Morgunblaðið - Sunnudagur - 18.06.2017, Blaðsíða 14
K
rakkarnir í hverfinu heilsa Gretu
Salóme þar sem við göngum eftir
stíg við heimili hennar í Mos-
fellsbæ þar sem hún er alin upp.
Hún heilsar þeim á móti og segist
stundum fá blóm og bréf inn um bréfalúguna frá
ungum aðdáendum í hverfinu. „Það er bara
krúttlegt,“ segir hún brosandi. Það er strax
ljóst að hún hefur frá mörgu að segja og við
komum okkur þægilega fyrir í stofunni á fallegu
heimili hennar. „Viltu Pepsi Max?“ er það fyrsta
sem hún segir. Blaðamaður þiggur vatnssopa
og hún hellir gosi í glas sitt. Hún er kvik í hreyf-
ingum, talar hratt og hlær mikið. Hún segir
dagana pakkaða og ekkert frí í kortunum, en
þannig vilji hún hafa það.
Þolir ekki að eiga afmæli
Þú ert nýorðin þrítug, var haldið upp á það?
„Nei, ég er „afmælis-Grinch“, mér fannst það
mjög erfitt. Ég hef aldrei viljað halda upp á af-
mælið mitt, alveg frá því að ég var krakki, for-
eldrar mínir voru alltaf í vandræðum með þetta.
Ég vildi aldrei kannast við það að eiga afmæli,“
segir hún og hlær. „Ég held að það sé einhver
hræðsla við breytingar, sem er samt mjög ólíkt
mér þegar kemur að vinnu, ég er óhrædd við að
takast á við breytingar og taka áhættur á því
sviði,“ segir Greta.
Svo skemmtilega vildi til að þrítugsafmæl-
isdaginn bar upp á sama dag og hún var innvígð
í Todmobile á tónleikum í Hörpu 11. nóvember
síðastliðinn. Það hefði auðvitað verið kjörið að fá
salinn til að taka þátt í gleðinni en hún segist
hafa tekið Todmobile-meðlimi á eintal og harð-
bannað þeim að minnast á afmælið. „Þeir
hlýddu, sem betur fer.“
Nokkrum mánuðum síðar fór hún með kær-
astanum til Taílands í eins konar afmælisferð.
Þar var þó ekkert legið í leti því þau voru í tæp-
an mánuð í „bootcamp“-æfingabúðum. „Við
æfðum 3-4 tíma á dag og fórum svo að skoða
okkur um, það var alveg yndislegt,“ segir Greta
og leggur áherslu á orð sín.
Hún skildi fiðluna eftir heima og í fyrsta skipti
var hún aðskilin frá henni í heilar þrjár vikur.
„Ég var komin með kláða í puttana, siggið mitt
var farið og mér leið bara illa. Ég skildi hana eft-
ir heima viljandi af því að ég þurfti að skila af
mér útsetningum og það var heljarinnar vinna.
Ég notaði þetta frí þannig líka sem vinnuferð.
Maður nær ekki að slaka á alveg,“ segir hún og
brosir. Það er aldrei lognmolla í lífi Gretu.
Fiðlan er framlenging handanna
Tónlistarnám Gretu hófst þegar hún var fjög-
urra ára gömul. Hún lærði á fiðlu eftir Suzuki-
aðferðinni. „Mín fyrsta minning er af mér með
fiðluna, ég á engar minningar fyrir þann tíma.
Fiðlan hefur alltaf verið eins og framlenging af
höndunum á mér. Frá því að ég var átta ára var
ljóst að tónlistin yrði stór þáttur í lífi mínu. Ég
áttaði mig kannski ekki á hvert það myndi leiða
mig, en það var alveg skýrt,“ segir hún. „Ég
kem frá mjög músíkalskri fjölskyldu og það var
alltaf mikil tónlist á heimilinu og mikið dansað.“
Greta gekk menntaveginn eins og gengur og
fór í Menntaskólann í Reykjavík en meðfram
því var hún í tónlistarnámi í Listaháskólanum.
„Síðustu tvö árin í MR var ég samhliða í tónlist-
arnámi, og þetta var svona 200% vinna. Ég
myndi ekki endilega mæla með því, og ég var
samt líka á fullu í félagsstarfinu og alltaf ótrú-
lega gaman,“ segir hún. Þaðan lá leiðin í nám til
Flórída og að lokum kláraði Greta meistaranám
hér heima árið 2012.
Þrátt fyrir annríki hefur Greta alltaf gefið sér
tíma fyrir hreyfingu. „Ég hef verið mikið í
crossfit, bootcamp og í hlaupum. Ég fæ þar
mikla útrás. Það er alltaf mikið að gera og þá er
svo gott að geta bara sett hárið í tagl og svitnað
og ekki hugsa um neitt annað,“ segir hún og
segist hreyfa sig nánast daglega. „Ég er hálf-
ómöguleg ef ég næ ekki að hreyfa mig.“
Ertu kannski ofvirk?
„Ég held að ég myndi frekar segja að ég væri
eirðarlaus. Mér líður best þegar ég er að halda
þúsund boltum á lofti. Þá funkera ég best,“ seg-
ir hún og hlær.
Spurningin sem breytti öllu
Varstu alltaf ákveðin í að leggja tónlistina fyrir
þig?
„Ég vissi alltaf að ég vildi vera fiðluleikari.
Það sem ég vissi ekki var hvers konar tónlist-
arkona ég yrði. Ég hef alltaf verið smá „rebel“ í
mér og hef gaman af því að spila alls konar ólíka
stíla, og mér finnst gaman að syngja líka og
semja. Þegar ég var í þessu stranga klassíska
umhverfi var ekki mikið svigrúm til að prófa sig
áfram þannig ég var alltaf aðeins inni í skelinni
með það, alveg þar til svona um 23 ára aldur. Ég
man nákvæmlega hvað það var sem varð til þess
að ég leyfði mér að fara út fyrir kassann. Ég var
á námskeiði í Skálholti þegar ég var að byrja í
meistaranáminu og þar var maður sem heitir
Peter Renshaw sem var þá um áttrætt. Hann
var fiðluleikari og hafði verið skólastjóri í skóla
fyrir undrabörn í Bretlandi. Hann segir við mig:
„Ég veit alveg að þú getur spilað á fiðluna, það
er enginn vafi á því. En hvað langar þig að gera í
tónlist?“ Ég man að ég fattaði að ég væri búin
með tuttugu ára nám í tónlist, og ég hafði aldrei
verið spurð að þessu. Og ég hafði aldrei spurt
sjálfa mig að þessu heldur! Hann hristi heldur
betur upp í mér. Eftir það fór ég í sjálfskoðun
og ári seinna fór ég í Eurovision í fyrsta skipti
en það var margt sem gerðist eftir að ég var
spurð að þessu og ég fór að leyfa mér að prófa
alls konar hluti. Þetta hefur gefið mér góða yf-
irsýn og þetta hefur gert það að verkum að í dag
eru engir tveir vinnudagar eins,“ segir hún.
Hvernig myndirðu skilgreina þína tónlist?
„Hún er einhvers konar blanda af indí, poppi
og rokki,“ segir Greta, en von er á plötu frá henni
á þessu ári. „Ég starfa við ástríðuna mína alla
daga og ég er alltaf að læra eitthvað nýtt.“
Augnablik sem gleymast aldrei
Greta hefur tvisvar farið fyrir Íslands hönd í
Eurovision-keppnina; árið 2012 til Aserbaídsjan
og árið 2016 til Svíþjóðar.
„Ég er algjör
rokkari í mér“
Í gróðursælu hverfi í Mosfellsbænum býr Greta Salóme Stef-
ánsdóttir, fiðluleikari, söngkona, tónskáld, útsetjari, kon-
sertmeistari, lagahöfundur, Eurovision-fari og Todmobile-
meðlimur. Þessi kraftmikla tónlistarkona er bókuð fram á
næsta ár og nýtur þess að vera með marga bolta á lofti í einu.
Texti og ljósmyndir
Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is
Greta er greinilega drífandi manneskja og dugleg. Það var
skemmtilegt að skyggnast inn í líf hennar og hún er bæði hlý
og hláturmild. Ég er viss um að hún er frábær fyrirmynd
ungra kvenna og allra sem vilja komast áfram í tónlist.
VIÐTAL
14 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 18.6. 2017