Jökull - 01.01.2004, Blaðsíða 139
Gos í Grímsvötnum 1. – 6. nóvember 2004
Freysteinn Sigmundsson og Magnús Tumi Guðmundsson
Jarðvísindastofnun Háskólans, Öskju, Sturlugötu 7, 101 Reykjavík; fs@hi.is, mtg@raunvis.hi.is
Eldgos hófst í Grímsvötnum að kvöldi 1. nóvember,
2004. Lokaaðdragandi og upphaf gossins greindist
vel á jarðskjálftamælum, en snörp jarðskjálftahrina
hófst um þrem tímum áður en gossprunga opnaðist
til yfirborðs um kl. 22. Eftir það mældist samfelld-
ur gosórói. Rúmum klukkutíma síðar greindist gos-
mökkur sem steig þá í yfir 6 km hæð samkvæmt ratsjá
Veðurstofunnar. Aðalgosstöðvarnar voru í suðvest-
urhorni Grímsvatnaöskjunnar, og þaðan féll aska til
norðurs (1. mynd). Að þessu sinni byrjaði Gríms-
vatnahlaup fyrir eldgosið og virðist það hafa virkað
sem gikkur á eldstöðina og hleypt eldgosinu af stað.
Talið er að hlaupvatn hafi byrjað að renna úr Gríms-
vötnum þann 26. október og 29. október jókst vatns-
magn í Skeiðará. Þannig atburðarás hafði ekki orðið í
Grímsvötnum í sjötíu ár, en gos 1934, 1922 og nokkur
á 19. öld komu í kjölfar Grímsvatnahlaupa (Sigurður
Þórarinsson, 1953; 1974), líkt og nú gerðist. Fróðleik
um eldgosið má m.a. finna á heimasíðum Jarðvísinda-
stofnunar Háskólans (www.jardvis.hi.is), Veðurstofu
Íslands (www.vedur.is), og Jöklarannsóknafélags Ís-
lands (www.jorfi.is).
Eldgosið kom ekki á óvart því ýmis konar for-
boðar þess höfðu greinst. Allt frá síðasta eldgosi í
Grímsvötnum árið 1998 hafði mælst stöðugt landris
á Grímsfjalli sem benti til aukins kvikuþrýstings í
kvikuhólfi undir Grímsvötnum og söfnun kviku þar.
Áætlað landris í miðju Grímsvatnaöskjunnar nam um
5–10 cm/ári og út frá þessum gögnum var ljóst að
farið væri að styttast í næsta gos (Erik Sturkell o.fl.,
2003; Freysteinn Sigmundsson o.fl., 2004). Um mitt
ár 2003 jókst jarðskjálftavirkni í Grímsvötnum og
aukning varð einnig í jarðhita. Síðustu vikurnar fyr-
ir eldgosið mátti síðan enn greina aukningu í jarð-
skjálftavirkni.
Á gosstöðvunum í suðvesturhorni Grímsvatna-
öskjunnar opnaðist stutt gossprunga samsíða öskju-
brúninni sem bræddi um 900 m langan og 700 m
breiðan ketil í ísþekjuna. Sprengivirkni var í öllum
þessum katli í upphafi gossins (myndir 2–4). Í gosinu
myndaðist einnig um 70 m djúp sigdæld rétt austan
við aðalgíginn. Nýr sigketill myndaðist við austur-
jaðar Grímsfjalls og lítilsháttar gjósku gaus úr öðrum
á svipuðum slóðum. Gosmökkur reis hæst í um 13
km hæð og aska barst til norðurs. Í gosinu skiptust á
tímabil mikillar og lítillar sprengivirkni. Þegar gosinu
lauk hafði hlaðist upp gígur í miðjum sigkatlinum í
suðvesturhorni vatnanna (sjá forsíðumynd).
1. mynd. Kort af Grímsvötnum sem sýnir gosstöðv-
arnar og megin gjóskugeirann frá þeim til norðurs.
Hringar eru dregnir utan um sigkatla við austurjaðar
Grímsfjalls þar sem virkni varð einnig vart. Öskju-
útlínur eru merktar með tenntri línu. – Map of the
eruptive site and the main tephra sector. Circles
outline two ice cauldrons at the eastern end of Mt.
Grímsfjall where activity occurred as well.
Ísþykkt á gosstöðvunum fyrir gos var 150–200 m
og rúmmál íss sem bráðnaði yfir gostöðvunum er met-
ið um 0.1 km3. Rúmmál gosefna er áætlað minna en
0.1 km3. Þetta er lítið miðað við það sem gerðist í
Gjálpargosinu 1996 þegar yfir 3 km3 af ís bráðnuðu
JÖKULL No. 54, 2004 139