Morgunblaðið - 14.05.2018, Blaðsíða 26

Morgunblaðið - 14.05.2018, Blaðsíða 26
26 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 14. MAÍ 2018 unum og áratugunum. Pinklun- um fækkaði nokkuð og þeir létt- ust eftir því sem fæturnir gáfu sig. Þegar kom að því að staf og síðar hækjur þurfti til að komast leiðar sinnar um miðbæinn og einhver bauðst til að útvega honum túristatösku með hjólum og útdraganlegu handfangi í staðinn fyrir axlatöskurnar tók hann því fálega. Í staðinn kom hann við í Brynju á Laugaveg- inum og keypti húsgagnahjól sem hann skrúfaði undir þyngstu pinklana á eldhúsborð- inu heima á Tjarnarengi. Eitt- hvað reyndust gömlu axlatösk- urnar á nýju hjólunum óþægar í taumi og vildu stefna í aðrar átt- ir en hann sjálfur, en það gerði ekkert til, hann fór sér bara hægar. Við Ketill fórum í marga ævintýraleiðangra að hans frum- kvæði. Einu sinni fórum við í jeppaferð upp í Bleiksárdal í Esju að leita að helli sem Ketill var sannfærður um að leyndist í dalnum. Hann taldi víst að áin sem rann undan fjallinu innar- lega í dalnum hefði grafið út helli í aldanna rás. Engan fund- um við hellinn en ferðin var eft- irminnileg og segir allt sem segja þarf um þann ævintýra- heim sem Ketill lifði og hrærðist í. Annað sinn skruppum við upp í Borgarnes að skoða gamla númerslausa rútu sem Ketill hafði áhuga á að kaupa og bæta í flota númerslausra bíla á hlaðinu á Tjarnarengi. Ketill safnaði fleiru í kring um sig á Tjarnarengi. Frægasti safngrip- urinn var strætisvagninn sem hann kom fyrir í garðinum og lét moka og tyrfa yfir. Neðan- jarðarstrætó í garðinum lýsir Katli betur en flest annað. Svo voru það smáhýsin og kofarnir. Hann lét traktorsgröfu grafa fyrir þeim í holtið fyrir ofan Tjarnarengi og skírði þá viðeig- andi nöfnum. Ég man eftir nokkrum; Gróðurhúsið, Lysti- húsið og Bankinn. Það var mikil hvíld að setjast niður með Katli yfir kakóbolla og vöfflu, hvort sem það var á Mokka, í Ey- mundsson á Skólavörðustig eða í Ráðhúsinu. Að setjast niður í amstri hversdagsins með við- skiptin á bakinu og hlusta á ævintýrin sem engum takmörk- um voru háð og lutu engum lög- málum. Ekki einu sinni þyngd- arlögmálinu því að allir hlutir gátu flogið í huga Ketils Larsen. Maður gekk léttum skrefum frá fundi með Katli, og vandamálin virtust auðleystari. Það er stundum sagt að það komi mað- ur í manns stað, en kennileiti miðbæjarins er horfið og það skarð verður aldrei fyllt. Það kemur enginn í staðinn fyrir Ketil Larsen, og miðborg Reykjavíkur verður fátækari um alla framtíð. Einar Eiríksson. „Ég er Inúk maðurinn. Þetta er snjóhúsið mitt. Það er hlýtt og notalegt, þegar hríðin geisar dag eftir dag og engir geta verið úti nema hundarnir.“ Með þessum orðum byrjaði Ketill sýninguna okkar INÚK í 231. skipti. Hún var samin fyrir skólana á Íslandi og leikinn á öllum skólastigum, frá barna- skóla upp í háskóla, og erlendis í 36 borgum 19 þjóðlanda Evrópu og Mið- og Suður-Ameríku. Ketill var stjarnan. Það var mikið snjallræði hjá Brynju Benediktsdóttur leikstjóra að fá hann til þessa starfs. „Hann var meistari að herma eftir fuglum og jafnvel furðuskepnum. Sem barn undi hann sér úti í móa og talaði tímum saman við mófugla á þeirra máli. Hann hafði lokið námi í Þjóðleikhúsinu 1967 en ekki enn fengið neitt bitastætt hlutverk“ (Brynja og Erlingur. Fyrir opnum tjöldum, bls.168). Við hin, Kristbjörg Kjeld, Helga E. Jónsdóttir, Þórhallur Sigurðsson og Brynja, vorum öll starfandi leikarar og leikstjórar við Þjóðleikhúsið, og með í öllum ferðum var Þorlákur Þórðarson tæknimaður. Textann skrifaði Haraldur Ólafsson mannfræð- ingur. Það reyndi auðvitað mikið á hópinn á öllum þessum ferðalög- um og sýningum við ýmsar að- stæður. Ketill var engum líkur. Ef upp komu einhver vandamál hafði hann lausnina á reiðum höndum. Hann bar alltaf tösku um öxl og varð meira að segja að hafa hana í augsýn á sýn- ingum. Við höfðum það á tilfinn- ingunni að í henni væri að finna allt sem hægt væri að nota við óvæntar aðstæður, hlý föt, kannski gúmmíbátur og fallhlíf. Við vorum á leiðinni upp að Bifröst að sýna í Samvinnuskól- anum. Börnin okkar höfðu feng- ið að fara með og eitt þeirra gubbaði yfir Helgu í bílnum. Þá dró Ketill upp úr töskunni hvíta, síða nærbrók og stoppað var í Botnsskála. Helga kom síðan svífandi til baka á skyrtu og brók og mætti þannig á áfanga- stað. Ketill var stöðugt skrifandi og teiknaði endalaust í litlar bækur, sem hann geymdi í tösk- unni góðu. Í viðtali við útvarpið 1.4. 2016, í tilefni af einni af fjölmörgum málverkasýningum hans, Blóm frá öðrum heimi, sagði hann: „Það er nóg af vondum verkum í heiminum og ekki þarf að mála myrkrið.“ Veitingahús í Vene- súela. Ketill situr einn við borð og teiknar. Dauf birta. Hann dregur kerti upp úr töskunni og kveikir á því. Eftir skamma stund hafa allir gestir beðið þjóninn um kerti og salurinn ljómar. Úr viðtali við Ketil í Morg- unblaðinu 5. apríl 2008: Blaðamaður: Hvað í samfélag- inu gerir þig dapran? Ketill: Að Íslendingum komi ekki nógu vel saman. Eyða of miklum tíma í óþarfa vesen og þras. Það væri betra ef þeir byrjuðu á því að syngja saman í þinginu áður en vinna hefst. Tala nú ekki um ef þeir tækju upp á því að dansa gömlu dans- ana. Blaðamaður: Hverjir eru styrkleikar þínir? Ketill: Ég held þeir felist í hugarfluginu. Ef maður hefur bjartan huga þá er það eins og himinn sem hægt er að mála á fallegar myndir. Blaðamaður: Hvað langaði þig að verða þegar þú varst lítill? Ketill: Ég ætlaði að verða læknir og flugmaður, svo breytt- ist það en samt breyttist það í raun ekki. Ég geri þetta tvennt í huganum, að fljúga og lækna. Sumir eru þannig að þá má lækna með því að segja eitthvað skemmtilegt. Ég held að ég sé feginn því að vera ekki dr. Ket- ill. Við Inúk félagarnir sendum börnum og ástvinum Ketils okk- ar innilegustu samúðarkveðjur. Hann var góður, einstakur maður. Helga E. Jónsdóttir, Kristbjörg Kjeld, Þórhallur Sigurðsson. Ég kveð að sinni kæran vin, Ketil Larsen, mikinn mannvin og friðarins manneskju. Heill og þakkir fyrir áratuga vinskap og fjölskylduvináttu, lærdómsrík kynni og glaðar stundir. Fyrst í Ananda Marga fyrir rúmum þrjátíu árum, svo á Snæfellsásmótum og myndlist- arsýningum. Margt skemmtilegt var spjallað um listir, andleg mál, náttúrulækningar, heilun, jurtir og flest mannleg málefni í heimsóknum, símtölum og svo líka í bílferðunum til og frá Þingvöllum á sumarblót. Hvorki fyrr né síðar hef ég kynnst neinum með jafn mikið fljúgandi sköpunarflæði á mörg- um sviðum samtímis og af sinni stöku hógværð var samt efst í huga að allir aðrir, börn sem fullorðnir gætu notið sín, þrosk- að og notið sinna hæfileika. Þannig var Ketill. Í samskiptum við fólk gerði hann engan mun þvert á lífs- skoðanir, trú aldur eða stöðu og vitna ég í dóttur mína Sigur- björgu Ösp að þau börn sem ekki hefðu upplifað eða kynnst Katli Larsen hefðu farið á mis við svo mikið; fyndna leikþætti, söng, töfra, Tóta trúð og skrýtn- ar dæmisögur og lífið hefði verið eitthvað skrítið án þess. Ég votta fjölskyldu og vinum Ketils innilega mína samúð. Góðar minningar lifa um ein- stakan mann. Jónína Kristín Berg. Ketill, vinur minn til 55 ára, er látinn eftir erfið veikindi. Við kynntumst er ég mætti á fund í Leikhúsi æskunnar og þekkti engan. Hann gaf sig á tal við mig og þá þegar var hann farinn að laða að sér ungt fólk. Við náðum strax vel saman þótt aldursmunur væri nokkur. Við vorum svo í mörg ár í þessu áhugamannaleikfélagi og fórum m.a. til Þýskalands með því á vegum Æskulýðsráðs Reykja- víkur. Þarna unnum við saman í nokkur ár. Hann var þar hús- vörður og sá um nokkra klúbba. Hann vann líka með börnum í reiðskólanum í Saltvík á Kjal- arnesi á sumrin. Þar hafði hann ofan af fyrir þeim m.a. með því að segja þeim sögur og alls kon- ar ævintýri, sem hann spann upp jafnóðum. Börnin voru spennt að hlusta á framhaldið. Ketill útskrifaðist frá Leik- listarskóla Þjóðleikhússins 1967. Hann vann um tíma þar og er eftirminnilegastur sem tungulip- ur uppboðshaldari í söngleiknum Oklahoma. En merkast var þó þegar hann lék inúíta í leikritinu Inúk, sem var um menningu inúíta á Grænlandi. Þessi sýning var alveg mögnuð og var farið með hana í leikför um fjölmörg lönd. Efast um að nokkur önnur sýning hafi farið jafn víða. Ketill vildi fremur starfa óháður að list sinni, sem fólst í að skapa þekkta karaktera eins og Tóta trúð, en hann skemmti sem slík- ur í fjölda ára. Hann var fasta- gestur sem jólasveinninn Aska- sleikir og muna margir eftir honum á Austurvelli og víðar. Katli var margt til lista lagt og samdi ljóð og málaði mál- verk, sem flest áttu að vera í einhverjum undraveröldum og mjög litrík. Hann hélt fjölda málverkasýninga, bæði hérlend- is og erlendis. Hann var góður vinur vina sinna og var alltaf velkominn í heimsókn. Hann var af dönskum ættum, faðir hans var Axel Lar- sen, en móðir hans Helga Lar- sen, löngum kennd við Engi við Vesturlandsveg. Um árabil fór hann á hverju ári til Danmerk- ur. Hann ferðaðist einnig víða um lönd og fór einu sinni í kringum hnöttinn að mestu einn síns liðs. Ketill var ekki allra. Hann var skapmikill og átti það til að móðgast, því stundum var hann misskilinn listamaður. Kímnigáf- an var aldrei langt undan og Ketill var oftast í essinu sínu að gantast. Mest fannst mér gaman að því þegar hann talaði tungum og bjó til einhver tungumál, sem líktust t.d. frönsku eða rúss- nesku í framburði og bullaði eitthvað, söng hástöfum og skipti ört um lög. Hann hafði ágætis söngrödd. Ketill hafði alltaf gaman af mannlegum samskiptum og fór iðulega á puttanum um landið. Það var ekki af því að hann kynni ekki að keyra bíl heldur af því að honum fannst svo gaman að kynnast og tala við fólk á leiðinni. Það var ekki hægt að ganga með Katli í miðborginni án þess að hann væri að heilsa fólki. Hann sat oft löngum stundum á Mokka og var þá mög oft að semja eitthvað eða skissa upp myndverk. Það er vel við hæfi að jarðarförin skuli fara fram frá Dómkirkjunni. Samúðarkveðjur til ástvin- anna, barnanna Hólmfríðar, Sól- veigar og Ívars, einnig Ólafar móður þeirra og barnabarna. Blessuð sé minning Ketils Larsen. Hann var engum öðrum líkur. Harpa Jósefsdóttir Amin. … og svo legg ég til að Árni verði formaður rútubílanefndar, sagði Ketill fyrir margt löngu, sennilega haustið 1968, að Frí- kirkjuvegi 11 á fyrsta fundi Salt- víkurhópsins sem starfaði síðan um veturinn, hópur 40-50 barna sem höfðu verið þátttakendur í sumarstarfinu í Saltvík um sum- arið. Þetta fannst 11 ára dreng bera vott um gríðarlegt traust og gerði sitt besta til þess að sjá til þess að rútumál Saltvíkur- hópsins yrðu í góðu lagi, sem varð eins og hjá öllum hinum krökkunum sem öll höfðu hvert og eitt mikilvæg hlutverk. Ketill var æskulýðsfrömuður í víðasta skilningi þess orðs og hafði á þessum tíma og síðar verið dug- legur að sækja námskeið í æsku- lýðsmálum, m.a. hjá samtökum danskra félagamiðstöðva, Ung- domsringen, enda bar allt starf hans á vettvangi æskulýðsmála vott um fagmennsku og djúpa þekkingu á eðli starfsins, ekki síst mikilvægi hópastarfs. Starf- semi sem byggðist á sjálfsefl- ingu einstaklinga og hvata til virkrar þátttöku í leik og starfi og ekki síst að láta málefni þeirra sem minna mega sín, eða standa höllum fæti, sig varða. Allt hans starf á þessum árum bar keim af þessu og verkfærin til að ná þessum markmiðum voru mörg, leiklistarhópar, opið starf og klúbbastarf. Viðfangs- efnin margvísleg, margt brallað og ævintýrin endalaus. Vett- vangur reynslu og þroska, nám í víðasta skilingi þess orðs hjá fjölmörgum börnum og ung- mennum. Enda svo að margt vel virkt ungmennið á honum mikið að þakka, m.a. sá sem þetta rit- ar. Að hafa fengið tækifæri til þess að vera honum samferða um stund í leik og starfi var ómetanlegt og fyrir það er ég ákaflega þakklátur. Minning um hrekklausan mann, einstakan mannvin, sem leitaðist ávallt við að ganga til góðs og láta gott af sér leiða lifir. Börnum hans og fjölskyldu votta ég mína dýpstu samúð. Árni Guðmundsson. Fallinn er Ketill nú frá, farinn til himnanna ríkis. Mörg er hans minning hjá mannfólki jarðar ríkis. Leikari af lífi og sál, lipurt sagði hann frá. Leit ekki lífsins tál, en lifandi hans sköpunarþrá. Lék hann og málaði, skrifaði og söng, sagði frá lifandi draumum, hans ævi var orðin erfið og löng og erfitt að fylgja nýjustu straumum. Ef átti einhver vinur erfitt og bágt oft átti hann huggun og ráðin, hjálpsemi Ketils horfði ekki lágt, hans var göfgin og dáðin. Mörgum unglingi meitlaði braut máttug hans orð, þeim í huga. Að nóttu var lokið hans lífsins þraut líkaminn hætti að duga. Til friðar, hans sálarleið liggur, lifandi framkvæmdasaga, leikarinn lífinu tryggur, lofaður alla daga. Vinarkveðja, Björn Finnsson. Ketill Larsen ✝ MagdalenaJóna Steinunn fæddist í Vatnsdal í Rauðasands- hreppi 7. febrúar 1926. Hún lést 3. maí 2018. Hún ólst upp í Vatnsdal, næst- yngst í hópi 14 barna hjónanna Ólínu Andrés- dóttur húsfreyju, f. 23.9. 1883, d. 4.9. 1959, og Ólafs Einarssonar Thoroddsen, skipstjóra, kennara og bónda í Vatnsdal, f. 4.1. 1873, d. 17.11. 1964. Systkini hennar voru: Sigríður, Þorvaldur, Svava, Birgir, Einar, Una, Arndís, Bragi, Ólafur, Eyjólfur, Stefán, Auður og Halldóra. Einnig átti hún tvo hálfbræður samfeðra, Odd og Kjartan. Magdalena giftist árið 1958 Þorvarði Kjerúlf Þorsteinssyni, f. 24.11. 1917, d. 31.8. 1983, deildarstjóra í samgöngu- ráðuneytinu og síðar sýslu- manni, lögreglustjóra og bæj- arfógeta á Ísafirði. Dætur Magdalenu og Þor- varðar eru Ólína Kjerúlf, f. 8.9. 1958, þjóðfræðingur og fv. al- þingismaður, og Halldóra Jó- hanna, f. 23.11. 1959, sóknar- prestur og prófastur. Ólína Kjerúlf er gift Sigurði Péturssyni, f. 13.6. 1958, sagn- fræðingi. Börn þeirra eru: 1) Þorvarður Kjerúlf, f. 1975, gift- ur Erlu Rún Sigurjónsdóttur, þeirra börn eru Daði Hrafn, Jökull Örn og Sædís. 2) Saga, f. 1982, í sambúð með Guðmundi Jóhanni Óskarssyni, þeirra sonur er Sigurður Benjamín. 3) Pétur, f. 1983. 4) Magdalena, f. 1985, gift Garðari Stefánssyni. Þeirra dætur eru Guð- björg Lóa og Gunnhildur. 5) Andrés Hjörvar, f. 1994, unnusta hans er Katrín Björg Hjálmarsdóttir. Halldóra Jó- hanna er gift Sigurjóni Bjarna- syni skólastjóra, f. 17.9. 1959. Börn þeirra eru: 1) Þorvarður Kjerulf, f. 1982, hans kona er Kristín Lena Þor- valdsdóttir, f. 1982, og þeirra synir Óttar Kjerulf og Kári Kjerulf. 2) Sigurjón Bjarni, f. 1988, sambýliskona hans er Sara Margrét Ragnarsdóttir. 3) Vésteinn, f. 1994, sambýlis- kona hans er Marieke Huuren- kamp. Magdalena settist í Hús- mæðraskóla Reykjavíkur einn vetur en sigldi síðar til Svíþjóð- ar og nam við blaðamannaskóla í Stokkhólmi. Heim komin starfaði hún sem blaðamaður á Tímanum og Morgunblaðinu og ritstýrði ýmsum tímaritum. Hún var ein af stofnendum kvikmyndaklúbbsins Filmíu og félagi í kvæðamannafélaginu Iðunni í áratugi. Magdalena og Þorvarður bjuggu um tíu ára skeið á Ísa- firði á meðan hann var þar sýslumaður. Eftir fráfall Þor- varðar 1983 hóf hún nám í ís- lenskum bókmenntum við Há- skóla Íslands. Eftir hana liggja ýmis ritverk og ljóð, bæði birt og óbirt. Útför Magdalenu verður gerð frá Háteigskirkju kl. 13 í dag, 14. maí 2018. Hún kvaddi í mildu vorhreti. Hafði dagana á undan dáðst að fuglum í hreiðurgerð og grósku jarðar. Sátt við guð og menn mætti hún skapara sínum eftir langa og góða ævi. Hún gekk inn í ljósið lauguð tárum okkar, þakklæti og ást, og englarnir lögðu hvíta blæju á vorþíða jörð. Með móður okkar er gengin stórbrotin kona, skáldhneigð og tilfinningarík. Ástrík ættmóðir. Höfðingi í fasi og lund. Sannkall- aður ættarstólpi. Hún bar uppeldi sínu vitni, al- in upp á menningar- og rausn- arheimili þar sem dugnaður og heiðarleiki voru veganesti barnanna út í lífið. Þeim arfi skilaði hún áfram til afkomenda sinna, óf hann saman við sögur og minningar frá Vatnsdal, þar sem ort var og sungið og lífs- reglurnar lagðar með orðum og athöfnum. Hún var fulltrúi þeirra dýrmætu gilda að bera virðingu fyrir öðrum, sýna hlý- leika og vináttu, vera sönn í orði og verki og raungóð manneskja. Þegar mamma var að alast upp þótti ekki sjálfgefið að kon- ur færu til mennta. Það gerði hún þó. Eftir Húsmæðraskóla Reykjavíkur fór hún til Svíþjóð- ar í blaðamannaskóla og starfaði heimkomin sem blaðamaður, ein af fáum Íslendingum sem þá höfðu aflað sér menntunar á því sviði. Ritfærni hennar og máltil- finning duldist engum enda var oft til hennar leitað um greina- skrif og ritgerðir löngu eftir að hún var hætt störfum. Eftir að foreldrar okkar giftu sig tók mamma að sér húsmóðurhlutverkið á heimilinu, nema auðvitað ef kosningar voru í nánd, því þá hafði Framsókn- arflokkurinn forgang. Við systur minnumst bernskustunda á kosningaskrifstofum „flokksins“ þegar við undum við að lita og teikna meðan hún sinnti flokks- starfinu. Mamma var nefnilega samvinnumaður að hugsjón og aðeins 16 ára gömul þegar hún gekk til liðs við Framsóknar- flokkinn. Við skyndilegt fráfall föður okkar 1983 sýndi mamma hvað í henni bjó. Hún fór að læra á bíl og tók bílpróf. Því næst skráði hún sig í Háskóla Íslands og hóf þar nám í íslenskum fræðum þar sem bókmennta- og ljóðaást hennar fékk að njóta sín til fulls. Var hún þar á heimavelli, svo víðlesin og skáldmælt sem hún sjálf var. Ljóð voru í sérstöku uppáhaldi, og þó að sjóndepurð hafi hrjáð hana á efri árum var bót í máli að ógrynni þeirra kunni hún utanbókar. Mamma var einstök kona og eftirminnileg öllum sem henni kynntust. Skarpgreind og athug- ul til síðustu stundar fylgdist hún með dægurmálum og deiglu samfélagsins. Alltaf sjálfri sér samkvæm í stóru sem smáu og fundvís á það sem gladdi og var gefandi. Hún umvafði og elskaði fólkið sitt og fylgdist grannt með því sem var að gerast í lífi af- komendahópsins. Gladdist með okkur á góðum stundum, styrkti og huggaði í armæðu og sorgum, ævinlega hollráð og raungóð. Að alast upp við slíkt atlæti er mikil gjöf. Elsku mamma, auðnudjásn þín glóa, ævi þinnar lýsa gengna braut; á vegi þínum vænir laukar gróa, þó varðaður sé bæði líkn og þraut. Móðir kær við eigum gjöf að gjalda sem goldin aldrei verða mun til fulls, en nýta munu niðjar þúsundfalda og njóta, þótt ei metin sé til gulls. (ÓKÞ) Blessuð sé minning þín. Ólína og Halldóra Þorvarðardætur. Við kveðjum stjúpu okkar Maddý í dag með þakklæti og hlýju. Það var alla tíð gott samband á milli fjölskyldunnar á Kiðafelli og fjölskyldunnar á Miklubraut. Magdalena Thoroddsen

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.