Morgunblaðið - Sunnudagur - 29.07.2018, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - Sunnudagur - 29.07.2018, Blaðsíða 16
VIÐTAL 16 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 29.7. 2018 Hjónin segjast hafa hingað til haldið sig í grennd við Norðurlöndin. „Við höfum siglt mikið í kringum Danmörku og eyjarnar þar, farið bæði suður fyrir í fjónska eyjahafið og norður fyrir í Kattegat. Líka niður til Þýskalands. Við höfum líka siglt vatnaleiðina þvert í gegnum Svíþjóð. Mest höfum við þó siglt í sænska skerjagarðinum og upp með allri aust- urströnd Svíþjóðar. Við fáum eiginlega ekki nóg af því. Það er svo ótrúlega fallegt umhverfi. Og við eigum mikið eftir, Eystrasaltið er svo stórt. Við stefnum á Álandseyjar og svo Finnland, Gotland, baltnesku löndin og Rússland. Mögu- leikarnir eru óþrjótandi. Við siglum á daginn og finnum svo fallega höfn og leggjum við bryggju á kvöldin, eða í fallegri vík þar sem við getum lagst við akkeri eða ból. Við gistum alltaf í bátn- um og sofum hvergi betur,“ segir Tinna. Bátsmaður, stýrimaður og kokkur Hvernig er að vera svona tvö ein saman? „Það er auðvitað áskorun líka,“ segir Tinna og hlær. „Maður kynnist maka sínum á nýjan hátt en ekki bara honum, maður kynnist sjálfum sér líka á nýjan hátt við aðstæður sem þessar. Mað- ur er í raun mest að takast á við sjálfan sig þeg- ar á reynir,“ segir hún. Er eitthvað sem kom þér á óvart við Egil eða sjálfa þig, Tinna? „Við erum bæði lausnamiðuð og það hefur komið okkur þægilega á óvart. Við göngum í vandann og tökumst á við hann af skynsemi og án allrar örvæntingar, enda í raun ekki annað í boði úti á rúmsjó. Egill er líka alveg ótrúlega lunkinn við vél og búnað skipsins, ég hef horft á hann full aðdáunar takast á við ýmsar uppá- komur af þrautseigju og yfirlegu – en auðvitað getur ýmislegt komið upp á og hlutir ganga úr sér, eins og við höfum reynt. Svo erum við bæði handlagin og vel liðtæk í öllu viðhaldi,“ segir Tinna. „Tinna er mun lausnamiðaðri en ég, það verð ég að segja, hún gefst aldrei upp og ég gæti ekki siglt bátnum án hennar, það er á hreinu. Við þurfum að vinna saman eins og smurð vél og það hefur lukkast hingað til,“ segir Egill „Við erum bæði ákveðin og tiltölulega stjórn- söm og það hefur gerst í gegnum tíðina að við höfum verið ósammála eins og gerist hjá öllum. En úti á sjó treysti ég algjörlega á Egil, þó að ég sé stundum pirruð á því að hann sé að skipa mér fyrir og þegar mikið er í gangi og mikið í húfi geta skipanirnar orðið svo margar að ég bara hringsnýst á punktinum. Einhverju sinni man ég að ég horfði á hann í örvæntingu og með tár- in í augunum og sagði að þetta gengi bara ekki, ég yrði að komast í „hvíldarinnlögn“ eða eitt- hvað. Ég man ekki hvort hann beinlínis hló að mér, en síðan þá hefur þetta orðið að brandara okkar á milli, enda ekkert í boði að gefast upp. Það er bara einn skipstjóri um borð og þannig verður það að vera,“ segir Tinna. „Já, já, en hann ber allt undir áhöfn sína og ber mikla virðingu fyrir bátsmanni og stýri- manni,“ segir Egill. „Einmitt, ég sé yfirleitt um plottið, sem skipstjórinn tekur út og ég er stýri- maður á meðan Egill sér um segl og svo er ég kokkurinn, gleymdu því ekki,“ segir Tinna og brosir til Egils. „Já og ég þakka ávallt og ævinlega fyrir af- bragðs mat um borð í Sjófuglinum,“ svarar Eg- ill bljúgur. Að sigla um sjö höf Í sænska skerjagarðinum er mikið af skerjum og mikið í húfi að plotta allt vel fyrir fram og fylgja því að sögn þeirra hjóna. „Svo er það þessi stöðuga vakt; veður, vindar, umferð annara skipa og báta, straumur, alda, stefna. Þetta er full vinna og krefst algerrar ein- beitingar allan tímann,“ segir Tinna. „Svo er það seglabúnaðurinn, þetta er allt með gamla laginu á Sjófuglinum, segl dregin á höndum og öll bönd og hnútar þurfa að halda og frágangur ekki með neinu sleifarlagi og allt þarf að yfirfara reglulega, splitti, boltar, blakkir, bönd,“ bætir Egill við og blaðamaður veit ekki hvað öll þessi orð þýða en áttar sig á vinnunni sem þessu fylgir. „Þetta er heilmikil vinna, maður er dauð- uppgefinn að kvöldi. Það kemur fyrir að ég er að hífa og slaka sama seglinu margsinnis yfir dag- inn, með rám og öllu,“ segir Egill. Fjölskyldan mætt og tilbúin í siglingu. Ólafur Egill, Tinna, Gunnur von Matern, Gunnlaugur Egilsson og börnin fyrir framan eru Tinna Vigdís og Þór, svo Egill og Egill Ólafsson yngri og fyrir framan þá er Amy Her- dís Antonsdóttir og Eyja Ólafsdóttir. Við hlið þeirra er Ellen Erla Egils- dóttir og Esther Talía Casey. Egill og Tinna segja fátt skemmtilegra en að fá barnabörnin með á Sjófuglinn. Hér eru þau Tinna Vigdís Gunnlaugsdóttir og Þór Gunnlaugsson með afa og ömmu. Ljósmynd/Gunnur von Matern

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.