Feykir


Feykir - 27.11.2014, Blaðsíða 16

Feykir - 27.11.2014, Blaðsíða 16
2 01 41 6 Myndbrot frá langri starfsævi VIÐTAL Berglind Þorsteinsdóttir Spjallað við ljósmyndarann Stefán Pedersen á Sauðárkróki Næsta vor verða liðin 60 ár frá því ljósmyndarinn Stefán Pedersen byrjaði í bransanum og hefur hann fangað ófá augnablik og andlit á filmu á löngum starfsferli. Ljósmyndastofu hans er að finna á Aðalgötu 10a á Sauðárkróki og er hún opin alla virka daga, „það er nauðsynlegt að mæta einhversstaðar,“ sagði Stefán í spjalli við blaðamann Feykis, á kaffistofunni baka til á stofunni. Þar deildi hann með blaðamanni sögum frá uppvaxtarárum sínum á Króknum, fór yfir ljósmyndaferilinn, auk þess sem hann rifjaði upp ýmsar eftirminnilegar stundir frá liðnum árum. Að heimsækja Ljósmyndastofu Stefáns Pedersens er ævintýri líkast, að sumu leyti eins og að gægjast aftur í tímann, í starfsgrein sem hefur tekið miklum stökkbreytingum síðustu ár. Þar er að finna myndarlegt samansafn myndavéla frá ýmsum tímum og segir Stefán frá uppruna margra þeirra og sýnir blaðamanni m.a. elstu myndavélina í hans safni, viðarklædda kassamyndavél frá því um 1880, frá Skagaströnd. Stofuna á Aðalgötu opnaði Stefán fyrir 26 árum, árið 1988, og er það þriðji staðurinn á Sauðárkróki sem hann er með ljós- myndastofu, en fyrst opnaði hann stofu í bænum eftir að hann lauk námi í Reykjavík árið 1958. „Ég stóð bara fastur á því að ég ætti að fara aftur á Krókinn. Mér líkaði ekkert illa í Reykjavík, það var ekkert svoleiðis en ég átti heima þar í þrjú og hálft ár,“ útskýrir Stefán. Stefán er fæddur á Sauðárkróki þann 7. desember 1936, foreldrar hans hétu Sigríður Sigurlína Halldórsdóttir og Johan Pedersen. Hann segist stundum gantast með það að hann sé fæddur í Rússlandi, sem fólki þykir oftast ótrú- legt, en þá er hann að vísa til hússins Miklagarðs við Kirkjutorg sem var alltaf kallað Rússland. Stefán lýsir húsinu sem hann segir hafa verið fjölbýlishús með verslun á neðstu hæðinni sem hét Drangey og fjós í norðurendanum og einungis eitt klósett fyrir allt húsið. „Þetta þótti flott í þá daga, fólk sótti í að fá að eiga heima þarna. Þetta var hlýtt og gott steinhús.“ Stefán kynntist föður sínum aldrei, sem var Norðmaður búsettur á Siglufirði og segir í gamansömum tón frá því hvernig hann kom til sögunnar. „Þau bjuggu aldrei saman mamma og pabbi. Árið 1936 var Sæluvikan á mánaðarmótunum mars og apríl og ég fæddist í desember - en hann var harmónikkuleikari og spilaði á böllum í Sæluvikunni - þannig að það segir sig sjálft að ég er mikill Sæluvikumaður,“ segir hann sposkur á svip. Stefán var í góðu sambandi við hálfbræður sína þrjá á Siglufirði á fullorðins árum en einnig á hann fimm hálfsystkini á Sauðárkróki. Þegar Stefán er spurður hvort hann muni hvenær hann tók fyrstu ljós- myndina svarar hann að það megi segja að krókurinn hafi beygst snemma þannig séð og rifjar upp skemmtilegt augnablik frá því hann var um níu eða tíu ára gamall. „Ég var skotin í stelpu og ég vissi að hún var að róla uppi á rólóvelli. Þá fékk ég myndavél frænda míns lánaða og ætlaði að fara að mynda stelpuna,“ segir Stefán og lýsir því hvernig hann hengdi um hálsinn á sér kassamyndavél, algengrar gerðar á stríðsárunum milli 1940 og 1950, og svo hélt hann af stað upp á rólóvöll. „Þar voru þær að róla saman tvær, jafnaldra mín sem ég var skotin í þennan dag og önnur með henni. Þær sátu í rólunni saman og svo myndaði ég eins og atvinnumaður. Svo fór ég með myndavélina heim og frændi minn framkallaði fyrir mig myndina. Þá hafði viljað svo illa til að puttinn á mér hafði verið fyrir og náði yfir hálfa myndina og það var bara hin stelpan sem sást,“ segir hann hlægjandi. „Þetta situr enn í mér eftir öll þessi ár, ljósmyndin með skugga yfir stelpunni og svo sást hin gleiðbrosandi - ég var ofboðslega svekktur.“ Skemmtilegast að mynda blessuð börnin Þó segir Stefán að áhuginn fyrir ljós- myndun sem slíkri hafi ekki beint kviknað þarna. Eftir gagnfræðaskólann fór hann að læra bakaraiðn og hugðist leggja hana fyrir sig en eftir að hafa lagt stund á hana í eitt ár veiktist hann af berklum og varð að hætta við þau áform í kjölfarið. Stefán rifjar upp hvernig það kom upp á yfirborðið að hann var smitaður en hann var alla tíð einkennalaus. „Ég var stálheppinn. Þá voru berklar svo algengir að menn fóru um landið og röntgenmynduðu fólk og þá voru helst heimsóttir staðir þar sem unnið var með matvæli. Læknirinn tók mig á nóinu, sagði að ég væri kominn með bletti í lungað og yrði að fara á hæli til meðferðar,“ segir Stefán sem var í kjölfarið sendur á Kristnes þar sem hann dvaldi í eitt ár. „Ég var heppinn í sjálfu sér en þá voru akkúrat að koma þessi meðöl - þannig að ég var eins heppinn og hægt var. Ég var laus eftir ár og hef aldrei neitt fundið fyrir því.“ Eftir heimkomuna þurfti Stefán að finna sér nýjan starfsvettvang og þá datt frænda hans, Árna Halldórssyni, í hug að ljósmyndun gæti verið fínasta atvinnugrein fyrir hann til að leggja fyrir sig. „Hann hafði tekið að sér að framkalla fyrir fólk og átti græjur. Hann átti fína myndavél sem hann sendi mig út með þegar ég kom út af hælinu og ég æfði mig svolítið á henni.“ Í maí árið 1955 komst Stefán á samning í gegnum kunningsskap hjá þekktum ljósmyndara í Reykjavík, Sigurði Guðmundssyni, sem rak umsvifamikla ljósmyndastofu. „Það var mest stúdíóvinna og ég fór líka um allt að mynda – það var nóg að gera. Stefán Pedersen á ljósmyndastofu sinni. MYND: SIGRÍÐUR SIGURLÍNA PÁLSDÓTTIR Hafsteinn Hannesson lék Jón Hreggviðsson í Íslandsklukkunni 1976. MYNDIR: HSK / STEFÁN P. Bragi Haraldsson og Halla Jónsdóttir í Gullna hliðinu 1964. Haukur Þorsteinson og Bragi Hararldsson í Íslandsklukkunni 1976. Georg, leikinn af Kára Jónssyni, og Lenni, leikinn af Kristjáni Skarphéðinssyni, í Mýs og menn 1968.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.