Morgunblaðið - Sunnudagur - 25.02.2018, Blaðsíða 24
HEILSA Alþjóðaheilbrigðisstofnunin varar við að tíðni mislingasmita fari vax-andi í Evrópu. Smitin voru fjórfalt fleiri árið 2017 en 2016 og af þeim20.000 sem smituðust léstust 35. Þróunin er m.a. rakin til þess að of
stór hópur fólks hefur ekki látið bólusetja sig.
Mislingasmitum fjölgar
24 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 25.2. 2018
Ný rannsókn spænskra vísindamanna bendir til
þess að efni sem finna má í rauðvíni geti hjálpað til
að verja tennur gegn skemmdum og halda tann-
holdinu heilbrigðu. Pólífenól er efnið sem um ræð-
ir og kom í ljós að það virðist skerða getu skað-
legra baktería til að loða við tennur og tannhold.
BBC greinir frá þessu og lætur fylgja með frétt-
inni að vísindamennirnir hafi tekið það sér-
staklega fram að ekki sé tímabært að túlka nið-
urstöðurnar, sem gerðar voru á vefjasýnum á
rannsóknarstofu, á þann hátt að fólk eigi endilega
að drekka meira af rauðvíni. Þvert á móti er rauð-
vín súr drykkur og geti því mikil rauðvínsdrykkja
hugsanlega skaðað glerung tannanna. Mæla sér-
fræðingar í tannheilsu því með því að rauðvín sé
drukkið í hófi, og þá með mat, til að lágmarka
skaðleg áhrif á glerunginn.
Pólífenól má einnig finna í kaffi, grænu og svörtu
te, appelsínu- og sítrónusafa, bláberjum, kíví og
baunum svo nefnd séu nokkur dæmi. ai@mbl.is
SKAÐLEGAR BAKTERÍUR EKKI HRIFNAR AF PÓLÍFENÓLI
Efni í rauðvíni gæti verndað tennurnar
Rannsakendurnir taka það fram að niðurstöðurnar réttlæti
ekki aukna rauðvínsdrykkju í nafni bættrar tannheilsu.
Þó að lítið hafi farið fyrir umfjöll-un um íslenska glímu upp á síð-kastið segir Ólafur Oddur Sig-
urðsson að íþróttin lifi enn góðu lífi.
Ólafur er formaður og framkvæmda-
stjóri Glímusambands Íslands og segir
hann það ekki síst á landsbyggðinni
sem glímunni er vel sinnt. „Þar má
finna sterk glímufélög sem kenna unga
fólkinu íþróttina. Þegar ungmennin
vaxa úr grasi og flytja til höfuðborg-
arsvæðisins til að stunda nám halda
þau áfram að glíma og verða þá glímu-
æfingarnar um leið staður til að hitta
gamla kunningja frá heimaslóðum.“
Ólafur segir glímunni m.a. mjög vel
sinnt á Reyðarfirði og einnig víða á
Suðurlandi. Í Reykjavík eru haldnar
æfingar í Ármannsheimilinu alla mið-
vikudaga og vel tekið á móti byrj-
endum. „Gaman er að segja frá því að
íslenska glíman er fastur liður á Ung-
lingalandsmóti UMFÍ og þátttakendur
mjög áhugasamir um að spreyta sig.
Af þeim sem keppa á landsmótinu er
iðulega helmingurinn að prufa glímu í
fyrsta skipti.“
Í góðu jafnvægi
Margir velja sér íþrótt með hliðsjón af
því hvernig hún bætir heilsuna og
styrkir kroppinn. Þannig þykja t.d. as-
ískar bardagaíþróttir henta vel til að
auka liðleika á meðan sundið stælir
vöðva líkamans og jógað róar hugann.
Hver er þá ávinningurinn af að stunda
íslenska glímu? „Glíman er jafnvæg-
isíþrótt og þurfa keppendur að geta
brugðist við glímu-
brögðum andstæð-
ingsins í ýmsum
stöðum,“ segir Ólaf-
ur. „Þetta er líka
íþrótt sem krefst
góðrar samhæfingar
og þegar keppt er í
glímu er áríðandi að
hafa bæði styrk,
snerpu og liðleika.“
Þeir sem sjá þaulreynda glímukappa
takast á gætu haldið að íþróttin væri
hættuleg, og að auðvelt sé að slasa
andstæðinginn þegar hann er felldur í
jörðina. Þeir sem eru lengra komnir í
glímu keppa jú á hörðum parket-
gólfum og því ekkert sem mildar
höggið. „En slysin eru sjaldgæf því að
glíma snýst ekki um að hrinda and-
stæðingnum eða skella honum í jörð-
ina, heldur eru menn „lagðir“ í glím-
unni og lykilatriði að hafa jafnvægi
bæði á sjálfum sér og andstæðingnum
alla leið í gólfið. Ef glíman er rétt
framkvæmd er hentugast að glíma á
hörðu gólfi og engum verður meint af.
Byrjendur fá hins vegar að æfa á
mjúkum dýnum á meðan þeir læra
réttu handtökin,“ segir Ólafur.
Hægri á mitti, vinstri á læri
Reglurnar eru ósköp einfaldar. Tveir
takast á í hverri glímu og hafa á sér
sérstakt glímubelti. Með hægri hend-
inni er gripið um mittisól andstæðings-
ins og með vinstri hendinni um lær-
isólina. „Til að vinna þarf að leggja
andstæðinginn með glímubragði, þann-
ig að hann snerti glímuvöllinn einhvers
staðar á milli hnés og olnboga. Ekki á
að setja andstæðinginn niður með
handafli, né heldur fylgja of mikið eft-
ir og rífa hann niður í gólfið, og eftir
eina lotu er keppnin búin,“ útskýrir
Ólafur.
Komið er að tímamótum hjá Ólafi en
eftir ársfund Glímusambandsins síðar í
mánuðinum mun hann láta af störfum.
Ólafur hóf að stunda glímu árið 1986
og segir hann algengt að þeir sem
stunda íþróttina á annað borð eigi erf-
itt með að hætta. „Ekki aðeins er
glíma skemmtileg, heldur er félags-
skapurinn líka góður og eins og í einni
stórri fjölskyldu. Þeir sem byrja að
stunda glímu af alvöru eiga það oft til
að glíma svo áratugum skiptir.“
Oft gengur mikið á þegar fim-
ir glímumenn mætast. Á
þessari mynd úr safni takast á
Bjarni Þór Gunnarsson og
Sindri Freyr Jónsson.
Morgunblaðið/Ómar
Reynir á sam-
hæfingu og
jafnvægi
Þó svo að keppt sé á hörðu gólfi eru slysin sjaldgæf,
enda á að „leggja“ andstæðinginn í glímu og halda
góðu jafnvægi allan tímann.
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is
Ólafur Oddur
Sigurðsson
SÍGILDIR SUNNUDAGAR
Fyrsta flokks
kammertónlist
Sígildir sunnudagar eru klassísk
tónleikaröð þar sem boðið er upp
á fjölbreytt úrval kammertónleika.
Sunnudaga
kl. 17:00 í Hörpu
Víða um heim má finna
ýmis afbrigði af fang-
bragðagreinum. Íslenska
glímusambandið er aðili
að Keltneska fangbragða-
sambandinu þar sem tíu
evrópskar þjóðir og þjóð-
arbrot koma saman til
að viðhalda glímuhefðum
sínum og keppa sín á
milli. Í sambandinu má
t.d. finna fulltrúa frá
Bretaníu, sem glíma á
sína vísu, og Spánverja
frá León-héraði sem
stunda íþróttina lucha
leonesa. „Evrópumeist-
aramót eru haldin á
tveggja ára fresti og er
þar keppt í tveimur gerð-
um fangbragða og síðan í
grein þjóðarinnar sem
hýsir mótið, en hver þjóð
má senda einn keppanda
í hverjum þyngdarflokki,“
útskýrir Ólafur.
Mikilvægur hluti af
menningu og sögu