Jökull - 01.12.2003, Blaðsíða 69
Jöklarannsóknafélag Íslands
miklu hærri en venjulega. Þörf er á að varpa ljósi á
hvaða aðstæður verða til þess að hlaupi úr Gengissig-
inu.
11. Ferðin flutti kjarnabor, bræðslubor, eldsneyti og
annan búnað vegna borunar í íshellu Grímsvatna sem
fram fór vikurnar tvær á eftir vorferðinni.
Landsvirkjun lagði að venju til snjóbíl og bílstjóra
og Hjálparsveit Skáta í Hafnarfirði útvegaði vörubíl til
flutninga á eldsneyti og öðrum búnaði gegn greiðslu á
kostnaði við bílinn. Er þessum aðilum þakkað þeirra
framlag.
Haustferð
Á Vatnajökul var farið í haustferð eins og undanfarin
ár. Þátttakendur voru 11. Ferðin stóð dagana 12.–
16. september en hluti hópsins fór þó til byggða degi
fyrr. Í fyrsta sinn síðan 1993 var hægt að fara upp
Tungnaárjökul að haustlagi en hann er nú farinn að
sléttast eftir framhlaupið 1994–1995. Vitjað var um
ísskriðs- og afkomustikur en þeim hefur farið mjög
fjölgandi á Vatnajökli síðustu ár, ekki síst í kringum
Gjálp og Grímsvötn. Gengið var frá hæðarmæli á ís-
hellu Grímsvatna fyrir veturinn auk þess sem dittað
var að rannsóknastöðinni á Grímsfjalli. Tungná var
það mikil að glapræði hefði verið að reyna að fara
hana einbíla. Því fór fyrri hluti hópsins til byggða um
Skálafellsjökul í fylgd vélsleða sem sóttu varahluti í
bilaðan bíl á Grímsfjalli. Bilaðir bílar og viðgerða-
basl hefur löngum verið fylgifiskur jöklaferða og má
búast við að svo verði einnig í framtíðinni.
Sporðamælingar
Sporðar voru mældir á 46 stöðum árið 2002. Á
sumum jöklanna er mælt á fleiri en einum stað svo
fjöldi mældra skriðjökla var 32. Af þessum jöklum
ganga fjórir fram, aðrir hopa eða standa í stað. Af
þeim fjórum sem ganga fram eru tveir á Tröllaskaga
en hinir tveir eru Reykjarfjarðarjökull í Drangajökli
og Heinabergsjökull. Í Reykjarfjarðarjökli er fram-
hlaup en Heinabergsjökull liggur í lóni og óvíst að
framskiðið tákni þykknun jökulsins. Hin hlýju ár frá
1995 reynast jöklunum þung í skauti. Mælingamenn
eru fjölmargir en umsjón með sporðamælingum hefur
Oddur Sigurðsson.
Afkomumælingar
Raunvísindastofnun Háskólans og Landsvirkjun
standa að umfangsmiklum afkomumælingum á Vatna-
jökli og Langjökli en Orkustofnun á Hofsjökli og
Þrándarjökli. Hluti mælinganna á Vatnajökli er unnin
í ferðum félagsins og leggur það fram vinnu og að-
stöðu. Afkoma jökla er nú léleg eins og fram kom
í umfjöllun um sporðamælingar. Ekki varð af fyr-
irhugaðri ferð til afkomumælinga á Mýrdalsjökli á
vegum félagsins. Vonir standa til að af henni geti
orðið nú í vor og að slík mæling verði hluti af ár-
legum rannsóknum félagsins. Mýrdalsjökull er mjög
áhugaverður í jöklafræðilegu og veðurfarslegu tilliti
en liggur utan áhugasvæða orkufyrirtækja. Þar getur
Jöklarannsóknafélagið bætt úr málum í samvinnu við
áhugasama vísindamenn.
Veðurathuganir á jöklum
Eins og undanfarin ár ráku Landsvirkjun og Raun-
vísindastofnun nokkrar veðurstöðvar á Vatnajökli og
Langjökli samhliða afkomumælingum til að fylgjast
með tengslum veðurþátta og leysingar. Hluti vinnunn-
ar við þessar stöðvar fer fram í ferðum félagsins.
Íssjármælingar
Raunvísindastofnun og Landsvirkjun unnu áfram að
íssjármælingum á suðausturhluta Vatnajökuls en von-
ast er til að hægt verði að ljúka kortlagningu botns
Vatnajökuls með því átaki sem nú er í gangi.
Borun í Grímsvötnum
Að aflokinni vorferð fór hópur vísindamanna undir
forystu Þorsteins Þorsteinssonar í Grímsvötn til djúp-
borunar á íshellu Grímsvatna. Hópurinn vann við bor-
anir í um 10 daga og náði niður á rúmlega 100 m dýpi.
Tekinn var kjarni og hann mældur og greindur á staðn-
um. Í ljós kom að öskulögin í Grímsvötnum eru farar-
tálmi fyrir kjarnabora af þessari gerð og fékkst mikil-
væg reynsla til viðbótar við fyrri verkefni á Langjökli
og Hofsjökli. Mikilsvert er að kjarnaboranir séu hafn-
ar á ný í íslenskum jöklum og vill Jöklarannsóknafé-
lagið styðja við þessar rannsóknir eftir megni. Mikil-
vægi borana fyrir loftslags- og eldgosasögu er ótvírætt
og rétt að minna á það mikla afrek sem unnið var með
borun 415 m holu í Bárðarbungu 1972.
JÖKULL No. 53, 2003 67