Ljósmæðrablaðið - 01.12.2017, Page 26
26 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - DESEMBER 2017
Kæru ljósmæður
Nú styttist í 100 ára afmæli Ljósmæðrafélags Íslands árið 2019. Á
aðalfundi fyrir nokkrum árum var stofnuð ritnefnd bókar með nýju
ljósmæðratali sem myndi vera gefið út á afmælisárinu. Ljósmæðra-
talið verður sjálfstætt framhald á fyrra tali sem var gefið út 1984.
Auk þess verður bætt við sögu Ljósmæðrafélags Íslands og ljós-
mæðrafagsins til dagsins í dag.
Í ritnefnd voru, Álfheiður Árnadóttir, Inga Sigríður Árnadóttir,
Harpa Ósk Valgeirsdóttir og formaður félagsins Áslaug Valsdóttir.
Erla Dóris Halldórsdóttir sagn- og hjúkrunarfræðingur var ráðin til að
skrá söguna og síðan bættist Ólöf Ásta Ólafsdóttir við sem ritstjóri.
Bókin mun skiptast í þrjá hluta; stéttartal frá árinu 1983, saga Ljós-
mæðrafélags Íslands frá og með 1979 og þróun menntunar, starfs og
rannsókna í ljósmóðurfræði frá sama tíma. Nefndin er búin að vinna
mikla grunnvinnu og nú förum við að kalla eftir upplýsingum og
myndum frá ykkur. Eftir ármótin mun verða settur inn tengill á www.
ljosmaedrafelag.is þar sem ljósmæður geta sent inn upplýsingar um
sig og mynd fyrir talið. Þar verður einnig hægt að forpanta bókina
en hún mun verða gefin út í innbundinni hátíðarútgáfu á afmælisárinu
sjálfu. Eftir það mun vera hægt að nálgast kiljur og rafrænar útgáfur.
Þegar bókin er forpöntuð er greitt ákveðið gjald, nokkurs konar
áskriftargjald, sem mun standa straum af kostnaði við útgáfuna.
Nú hvetjum við allar ljósmæður einar sér, saman í sínu holli eða á
vinnustað að rifja upp og segja sögur, finna góðar myndir frá útskrift
eða úr starfi og senda okkur. Öll ráð eru vel þegin um hvað ljós-
mæðrum finnst eiga heima í bókinni, í tilefni þessa merka áfanga í
sögu okkar.
Fyrir hönd ritnefndar
Álfheiður Árnadóttir
Inga Sigríður Árnadóttir
Ólöf Ásta Ólafsdóttir
„REYNSLA SEM LIFIR Í ÞÖGNINNI“
Bókaumfjöllun
Fyrir tveimur árum síðan kom merkileg bók út.
Bókin ber heitið Rof – frásagnir kvenna af fóstur-
eyðingum og í henni segja konur frá reynslu sinni
af því að fara í fóstureyðingu, eins og titill bókar-
innar gefur til kynna. Höfundarnir, þær Silja Bára
Ómarsdóttir og Steinunn Rögnvaldsdóttir auglýstu
í fjölmiðlum eftir sögum kvenna af þessu tagi og
viðbrögðin létu ekki á sér standa. Rúmlega hund-
rað konur settu sig í samband við þær og úr varð
að 76 konur voru tilbúnar að segja sögu sína.
Sögurnar eru mjög ólíkar og endurspegla vel
hversu ólíka reynslu og upplifun konur eiga. Þær
fjalla um kæruleysi unglingsáranna og það að vera
ekki tilbúin í barneignir. Þær fjalla um konur sem
langar ekki til að eignast börn og konur sem treysta
sér ekki til þess að eiga fleiri börn. Þær fjalla líka
um konur í flóknum og erfiðum aðstæðum, konur
sem eru fegnar að hafa tekið þessa ákvörðun á
sínum tíma og hafa aldrei séð eftir henni og konur sem sjá eftir því að
hafa ekki fylgt eigin sannfæringu. Þær fjalla um konur sem finna fyrir
létti, konur sem finna fyrir skömm, konur með samviskubit, konur með
samviskubit yfir því að vera ekki með samviskubit og nánast allt þar
á milli. En í sögunum má líka greina sterk sameiginleg stef eins og til
dæmis að ákvörðun um að enda meðgöngu er ekki léttvæg. Einnig má
greina ákveðið ákall kvennanna um skýran rétt þeirra til þess að fá að
taka svo stóra ákvörðun um eigið líf á eigin forsendum.
Sögunum er skipt upp í fimmtán þemu sem ná mjög vel utan um
þá ólíku reynslu sem birtist í þeim. Þemun eru: aðstæður, frjósemi og
getnaðarvarnir, heilbrigðiskerfið og starfsfólk, sjálfsákvörðun, eftirsjá,
að kjósa að þegja, drusluskömm, niðurlæging,
mistök, karlar og fóstureyðingar, þvingun og
þrýstingur, fósturskaðar og -frávik, ábyrgð, rétt
ákvörðun og léttir.
Í bókinni er einnig að finna fræðilegan
inngangskafla þar sem fjallað er um málið út frá
pólitísku sjónarhorni, lagasetningar og aðstæður í
öðrum löndum svo eitthvað sé nefnt. Einnig fjalla
höfundar um þá leyndarhyggju sem hvílt hefur á
málaflokknum áratugum og öldum saman. Þær
leggja áherslu á að markmiðið með útgáfu bókar-
innar hafi fyrst og fremst verið að opna umræðuna
og færa þennan reynsluheim kvenna fram í dags-
ljósið. Um 1000 konur fara árlega í fóstureyðingu
hér á landi og því tugþúsundir íslenskra kvenna
sem deila þessari reynslu. Þær segja að þrátt fyrir
algengið þá mæti konur oft fordómum og ennþá
sé þetta að einhverju leiti feimnismál. Það er von
höfunda að þessi reynsluheimur kvenna fái pláss og merkingu í samfé-
laginu en líka að konur séu ekki einangraðar í ákvarðanatöku sinni og
geti fundið stuðning af sögum annarra kvenna.
Það er skoðun undirritaðrar að sögurnar geti einnig nýst heilbrigð-
isstarfsfólki afar vel. Ekki bara þeim sem starfa með konum sem fara í
fóstureyðingar heldur í raun öllum þeim sem sinna berskjölduðu fólki
í viðkvæmum aðstæðum. Sögurnar minna okkur á að þó að skjól-
stæðingahópur sæki sömu meðferð þá á hver og einn einstaklingur
innan hópsins sína einstöku sögu sem mótar viðkomandi og allar þær
ákvarðanir sem hann tekur.
Rut Guðmundsdóttir
FRÁ RITNEFND BÓKAR Í TILEFNI 100 ÁRA AFMÆLIS
Hluti ritnefndar á skrifstofu félagsins.
F R É T T I R Ú R F É L A G S S TA R F I