Morgunblaðið - 24.03.2018, Qupperneq 34
34 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 24. MARS 2018
✝ Skúli Sveins-son fæddist í
Hvannstóði á
Borgarfirði eystra
22. janúar 1962.
Hann varð bráð-
kvaddur á heimili
sínu, Borg á
Bakkagerði, 4.
mars 2018.
Foreldrar hans
voru Anna Björg
Jónsdóttir frá
Geitavík, f. 13.7. 1920, d.
30.12. 2002, og Sveinn Bjarna-
son frá Bakkagerði, f. 3.10.
1917, d. 27.5. 2003, bændur í
Hvannstóði.
Skúli var yngstur tíu systk-
ina. Hin eru: Geirlaug, f.
11.10. 1942, maki Sveinn Jó-
hannsson, f. 20.9. 1935;
Ágústa, f. 31.12. 1943, maki:
Helgi Eyjólfsson, f. 22.9. 1925,
d. 23.6. 2008; Bjarni, f. 12.7.
1945; Páll, f. 17.7. 1947, d.
20.10. 1986; Jón, f. 2.7. 1949,
barnsmóðir Freyja Jónsdóttir,
próf og var hreindýraleið-
sögumaður.
Eftir að skyldunámi lauk lá
leiðin á sjóinn þar sem hann
vann bæði sem háseti og
stýrimaður á skipum og tog-
urum víða á Austurlandi.
Einnig var hann með eigin
bátaútgerð um tíma. Á 10.
áratugnum keypti hann Gisti-
heimilið Borg og síðar Sjáv-
arborg og rak þar gistiþjón-
ustu til dauðadags.
Undanfarin sumur starfrækti
hann veitingasöluna Já sæll í
Fjarðarborg með vinum sín-
um. Jafnframt því var hann
leiðsögumaður með hrein-
dýraskyttum, fór í trússferðir
til Loðmundarfjarðar, Víkna
og fleiri staða. Einnig sá
hann um að halda minknum í
skefjum í Borgarfjarðar-
hreppi til fjölda ára.
Skúli var virkur félagi í
Björgunarsveitinni Sveinunga
á Borgarfirði. Hann var góð-
ur bridsspilari og tók þátt í
mörgum keppnum.
Útför Skúla fer fram frá
Bakkagerðiskirkju í dag, 24.
mars 2018, klukkan 14.
f. 15.1. 1969; Ingi-
björg, f. 2.5. 1954,
sambýlismaður
Björn Pálsson, f.
23.5. 1957; Karl, f.
9.4. 1956, maki
Margrét Braga-
dóttir, f. 9.8. 1959;
Bóthildur, f. 21.1.
1958, maki Bern-
ard Gerritsma, f.
14.4. 1959; Guð-
rún Hvönn, f.
15.10. 1959.
Skúli ólst upp í stórum
systkinahópi í Hvannstóði á
Borgarfirði eystra. Þar tók
hann þátt í almennum sveita-
störfum með foreldrum sínum
og systkinum. Hann gekk í
grunnskólann á Borgarfirði
og lauk skyldunámi með ein-
um vetri í Alþýðuskólanum á
Eiðum, vorið 1978. Síðar lá
leiðin í Stýrimannaskóla Ís-
lands og tók Skúli þaðan
stýrimannapróf 1986. Auk
þess tók Skúli leiðsögumanna-
Elsku frændi minn.
Mikið ofsalega er ég leið yfir
því að þú hafir farið svona
snemma frá okkur. Mér finnst
óraunverulegt að hugsa til þess
að ég muni ekki hitta þig aftur.
Mér finnst erfitt að tala um þig
í þátíð og ég vildi óska að ég
væri megnug um að færa þig
aftur til okkar. Ég þykist vita
að ég tali fyrir hönd allra Borg-
firðinga og annarra vina þegar
ég segi að Borgarfjörður verð-
ur ekki sá sami án þín. Það
misstu allir mikið þegar þú
fórst, þú varst hluti af daglegu
lífi hjá svo mörgum og þín er
og verður sárt saknað um
ókomna tíð.
Það var enginn eins og þú og
ég meina það á góðan hátt af
því að þínir líkar gera lítið sam-
félag fjölbreytt og skemmtilegt.
Þú gafst krydd í tilveruna.
Eftir að pabbi hringdi í mig
og sagði mér að þú værir dáinn
þá helltust yfir mig minning-
arnar um þig í gegnum öll árin
sem ég hef þekkt þig. Sama fal-
lega minningin kom upp í hug-
ann hjá okkur báðum systrum,
þegar þú bauðst okkur með þér
upp í Hérað að ná í lítinn hvolp
sem þú ætlaðir að fá þér, hann
Depil. Veðrið skartaði sínu feg-
ursta og við vorum svo ótrúlega
spenntar yfir því að þú værir
að fá þér annan hund. Takk
fyrir að taka okkur með, litlu
frænkurnar þínar. Þú hringdir
oft í mig, stundum til þess eins
og spyrja mig hvernig ég hefði
það, stundum til þess að spyrja
mig um hundana eða jafnvel
þegar þú varst bara að velta
hinu og þessu fyrir þér, eins og
þegar þú varst viss um að
mamma væri kommúnisti. Sím-
tölin áttu öll það sameiginlegt
að vera stutt og hnitmiðuð,
enduðu sjaldnast með kveðju
en alltaf endaði ég með bros á
vör. Ég man eftir því þegar ég
var lítil og þú vannst krafta-
keppni á sjómannadaginn úti í
Höfn, ég var svo ótrúlega stolt
af því að þú værir frændi minn.
Öll þessi skipti sem þú hermdir
eftir skyldmennum mínum og
hvað þér fannst það fyndið í
hvert einasta skipti. Og svo
þessi skipti þegar gullmolarnir
ullu upp úr þér upp úr eins
manns hljóði og úr öllu sam-
hengi á þeim tíma og ég skildi
ekki neitt frekar en nokkur
annar, þá gastu verið að taka
þátt í samtali sem átti sér stað
deginum áður. Þú varst svo
ótrúlega fyndinn.
Ég mun sakna þess að búa
ekki aftur til kaffi latte handa
þér sem aldrei var nógu heitt,
ég skil það ekki enn hvað þú
gast drukkið heitt kaffi.
Ég mun sakna þess að heyra
„Barabb“ rjúfa kyrrðina á fal-
legu kvöldi heima þegar þú
ákvaðst upp úr þurru að herma
eftir Kjalla á leið þinni niður
götu.
Ég mun sakna þess að þú
klappir mér á kollinn með stóru
höndunum þínum, brosir til mín
og spyrjir mig að því hvað
Litli-Goggur segi.
Æi Skúli minn, mikið vildi ég
óska að við hefðum getað haft
þig lengur hjá okkur. Minning-
arnar eru margar og þær munu
lifa áfram þó að þú sért farinn.
Þú varst engum líkum, góð-
menni með stórt hjarta.
Þinn Litli-Goggur,
Hallveig Karlsdóttir.
„Sæll gæskur. Fæ ég gist-
ingu í nótt? Ég verð kannski
seinn.“
Við frændi sötrum morgun-
kaffið. Ég spyr frétta að heim-
an, það er lítið um svör því
hann er annars hugar og léttar
brosviprur skjótast örsnöggt
um andlitið. Ég spyr ekki frek-
ar, við þegjum saman. Það er
gott að þegja með Skúla, ég
stilli á sömu rás, það er enginn
asi. Allt í einu iðar hann í sæt-
inu, hlær og geldur mér kaffið
með vel úthugsaðri setningu
sem verður eftir í loftinu þegar
hann kveður, ef hann þá kveð-
ur. Gamli Patrol skilar frænda
aftur heim í fjörðinn fagra, en
ég brosi út í annað löngu eftir
að rykið sest á holóttum Borg-
arfjarðarveginum. Borgfirskur
húmor af bestu gerð.
Skúli var í raun meira en
bara móðurbróðir okkar Árbæj-
arsystkina eða „Árbæjarsafns-
ins“, eins og hann kallaði okkur,
var á sama reki og við þrjú
elstu systkinin og frá fyrstu tíð
leikfélagi okkar og vinur. Ró-
legur og yfirlætislaus, en gat
tekið vel á og lét engan eiga
inni hjá sér. Hann hafði sterka
nærveru, bar ekki tilfinningar
sínar á torg, en var á sinn hátt
mjög húmorískur og sérstakur
karakter. Skúli bar sterkan svip
af erfðum sínum og umhverfi,
var náttúrubarn og einkar
glöggur á litbrigði hennar.
Hann var seinn til máls og
hefur trúlega liðið fyrir það á
unglings- og fullorðinsárum, en
sýndi það snemma hversu glúr-
inn hann var í stærðfræði og
snöggur að reikna í huganum.
Þó að hefðbundin grunnskóla-
ganga hafi verið Skúla brösótt
munstraði hann sig í Stýri-
mannaskólann og útskrifaðist
þaðan árið 1986. Hæfileikinn til
að höndla með stærðir og tölur
í huganum nýttist honum vel í
spilamennskunni. Hann var
bridsspilari af lífi og sál og lét
ekki „smámuni“ eins og slæma
veðurspá halda sér frá brids-
mótum og þeim góða félagsskap
sem hann fann þar.
Aðspurður hvað hann væri
helst að fást við svaraði hann
gjarnan: „Ja, ég er nú með
mörg járn í eldinum.“ Og það
var hann. Auk þess að reka
gistiheimili á Borg og Sjávar-
borg, trússa ferðamenn um fjöll
og firnindi rak hann veitinga-
staðinn Já sæll ásamt félögum
sínum. Hann var einnig hrein-
dýraleiðsögumaður, stundaði
minka- og refaveiðar og skrapp
á sjóinn ef svo bar undir. Skúli
var virkur þátttakandi í björg-
unarsveitinni Sveinunga og æv-
inlega tilbúinn að aðstoða hvar
sem þörf var á.
Borgarfjörður án „Borgar-
stjóra“ er ekki samur. Við mun-
um sakna þess að hann kíki
ekki í kaffi, rifji upp bernsku-
brekin og hermi góðlátlega eft-
ir sveitungunum. Skilji jafnvel
eftir skondið tilsvar við eldhús-
borðið þegar hann kveður, eins
og honum einum var lagið.
Vafalaust munu setningar eftir
honum hafðar, lifa áfram í hug-
um samferðafólksins, kannski
„aðeins lagfærðar“ að hans
mati. Skúla þótti þeir fara mis-
vel með það sem eftir honum
var haft, en sagði sjálfur að
góðar sögur ættu ekki að
gjalda sannleikans.
Fráfall Skúla slær ættingja
hans, vini og samfélagið á
Borgarfirði af miklum þunga. Í
fámennum byggðarlögum er
hver einstaklingur svo mikil-
vægur og sérhver hlekkur er
slitnar úr keðjunni skilur eftir
sig djúpt og mikið skarð.
Trússið hans Skúla er ekki
þungt eða plássfrekt núna, en
þeim mun verðmætara. Að
ávinna sér traust, vináttu og
virðingu samferðamanna sinna
er dýrmætara en allur verald-
legur auður eða titlar.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum)
Þorkell (Keli), Bjarni
(Baddi), Ósk og Anna.
Við Skúli vorum jafnaldrar
og frændur og fylgdumst að frá
fyrstu tíð, þrátt fyrir að við
byggjum hvor í sínum enda
sveitarinnar á Borgarfirði,
hann innst í firðinum og ég yst.
Mæður okkar, þær Anna Björg
í Hvannstóði og Margrét á
Snotrunesi, voru systkinabörn
og vinkonur.
Minningar og myndir leita á
hugann þessa dagana og munu
gera áfram um ókomna tíð.
Við erum pollar og ég er í
heimsókn í Hvannstóði, við
stöndum við bæjarlækinn og
hann kallar á silunginn eins og
lamb, sem kemur samstundis
fram undan bakkanum og hann
gefur honum maðk. Ég skil
ekki hvernig þetta er hægt.
Það er komið vor, hann
stendur við gluggann með kík-
inn á lofti og finnur straumand-
arhópinn á sjónum, jú þarna er
hún komin enn eina ferðina,
bliköndin sjaldgæfa sem heldur
sig vera straumönd.
Hann gengur meðfram ánni
með byssu um öxl og stung-
ureku í annarri hendi, minka-
hundarnir hans hlaupa í kring-
um hann með nefið niður við
jörðina og dingla skottinu af
ákafa.
Það er laugardagur, hann
hlakkar til að fá félaga sína í
heimsókn á Borgina, það er að
byrja leikur, hans uppáhalds
lið, Liverpool, er að spila og
„Borgarstjórinn“ er á heima-
velli.
Það er komið sumar, ég
mæti honum á götunni á
Bakkagerði, hann stingur út
hausnum og segir: Sæll, gæsk-
ur, hvað segirðu? Hann gefur
sér tíma til að stoppa og spjalla
þótt nú sé mikill annatími hjá
honum, trússkerran er kominn
aftan í Patrolinn hans, hann er
á leiðinni á Víkur og í Loð-
mundarfjörð.
Ég sé þá koma niður hlíðina
í Gunnhildardalnum, það er sól
og blíða í Húsavíkinni og hann
hefur bundið grænu flís-
peysuna um mittið, með riff-
ilinn í hægri hendi og fjarlægð-
armæli og kíki dinglandi um
hálsinn. Bróðir minn er honum
samferða, hreindýraeftirlits-
maðurinn er sáttur að sjá.
Það er komið haust, við sitj-
um í skurðbakkanum og bíðum
eftir næsta flugi. Ég horfi á
hann og sé að hann brosir með
sjálfum sér og ég hugsa um
hvað hann skyldi nú vera að
hugsa. Ég spyr hann samt ekki,
því að ég vil ekki að hann haldi
að ég sé eins forvitinn og sumir
Nesmenn!
Skúli var stór karakter, ekki
steyptur í sama mót og flestir,
hann var mjög frændrækinn og
félagslyndur. Öllum sem kynnt-
ust Skúla vel þótti vænt um
hann, enda var hann góðhjart-
aður og vildi öllum vel. Líklega
þótti okkur svona vænt um
hann vegna þess að hann var
„orginal“ og reyndi aldrei að
vera eitthvað annað en hann
sjálfur.
Brotthvarf hans er bæði
óréttlátt og ótímabært og
skarðið er sannarlega stórt sem
þessi einstaki frændi minn skil-
ur eftir sig í litla samfélaginu á
Borgarfirði, þar sem hann var
einn af mikilvægustu hlekkjun-
um, ekki síst félagslega.
Ég kveð minn góða vin og
sendi systkinum hans og
frændfólki mínu frá Hvannstóði
innilegar samúðarkveðjur, sem
og öllum vinum hans og fé-
lögum á Borgarfirði.
Vertu sæll, gæskur,
Egill Eiðsson.
Allir sem flækst hafa um
Víknaslóðir eða annast þar
skálavörslu kannast við Skúla
Sveinsson. Jeppinn hans með
trússkerruna í eftirdragi hefur
verið þar jafn öruggur þáttur í
tilverunni og sjálf Austfjarða-
þokan. Öll þessi sumur sem við
hjónin höfum dvalið sem skála-
verðir á Víkunum eða í Loð-
mundarfirði hefur eitt helsta
tilhlökkunarefnið verið að fá
hann Skúla í heimsókn. Það
mátti stóla á að þegar hann var
búinn að skila af sér pinklum
og pjönkum ferðalanga settist
hann inn í skálavarðarhúsið hjá
okkur og fékk sér kaffi. Og
lummur. Hann borðaði alveg
ofsalega mikið af lummum,
bókstaflega raðaði þeim í sig á
meðan hann ræddi um landsins
gagn og nauðsynjar. Sem var
gott, það var gaman að gefa
Skúla að borða.
Skúla Sveinssyni kynntumst
við fyrst í gegnum sameigin-
lega vini sem reka sumarveit-
ingastað í félagsheimilinu
Fjarðarborg. Ekki var laust við
að fyrst í stað hafi hann verið
örlítið tortrygginn í okkar garð
en eftir því sem heimsóknunum
á Boggann fjölgaði varð vin-
áttan alltaf sterkari. Það voru
forréttindi að fá að teljast til
vina þessa öðlings. Launfynd-
inn og ljóngáfaður. Og sann-
kallað náttúrubarn.
Á hreindýraveiðum var svo
Skúli í essinu sínu. Þar fór
saman ótrúleg þekking á svæð-
inu og djúpur skilningur á at-
ferli bráðarinnar. Það var
magnað að fylgjast með honum
koma auga á dýr í margra kíló-
metra fjarlægð þegar sam-
ferðamennirnir sáu aðeins
grjót. Og þegar læðst var að
dýrunum var enginn tími fyrir
glens eða spjall, taugarnar
þandar til hins ýtrasta og suss-
að hvasst á þá sem ekki fóru
nægilega hljóðlega. Þegar
bráðin hafði verið felld varð
Skúli svo kampakátur á ný.
Nú er Skúli sjálfur fallinn
frá, langt fyrir aldur fram. Það
er bæði óumræðilega sorglegt
og fullkomlega óraunverulegt.
Við héldum einhvern veginn að
Skúli yrði alltaf þarna. Svona
eins og Dyrfjöllin. Hann var
einfaldlega órjúfanlegur hluti
af staðnum.
Við heimsækjum áfram Vík-
urnar og steikjum sem aldrei
fyrr þessi lifandis ósköp af
lummum fyrir Skúla. Þótt í
sumar eigi jeppinn hans og
trússkerrann kannski ekki eftir
að skrölta um holótta heiðavegi
þessa landsvæðis sem á engan
sinn líka vitum við að andi
Skúla verður þar yfir og allt
um kring um ókomna tíð.
Ástvinum Skúla og Borgfirð-
ingum öllum vottum við okkar
dýpstu samúð. Við söknum
kærs vinar.
Sveinn H. Guðmarsson,
Þórhildur Ólafsdóttir.
Fyrir skömmu barst sú sorg-
arfregn að okkar gamli skóla-
félagi og vinur, Skúli Sveins-
son, hefði látist langt um aldur
fram. Við kynntumst Skúla
haustið 1978 þegar við fórum í
Alþýðuskólann á Eiðum til að
ljúka skyldunáminu eins og það
var þá kallað. Í Eiða komu
krakkar úr sveitunum á Héraði
og fjörðunum þar í kring og
breyttust úr börnum í unglinga.
Í þessum hópi voru meðal ann-
ars strákar frá Borgarfirði sem
urðu okkar helstu félagar og
vinir og var Skúli einn þeirra.
Það kom fljótt í ljós, þó að
hann léti ekki alltaf mikið yfir
sér og sumt í náminu sæktist
honum ekki vel, að hann var
skarpgreindur. Það kom ber-
lega í ljós þegar við fórum að
tefla við hann svo ég tali ekki
um bridsinn sem hann og hinir
Borgfirðingarnir kenndu okkur
bræðrum. Líklega fóru margir
flatt á því að vanmeta Skúla
þegar sest var tafli og spilum.
Skúli reyndist líka vera
skemmtilegur og góður dreng-
ur. Sá sterki þráður sem mynd-
aðist á Eiðum slitnaði aldrei og
héldum við sambandi alla tíð.
Heimsóknir og bíóferðir með
Skúla þegar hann brá sér til
höfuðborgarinnar eru eftir-
minnilegar og einnig símtölin
þar sem upphaflegt erindi
kannski gleymist en kom í
næsta símtali.
Við minnumst Skúla með
mikilli virðingu og hlýju. Með
þessum orðum færum við þér,
kæri vinur, okkar hinstu kveðj-
ur. Innilegar samúðarkveðjur
til aðstandenda og allra Borg-
firðinga, þið hafið misst mikið.
Þínir skólafélagar og vinir,
Guðjón (Gaui) og
Kristinn (Krilli).
Elsku kallinn minn.
Ég held að þú hefðir aldrei
getað ímyndað þér hvað þín
yrði sárt saknað. Það hefur
myndast mikið og stórt skarð í
litla samfélagið okkar hér á
Borgarfirði þar sem þú varst
svo stór hluti þess.
Þú varst sá sem var alltaf á
rúntinum, stundum á þremur
mismunandi bílum á sama
klukkutímanum. Stundum með
kerru, stundum með hundana
og oftast með byssuna.
Þú varst sá sem kíkti við á
allar kaffistofur þorpsins, þú
kíktir í heimsókn í flest hús
allra íbúa, varst með gistiheim-
ilið, trússið, hreindýraskytturn-
ar, skaust minka, varst með í
Já sæll og með kostgangara.
Eins varstu með hálfgert
samkomuhús fyrir strákana
heima á Borg til að horfa á fót-
bolta eða bara til að koma sam-
an.
Þú varst sá sem skildi eftir
síma, lykla og tvö súkku-
laðistykki (til að milda mig) í
bílnum mínum þó svo ég væri
búin að segjast ekki geta haft
símann. Þú varst sá sem ég
mátti skammast í. Þú varst sá
sem æddi inn og baðst um að fá
lánaðan hárlit. Þér fannst vond
lykt af ilmvatninu mínu. Þér
fannst ég frek. Þú tókst vel eft-
ir því hvort ég hefði grennst
eða þyngst. Þú bauðst mér á
rúntinn til að skoða skrítinn
fugl. Þú kenndir mér orðin
gæska, peysa (kona) og trefill
(karl).
Þú ert sá sem við tölum mest
um og við eigum klárlega eftir
að halda því áfram. Það er fátt
skemmtilegra en að segja sög-
ur af þér, elsku Skúli.
Skúli Sveinsson
Veist þú hvert eignir þínar renna eftir þinn dag?
Kynntu þér málið á heimasíðu okkar, www.útför.is.
Þar getur þú m.a. sett inn þínar forsendur
í reiknivél. Við aðstoðum þig við gerð
erfðaskrár, kaupmála og við dánarbússkipti.
Katla Þorsteinsdóttir,
lögfræðingur
Við erum til staðar
þegar þú þarft á
okkur að halda
Útfararþjónusta
& lögfræðiþjónusta
Með kærleik og virðingu
Útfararstofa Kirkjugarðanna
Vesturhlíð 2, Fossvogi | Sími 551 1266 | útför.is