Breiðfirðingur - 01.04.1942, Side 24
14
BREIÐFIRÐINGUR
Gamall kvöldsálmur
(Séra Jón Thorarensen hefir látið ritinu í té eftirfarandi sálm
og lætur ]>essa athugasemd fylgja:)
Flest börn munu kunna við gamla vers: Svæfillinn minn og
sængin mín o. s. frv. Ólína Andrésdóttir, ömmusystir mín, sagði
mér, að það væri vers úr gömlum kvöldsálmi, sem hún hefði
lært allan af gamalli konu vestur i Eyjum, þegar hún var ung-
lingur. Sagði Ólína mér, að hún hefði síðar aldrei hitt neinn þann,
er kunni sálminn, eða neitt úr honum, nema hið eina alkunna vers.
Sálmurinn er svona:
Veittu mér, Drottinn, værð og ró,
vek mig í réttan tíma þó.
Líkaminn sofi sætt, sem ber.
Sálin og andinn vaki í þér..
Skýl þú mér, þinni skepnukind,
skapari, eftir sjálfs þíns mynd.
Höndin þín nákvæm hjúkri mér
og hlífi við því, sem skaðlegt er.
Svæfillinn minn og sængin mín
sé önnur mjúka höndin þín,
en aðra breið þú ofan á mig;
er mér þá værðin rósamlig.
Blessa þú, Drottinn, bæ og lýð,
blessa oss nú og alla tíð;
blessun þína oss breið þú á;
blessuð verður oss hvíldin þá.