Morgunblaðið - Sunnudagur - 27.05.2018, Blaðsíða 18
H
ún ber prinsessutitil enda af
ætt konungs en saga hennar
er erfið. Barn að aldri flúði
hún úr dreifbýlinu til höf-
uðborgarinnar, Kampala, í
von um betra líf. Bar niður hjá frænku sinni í
einu fátækrahverfanna en hraktist þaðan eftir
að eiginmaður frænkunnar misnotaði hana
kynferðislega. Þá var ekki um annað að ræða
en að selja líkama sinn á götunni til að draga
fram lífið. Eins og svo margar stúlkur í Kam-
pala. Síðan komst Mariam Nandawula inn í
smiðju sem Hjálparstarf kirkjunnnar tekur
þátt í að reka, þar sem hún lærði saum, hár-
greiðslu og fleira. Í dag saumar hún og selur
kjóla, sér um jafningjafræðslu um kynheil-
brigði af miklum áhuga í sjálfboðavinnu og
fleira í hverfinu sínu, auk þess að eiga barn og
mann. Loksins brosir lífið við henni.
„Mariam er staðfesting á því að þetta starf
skilar árangri,“ segir Kristín Ólafsdóttir,
fræðslu- og upplýsingafulltrúi Hjálparstarfs
kirkjunnnar. „Þegar ég kom fyrst til Kampala í
fyrra, er við hleyptum verkefninu af stokk-
unum, hitti ég hana og þá var hún alls ekki á
góðum stað í lífinu. Það var því kærkomið að
hitta hana aftur núna í vor og sjá breytinguna
sem orðið hefur á henni. Hún er frjálsleg, lífleg
og örugg í fasi. Mariam er ekki bara sjálf kom-
in á beinu brautina í lífinu, heldur orðin leiðtogi
í hverfinu og farin að miðla reynslu sinni og
þekkingu til annarra. Tvítug að aldri. Þannig
hefur starfið keðjuverkandi áhrif.“
60% atvinnuleysi
Afríkuríkið Úganda er eitt af fátækustu ríkj-
um heims en meðalaldur íbúa er aðeins sextán
ár. Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðabank-
anum er atvinnuleysi meðal ungs fólks hvergi
meira í heiminum en um 60% unga fólksins í
Úganda eru án atvinnu.
Ástandið er alvarlegast í höfuðborginni
Kampala en þangað streymir ungt og oftast
ómenntað fólk úr sveitum landsins í von um
betra líf. Margra þeirra bíður hins vegar að
kúldrast í fátækrahverfum þar sem neyðin
rekur þau til að ganga í glæpagengi eða selja
líkama sinn til að geta séð sér farborða. Börn
og unglingar í höfuðborginni eru því útsett fyr-
ir misnotkun af ýmsu tagi og eymdin leiðir til
þess að þau verða auðveldlega fíkniefnum að
bráð.
Hjálparstarf kirkjunnar vinnur með Lúth-
erska heimssambandinu (LWF) og Ugandan
Youth Development Link (UYDEL) að því að
bæta lífsmöguleika þeirra sem búa við sárustu
fátæktina í fátækrahverfum Kampala og gefa
þeim tækifæri til þess að skapa sér farsælt líf.
UYDEL-samtökin hafa rúmlega tuttugu ára
reynslu af því að vinna með ungu fólki í fá-
tækrahverfum í borgum og bæjum í Úganda.
Þau reka smiðjur þar sem unglingarnir geta
valið sér ýmis svið til að öðlast nægilega hæfni
til að verða gjaldgeng á vinnumarkaði. Boðið
er upp á nám í tölvuviðgerðum og almennri en
einfaldri rafvirkjun, fatasaum og fataprjón,
töskugerð, sápugerð, hárgreiðslu og förðun,
eldamennsku og þjónastarfi. Kennt er fyrir há-
degi en frístundastarf og íþróttir ráða ríkjum
eftir hádegi. Allir dagar hefjast á leik og dansi.
Samtökin leitast svo við að unga fólkið fái
starfsnemastöður í fyrirtækjum sem oft leiða
til atvinnutækifæra. „Það er mjög gott fram-
tak þarna á ferðinni og ánægjulegt fyrir okkur
að geta tengst því. Safnast þegar saman kem-
ur,“ segir Kristín.
Tekið opnum örmum
Að sögn Kristínar er andrúmsloftið í smiðj-
unum mjög gott enda líta margir á þær sem
ávísun á ný tækifæri og betra líf. „Okkur hefur
verið tekið opnum örmum. Aðferð fé-
lagsráðgjafa UYDEL er sú sama og aðferð fé-
lagsráðgjafa Hjálparstarfsins sem aðstoða fólk
í félagslegri neyð á Íslandi: Að stuðla að sterk-
ari sjálfsmynd krakkanna, aukinni virkni og
verkfærni svo þau geti séð sér farborða á
mannsæmandi hátt,“ segir Kristín.
Hjálparstarfið hóf stuðning við starfið fyrir
ári en markmiðið er að aðstoða 1.500 börn og
ungmenni á aldrinum 13-24 ára á þrem árum
eða um 500 á ári. „Við viljum að unga fólkið fái
þjálfun sem gefur þeim betri möguleika til að
fá störf og að þau geti komið undir sig fót-
unum. Þau fá svo líka fræðslu um kynheil-
brigði og rétt sinn til heilbrigðisþjónustu,“ seg-
ir Kristín.
Hún hefur kynnst mörgum börnum og ung-
mennum í ferðum sínum til Kampala og til
marks um örbirgðina nefnir hún dreng sem
ganga þarf í tvo klukkutíma í skólann á morgni
hverjum með handfylli af hnetum í nesti.
Kristín nefnir líka dreng sem var í afbrotum
en rekur nú sína eigin farsímaviðgerðarþjón-
ustu eftir að hafa lært til verka. „Oft þarf ekki
mikið til að hjálpa þessum krökkum að rétta úr
kútnum. Þess vegna er þetta starf svo þakk-
látt,“ segir hún.
Tæplega 70% þátttakenda í verkefninu árið
2017 voru stúlkur og flestir voru á aldrinum
15-19 ára. Að sögn Kristínar var gott samstarf
við samfélagsleiðtoga um það hvaða unglingar
þyrftu helst á aðstoð að halda og einnig við
einkafyrirtæki sem buðu unga fólkinu í starfs-
nám eftir námið í smiðjunum. Verkefnið er til
þriggja ára og kostar um 33 milljónir króna,
þar af greiðir utanríkisráðuneytið 80% en
Hjálparstarfið safnar fyrir afganginum.
Fylgjast með á Facebook
Vel gengur að fylgjast með framvindu verkefn-
isins, að sögn Kristínar, meðal annars með ár-
legri eftirlitsferð, framvinduskýrslum og á
samfélagsmiðlinum Facebook. Þá hafa fé-
lagsráðgjafarnir ytra mikinn áhuga á sam-
bærilegum verkefnum hér heima.
Anna Nabylua, félagsráðgjafi og aðstoð-
arframkvæmdastjóri UYDEL, sem stýrir
Kampalaverkefni Hjálparstarfsins, hefur ára-
langa reynslu af starfi með börnum og ungling-
um sem eru í viðkvæmri stöðu í samfélaginu og
útsett fyrir mansali og annarri misnotkun.
Hún segir að til þess að ná bestum árangri í
starfinu hafi reynslan kennt að farsælast sé að
virkja unglingana og efla sjálfsmynd þeirra
með því að fá þeim viðráðanleg verkefni sem
samt séu krefjandi. Hún leggur ríka áherslu á
að unglingarnir læri um rétt sinn til heilbrigð-
isþjónustu og um kynheilbrigði.
Kampalaverkefnið er nú nálægt því að vera
hálfnað og Kristín segir vel koma til greina að
halda því áfram til lengri tíma. Það verði skoð-
að þegar þar að kemur. „Við erum rosalega
stolt af þessu verkefni!“
Þar sem neyðin
er stærst ...
Í fátækrahverfum Kampala, höfuðborgar Úganda, eru mörg börn
og ungmenni föst í fjötrum vændis og glæpa. Öðruvísi hafa þau
ekki í sig og á. Hjálparstarf kirkjunnar stendur nú að verkefni í
Kampala þar sem unga fólkið fær tækifæri til að læra iðn og freista
þess þannig að koma undir sig fótunum og lifa betra lífi.
Myndir: Þorkell Þorkelsson thorkelsson@gmail.com
Texti: Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
Vatnið sækja íbúarnir í sameiginlega brunna sem eru í misgóðu ásigkomulagi.
Morgunstarfið í smiðjunum hefst með sameiginlegum dansi eða hreyfingu.
Í fátækrahverfum Kampala býr fólk við ömur-
legar aðstæður. Þar er engin sorphirða, ekk-
ert rennandi vatn innandyra og rafmagn er af
skornum skammti. Húsin eru hálfköruð og
hriplek. Fólkið býr þröngt og við mikla fátækt.
HJÁLPARSTARF
18 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 27.5. 2018