Morgunblaðið - Sunnudagur - 25.02.2018, Blaðsíða 34
Það er óskaplega gaman að sjá myndirnarverða til,“ segir Guðmundur W. Vil-hjálmsson þar sem við göngum milli lit-
ríkra og fjörlegra myndanna sem hann hefur
skapað. Sýning Guðmundar, Ummyndanir,
verður opnuð í Menningarhúsinu Spönginni í
dag, laugardag, kl. 14. Og á henni eru nær
fimmtíu myndir sem Guðmundur hefur unnið
með í Photoshop-forritinu út frá ljósmyndum
sem hann tók fyrir löngu.
Guðmundur, sem er fæddur árið 1928, er
lögfræðingur að mennt og starfaði lengst af
hjá Eimskipi og Loftleiðum, síðar Flugleiðum.
Hann hefur alla tíð haft mikinn áhuga á listum
og sköpun – þess má geta að hann er bróðir
Thors heitins Vilhjálmssonar – og var hann
einn stofnenda Kammermúsíkklúbbsins fyrir
rúmlega 60 árum og stjórnarformaður klúbbs-
ins frá upphafi og til 2013. Ljósmyndun hefur
lengi heillað Guðmund. „Ég hef verið að gera
myndir síðan ég var ungur og fór að beita
myndavél. Mótíf hafa alltaf kallað á mig, oft
þegar ég er á göngu geri ég svona“ – hann ber
hendina upp að auga og býr til ramma. „Ég sé
svo víða andlit í umhverfinu. Heimurinn leikur
eiginlega við mig.“
Fyrsta sýningin sem Guðmundur átti þátt í
var með merkilegum hópi áhugaljósmyndara
sem kölluðu sig Litla ljósmyndaklúbbinn. Guð-
mundur og þrír aðrir félagar hans héldu þá
sýningu í Bogasal Þjóðminjasafnsins árið 1961
á stórum svarthvítum abstraktmyndum sem
vöktu verðskuldaða athygli. Hann sótti á sín-
um tíma námskeið há listmálurum eins og Jó-
hannesi Geir og Valtý Péturssyni og gerði
nokkuð af því að mála myndir. En síðustu árin
hefur Guðmundur verið heillaður af mögu-
leikum tölvutækninnar við úrvinnslu á mynd-
um eins og hann sýnir nú, og hefur sýnt áður, í
sal Grósku árið 2013.
Endalausir möguleikar
„Ég prófa ýmislegt þegar ég vinn í mynd-
unum, hafna sumu en held áfram með annað.
Ég get alltaf snúið aftur í frummyndina,“ segir
Guðmundur til skýringar á vinnuferlinu þar
sem þeir Helgi Hafliðason, félagi hans úr
Kammermúsíkklúbbnum, eru að hengja verk-
in upp í sýningarsalnum í Spönginni.
„Myndirnar byrja allar á ljósmyndum sem
ég á og hef skannað inn. Svo eru möguleik-
arnir endalausir.“ Hann tekur upp prent af
einni ljósmyndinni sem hann hefur unnið með.
„Ég held ég hafi á sínum tíma tekið myndina
einhvers staðar við höfnina því mér sýndist
vera andlit í þessu. Ég tók myndir af mörgu
sem mætti kalla „ómerkilegt“,“ segir hann og
brosir. „Náttúran er full af abstrakt myndum.“
Í litríkum myndverkunum má víða sjá móta
fyrir andlitum og fígúrum. Leitar Guðmundur
sérstaklega eftir því þegar hann spinnur út frá
ljósmyndunum í tölvunni?
„Þarna er hellisbúi,“ segir hann, bendir á
eina myndina og sá náungi blasir við. „Ég sé
alltaf einhverja möguleika þegar ég byrja, það
eru andlit eða spennandi form. Sjáðu, þessi
heitir Leikur við landið. Í henni vinn ég með
landslagsmynd sem ég tók á ferðalagi um
Vestfirði. Og myndina við hliðina kalla ég Hér
hvíla fórnarlömb Sýrlands. Þar er búið að
moka mold yfir grafir,“ segir Guðmundur um
dökka hauga í rauðleitum hringformum.
„Það er óskaplega munur að vera kominn
með alla þessa liti í tölvuna,“ segir hann síðan
en hér áður fyrr lék hann sér með liti í fljót-
andi vatnslit. „Þetta er afskaplega spennandi,
að vera við tölvuna og sjá sífellt nýja mögu-
leika og passa að hafa jafnvægi í myndunum,
sem ég vona að hafi tekist sæmilega. Þessi
þarna er frá Halloween. Og þarna er stúlka í
sumarbústað sem er að hita upp máltíð og allt í
einu er allt logandi!“
Guðmundur gefur mörgum myndanna heiti
sem eru eins og lyklar fyrir áhorfendur. Aðrar
kallar hann fönsun en það orð notaði Svavar
Guðnason á sínum tíma yfir mörg abstrakt-
verka sinna.
„Fönsun er ansi gott orð en aðrar myndir
hafa heiti. Þessi heitir Læknar án landamæra
kanna aðstæður. Titlarnir koma yfirleitt á eftir
en auðvitað hugsa ég um ýmislegt meðan ég
geri myndirnar.
En það er furðulegt hvað Photoshop getur
leyft manni að breyta miklu í styrk og litum,
bara með einni aðgerð. Þetta er ævintýri og
hefur gefið mér afskaplega mikið.
Ég gerði talsvert af því í gamla daga að taka
ljósmyndir beint niður í sjóinn af formum,
þessar myndir hér tengjast því. Það eru óend-
anlegir möguleikar í því hvernig má taka ljós-
mynd…“
Tölvan og leikgleðin
Það er mikil tónlist, dans og hljómfall, í þess-
um verkum Guðmundar og hann segir það
ekki skrýtið, myndir og tónlist fari saman í
höfðinu á sér. Og þá er honum mikilvægt að
sýna verkin opinberlega.
„Það er mikilvægt, fyrir egóið ef vel
gengur, en líka til að sýna að þetta er mögu-
leiki fyrir fólk sem er að eldast. Alveg magn-
aður möguleiki. Það þarf ekkert nema
tölvuna og kerfið – og leikgleðina. Hún er
prímus mótor í þessu. Það er gaman að geta
glaðst yfir hverri einustu línu sem manni
finnst sitja rétt í myndunum. Það er óskap-
lega mikils virði að halda áfram að sjá og
skapa, að halda við þessu spilverki í höfð-
inu.“
„Það er óskaplega mikils virði að halda
áfram að sjá og skapa,“ segir Guðmundur
W. Vilhjálmsson um myndverkin sem hann
sýnir. Helgi Hafliðason stillir verkin af.
Morgunblaðið/Einar Falur
Heimurinn leikur við mig
„Þetta er ævintýri og hefur
gefið mér afskaplega mikið,“
segir Guðmundur W.
Vilhjálmsson um vinnuna við
litrík myndverkin út frá
ljósmyndum sem hann opnar
sýningu á í Menningarhúsinu
Spönginni í dag.
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is
’ Þetta er afskaplega spenn-andi, að vera við tölvunaog sjá sífellt nýja möguleika ogpassa að hafa jafnvægi í
myndunum, sem ég vona að
hafi tekist sæmilega. Þessi
þarna er frá Halloween. Og
þarna er stúlka í sumarbústað
sem er að hita upp máltíð og
allt í einu er allt logandi!Fönsun - eitt verka Guðmundar á sýningunni.
LESBÓK Ljósmyndarinn Pétur Thomsen mun á sunnudag kl. 14 leiða gestiListasafns Íslands um sýninguna Leikreglur en á henni eru ný verk eftir
Elinu Brotherus, einn kunnasta samtímaljósmyndara Norðurlanda.
Pétur talar um verk Brotherus
34 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 25.2. 2018