Feykir


Feykir - 27.11.2014, Blaðsíða 28

Feykir - 27.11.2014, Blaðsíða 28
2 01 42 8 Þormóður Guðlaugsson og Guðbjörg Þórhallsdóttir höfðu búið í Málmey í á þriðja ár þegar bruninn varð. Elst fjögurra barna þeirra var Þórdís, níu ára gömul en yngsta barnið var níu mánaða. Um vorið höfðu þau Erlendur Erlendsson og Sigríður Hannesdóttir flust í eyjuna ásamt sex börnum á aldrinum eins árs til níu ára. Bjuggu fjölskyldurnar tvær í reisulegu timburhúsi ásamt vinnumanninum, Jakobi Sigurðssyni. Þórdís segir að húsmæðurnar hafi verið við jólaundirbúning í eldhúsinu og önnur þeirra ætlað með matvæli í búrið, sem var inn af eldhúsinu, þegar eldsins varð fyrst vart. Þegar hún opnaði þangað inn loguðu eldtungur upp úr gólfinu, en í kjallara undir búrinu var staðsettur rafmótor. Erlendur ætlaði þá niður að aðgæta hvað ylli eldinum en komst ekki lengra en í stigaopið vegna eldsins. „Ég var að passa yngri bróður minn og átti að vera með hann uppi á lofti en það var barnatími í útvarpinu. Pabbi og við allir krakkarnir vorum þess vegna inni í stofu, sem var inn af eldhúsinu, að hlusta á barnatímann. Við vorum svo mörg að við sátum á gólfinu og alls staðar. Allt í einu opnast hurðin og Erlendur kemur inn. Hann þrífur í öxlina á einum stráknum sínum og kippir honum fram fyrir,“ segir Þórdís og bætir við að pabba sínum hafi fundist þetta eitthvað hastarleg meðferð á stráknum og spurt hvað gengi á. Erlendur kom þá fyrst upp orði og sagði: „Það er kviknað í húsinu.“ Strax var ljóst að mikil hætta var á ferðum, enda um gamalt og þurrt timburhús að ræða. „Það vildi svo heppilega til að við vorum öll þarna á neðri hæðinni og fólkinu var bara sópað út eins og það stóð,“ segir Þórdís. Það var ansi napurt að koma út í hvassviðrið beint úr stofuhitanum, enda illstætt og nístingskuldi og gekk á með hörðum hríðaréljum þetta kvöld. Þormóði tókst að kalla í talstöðina til Siglufjarðar og láta vita um neyðarástandið. Erlendur og Jakob fylgdu konunum og börnunum í fjárhúsin þar sem þau bjuggu um sig í geil í heyinu. Þormóður flýtti sér upp á efri hæðina og náði að kasta einhverjum rúmfötum og ábreiðum fram af svölunum. Þegar hann ætlaði aftur niður stóð stiginn í ljósum logum svo Þormóður varð að snúa til baka og stökkva fram af svölunum. Húsið brann á örskammri stundu. „Við vorum búin að hlakka mikið til jólanna. Það var önnur stofa inn af stofunni þar sem við höfðum setið og hún var höfð lokuð. Þar voru jólagjafarnir og jólatréð og allt tilbúið. En það náðist ekki að bjarga neinu þar,“ segir Þórdís. Í fjósi áföstu íbúðarhús- inu voru þrjár kýr, naut og kálfur og tókst að bjarga þeim og smala í fjárhúsin. Hænurnar voru hins vegar kafnaðar þegar átti að bjarga þeim úr kofanum. Húsið brann á örskammri stundu VIÐTAL Kristín S. Einarsdóttir Þórdís Þormóðsdóttir rifjar upp brunann í Málmey 1951 Í Málmey á Skagafirði hefur ekki verið búseta síðan vorið 1952. Að kvöldi 22. desember 1951 kviknaði í íbúðarhúsinu. Eftir næturvist í fjárhúsum á eynni var fólkinu bjargað um borð í mótorbátinn Skjöld frá Siglufirði. Sluppu allir fimmtán íbúar hússins óskaddaðir frá eldsvoðanum, þeirra á meðal tíu börn. Elst barnanna var Þórdís Þormóðsdóttir, þá níu ára gömul. Feykir sló á þráðinn til Þórdísar, sem nú er búsett í Keflavík, og bað hana að rifja upp brunann og atburðarásina í kjölfarið. Kjallararústir Málmeyjar-hússins. Hægra megin í fjarska eru fjárhúsin og þar fyrir ofan er Þórðarhöfði. Strauk til móður sinnar Þórdís segir mildi að vindáttin hafi staðið af fjárhúsunum og eldurinn ekki komist í þau. „Við fórum á móti vindinum í fjárhúsin sem voru þarna skammt frá. Við vorum alveg örugg og ég man ekki eftir að mér væri kalt. Við höfðum líka kýrnar þannig að við gátum fengið okkur mjólk,“ segir hún og bætir við að þau börnin hafi náð að sofa eitthvað. Fullorðna fólkið hélt alveg ró sinni, það varð aldrei neitt panik ástand, alla vega fundum við börnin ekki fyrir því.“ Bruninn sást vel frá landi, enda blasir eyjan við frá mörgum af bæjunum í nágrenninu. „Bróðir mömmu bjó á Þrastarstöðum og afi og amma á Litlu-Brekku og ég veit að þetta sást mjög vel þaðan og af fleiri bæjum. En þau vissu auðvitað ekkert um afdrif okkar.“ Í landi biðu menn frétta og þrátt fyrir að neyðarkall bærist var ekki hægt að bregðast við því strax vegna veðurofsans. Í fyrstu morgunskímu Þorláks- messudags urðu Málmeyingar varir við ferðir björgunarmanna. Var þar á ferðinni björgunarsveit frá Siglufirði, undir stjórn Sveins Ásmundssonar skipstjóra, á vélbátnum Skildi SI 82. Vélbátnum var lagt undan land- tökuvörinni um klukkan hálfsjö um morguninn og róið til lands á björgunarbát. Þurfti að fara upp einstigi sem er eina uppgangan í eyna, og var þakið snjó. Fyrst var farið með hjúkrunargögn, teppi og skjólfatnað í land. Börnin voru vafin teppum og síðan borin niður einstigið og gengu allir fólksflutningar að óskum, og minnist Þórdís þess að björgunarmennirnir hafi verið einstaklega elskulegir og nærgætnir. Fjölskyldurnar voru fluttar í Hofsós, fyrst í læknishúsið þar sem fólkið fékk að fara í bað og hrein föt. Síðan var fjölskyldu Þórdísar komið fyrir í nágrenninu, en móðir hennar átti ættingja þar. Bróðir Þórdísar fór til ömmu þeirra og afa í Litlu-Brekku, Þórdís fór til hjónanna Pálu og Þorsteins á Hofsósi og móðir hennar og yngstu systkinin til móðursystur hennar í Ártúnum. Fjölskylda Erlend- ar var flutt á Sauðárkrók, þaðan sem þau flugu suður til Reykjavíkur. Fjölskylda Þórdísar hélt því ekki jólin saman, en Þórdís tók til sinna ráða og strauk á aðfangadag. „Það kom yfir mig eitthvert óyndi á aðfangadag og ég ákvað að strjúka til mömmu. Ég vissi að Ártún var fyrsti bærinn sunnan við Hofsós. Það var rok og rigning og mikil hálka og ég var bara á peysunni. Ég fór á hausinn nokkrum sinnum en komst svo að Ártúnum.“ Þar var Þórdís boðin velkomin og fékk að vera yfir jólin. Þórdís tekur fram að vistin hjá Pálu og Þorsteini, þar sem hún var fram á vorið, hafi verið góð. „Þetta var óskaplega gott fólk og fullt hús af börnum. Þetta fólk var ekki skylt okkur eða tengt, bara gott fólk sem lét sig ekki muna um að bæta við einum krakka. Það var líka ægilega góð vinnukona þarna sem ég minnist með mikilli hlýju. Ég sat uppi á borðinu hjá henni þegar hún var að vaska upp og hún kenndi mér margföldunartöfluna.“ Þormóður varð eftir í Málmey til að sinna skepnum og vinnumaður Jakob hélt fljótlega aftur í eyjuna. Vitamálaskrifstofan, sem átti allar byggingar í eynni, sendi fljótlega skúr til að setja saman þar. Karlmennirnir dvöldu í eynni og hirtu skepnurnar þangað til hægt var að flytja þær í land um vorið. Fjölskylda Þórdísar fékk þá loks inni í leiguhúsnæði og leigðu þau stofu með aðgangi að eldhúsi í Hofsósi. Þórdís telur að foreldrar sínir hefðu vel getað hugsað sér áframhaldandi búsetu í Málmey en íbúðarhúsið var í eigu Vitamála og ekki kom til að það yrði byggt upp aftur. Á Hofsósi bjó fjölskyldan um nokkurra ára skeið en fluttist síðan á Suðurnesin um það leyti sem Þórdís hóf gagnfræðaskólagöngu. Þórdís hefur búið að Suðurnesjum síðan og er gift Karli Steini Guðnasyni fv. alþingismanni og eiga þau fjögur uppkomin börn. Þórdís segist eingöngu eiga ljúfar minningar úr Málmey, þrátt fyrir að gengið hafi á ýmsu þar. „Í minning- unni var þetta skemmtilegur tími. Um tímann sem við bjuggum þarna á ég einhverjar bestu minningar frá barnæskunni. Þetta var óskaplega frjálst líf fyrir börn að leika sér og manni leiddist aldrei. Það var mikið hlustað á útvarp en það var alltaf slökkt á ljósamótornum á kvöldin, eftir að hann kom til. Ég man ennþá hvað allt varð kyrrt og dimmt þegar það var gert. En sem betur fer var ekki kveikt á honum yfir nóttina, það hefði getað farið verr ef kviknað hefði í að nóttu til,“ segir Þórdís að lokum. Íbúðarhúsið í Málmey var afar reisulegt.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.