
á Iceland Airwaves. Nú hafa hátt í
300 stelpur tekið þátt í rokkbúðum
Stelpur rokka! og myndað meira en
60 nýjar hljómsveitir.
n Lesendaverðlaun