Morgunblaðið - Sunnudagur - 01.10.2017, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - Sunnudagur - 01.10.2017, Blaðsíða 31
konar helgirit. Þeim, sem hafa lagt á sig að lesa rit- ið spjaldanna á milli í rannsóknarskyni, ber flestum saman um að það hafi verið ólæsilegt, leiðigjarnt og ruglingslegt. En það breyti ekki því, að í raun hafi áformum illskunnar, veganesti nasismans, verið lýst þar og boðuð, en ekki falin. Yfirlýsingar kanslarans Angela Merkel hefur rætt það opinberlega að stuðningsflokkar hennar hafi misst um milljón kjós- endur til AfD. Kanslarinn hefur sagt að hún stefni ótrauð að því að ná þessum stuðningsmönnum til baka í næstu kosningum. Hvernig? Með því að breyta um stefnumörkun og áherslur. Dettur einhverjum í hug að kanslarinn, sem al- mennt er talin í hópi vandaðri stjórnmálamanna nú- tímans, vilji fá til baka fólk sem fallið hefur fyrir nasískum sjónarmiðum AfD eða sé hallt undir þau? Að sjálfsögðu ekki. Það er sennilega rétt mat hjá Angelu Merkel að með því að breyta um stefnu og gera meiri mun á stefnu kristilegra og kratanna en verið hefur upp á síðkastið og með því að hallast að varfærnari stefnu í innflytjendamálum án þess þó að skella neinum hurðum í lás og með því að heimila umræður í sín- um flokki um það, á hvaða vegferð Evrópa sé, gæti hún komið AfD með lagni út úr ríkisþinginu í Berl- ín. Sú staðreynd, að svo smávægileg breyting á stefnu og útfærslu gæti dugað til, sýnir hversu hæpið er að stimpla þennan flokk sem hægriöfga- flokk, rasista, svo ekki sé talað um sem einhvers konar lögborinn arftaka flokks Adolfs Hitlers! Félli hann í kramið hér? Flokkur á borð við AfD myndi sennilega slá fáar keilur á Íslandi. Fáir trúa því í alvöru lengur að það sé hjálpræði í því að ganga í ESB og taka upp evru. Þeir eru sennilega fleiri sem telja að í innflytjenda- málum sé verið að taka fyrstu skref út í fen sem verður ekki auðvelt að ná sér upp úr. Hér á landi þarf þó ekki stofnun nýrra flokka vegna þessa. Það myndi nægja að alvöru flokkar uppfylltu þá lágmarkskröfu að gefa réttar upplýs- ingar um málaflokkinn. Liggja þarf fyrir hvernig þegar er komið, í hvað stefni að óbreyttu og hvort samkomulag sé um að fara blindandi eftir núverandi braut eða hvort nauðsynlegt sé að sýna meiri varfærni. Sé það svo, að einhverjir raunverulegir „rasistar“ séu að hafa sig í frammi annars staðar en á bólu- gröfnum völlum netumræðunnar, þá er ekkert að því að halda slíkum fjarri málefnalegri skoðun á málinu. Hin aðferðin, sú að skipta fólki í gott eða vont, gengur ekki. Og enn síður sú, að fullyrða án athug- unar að hér á landi sé óhugsandi að menn endi í sambærilegum vandræðum og Danir, Svíar og Norðmenn eru þegar komnir í. Þetta eru þjóðirnar sem „við berum okkur saman við“ þegar fullyrt er að allt sé hér lakara en í heim- inum öllum, vegna þess að nefna má að þessar þrjár þjóðir séu í einhverjum efnum útgjaldaglaðari en við. Það gleymist iðulega að því fer fjarri að það sé endilega til eftirbreytni. Í Bandaríkjunum trúa margir stjórnmálamenn því, að allur heimurinn öfundi þá af næstum öllu sem þar er að finna. Þar þiggur rúmur þriðjungur þjóðarinnar matarmiða af yfirvöldum. Hér yrði það talið niðurlægjandi að fólki væri ekki treyst fyrir félagslegri hjálp nema með slíkum miðum sem eiga að tryggja að hjálpinni sé ekki eytt í annað. Í áratugi hefur verið spurt hér á landi hvort ein- hver geti lifað af þeim launum sem hinir lægst launuðu hafa það og það sinnið. Hvarvetna í veröld- inni er erfitt, illt eða óbærilegt að lifa af þeim laun- um sem lökust eru. En af ýmsum ástæðum er það auðveldara í norrænum samfélögum en víðast ann- ars staðar í heiminum. Mikilvægast er að til séu, eins og hér, viðbótarúrræði og margvísleg öryggis- atriði í félagslegum og heilbrigðislegum þáttum, sem séu aðgengileg öllum, án þess að fjárhagsgeta hamli. Í ríkasta landi Evrópu, Þýskalandi, eru meðallaun um 2.200 evrur á mánuði eða um 275.000 kr. og fast að 40% launþega eru með um 1.400 evrur eða minna í mánaðarlaun eða um 175.000 kr. Lág- markslaun á klukkutíma voru hækkuð úr 8,50 evr- um (1.061 króna) í 8,84 evrur (1.104 kr) um síðsustu áramót. Heimilt er að greiða þeim sem hefur verið 6 mánuði eða lengur atvinnulaus minna en lág- markslaun um hríð. Í alls konar umræðuþáttum er látið eins og allt sem að launum lýtur sé í betra fari annars staðar en hér gerist. Það er víðs fjarri. Því er iðulega gleymt að atvinnuleysi er nánast ekkert hér á landi. ESB-löndin myndu þakka hátt og lengi fyrir slíka stöðu. Hvergi í hinum vestræna heimi hefur kaupmáttur aukist jafn mikið síðustu árin og gerst hefur hér á landi. Bersýnilegt er að ýmsum þykir ólíklegt að slíkt sé sjálfbært til lengdar. Því þarf að halda vel á. Sér einhver fyrir, hvað verða kann? Kannanir vegna komandi kosninga eru sjálfsagt ekki enn marktækar um úrslit þeirra, þótt aðeins sé réttur mánuður í þær. Þar skiptir miklu hversu skringilega var til þeirra stofnað og hve mikil upp- lausn er í stjórnmálunum. Nýlega var minnt á að kannanir hefðu fyrir ári vanmælt Sjálfstæðisflokkinn en ofmælt Pírata. Það er ekki endilega rétt. Viku fyrir síðustu kosningar boðaði Birgitta Jónsdóttir, skipherra Pírata, óvænt til myndunar vinstri stjórnar á veitingahúsinu Lækjarbrekku. Þetta framtak skipherrans varð til þess að nægjanlega margir áttuðu sig á lokametr- unum og Sjálfstæðisflokkur hækkaði verulega og Píratar lækkuðu. Ekkert bendir til að mælingar fram til þessa atburðar hafi verið rangar. Smá lærdómur dreginn? Kannanir sýna nú að Björt framtíð og Viðreisn, smáflokkarnir tveir sem hlupu út úr stjórninni eftir miðnætti einn daginn, hafa ekki grætt á því. Þegar djarfaði fyrir degi nýjum áttuðu menn sig á að brotthlaupið var í besta falli á misskilningi byggt. Síðar var svo upplýst að Proppé flokks- leiðtogi hafði rætt við forsætisráðherra þennan sama dag og ekki minnst á það, að þeim í BF þætti kominn upp alvarlegur trúnaðarbrestur! Það var ekki fyrr en undir miðnætti sem flokkurinn kom sér upp kenningu um það. Nú segja þeir í Viðreisn að á daginn hafi komið að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ætlað sér að sprengja ríkisstjórnina sjálfur með því að fella fjárlaga- frumvarpið. Ekki er fótur fyrir því. Reynt er að snúa út úr því, að ýmsir þingmenn lýstu yfir and- stöðu við tiltekna þætti fjárlagafrumvarpsins og sögðust vilja knýja fram breytingar á þeim. Það var fagnaðarefni. Það er alsiða að breytingar séu gerð- ar á fjárlagafrumvarpi í meðferð þingsins. Skárra væri það nú, ef það væri bannað. Þá fyrst væri of- ríki framkvæmdavaldsins gagnvart þinginu orðið ólíðandi. Aðeins þeir, sem aldrei hafa setið á þingi, svo ekki sé talað um í ríkisstjórn, gætu haldið svona firru fram. Auka áhrif Flokkur fólksins er nánast nýr flokkur sem Inga Sæland hefur leitt af krafti, svo eftir hefur verið tekið. Þótt sjálfsagt sé að hafa fyrirvara á könn- unum, einkum snemma í ferlinu, eru nú vísbend- ingar um vaxandi vantrú á reynslulausum smá- flokkum. Það virðist vera að draga úr möguleikum þessa flokks, sem annarra slíkra. Könnun MMR sýndi Sigmund Davíð með töluvert forskot á sinn gamla flokk, en könnun Félagsvís- indastofnunar fyrir Morgunblaðið dregur upp önd- verða mynd. Segja má að báðar þessar kannanir geti gengið upp, ef svo vildi til að Miðflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hefðu lent á jöðrum skekkjumarka í báðum könnunum. Ætla má að kannanir verði orðnar marktækari eftir svo sem viku en nú er, enda þá ljóst hvernig tókst að manna forystusæti í öllum kjördæmum. En þótt of fljótt sé að spá af öryggi um niður- stöður má vona að meiri festa verði í stjórnmálum hér þegar fram í sækir en verið hefur síðustu árin. Níu ára afmæli Í gær, 29. september, voru níu ár frá því að ís- lenska ríkið bauðst til að taka yfir fyrsta bankann sem féll, með tilteknum skilyrðum. Leiðtogi eig- endahópsins dró að svara á meðan reynt var að knýja fram hagfelldari skilyrði. Sá dráttur varð til þess að björgunartilraunin varð úr sögunni. Trú- verðugleikinn fauk og engum banka varð bjargað. Ekki er þó hægt að fullyrða að nokkur vegur hafi verið að bjarga einu eða neinu, eins og um banka- kerfið hafði verið gengið, en kom ekki í ljós fyrr en misserum eftir að það féll og er varla enn að fullu komið í ljós. Miklar upplýsingar liggja fyrir um alla þessa atburðrás og þess vegna gæti umræðan verið mun nær raunveruleikanum en henni hefur verið haldið á. En héðan af munu aðeins sérstakir áhuga- menn sökkva sér niður í þau mál. Ruglandi umræð- unnar verður því lengi að rjátlast af. Við því er ekkert að segja. Það er ekki hægt að gera kröfu um það að allur almenningur taki að grufla í málinu, þótt margur gæti grætt á því. Það er sennilega best að hin afvegaleidda umræða fjari út. Jafnvel þeir, sem var trúað fyrir því að taka ein- göngu málefnalega á atburðarásinni og áttu að hafa burði til þess, risu ekki undir þeim mikla þrýstingi sem beitt var. Kannski var það mannlegt, en það var ekki stórmannlegt og ekki heppilegt. Þjóðinni bar að fá greinargóða og glögga sýn á málið. Það var það sem hún þurfti. Á tíu ára afmæli þessara atburða næsta haust munu margir láta gamminn geisa. Og hæst munu þeir hafa sem fram að þessu hafa mest gert til að skaða rétta lýsingu á atburðum. En í framhaldinu mun sagan ein væntanlega fá að kjamsa á málinu. Verði henni að góðu. 1.10. 2017 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 31

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.