Ljósmæðrablaðið - 01.12.2017, Qupperneq 21
21LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - DESEMBER 2017
að úr heiminum ferðast til Tennessee til að þjálfast og læra um þessa
einstöku sýn á fæðingu.
Síðastliðinn ágúst tóku sextán einstaklingar þátt í námskeiðinu. Fólk
með ólíkan menningarbakgrunn, trúarbrögð og störf mæta á Advanced
Midwifery námskeið til að læra og fá tækifæri til að umgangast
aðra sem hafa brennandi áhuga á að aðstoða barnshafandi konur og
börnin þeirra. Ljósmæður, ljósmæðranemar, læknar og doulur halda
námskeiðið árlega til að dreifa þekkingu og læra hvernig hægt er að
vinna saman að því markmiði að stuðla að öruggum fæðingum fyrir
allar mæður og börn. Á námskeiðinu er farið yfir fagkunnáttu auk þess
sem mikilvægi snertingar, samúðar, sambanda, innsæis og fjarskynj-
unar í fæðingu er í hávegi höfð. Gerðar voru kröfur um að mæta vel
lesin á námskeiðið, listinn var langur af bókum sem við áttum að vera
búnar að lesa. Eftir að við vorum búnar að glugga í bækurnar var tilfinn-
ing okkar á þá leið að námskeiðið myndi lítið bæta við þekkingu okkar,
en við ákváðum að mæta með opinn huga og leggja áherslu á að fanga
andrúmsloft líðandi stundar.
Umhverfi og andrúmsloft
Eftir langt ferðalag lentum við á flugvellinum í Tennessee þar sem við
vorum sóttar af Juliu Skinner, verkefnastjóra námskeiðsins. Það tók
um það bil 90 mínútur að keyra til The Farm og talaði Julia um geita-
ræktun sína af mikilli ástríðu. Þótti okkur það nokkuð spennandi fyrsta
korterið en eftir 90 mínútna „fræðslu“ um atferli geita var okkur farið
að lengja eftir því að komast á áfangastað. Við aðkomuna á The Farm
voru engin götuljós og sáum við því lítið þegar á áfangastað var komið.
Svefnskálinn okkar hafði verið barnaskóli á áttunda áratugnum. Okkur
var úthlutað hrálegt herbergi sem útbúið var 7 gömlum rúmum á hjólum
sem áttu það til að fara á fleygiferð þegar lagst var í þau. Ein loftkæling
var í herberginu sem hljómaði eins og bitlaus vélsög allan sólarhringinn.
Þetta skipti litlu máli þegar herbergið tók að fyllast af ljósmæðrum og
nemum alls staðar að og var mikið hlegið og spjallað á kvöldin.
Þar sem við komum tveimur dögum áður en námskeiðið hófst,
höfðum við tíma til að skoða okkur um og kynnast umhverfinu. Fyrsti
göngutúrinn var ævintýri líkastur því kyrrðin og umhverfið er eitthvað
sem erfitt er að lýsa með orðum. Dádýr, kanínur, fuglar, hestar og asnar
tóku á móti okkur. Okkur var eindregið ráðlagt að ganga ekki í grasinu
því á þessum árstíma er mikið um skógarmýtil, skröltorma, eitursnáka
ásamt ofgnótt af baneitruðum köngulóm. Ein verslun var á svæðinu,
The Farm Shop, þar sem hægt var að kaupa heita vegan súpu í hádeginu
ef hungur bar að. Þar inni var hver sentimetri fullnýttur til hins ýtrasta
og öllu ægði saman. Þurrkaði mangóinn var við hliðina á heimagerðu
skartgripunum, batik föt á snaga, vegan ís, draumafangarar og svo lengi
mætti telja. Á þakinu á búðinni og þar í kring voru ógrynni af íkornum
sem okkur þóttu voða sætir en heimamenn kvörtuðu iðulega undan. Þar
sem við sátum í rólegheitunum að borða súpu fyrir utan búðina með
ljósmæðranemum frá Bretlandi, sáum við fyrir tilviljun Inu May á leið
sinni að versla. Við kölluðum á hana og spjölluðum stutta stund, en
þetta var eina skiptið sem hún sást á svæðinu þessa vikuna. Þarna fór
hitinn oft yfir 35°C á daginn, en sökum þess vorum við duglegar að
heimsækja “The Swimming Hole” sem var náttúrulegur sundstaður inni
í miðjum skógi umlukinn fallegum gróðri og klettasyllum. Eitt kvöldið
var okkur boðið í sánu með nokkrum konum sem bjuggu á svæðinu.
Ekki er laust við að reynt hafi á að halda andlitinu þegar þær tóku að
syngja fullum hálsi gömul lög um eilífa ást og frið.
Námskeiðið
Fyrsta daginn fengum við kennslu í hvernig framkvæma eigi innri
skoðun með mikilli áherslu á að borin sé virðing fyrir konunni.
Shirley Chisolm, GTA (Gynecological Teaching Associate) sem
vinnur hjá læknaskóla í New Jersey sá um kennslutímann. Starf
hennar felst í því að þjálfa nemendur í læknisfræði, ljósmóðurfræði
og hjúkrunarfræði víða í Bandaríkjunum. Edythe var ein af tveimur
nemendum sem fengu tækifæri til að gera innri skoðun á Shirley
undir hennar leiðsögn. Lögð var mikil áhersla á samskipti, hæfni til
að skapa róandi andrúmsloft og að konan hafi stjórn á aðstæðum. Þá
er skjólstæðingurinn látinn vera í eins uppréttri stöðu og hægt er með
lak yfir sér og spegil í hendi svo hún geti fylgst með skoðuninni. Að
lokum gerði Hulda innri skoðun á Edythe með mikilli virðingu og er
óhætt að segja að farið var langt út fyrir þægindarammann.
Heill kennsludagur fór í fyrirlestur og verklegar æfingar um
saumaskap sem reyndist vera mjög gagnlegur fyrir okkur, en kennd
var sama saumatækni og hér heima. Í fyrirlestrinum var lögð áhersla
á nokkra þætti sem stuðla að gróanda hjá konum sem hafa fengið
spangarrifu, meðal annars að setja nornahesli í bindi, frysta og setja
síðan á auma svæðið eftir að búið er að sauma. Mikil áhersla var
lögð á að skapa afslappandi umhverfi svo að móðirin geti hvílst í
það minnsta 7-10 daga eftir fæðingu og einnig að forðast að sitja
upprétt til að vernda spöngina. Annar kennsludagur var tileinkaður
axlaklemmu og sitjandafæðingum. Pamela Hunt, CPM, Deborah
Flowers, RN, CPM og Joanne Santana, RN, CPM sáu um að leið-
beina okkur þar. Kenndar voru að mestu leyti sömu aðferðir og við
notumst við á Íslandi ásamt nokkrum öðrum góðum ráðum. Einnig
horfðum við á myndbönd þar sem The Farm ljósmæður voru að losa
axlaklemmur og taka á móti börnum í sitjandastöðu. Okkur fannst
það merkilegt að á árunum 1970-2017 hafi 106 börn verið greind í
sitjanda stöðu á The Farm og einungis tvö af þeim enduðu í keisara-
skurði. Dagurinn varð einstaklega lærdómsríkur og tekið var á móti
ótal dúkkubörnum sem báru að með ólíkum hætti.
Í ljósi þess að The Farm er gömul hippakommúna, biðum við
spenntar eftir fyrirlestrinum þar sem Pamela fjallaði um nýjustu
rannsóknir kannabisneyslu á meðgöngu. Það er óhætt að segja að
við báðar vorum orðlausar eftir það kvöld. Byrjaði hún á því að
fjalla um nokkrar staðreyndir þar sem meðal annars kom fram að í
44 fylkjum í Bandaríkjunum er löglegt að nota kannabis í einhvers-
konar formi en í Tennessee er efnið ólöglegt. Einnig talaði hún um
að rannsóknir sýndu ekki með skýrum hætti að kannabis væri skað-
legt móður, fóstri eða ungabarni á meðgöngu eða brjóstagjöf. Heitar
umræður áttu sér stað þetta kvöld en svo það sé í heiðri haft þá leggja
ljósmæður sem starfa á The Farm ríka áherslu á að skapa traust milli
skjólstæðinga sinna og gefa þeim heiðarlegar ráðleggingar án þess
að dæma. Ráðleggja þær skjólstæðingum eindregið að stunda heil-
brigða lífshætti og ekki nota eiturlyf af neinu tagi á meðgöngu.
Á námskeiðinu um menningarhæfni var fjallað um aðferðir til
að bæta meðferðarsamband milli heilbrigðisstarfsfólks og kvenna
af erlendum uppruna, hefðir og fylgjufæðinguna í öðrum menn-
ingarheimum, ljósmæðrastarf í þróunarlöndum og sjálfboðastörf
erlendis. Eftir þennan fyrirlestur kom andinn yfir okkur og við
ákváðum að fara til Úganda eða Filippseyja í framtíðinni. Síðasta
daginn heimsóttum við Millie Amish-ljósmóður. Áður en haldið
var af stað fengum við kynningu um menningarhefðir Amish fólks.
Amish konur eru mjög hlédrægar og hleypa fólki utan samfélagsins
ekki oft að sér, en ríkjandi traust er á milli Amish kvennanna og
ljósmæðranna á The Farm. Millie hefur samband við ljósmæðurnar
ef hún þarf ráðleggingar eða aðstoð. Þar sem enginn sími er í samfé-
laginu, þarf að hlaupa til næsta nágranna sem tilheyrir ekki Amish til
Búðin -The Farm Shop.