Morgunblaðið - 20.06.2017, Síða 4
4 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 20. JÚNÍ 2017
BAKSVIÐ
Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Verðlag á íslenskum veitingahúsum
er nú um 43% hærra fyrir Breta í
pundum talið en fyrir ári. Þá kostar
leigubíllinn Bretann nú 48% meira í
pundum en síðasta sumar.
Þetta kemur
fram í útreikn-
ingum Rann-
sóknaseturs
verslunarinnar
(RSV) fyrir
Morgunblaðið.
Af öðrum
dæmum má nefna
að verð á gistingu
er nú tæplega
26% dýrara í evr-
um talið en fyrir ári og verð á mat og
drykk tæplega 21% dýrara í Banda-
ríkjadölum. Veitingahúsin kosta
33,7% meira í Kanadadollurum og
34,5% meira í jenum.
Við þessa útreikninga er tekið mið
af því hvernig gengið hefur breyst
frá júní 2016 til júní 2017. Sú breyt-
ing er yfirfærð á breytingar á verð-
lagi frá maí 2016 til maí 2017. Tölur
frá Hagstofunni um verðlagsbreyt-
ingar í júní hafa enda ekki verið birt-
ar. Með hliðsjón af því að verðlag fer
hækkandi er greiningin hófsöm, þ.e.
hækkanirnar kunna að vera meiri.
Muni breyta ferðahegðun
Árni Sverrir Hafsteinsson, hag-
fræðingur hjá RSV, segir verðbreyt-
ingarnar svo miklar að líklegt sé að
ferðamenn „breyti ferðahegðun
sinni til þess að draga úr kostnaði
við að heimsækja Ísland“.
„Þeir gætu þá til dæmis keypt
frekar dagvöru, eða matvöru, í versl-
unum, og sniðgengið veitingahús.
Jafnframt gæti veltan minnkað í
allri verslun til ferðamanna sem þeir
geta verið án í ferðalaginu. Við erum
þá að tala um föt, minjagripi og
ýmsa sérvöru. Svo gætu þeir þurft
að spara við sig í mesta munaðinum,
sem er skipulögðu ferðirnar; jeppa-
ferðir, hvalaskoðun, þyrluferðir og
annað slíkt. Neysla á slíkri þjónustu
gæti minnkað,“ segir Árni Sverrir.
Hann telur neyslumynstur munu
breytast mest hjá ferðamönnum
sem koma frá löndum þar sem gengi
gjaldmiðla hefur gefið eftir. Til
dæmis hafi pundið veikst mikið.
Pakkaferðir á gjörólíku verði
„Pakkatilboðið fyrir Íslandsferð-
ina er nú á allt öðru verði fyrir er-
lenda ferðamanninn en fyrir ári.
Verðmunurinn er orðinn svo mikill.
Það gæti dregið úr vinsældum Ís-
landsferða í löndum þar sem gengið
hefur þróast í öfuga átt við okkur.
Meðalferðamaðurinn mun líklega
velja ódýrustu kostina. Einhverjir
tekjulágir gætu hætt við að koma.
Ferðin er enda orðin svo dýr. Svo
eru það þeir allra tekjuhæstu. Þeir
munu sennilega halda sínu striki,“
segir Árni Sverrir, sem kannaði
verðbreytingar í sex flokkum; mat
og drykk, leigubifreiðum, klippingu,
veitingahúsum, gistingu og loks
pakkaferðum innanlands. Til sam-
anburðar tók hann með verðbreyt-
ingar á húsgögnum, raftækjum, öku-
tækjum og námskeiðum. Árni
Sverrir segir að þótt sala til ferða-
manna sé ef til vill lítil í síðari
flokknum sýni verðbreytingarnar
hvernig Ísland sé almennt orðið dýr-
ara. Námskeið sé dæmi um út-
gjaldalið sem sé á uppleið, líkt og
þjónusta almennt, meðal annars
vegna launahækkana að undan-
förnu. Með hliðsjón af spennu á
vinnumarkaði fari verð á þjónustu á
Íslandi hækkandi. Það geti smitast
yfir í verð fyrir algenga þjónustu
fyrir ferðamenn.
Verðbólga í þjónustu á Íslandi
„Þótt verðbólga á Íslandi mælist
nú lítil er verðbólga í þjónustu, hvort
sem það er ferðaþjónusta eða aðrir
þjónustuliðir,“ segir hann.
Samkvæmt greiningu RSV á
kortaveltunni í maí jókst erlend
kortavelta í dagvöruverslun um
12,8% í maí. Til samanburðar jókst
hún um 0,9% í veitingaþjónustu.
Skal tekið fram að reiknað er út frá
erlendum greiðslukortum. Brot af
þeim kann að vera í eigu Íslendinga.
Skila gengisstyrkingu fljótt
Jón Björnsson er forstjóri Festis,
sem meðal annars rekur sautján
Krónuverslanir víða um landið.
„Við skilum hratt verðbreytingum
vegna gengis og þá sérstaklega á
innfluttri ferskvöru. Hún hefur
lækkað mikið. Til dæmis hafa ávext-
ir og grænmeti lækkað gríðarlega
mikið á síðustu tveimur árum. Það
er rúmlega 20% lækkun í þeim vöru-
flokki. Við höfum ekki séð tölur um
fjölgun ferðamanna endurspeglast í
neinum verslunum hjá okkur. Það
getur verið að ferðamenn séu í aukn-
um mæli að versla hjá okkur. Það er
hins vegar ekki auðgreinanlegt.“
Finnur Árnason, forstjóri Haga,
sagði sölu til ferðamanna ekki vega
þungt í heildarsamhenginu. Hins
vegar kæmi sú sala fram í versl-
unum Bónus á Laugavegi, Skipholti
og Hallveigarstíg í Reykjavík.
Íslandsferðin orðin miklu dýrari
Verðlag á Íslandi hefur hækkað um tugi prósenta fyrir erlenda ferðamenn frá því í fyrrasumar
Leigubíllinn kostar breskan ferðamann nú 48% meira og veitingahúsið kostar Japana 34,5% meira
Breytingar á verðlagi fyrir erlenda ferða-
menn á Íslandi frá júní 2016 til júní 2017*
*Miðað er við breytingar á gengi frá júní 2016 til júní 2017.Miðað er við verðlagsmælingu Hagstofunnar í maí hvort ár.
Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabankinn, Rannsóknasetur verslunarinnar.
Bandaríkja-
dalur Pund
Kanada-
dalur Jen Evra
Matur og drykkur 20,7% 34,0% 25,4% 26,2% 21,0%
Leigubifreiðar 33,7% 48,5% 39,0% 39,8% 34,0%
Klipping 27,5% 41,5% 32,5% 33,3% 27,8%
Veitingahús 28,6% 42,8% 33,7% 34,5% 28,9%
Gisting 25,6% 39,4% 30,5% 31,3% 25,9%
Pakkaferðir innanlands 27,8% 41,8% 32,8% 33,6% 28,1%
Húsgögn og
heimilisbúnaður 15,1% 27,8% 19,6% 20,4% 15,4%
Raftæki 13,0% 25,5% 17,4% 18,2% 13,3%
Ökutæki 12,0% 24,3% 16,4% 17,1% 12,2%
Námskeið 28,4% 42,5% 33,4% 34,2% 28,7%
Morgunblaðið/Eggert
Ferðamenn á Laugavegi Landið er orðið dýrara heim að sækja.
Miklar hækkanir
» Samkvæmt vefsíðunni
Rentalcars.com kostar rúm-
lega 18.700 krónur að leigja
smábíl í þrjá daga á Keflavíkur-
flugvelli, 21. til 24. júní.
» Lauslega áætlað hefur verð
á þessum leigubíl hækkað úr
134 evrum í 164 evrur, miðað
við breytingar á gengi evru.
» Verð fyrir leigu á stærri bíl-
um er mun hærra í krónum og
fjölgar evrum sem því nemur.
Árni Sverrir
Hafsteinsson
Guðrún Erlingsdóttir
ge@mbl.is
Ofsaakstur ökumanns Toyotabif-
reiðar í gærmorgun og eftirför lög-
reglu sem hófst í iðnaðarhverfi í
Vogahverfi í Reykjavík endaði í
Ölfusá. Allt var reynt til þess að
stöðva aksturinn, m.a. var kallaður
til sérfræðingur í fortölum á sam-
skiptasviði lögreglu sem sérþjálfað-
ur er í því að tala um fyrir fólki.
Hann reyndi að hringja í ökumann-
inn sem svaraði ekki síma.
Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlög-
regluþjónn hjá umferðardeild lög-
reglunnar á höfuðborgarsvæðinu,
segir að eftirförin hafi byrjað kl.
9.56 í iðnaðarhverfi í Vogunum
skammt frá þar sem Mikligarður
var einu sinni. Lögreglumenn gáfu
ökumanni Toyotabifreiðar merki
um að stansa sem hann gerði ekki
en ók þess í stað út á Sæbrautina og
þaðan í átt að Suðurlandsvegi. Þeg-
ar á Suðurlandsveginn var komið
lagði ökumaðurinn lykkju á leið
sína inn í Norðlingaholtið og þaðan
aftur út á Suðurlandsveg.
Ásgeir segir lögregluna hafa
reynt að komast fram fyrir bifreið-
ina til að hægja á henni en ekki tek-
ist. Tveir bílar eltu ökumanninn og
sá aftari var að hluta til á öfugri ak-
rein til þess að hægja á umferðinni
sem kom á móti og fá ökumenn til
þess að fara út í kant til að skapa
meira pláss.
Ekki val um að hætta eftirför
Mikilvægt var að stöðva öku-
manninn sem fyrst. „Það var ljóst
samkvæmt upplýsingum úr mála-
skrá að það var ekki val um að
hætta eftirför,“ sagði Ásgeir.
Lögreglan á Suðurlandi var feng-
in til þess að setja naglamottu 200 –
300 metra vestan við hringtorgið
við Hveragerði. „Slíkar naglamott-
ur eru sjaldan notaðar. Þær virka
þannig að stálpinnar stingast upp í
dekkin og loft lekur úr þeim. Það
hvellspringur ekki á bílnum en það
gerir ökumanni erfiðara fyrir að
stjórna honum. Ökumaðurinn sá
mottuna og náði að sveigja fram hjá
með því að fara út af veginum og
svo inn á hann aftur stuttu síðar,“
útskýrir Ásgeir. Lögreglan reyndi
því næst að keyra á bifreiðina með
lögreglubíl frá sérsveitinni á hring-
torginu við Hveragerði en það tókst
ekki. Ásgeir segir að þá hafi verið
ákveðið að loka Ölfusárbrú því
stöðva þurfti ökumanninn með öll-
um tiltækum ráðum til að koma í
veg fyrir að hann færi inn á Selfoss.
Heilmikið flug á bílnum
Þegar ökumaður Toyota-
bifreiðarinnar sá að búið var að
loka Ölfusárbrú tók hann það ráð
að keyra út í Ölfusá og lauk þar
með tæplega hálftíma ofsaakstri
klukkan 10.25. „Það sá það enginn
fyrir að ökumaðurinn myndi velja
að keyra út í Ölfusá. Það var heil-
mikið flug á bílnum og hann kom
niður á hvolfi. Straumurinn sá svo
um að velta bílnum við. Við sáum
strax að maðurinn var með meðvit-
und. Lögreglumenn hentu til hans
björgunarlínu. Ökumaðurinn
klæddi sig í björgunarlínuna á þaki
bílsins og beið eftir lögreglumönn-
um sem sóttu hann á gúmmíbáti.
Honum virðist ekki hafa orðið
meint af,“ segir Ásgeir og bætir við
að mikil almannahætta hafi skapast
og eftirförin verið mikil aðgerð. Í
aðgerðinni tóku þátt lögreglumenn,
björgunarsveitir, sjúkrabílar,
slökkvilið, vegagerðin og fortöluér-
fræðingur. Þyrla Landhelgisgæsl-
unnar og kafari voru í viðbragðs-
stöðu.
„Þetta fór eins vel og orðið gat,“
segir Ásgeir sem vill þakka öllum
sem komu að aðgerðinni. Hann var
þakklátur ökumönnum sem sýndu
tillitssemi og aðgát í þónokkurri
umferð á þeim tíma sem eftirförin
stóð yfir.
Hafnaði í Ölfusá
eftir hálftíma
ofsaakstur
Allt reynt til að stöðva ökumanninn
Naglamottur og fortölusérfræðingur
Ljósmynd/Guðmundur Karl Sigurdórsson
Eftirför Ökumaður bíður björgunar lögreglu úr Ölfusá. Fortölusérfræð-
ingur reyndi að hringja í ökumanninn til þess að telja honum hughvarf.
Atburðarásin í eftirför lögreglunnar
Hveragerði
Selfoss
Reykjavík
1. Iðnaðarhverfi
í Vogunum
Eftirför hefst kl. 9:56
2. Norðlingaholt
Ökumaðurinn ekur inn í íbúðahverfið
3. Vestan við
hringtorgið
Lögregla leggur
naglamottu
5. Ölfusárbrú
Brúnni lokað
með vegatálma
6. Eftirför lýkur við Ölfusárbrú
Ökumaðurinn keyrir út í Ölfusá kl. 10:25
4. Á hringtorginu við Hveragerði
Lögregla reynir að aka á ökutækið