Feykir


Feykir - 27.11.2014, Blaðsíða 14

Feykir - 27.11.2014, Blaðsíða 14
2 01 41 4 Fjalla-Steini er útivistarfólki að góðu kunnur enda heldur hann úti stórum gönguhópi gegnum fésbókarsíðuna Fjallagarpar og -gyðjur og hefur smám saman verið að taka að sér leiðsögn í gönguferðum. Hann segist hafa verið átta ára þegar hann stofnaði fyrsta fjallaklúbbinn, ásamt æskuvininum Lárusi Ástvaldssyni, jarðfræðingi. Undanfarin sex ár hefur mikið af hans tíma farið í ýmis gönguverkefni í góðgerðarskyni og oftar en ekki hefur Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna notið góðs af. Hugmyndin að bókinni, sem er fyrsta bók höfundar, kviknaði svo fyrir um fjórum árum. Steini var þá einu sinni sem oftar á ferð um landið og fannst vanta upplýsingar um bæjarfjöll á hverjum stað. „Sumstaðar voru menn ekki einu sinni vissir hvaða fjall væri þeirra bæjarfjall,“ segir Steini, sem í framhaldinu fór að afla upplýsinga og gekk sjálfur á öll fjöllin, gjarnan í góðum félagsskap heimamanna. Vinnsla bókarinnar tók tæp tvö ár í það heila og urðu fjöllin í bókinni alls tæplega 90. Bókin nýtist öllu útivistarfólki sem hefur áhuga á landinu sínu. Hún er að sögn Steina góður leiðarvísir fyrir alla sem eru að fara út á land, enda handhæg og í þægilegu broti. „Þarna er að finna fjöll við alla þéttbýlisstaði landsins og mikið af myndum. Gönguleiðarlýsingar eru á vefnum og seinna meir verða sett inn á www.fjallasteini.is hnit (e. tracks) fyrir leiðirnar, enda er gps-menningin orðin allsráðandi. Þó ég noti slík tæki takmarkað sjálfur eru þau nauðsynleg. Sjálfum finnst mér skemmtilegra að rýna í landslagið og kennileiti og ganga eftir því, það er sennilega innbyggt í mig,“ segir Steini. Gönguverkefnin og vinnan við bókina hafa komið talsvert niður á vinnunni, að sögn Steina, en hann er fasteignasali hjá Þingholtum og hefur notið mikils velvilja þar. „Á þessum árum er ég líka búinn að ganga mikið á eigur mínar, en ég er moldríkur af mannauði. Það er flottasta fólkið á öllu á landinu sem ég hef kynnst á þessari vegferð og ekkert hefur gefið mér eins mikið og að kynnast öllu þessu fólki úti á landi,“ segir Steini. Hann segir framundan að klára heimsálfutindana, en hann er þegar búinn að sigra Kilmanjaro í Afríku og hefur sett sér það markmið að fara einn til tvo á ári. Á döfinni er svo að bjóða upp ferðir um gamlar þjóðleiðir vítt og breitt um landið, í samstarfi við gott fólk. Önnur bók er líka í sigtinu, en hann segir of snemmt að segja til um innihald hennar. Steini segir það hafa verið auðsótt að fá bókina gefna út. „Fyrsti útgefandinn sem ég talaði við, Helgi Jónsson hjá Tindi, tók mér strax vel og hafði trú á mér og verkefninu. Við höfum átt mjög gott samstarf.“ Steini segir að bók af þessu tagi hefði ekki orðið til nema fjölmargir kæmu að verkinu, bæði hvað varðar heimildir og ljósmyndir. „Ég vil koma á framfæri þakklæti til alls þess frábæra fólks sem hefur tekið mér opnum örmum og af mikilli gestrisni. Margir hafa eytt ómældum tíma til að aðstoða mig, þegar mig vantaði aðstoð við bókina var mér alls staðar vel tekið, maður er óendanlega þakklátur fyrir það og það er ekkert sjálfgefið að fólk gefi sér tíma í slíkt,“ segir Steini að lokum. Rafvirkjarnir Ásbjörn Skarphéðinsson, betur kunnur sem Böddi á Gili, og Valgarð Björnsson, eða Valli Björns, unnu oft saman. Eitt sinn höfðu þeir verið að vinna fyrir Sauðárkrókshöfn og að því loknu tók Böddi til við að útbúa vinnuskýrsluna. „Hvað eru mörg b í Sauðárkrókshöfn?“ spurði Böddi. „Hvað ertu kominn með mörg?“ svaraði Valli. „Þrjú.“ „Láttu það duga.“ * Þegar Hilmar Sverrisson tónlistarmaður vann á vélaverkstæði KS um árið kom hann til Valgarðs Jónssonar og var að leita að logsuðugleraugum. Valli getur stundum verið utan við sig og líkt og hjá fleirum koma orðin kannski ekki alltaf rétt frá honum. Svaraði hann Himma: „Síðast þegar ég sá þau voru þau horfin!“ * Guttormur Óskarsson fékk einu sinni heimsókn á dvalarheimilið frá góðum kunningja, sem nýlega hafði farið á miðilsfund. Þar kom fram sameiginlegur vinur þeirra, Ýtu-Keli, sem hafði fallið frá ekki löngu áður. „Hann sagði allt þetta fína, hér væri gott að vera,“ sagði vinurinn við Guttorm og bætti við: „Og þarna væru engir framsóknarmenn.“ „Já,“ sagði Guttormur, „hvar skyldi Keli hafa lent?“ * Haukur Pálsson, ostameistari í Mjólkursamlagi KS á árum áður, var skemmtilegur karl, heljarmenni að burðum og jafnan beinskeyttur í tilsvörum. Einhverju sinni kom ungur starfsmaður samlagsins til hans og bar sig illa, hann væri að drepast úr vöðvabólgu og gæti varla unnið meira þann daginn. „Vöðvabólgu,“ hreytti Haukur út úr sér, „það getur ekki verið, þú ert ekki með neina vöðva, maður!“ „Ég er moldríkur af mannauði“ VIÐTAL Kristín S. Einarsdóttir Fjalla-Steini sendir frá sér bók um íslensk bæjarfjöll Haustið 2013 fjallaði Feykir um góðgerðar- verkefni Þorsteins M. Jakobssonar, eða Fjalla- Steina, sem þá var að ganga á öll bæjarfjöll á Íslandi til styrktar krabbameinssjúkum börnum. Steini hefur nú lokið verkefninu og bætt um betur með því að skrifa bók um fjöllin, þar sem hann gefur vinnu sína, einnig til styrktar krabbameinssjúkum börnum. Tindur gefur bókina út og hún heitir einfaldlega Íslensk bæjarfjöll. Glettur Úr Skagfirskum skemmtisögum 4

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.