Ljósmæðrablaðið - 01.12.2017, Qupperneq 31
31LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - DESEMBER 2017
ventions in the childbirth process is common among the participants
and many of them have sought assistance for mental health issues. It
is important that midwives and other professionals identify women,
who need to discuss their birth experience or fear, offer them
available adequate support and encourage them to accept it.
INNGANGUR
Neikvæð reynsla kvenna af fæðingu hefur verið mikilvægt rann-
sóknarefni innan ljósmóðurfræði síðustu áratugi og hafa rannsóknir
m.a. leitt í ljós að 5 - 16,5% kvenna upplifa fæðingu sína neikvætt
(Rijnders o.fl., 2008; Sigurdardottir o.fl., 2017; Waldenström,
Hildingsson, Rubertsson og Rådestad, 2004). Í nýlegri íslenskri
rannsókn reyndust 5.0% kvenna hafa neikvæða fæðingarreynslu
hálfu ári eftir fæðingu (n=765) og 5,7% tveimur árum síðar (n=657)
(Sigurdardottir o.fl., 2017). Til samanburðar voru 6,8% kvenna í
sænskri rannsókn (n=2541) með neikvæða fæðingarupplifun einu ári
eftir fæðingu (Waldenström o.fl., 2004) á meðan tíðnin í Hollandi
var 16,5% þremur árum eftir fæðingu í hópi 1309 kvenna (Rijnd-
ers o.fl., 2008). Samkvæmt íslensku rannsókninni virðist upplifun af
fæðingu lítið breytast með tímanum en hlutfall þeirra sem upplifðu
fæðingu sína neikvætt hélst nokkuð stöðugt frá sex mánuðum til
tveggja ára eftir fæðingu (Sigurdardottir o.fl., 2017).
Neikvæð fæðingarreynsla getur haft alvarleg áhrif á heilsu móður
og barns (Ayers, Eagle, og Waring, 2006). Fundist hafa tengsl milli
neikvæðrar fæðingarreynslu og andlegrar vanlíðunar s.s. þung-
lyndis, kvíða og áfallastreituröskunar (Adewuya, Ologun og Ibig-
bami, 2006; Alcorn, O‘Donovan, Patrick, Creedy og Devilly, 2010).
Það er verulegt áhyggjuefni því rannsóknir benda til þess að andleg
vanlíðan móður geti tafið fyrir tengslamyndun móður og barns
(Ayers o.fl., 2006) sem getur haft neikvæð áhrif á samband móður
við barn sitt með afdrifaríkum afleiðingum fyrir sálfélagslegan
þroska þess (Fenech og Thomson, 2014). Þá er þekkt að neikvæð
fæðingarreynsla getur haft áhrif á samband konu við maka (Fenech
og Thomson, 2014), tímalengd milli fæðinga og fjölda barna (Gott-
vall og Waldenström, 2002), leitt til ótta við fæðingu og aukið
líkur á ósk um keisaraskurð án heilsufarslegra ábendinga (Kring-
eland, Daltveit og Moller, 2009; Stjernholm, Petersson og Eneroth,
2010). Nýlegar rannsóknir benda til þess að langt bil milli fæðinga
tengist neikvæðri útkomu fyrir nýburann, s.s. aukinni hættu á fyrir-
burafæðingum (Qin o.fl., 2017) og innlögnum á vökudeild, óháð
meðgöngulengd (DeFranco, Seske, Greenberg og Muglia, 2015).
Margt getur haft áhrif á eða aukið líkur á neikvæðri fæðingar-
reynslu, s.s. fyrri saga um geðheilsuvanda (Boorman, Devilly,
Gamble, Creedy og Fenwick, 2014; Edworthy, Chasey og Williams,
2008; Fenech og Thomson, 2014), ótti við fæðingu (Elvander,
Cnattingius og Kjerulff, 2013; Haines, Rubertsson, Pallant og
Hildingsson, 2012; Nilsson, Lundgren, Karlström og Hildingsson,
2012), fyrri neikvæð reynsla af fæðingu (Elvander o.fl., 2013; Nils-
son o.fl., 2012; Sigurdardottir o.fl., 2017) og upplifun á valdaleysi
eða tilfinning um að hafa ekki stjórn í fæðingu (Waldenström o.fl.,
2004). Frávik og íhlutanir í fæðingu svo sem áhaldafæðing eða
keisaraskurður (Nilsson o.fl., 2012; Rijnders o.fl., 2008; Sigurdar-
dottir o.fl., 2017; Waldenström o.fl., 2004) og langdregin fæðing
(Nystedt, Högberg og Lundman, 2005; Sigurdardottir o.fl., 2017;
Toivonen, Palomäki, Huhtala og Uotila, 2014) tengjast einnig
auknum líkum á neikvæðri upplifun fæðingar.
Þá virðast samskipti við fagfólk skipta máli því konur með
neikvæða reynslu af fæðingu voru líklegri til að vera óánægðar
með umönnunarþætti, s.s. upplýsingagjöf og tilfinningalegan
stuðning í meðgönguvernd (Waldenström o.fl., 2004), umönnun
í fæðingu (Waldenström, 2004) og hefðu viljað að ljósmóðir væri
meira til staðar meðan á fæðingu stóð (Ulfsdottir, Nissen, Ryding,
Lund-Egloff og Wiberg-Itzel, 2014). Þær lýsa umönnunaraðilum á
neikvæðari hátt (Rijnders o.fl., 2008) heldur en konur sem höfðu
jákvæða reynslu af fæðingu. Tengsl milli ánægju með stuðning
ljósmæðra í fæðingu og jákvæðrar fæðingarreynslu hafa verið
skoðuð en niðurstöðum rannsókna ber ekki alveg saman, þar sem
marktæk tengsl fundust í tveimur rannsóknum (Sigurdardottir o.fl.,
2017; Waldenström o.fl., 2004) en t.d. ekki í rannsókn Nystedt o.fl.
(2005). Í áðurnefndri rannsókn sem gerð var hérlendis kom einnig
fram að stuðningur ljósmæðra á meðgöngu skipti máli, en þær konur
sem voru óánægðar með hann voru líklegri til að upplifa fæðingu á
neikvæðan hátt (Sigurdardottir o.fl., 2017).
Þróuð hafa verið úrræði fyrir konur með neikvæða fæðingar-
reynslu í nokkrum löndum en fáum rannsóknum hefur tekist að
sýna fram á að þau skili árangri fyrir geðheilsu kvenna þegar litið
er til staðlaðra mælikvarða á andlegri líðan (Bastos, Furuta, Small,
McKenzie-McHarg og Bick, 2015; Baxter, McCourt og Jarrett,
2014; Sheen og Slade, 2015). Þó hafa fjórar rannsóknir sýnt fram
á árangur af íhlutun vegna neikvæðrar fæðingarreynslu. Samkvæmt
rannsókn frá Ástralíu þar sem konur með einkenni um áfallastreitu
eftir fæðingu fengu 40-60 mínútna ráðgjafarviðtal við ljósmóður
innan 3ja sólarhringa frá fæðingu, reyndust einkenni um áfallastreitu,
þunglyndi, streitu og sjálfsásökun hafa minnkað þremur mánuðum
síðar í samanburði við þær konur sem fengu hefðbundna umönnun
eftir fæðingu (Gamble o.fl., 2005). Í viðtölunum var einnig veitt
tækifæri til viðrunar (e. debriefing) og umræðu um ákveðna þætti í
sambandi við fæðinguna. Árangur viðtala sem byggðust á viðrun var
skoðaður í tveimur breskum rannsóknum. Í annarri þeirra var viðtal
veitt á fyrstu dögunum eftir fæðingu og reyndust konur sem fengu
viðtal (n=56) með marktækt minna þunglyndi og kvíða þremur
vikum síðar heldur en þær sem fengu hefðbundna umönnun (n=58)
(Lavender og Walkinshaw, 1998). Í hinni rannsókninni reyndist viðr-
unarviðtal geta dregið úr áfallastreitueinkennum hjá konum með slík
einkenni sem óskuðu eftir og fengu viðtal (n=46) samanborið við
hóp kvenna með sambærileg áfallastreitueinkenni en óskuðu hvorki
eftir né fengu viðtal (n=34) (Meades, Pond, Ayers og Warren, 2011).
Úrræði sem felst í að konur skrifi um reynslu sína í fyrstu vikunni
eftir fæðingu í þeim tilgangi að skilgreina hugsanir og tilfinningar (e.
make sense) í tengslum við fæðinguna, virðist geta dregið úr þung-
lyndis- og áfallastreitueinkennum samkvæmt samanburðarrannsókn
frá Di Blasio o.fl. (2015) þar sem 87 konur notuðu þá aðferð saman-
borið við 89 konur sem skrifuðu einungis um atburðarás fæðingar.
Samkvæmt yfirlitsgrein Baxter o.fl. frá 2014 virðist það vera
sammerkt með flestum rannsóknum að konum finnist vera gagnlegt
að ræða fæðingarreynslu sína.
Þróun Ljáðu mér eyra viðtalsmeðferðar
Á Íslandi hefur úrræði fyrir konur sem upplifa fæðingu sína á
neikvæðan hátt og/eða óttast tilvonandi fæðingu verið í boði frá
árinu 1999 en þá hófst viðtalsmeðferðin Ljáðu mér eyra á kvenna-
deild Landspítala í umsjá ljósmæðra og fæðingarlækna. Síðar komu
til sögunnar fleiri valkostir eins og Lausnarsteinn á Suðurnesjum sem
ljósmóðir stóð að (Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, e.d.) og námskeið
í Lygnu fjölskyldumiðstöð í umsjá doulu (Lygna fjölskyldumiðstöð,
e.d.). Ekki fundust upplýsingar um á hverju þessi tvö þjónustuform
byggjast eða um árangur þeirra.
Þrjár ljósmæður og einn fæðingarlæknir mynduðu Ljáðu mér eyra
hópinn upphaflega en fyrirmynd meðferðarinnar kom frá svoköll-
uðu „Aurora team“ í Svíþjóð og „listening service“ sem notað var
í Englandi. Úrræðið var þróað fyrir konur sem óttuðust fæðingu og
fólst í viðtölum við ljósmæður með sérhæfingu í slíkri meðferð.
Innihald „Aurora“ viðtalanna var sambland af stuðningi, fræðslu og
hugrænni nálgun (Nilsson, Bondas Lundgren, 2010; Werner, 2004).
Ekki hefur tekist að sýna fram á mælanlegan árangur „Aurora“
viðtalanna en konur virðast þó vera ánægðar eftir viðtölin (Ryding,
Persson og Kvist, 2003). Undirbúningi Ljáðu mér eyra hópsins
fyrir viðtölin hefur verið lýst áður, en m.a. voru haldin námskeið
í viðtalstækni og virkri hlustun (Birna Ólafsdóttir, Guðlaug Páls-
dóttir, Hrafnhildur Ólafsdóttir, Jóhanna V. Hauksdóttir og Valgerður
Lísa Sigurðardóttir, 2015). Þar hefur verið byggt á kenningum
sálfræðingsins Carl R. Rogers sem skilgreinir virka hlustun sem
ákveðna leið til að hlusta og bregðast við tjáningu viðmælanda t.d.
með því að umorða, spyrja spurninga og öðlast innsýn í tilfinningar
og/eða sjónarhorn viðmælanda (Rogers og Farson, 1979). Merki
Ljáðu mér eyra er eyra og vísar það til markmiðs meðferðarinnar