Fregnir - 01.10.2009, Page 22
FREGNIR. Fréttabréf Upplýsingar - Félag bókasafns- og upplýsingafræða
34. árg. - 2. tbl. 2009 22
Á síðustu árum hefur verið mikil umræða hjá bókasafns- og upplýsingafræði nemum um skipulag,
uppbyggingu og framþróun þess náms sem Háskóli Íslands býður upp á. Sitt sýnist hverjum um ýmsa
þætti námsins, en eitt virðast flestir vera sammála um og það er að þróun námsins hefur ekki verið
eins hröð og þróun þess starfsvettvangs sem bíður nema eftir útskrift.
Þegar borin eru saman þau námskeið sem bjóðast nemum í bókasafns- og upplýsingafræði hér
heima og í Bandaríkjunum, kemur í ljós að úrval námskeiða er mjög ólíkt og talsvert takmarkaðra
og afmarkaðra hér á landi en þar. Að sjálfsögðu spila atriði eins og fjöldi nemenda og fjármagn inn í,
en hér væri auðveldlega hægt að bjóða upp á námskeið eins og Libraries in the Information Age og
Information Needs and Services (sjá kennsluskrá Háskólans í Pennsylvaniu: http://www.universities.
com/edu/www.Kutztown_University_of_Pennsylvania.html).
Spennandi námskeið hafa oft verið kennd við deildina, en úrvalið virðist fara minnkandi með hverju
árinu. Nú eru skólabókasöfn, almenningssöfn, gagnasafnafræði og veflausnir og lýsigögn til dæmis
ekki kennd og hafa ekki verið síðustu 3 ár. Þetta verður til þess að nemendur þurfa að leita mikið út
fyrir deildina að námskeiðum til að fylla upp í og oft eru það námskeið sem passa inn í stundaskrá
sem verða fyrir valinu, frekar en námskeið sem nýtast og tengjast faginu beint.
Hversu gott er það fyrir fagið að nemendur velji það sem fellur best að tíma þeirra fremur en það sem
fellur best að framtíðarstarfi þeirra?
Þessi námskeið sem talin voru upp að ofan mætti kenna þriðja hvert ár og gætu þá allir sem taka
bókasafns- og upplýsingafræði til 180 eininga nýtt sér þetta og haldið valnámskeiðum sínum innan
deildarinnar.
Í kynningarefni um deildina segir að markmiðið með náminu sé að veita nemendum trausta og
nútímalega menntun þar sem áhersla er lögð á fræðilega, hagnýta og aðferðafræðilega kunnáttu og
þjálfun sem býr þá undir það að sinna fjölbreyttum viðfangsefnum sem sérfræðingar á sviði bókasafns-
og upplýsingafræði (http://www.hi.is/is/felagsvisindasvid_deildir/ felags_og_mannvisindadeild/
nam/bokasafns_og_upplysingafraedi_1) en eins og fyrirkomulag námsins er í dag er ekki hægt að
segja að menntunin sé hagnýt þar sem marga lykiláfanga vantar inn í kennslu.
Að auki hefur verið umræða um það hvort vettvangsnámið sé nægilega hagnýtt og hvort það gefi
nemendum innsýn í þann umfangsmikla heim sem starf bókasafns- og upplýsingafræðings er.
Fjörutíu vinnustundir er ekki nægur tími til að kynnast nema einni hlið fagsins og þyrfti að auka
tímann sem fer í vettvangsnám um minnst 40 stundir í viðbót þar sem væri hægt að skipta viðverunni
á milli ólíkra starfa. Gott væri til dæmis að hafa hluta vettvangsnámsins á skjalasafni, hluta þess á
almenningsbókasafni og hluta á skólabókasafni til að nemendur ættu betri möguleika á að finna hvar
þeirra áhugasvið liggur.
Að öllu þessu sögðu er rétt að taka fram að innan bókasafns- og upplýsingafræðinnar fer þó fram gott
og framsækið starf. Internetið, upplýsingaleiðir og vefstjórnun eru allt fög sem lofa góðu hvað varðar
fræðilega og hagnýta þekkingu og gömul og gróin fög eins og lyklun, skráning og flokkun úreldast
ekki. Námið er á réttri leið, það þarf bara að bjóða upp á meira val innan deildarinnar svo nemendur
komi sem best undirbúnir út á starfsvettvang þann er bíður.
Andrea Ævarsdóttir
Eva Ósk Ármannsdóttir
Sigríður Björk Einarsdóttir
nemendur á þriðja ári í bókasafns-og upplýsingafræði
Þróun eða stöðnun?