Ljósmæðrablaðið - 01.12.2017, Síða 6
6 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - DESEMBER 2017
Enn eitt annasama árið er að renna sitt skeið og
aldarafmæli félagsins færist nær og nær. Undir-
búningur undir það er löngu hafinn og mun verða
mikið um dýrðir. Meðal annars er áformað að
leggja minningarstein í götuna á Laugavegi þar
sem félagið var stofnað og hefur Reykjavíkur-
borg þegar samþykkt þessa framkvæmd. Einnig
er verið að skrifa nýtt bindi um sögu félagsins
árin 1979 þar til nú og samhliða því mun koma
út nýtt félagatal. Við erum að vinna að tækni-
væðingu félagsins og munu félagar væntanlega
geta sett allar upplýsingar um sig sem þeir vilja
að fram komi í félagatalinu inn í gegnum heima-
síðu félagsins. Svo má ekki gleyma NJF ráðstefnu
sem opnuð verður á afmælisdaginn sjálfan þann
2. maí 2019. Við erum þegar farnar að finna
fyrir miklum áhuga erlendis frá og skipulagning
er komin ágætlega á veg. Af því ég minntist á
tæknivæðingu áðan þá hefur félagið ráðist í gerð
smáforrits eða apps fyrir væntanlega foreldra.
Heiti þess er Ljósan – þegar von er á barni og þegar þetta er skrifað er
stutt í útgáfu þess. Þetta forrit er þýtt og staðfært frá Danmörku þar sem
danska ljósmæðrafélagið og Sundhedsstyrelsen stóðu að útgáfu þess.
Vonumst við til að Ljósan nái góðri útbreiðslu og komi væntanlegum
foreldrum að góðu gagni. Viljum við með þessari útgáfu bæði koma til
móts við verðandi foreldra með góðum og áreiðanlegum upplýsingum
og einnig vekja svolítið athygli á félaginu og ljósmæðrum og vonandi í
jákvæðu ljósi.
Undanfarin ár höfum við stóraukið erlent samstarf og finnum að mikið
er horft til Íslands og þekkingar íslenskra ljósmæðra. Hluti af þessu
starfi er samstarfsverkefni við hollenska ljósmæðrafélagið eða twinn-
ing verkefni. Undirbúningur og umræður um verkefnið hafa staðið hátt
í eitt ár en nú nýverið fékkst fjárstuðningur fyrir hluta verkefnisins og
var ákveðið að slá til og auglýsa eftir verkefnastjóra. Við réðum Edythe
Mangindin til verksins og er verkefnið nú að renna af stað í þessum skrif-
uðu orðum. Enn vantar fleiri ljósmæður í hópinn til að vinna verkefnið
ásamt Hollendingum svo ef einhver hefur áhuga á að koma að þessu og
kynnast alþjóðastarfi, kynnast hollenska félaginu og láta sitt af mörkum
til fagsins þá endilega að hafa samband.
Ég hef lengi haft þá skoðun að það sárvanti ljósmæður í valdastöður
og hef aðallega horft til Íslands í því sambandi. Nú þegar ég hef tekið
þátt í alþjóðastarfinu hef ég hugsað með mér að við þyrftum að eiga
íslenskar ljósmæður í valdastöðum í ljósmæðraheiminum/samfélaginu
t.d. í ICM eða EMA. Við höfum þó búið svo vel að hafa átt íslenskan
forseta NJF undanfarin 10 ár og er það gott og á hugsanlega sinn þátt í
auknum sýnileika okkar íslensku ljósmæðra erlendis. ICM og EMA eru
enn víðtækari samtök en NJF og hafa enn meiri áhrifamátt svo að mín
von og sýn er sú að ungar ljósmæður geti með þátttöku í t.d. samstarfinu
við hollenska félagið lagt grunn að sinni alþjóðavæðingu og hugsanlegri
þátttöku í mikilvægu alþjóðastarfi á vettvangi stórra samtaka.
Annars er allt gott að frétta af félaginu það ber aldurinn vel og heil-
mikil starfssemi fer þar fram. Það helsta eftir áramót er aðalfundur sem er
í mars og svo verður mjög skemmtilegur ráðstefnudagur á Akureyri þann
5. maí á alþjóðadegi ljósmæðra. Auk þess að fara á ráðstefnuna gefst
einnig kostur á að fagna vel 50 ára afmæli Norðurlandsdeildar LMFÍ. Það
er gráupplagt að fara með hollsystrum sínum og/eða öðrum vinkonum og
eiga skemmtilega helgi saman.
Það er alls ekki hægt að slá botninn í þennan
pistil án þess að minnast á yfirstandandi kjaravið-
ræður. Eins og allir vita hefur veri mikil ókyrrð í
kjaramálum undanfarið og skemmst er að minn-
ast gerðardóms og vangoldinna launa ljósmæðra.
Nú ætti Hæstiréttur að fara að kveða upp sinn
úrskurð fljótlega uppúr áramótum ef ekki fyrr.
Það kveður enn við sama tón í kjaraviðræðum.
Sama tal um stöðugleika og rammasamninga og
fyrr og litlar hækkanir í vændum. Sú stefna sem
við í LMFÍ höfum farið í þessum viðræðum er að
leggja áherslu á styttingu vinnutíma og bættan
aðbúnað ljósmæðra t.d. með betri mönnun deilda.
Einnig launatöflubreytingar sem við viljum að
skili 500 þús. kr. lágmarkslaunum. Þessar leið-
réttingar viljum við áður en hægt verður að ganga
að einhverskonar rammasamkomulagi. En það
er alveg ljóst að við ramman reip er að draga
þrátt fyrir að við höfum margítrekað bent á ýmis
augljós vandkvæði t.d. hættu á að ekki sé hægt
að manna stofnanir sem borga hvað verst. Sem dæmi má nefna að sú
stofnun sem greiðir næst lökustu meðallaunin er með um helming ljós-
mæðra 60 ára og eldri og ef ekki verður bætt um betur þar finnst mér
blasa við að erfitt gæti verið að halda úti starfssemi þar eftir 5-10 ár.
Meðalaldur ljósmæðra er almennt hár, helmingur félagsmanna er eldri
en 50 ára.
Ef við lítum til kollega okkar á Norðurlöndum þá hafa þær glímt við
samskonar vanda talsvert lengur en við þ.e. mjög mikið vinnuálag, frekar
léleg laun, vondan vinnutíma og verið er að leggja niður marga minni
fæðingarstaði svo þær upplifa þjónustu við sína skjólstæðinga verri og
hafa auk þess minna val um vinnustaði. Þetta hefur orðið til þess að ljós-
mæður á Norðurlöndum glíma margar við kulnun í starfi og vanlíðan og
talsvert er um að þær gefist upp á vinnunni og snúi sér að öðru. Margar
eru hættar eftir einungis um 10 ár í starfi og varla það. Það er vitað að allt
sem gerist í útlöndum gerist hér á Íslandi að lokum og verð ég svolítið
vör við þetta nú þegar. Til mín hafa leitað ungar ljósmæður sem eru ekki
tilbúnar að vinna svo mikla vaktavinnu sem starf ljósmæðra krefst oftast
nær og þær eru einnig að velta því fyrir sér hvort að það borgi sig að
leggja á sig það erfiði sem fylgir vinnunni. Þá er ótalið það álag á fjöl-
skyldu sem fylgir því að lifa með vaktavinnukonu sem kemur uppgefin
heim úr vinnu og gjarnan búin að gefa alla orku sem hún á til skjól-
stæðinga sinna. Þær hafa verið að velta því fyrir sér hvort þær ættu hrein-
lega að hætta strax eða reyna að þrauka í von um að eitthvað breytist.
Því miður eru ekki mikil teikn á lofti um að eitthvað breytist í bráð
enda heyrist ekki mjög mikið út á við hve vinnuþjakaðar margar ljós-
mæður eru og hve mikið álag er í vinnu. Reyndar á þetta mjög víða
við í heilbrigðiskerfinu öllu og víðtækari breytinga er þörf en bara það
sem akkúrat snýr að ljósmæðrum. En hver veit hvað Katrín, Bjarni og
Sigurður gera, þau boða breytingar á heilbrigðiskerfinu og tala um að
hlúa verði að innviðum þess. Hugsanlega eru þetta ekki bara orðin tóm –
vonandi stokka þau vel upp í kerfinu og þá er eitt alveg víst að ef boðað
er til breytinga sem snúa að okkar störfum þá þarf ég og ljósmæður í
heild að vera tilbúnar að stökkva á vagninn og reyna að hafa þau áhrif
sem við getum.
Að lokum þakka ég öllum ljósmæðrum samstarfið á árinu sem er að
líða og óska ykkur öllum og fjölskyldum ykkar til sjávar og sveita gleði-
legra jóla og farsæls árs 2018.
Áslaug Íris Valsdóttir,
formaður Ljósmæðrafélags Íslands
TILBÚNAR AÐ STÖKKVA Á VAGNINN
Á VA R P F O R M A N N S L M F Í