Morgunblaðið - Sunnudagur - 26.03.2017, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - Sunnudagur - 26.03.2017, Blaðsíða 14
VIÐTAL 14 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 26.3. 2017 ársins á Íslensku tónlistarverðlaunum sem voru afhent í febr- úar 2015 og á sömu hátíð var Júníus Meyvant valinn bjartasta vonin í poppi og rokki. Dimma, álfar og þoka Unnar er oft spurður um „the icelandic sound“ af erlendum blaðamönnum í viðtölum og segist þá svara því að það komi meðal annars til af því að sömu hljóðfæraleikarar séu í svo mörgum hljómsveitum. „Annars er íslenska sándið svona melankólík, dimma, álfar og þoka,“ segir hann en minnir á um leið að popphlið íslenskr- ar tónlistar sé alltaf stækka og verða fjölbreyttari eins og til dæmis Sturla Atlas og 101 boys bera vitni um. „Mér finnst það frábært hvað þeir eru að gera,“ segir Guð- mundur og bætir við: „Það eru allir mjög duglegir í íslenskri tónlist, það er mikið að gerast.“ Unnar er sjálfur á fullu að vinna að nýrri plötu en von er á plötu innan árs frá Júníusi Meyvant. Eins og áður segir er þetta sólóverkefni hans en bræðurnir vinna líka að tónlist hver í sínu lagi. „Ég læri alltaf mest í stúdíói. Þegar ég kem í stúdíó þá gerist eitthvað nýtt. Ég vinn vel undir pressu,“ segir Ólafur. „Ég þarf oft „deadline“ til þess að það gerist eitthvað,“ seg- ir Unnar en Guðmundur rifjar upp að hann hafi verið lengi að finna „sándið“ fyrir plötuna en það tókst á endanum. Tónlist- inni er lýst á skemmtilegan og viðeigandi hátt á vefsíðu plötu- fyrirtækisins Record Records: „Tónlist Júníusar er fullveðja og tilfinningaríkt þjóðlagapopp sem er í senn tímalaust og kunnuglegt. Alúðlegar útsetningar hans láta mann á köflum líða eins og maður sé staddur undir þykku ullarteppi við arin- eld í kofa hátt uppi í fjöllum eða í hina höndina liggjandi á funheitri sandströnd á suðlægum slóðum.“ Fær bestu hugmyndirnar á ferð Platan var nokkra stund í fæðingu eins og sagt er og var það ákveðið lærdómsferli. „Ég er mjög meðvitaður um hvað ég á ekki að gera næst í stúdíói til að láta hlutina gerast sem hrað- ast,“ segir Unnar. Hann lýsir því hvernig hann fái bestu hugmyndirnar þegar hann sé á ferð, hreinlega að gera eitthvað allt annað en að semja tónlist. „Ég fann það oft þegar ég vann sem leiðsögumaður í Eyj- um. Það var mjög óþolandi að vera staddur með fullt af túr- istum og fá hugmynd,“ segir Unnar sem tók þá upp á því að raula laglínuna inn á símann sinn. „Bob Dylan tal- ar til dæmis um þetta, þegar mað- ur er mikið á ferð, þá gerist eitthvað. Tónlist er á ferð. Þegar maður er að gera eitthvað annað þá er eins og heilinn hætti að hugsa um að gera eitthvað marg- slungið heldur framkvæmi bara. Og þá allt í einu ertu kominn með lag.“ Þrátt fyrir að þetta sé sólóverkefni Unnars segir hann að einstaklingarnir í sveitinni hafi áhrif á tónlistina. „Það kemur eitthvað nýtt inn. Ég er beinagrindin og kjötið en þeir eru skinnið,“ segir hann. „Stærsta líffæri líkamans,“ skýtur Ólafur inn. Aðlaðandi þjóðlagapopp Júníusar Meyvants hefur átt sívax- andi aðdáendahóp í Evrópu sem hefur dregið sveitina nokkr- um sinnum í tónleikaferðalög út fyrir landsteinana. Nú síðast fyrr á þessu ári fór hún til Svíþjóðar, Noregs, Danmerkur, Austurríkis, Sviss og Frakklands. Þetta var í sjötta eða sjö- unda sinn sem sveitin fer utan en þetta var þriðji stóri túrinn og hafa strákarnir ferðast um stóran hluta Evrópu. Galdralandið Ísland „Þetta hefur gengið vel og fer stækkandi. Maður tekur alveg eftir því,“ segir Guðmundur. „Ísland er líka í tísku,“ segir Unnar, sem segist hafa hitt nokkra sem vita meira um Ísland en hann sjálfur. Hann hefur meira að segja hitt fólk sem er sjálflært í íslensku. „Það líta margir á Ísland sem eitthvert galdraland, eins og þetta sé tunglið eða Mars, eins og það sé einhver áfangi í líf- inu að koma til Íslands.“ Bræðurnir hafa verið í nokkrum samskiptum við erlenda ferðamenn og starfað við ferðaþjónustu en foreldrar þeirra starfa við ferðaþjónustu í Vestmanneyjum, reka fyrirtækið Viking Tours. „Ég var alltaf á bátnum að sigla,“ segir Guðmundur. „Óli byrjaði á veitingastaðnum og nú er hann á bátnum. Unnar var líka á bátnum,“ segir hann en veitingastaðurinn Kaffi kró er hluti af rekstri Viking Tours. „Mamma og pabbi eru rosalegir hippar. Hefurðu séð Meet the Fockers? Þau eru þannig. Ég er alltaf að komast að því betur og betur að við fengum öðruvísi uppeldi. Húsið var allt- af opið fyrir fólki,“ segir Unnar en strákarnir ólust upp í hvítasunnukirkjunni Betel, sem er ein ástæða tónlistarástar þeirra. Afi þeirra var Einar J. Gíslason kenndur við Betel, sem stofnaði Samhjálp og var prestur í Fíladelfíu og Betel í fjörutíu ár. „Þar var mjög mikil tónlist. Það kom mér áfram í tónlist. Ég spilaði mjög mikið í kirkju segir Ólafur en faðir þeirra spilaði sömuleiðis mikið í kirkjunni. Rauðhærður og málhaltur í sértrúarsöfnuði „Þetta er ákveðinn minnihlutahópur og maður hefur oft upp- lifað sig smá útundan. Allavega þegar ég var yngri. Það kenndi mér að vera trúður og að hafa eitthvað að segja. Ég var aldrei lagður í einelti því ég var fljótur að svara fyrir mig,“ segir Unnar. „Ég lenti ekki í neinu heldur en maður þurfti alltaf að svara fyrir sig. Það var alltaf skotið á mann með þetta,“ segir Guð- mundur. „En maður fékk alltaf virðingu fyrir það eins lengi og mað- ur svaraði fyrir sig,“ segir Ólafur. Unnar rifjar upp fyrsta skóladaginn sinn. „Ég var með smá talörðugleika. Ég lét alltaf g og k fyrir framan l en fyrsti kennarinn minn hét Halla. Ég var að reyna að fá hjálp frá henni og kalla: „Hagla“ og allir horfa á mig og ég segi: „Byssa“ til að redda mér. Hún horfir á mig og segir: „Jæja við erum komin með trúð í hópinn. Hún lætur mig fyrir framan töflu og les yfir mér en ég átti bara að standa í skamm- arkróknum. Ég hugsaði með mér, þetta verður ömurlegt, þetta verður glatað, ég ætla ekki að læra neitt í þessari stofn- un. Frá þeim degi varð ég trúður í skólanum og gekk illa í skóla. Það var ekkert að hjálpa mér að vera rauðhærður með talörðugleika og í sértrúarsöfnuði í litlu bæjarfélagi,“ segir Unnar. Hinn dökkhærði Guðmundur skýtur því inn í að rauðhærða genið sé komið frá Einari afa þeirra. „Ég er síðastur af fimm systkinum, þau vilja meina að liturinn hafi verið búinn,“ segir hann en hin systkinin eru öll rauðhærð. Aftur að mótlætinu, sem Unnar segir hafa hjálpað sér að læra að taka gagnrýni. „Tónlistargagnrýni er hræðilegur heimur ef þú ert lítill í þér. Tónlistarmenn eru oft svo brot- hættir og ekki tilbúnir að fá högg í andlitið,“ segir hann. Fjölskyldan er náin og bræðurnir lýsa því að öllum komi vel saman. „Það eru allir vinir heima. Það er ekkert drama,“ segir Unnar. „Við erum mest að hlæja og segja sögur,“ segir Guð- mundur. Þeir lýsa því að fjölskylda þeirra hafi alltaf verið opin fyrir fólki sem hafi orðið útundan í samfélaginu. „Mamma er mikið með svona fólk heima. Ég held maður hafi lært þetta í kirkj- unni. Kirkjan segir ekki nei við neinn. Þetta hefur kennt manni frá barnsaldri að viðurkenna alla,“ segir Unnar. „Að koma fram við náungann eins og sjálfan sig,“ segir Guðmundur. „Oft er eitthvert fólk sem er ekki flott á blaði það sem hefur kennt manni eitthvað sem situr eftir. Það er sorglegt hvað það eru miklir fordómar fyrir fólki sem er ekki eins og hinir,“ seg- ir Unnar. „Ég held það gerist mest í strögglinu, þegar maður þarf að hafa fyrir því að gera eitthvað,“ segir Guðmundur. Meira á andlegum nótum en trúarlegum Hvernig hefur trúin fylgt ykkur í gegnum lífið? Sækið þið kirkju? „Ég hef ekki farið lengi en fer alveg, sérstaklega í kringum hátíðir,“ segir Guðmundur. „Ekki mjög oft en ég er samt í mjög góðu sambandi við fólk sem mætir reglulega og spjalla við það um trúmál. Ég væri alveg til í að mæta oftar,“ segir Ólafur. „Fyrir mitt leyti er ég rosalega lítið kirkjurækinn. Ég á mjög erfitt með að mæta í kirkju,“ segir Unnar og segist vera meira á andlegu nótunum en trúarlegum nótum. „Trúargaurinn kann Biblíuna utanað, lemur henni í hausinn á þér og er alltaf að vitna í hana,“ segir Unnar sem er ekki á þeim stað. „Mér finnst gott að lesa Biblíuna,“ segir hann en bætir við að það fari líka í taugarnar á honum að lesa um þverhausa sem æddu í stríð í Gamla testamentinu. Það fer líka í taugarnar á honum þegar fólk gerir ráð fyrir að fólk úr kirkjunni sé á móti samkynhneigðum en sjálfur er hann mjög frjálslyndur og segir að það gleymist að margir séu samkyn- hneigðir innan kirkjunnar. „Sumir eru aldir þannig upp að þeir eru alveg eftir bókinni og það er erfitt að breyta þannig hugsunarhætti. Það er næsta kynslóð sem breytir hlutunum,“ segir Unnar. Bræðurnir segjast hafa lært margt á því að vera í hvíta- sunnukirkjunni. „Mér finnst mjög gott með kirkjuna að það voru alltaf svona vitnisburðir, fólk sem hafði kannski lent í einhverju slæmu var að segja frá sínu lífi,“ segir Guðmundur. „Maður var kannski tíu ára að heyra einhverja vændiskonu segja frá því þegar hún var að selja sig. Ég er þakklátur fyrir þessar sögur og að hafa lært að dæma ekki manneskjuna.“ „Þetta er byltingarkennd hugsun að elska náungann eins og sjálfan sig. Fyrir það var þetta auga fyrir auga,“ segir Ólafur. „Þetta var gott skref. Maður gleymir því hversu mikið kirkjan hefur í rauninni hjálpað með vitnisburði Jesú Krists þegar hann segir: elskaðu náungann eins og sjálfan þig. Bjóddu hinn vangann,“ segir Ólafur. „Þú kennir ekki neinum með því að öskra. Þú breytir ekki neinu með ofbeldi,“ segir Unnar. „Ég var að lesa í Biblíunni um daginn að ef maður fer í rök- ræður á maður að sýna náunganum virðingu og hógværð,“ segir Ólafur. „Ef við erum að kvóta orðið þá stendur líka í Orðskvið- unum, spakmælunum fyrir götuna, að þú átt að hrósa í marg- menni en ef þú átt eitthvað vantalað við manneskju, þá áttu að tala við hana augliti til auglitis. Aldrei rakka niður manneskju fyrir framan aðra. Þá er voðinn vís,“ segir Unnar en bætir því við að hann rífi nú stundum kjaft við bræður sína. Í FIFA á tónleikaferðalagi Þetta leiðir talið að lífinu á tónleikaferðalögum. „Það er aldrei neitt drama hjá okkur,“ segir Guðmundur. „Kannski ein- hverjar rökræður og svo búið.“ „Ég held það versta sem hafi gerst þegar við vorum ein- hvern tímann að spila frisbí. Ég var búinn að setja reglur en Guðmundur breytti reglunum í miðjum leik,“ segir Ólafur. „Síðustu túrar hafa verið á svona „nightliner“ rútu,“ segir Unnar en það er sérútbúin rúta, m.a. fyrir hljómsveitir til að geta ferðast á nóttunni. Nándin er að vonum mikil en Unnar útskýrir að það sé líka hægt að fá næði með því að leggjast í koju, draga fyrir og vera í símanum eða hlusta á tónlist. „Það er tölva aftur í. Við getum verið þar að spila FIFA saman. Síðan er eldhús frammi með stólum og sófum, þar er oft gott að spjalla sam- an,“ segir hann, þannig að tónleikaferðalög geta líka verið ákveðinn gæðatími. Unnar á líka konu og tvö börn og notar tækifærið til að sofa. „Við erum alveg duglegir við að hrósa hver öðrum á þessum túrum,“ segir Guðmundur. ’ Frá þeim degi varð ég trúður í skólanum og gekk illa ískóla. Það var ekkert að hjálpa mér að vera rauðhærðurmeð talörðugleika og í sértrúarsöfnuði í litlu bæjarfélagi. Júníus Meyvant er sólóverkefni Unnars en þeir bræður vinna allir vel saman.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.