Feykir


Feykir - 28.11.2013, Blaðsíða 36

Feykir - 28.11.2013, Blaðsíða 36
2 01 33 6 Anna Magnea Valdimars- dóttir á Skagaströnd er mikil áhugakona um kökur og kökuskreytingar, svo mjög að hún hefur farið erlendis og náð sér í diploma í þeim fræðum. Síðastliðið sumar var Anna Magnea matgæðingur vikunnar í Feyki og deildi þá með lesendum dýrindis köku með sykurmassa, sem er hennar sérsvið. Það var því tilvalið að heyra í Önnu Magneu í jólaundirbúningnum og forvitnast betur um þennan mikla áhuga hennar, auk þess að fá hana til að deila með okkur einni uppskrift úr tilraunaeldhúsi sínu. Anna Magnea er fædd í Reykjavík en alin upp á Siglufirði. Hún segist þó hafa búið lengstan hluta ævinnar á Skagaströnd, þar sem hún starfar hjá Vinnumálastofnun. Hún er ógift og barnlaus. Auk baksturs og kökuskreyt- inga er Anna áhugamanneskja um handavinnu. „Ég hef alltaf prjónað og er nýfarin að læra að hekla, einnig sauma ég. Ég fór í Handverks- og Anna Magnea Valdimarsdóttir kökuskreytingakona á Skagaströnd Hef bakað síðan ég man eftir mér hússtjórnarskólann á Hall- ormsstað haustið 2006 og lærði þar grunninn í allflestri handavinnu. Prjónið er samt efst á lista, á eftir kökuskreyt- ingunum,“ segir Anna Magnea. Hvenær og hvernig kviknaði áhuginn á kökuskreytingum? „Ég hef verið að baka síðan ég man eftir mér og áður en ég man eftir mér, mamma var mjög dugleg að leyfa okkur að taka þátt í bakstrinum og var ég ekki gömul þegar ég var farin að baka sjálf, en mamma sá samt um að setja í ofninn,“ segir Anna Magnea. „Kökuskreytingaáhuginn kviknaði síðan vorið 2009 þegar besta vinkona mín var að halda uppá árs afmæli dóttur sinnar og var að skreyta kökuna með einhverju sem líktist leir og var hægt að lita í öllum regnbogans litum og gera ótrúlega hluti með. Þetta var í fyrsta skipti sem ég kynntist sykurmassa. Þá var ekki aftursnúið og hef ég verið að leika mér með sykurmassann síðan,“ bætir hún við. Anna Magnea játar því að hún sé oft beðin um að baka fyrir ýmsar veislur. „Fyrstu skreyttu kökurnar mínar voru fyrir fermingaveislur systra minna en síðan þá hef ég bakað og skreytt kökur fyrir ýmis tilefni. Mér finnst líka skemmtilegast þegar fólk vill kökur sem eru ekki endilega hefðbundnar og er smá áskorun fyrir mig að útfæra eins og t.d. traktorskaka sem ég gerði fyrir mág minn,“ segir Anna. Á facebook síðunni hennar, www.facebook.com/ kokuhorn, má sjá flestar þær kökur sem hún hefur gert, og eru þær óneitanlega hver annarri glæsilegri. Hvað er þá skemmtilegast að baka? Mér finnst skemmtilegast að baka muffinskökur. Það er svo gaman að prufa sig áfram og gera ýmsar útgáfur af muffins og auðvelt að prufa ýmsar tegundir af kremi með mismunandi kökum og ef það virkar ekki þá er maður ekki búinn að eyða heilli stórri köku í prufuna og ef það virkar vel er ekkert mál að útfæra uppskriftina yfir í stóra köku,“ útskýrir Anna Magnea. Uppáhaldsbakkelsið, varðandi bragðið, er hins vegar sítrónukaka með sítrónu- rjómaostakremi. „Hún er svo fersk á bragðið og svo eru sörur uppáhalds jólasmákökurnar mínar.“ Anna Magnea segist ekki „missa sig“ í jólabakstrinum. „Ég baka kannski sex tegundir og hefur það verið venja á mínu heimili að baka þær fyrripartinn í desember svo hægt sé að borða þær í desember. Sumar tegundir þarf að baka oftar en einu sinni í desember þar sem þær klárast og eru það oftast lakkrístopparnir sem fara fyrst.“ Aðspurð um hvort hún lumi á einhverjum góðum ráðum varðandi jólabaksturinn, segist Anna Magnea hafa eitt ráð sem eigi ekki endilega bara við um jólabaksturinn. „Gott ráð í sambandi við allan bakstur er að allt sé við stofuhita, þá blandast hlutirnir betur saman og deigið verður jafnara.“ Þeir eru líklega ekki margir hérlendis sem státa af diplómu í kökuskreytingum en Anna Magnea hefur eina slíka og stefnir á áframhaldandi nám. „Ég fór til London í Knightsbridge PME school of cake decorating og tók þar námskeið í „Sugar paste module“ þar sem ég lærði að vinna með sykurmassa, allt frá því að hylja mismunandi lögun af kökum og búa til allskonar skraut úr massanum og fígúrur. Ég útskrifaðist úr skólanum með diplómu í sykurmassa. Ég lærði ótrúlega mikið á þessu námskeiði og hefur það nýst mér mjög vel, ég stefni á að fara aftur næsta sumar og læra þá ýmsa tækni til að búa til allar tegundir af blómum og nota það sem Bretar kalla Royal icing í skreytingar. Get ekki beðið eftir að læra meira enda er þetta eitthvað sem ég vil leggja fyrir mig og vonandi vinna við í framtíðinni,“ sagði Anna Magnea að lokum. Sítrónukaka með rjómaostakremi Ég læt fylgja hér uppskrift af minni uppáhaldsköku, sem er sítrónukaka með rjómaostakremi. Hún er ótrúlega fersk og ekki með yfirgnæfandi sítrónubragði. Uppskriftina er bæði hægt að nota í bollakökur og venjulega köku með kremi á milli. Kakan: 2 ½ dl hveiti / 1 ½ dl sykur / 3 egg 120 gr mjúkt smjör / 1 tsk lyftiduft / 1 tsk matarsódi 1 tsk vanilludropar Börkur af einni sítrónu (geyma 2 msk í krem) (fínt rifinn, passa að fara ekki í hvíta partinn) Safi úr einni sítrónu (geyma 2 msk í krem) Krem: 200gr. rjómaostur / 100gr smjör 1,5-2 pakkar af flósykri / 2 msk af sítrónuberki 2 msk af sítrónusafa Kakan: Þeyta sykur og smjör saman þar til létt og ljóst, bæta einu eggi í einu út í og hræra vel á milli. Þurrefnum blandað saman og bætt úr í til skiptis við sítrónusafann og sítrónubörkinn. Sett í viðeigandi form, eftir því hvernig köku þú vilt fá. Bollakökur eru bakaðar í 15-18 mínútur (fer eftir ofnum) hringlaga kaka bökuð í 30-40 mín (fer eftir ofnum). Ef tannstöngli er stungið í kökuna og kemur hreinn upp er hún tilbúin. Látin kólna alveg áður en kremið er sett á. Krem: Rjómaostur og smjör þeytt vel saman 7-10 mínútur. Sítrónuberki og safa bætt úr í og flósykrinum bætt smátt og smátt út í þar til blandan er mjúk og slétt. Til að kremið sé gott í sprautupoka t.d. til að sprauta á bollakökurnar er bætt við meira af flórsykri þá verður kremið stífara og helst betur. Anna Magnea í London þegar hún fór þangað á kökuskreytinganámskeið. Anna Magnea í eldhúsinu. VIÐTAL Kristín S. Einarsdóttir

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.