Ljósmæðrablaðið - 01.12.2017, Qupperneq 34
34 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - DESEMBER 2017
Há tíðni á mænurótardeyfingum hjá Ljáðu mér eyra hópnum
vekur athygli en hafa ber í huga að spurt var hvort konurnar
hefðu einhvern tímann fengið deyfingu – ekki var tilgreint nánar
hversu oft þær hefðu fengið deyfingu eða hvort þær hefðu fengið
deyfingu í þeirri fæðingu sem þær upplifðu neikvætt.
Næstum helmingur Ljáðu mér eyra hópsins hafði upplifað
þunglyndi eftir fæðingu en sé litið til erlendra rannsókna um
efnið þá virðist tíðni þess vera á bilinu 10 - 15% í flestum
þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við (Gavin
o.fl., 2005; Thome, 2000; Woody, Ferrari, Siskind, Whiteford
og Harris, 2017). Þarna er þó líklega að hafa áhrif að í erlendu
rannsóknunum er tíðnin skoðuð út frá einstökum fæðingum en
ekki uppsafnað eftir allar fæðingar kvenna eins og í þessari rann-
sókn. Í niðurstöðum okkar er jafnframt byggt á minni kvennanna
og skilgreiningu þeirra sjálfra á greiningu á þunglyndi. Tengsl
andlegrar vanlíðunar og neikvæðrar fæðingarreynslu hafa fundist
í fyrri rannsóknum (Boorman o.fl., 2014; Edworthy o.fl., 2008;
Fenech og Thomson, 2014; Sigurdardottir o.fl., 2017) enda hafði
stór hluti kvennanna sem leitaði til Ljáðu mér eyra leitað sér
aðstoðar vegna andlegrar vanlíðunar.
Menntunarstig hópsins er hátt þar sem rúm 80% kvennanna
hafa menntun á háskólastigi. Frá Hagstofu Íslands fengust þær
upplýsingar að í aldurshópnum 25-34 ára voru 39% kvenna með
háskólapróf hér á landi árið 2009 en 43% kvenna ef horft er á
aldurshópinn 35 - 44 ára (Education at a Glance, 2010). Í fyrri
rannsóknum virðist menntunarstig ekki hafa áhrif á fæðingar-
reynslu (Sigurdardottir o.fl., 2017) og getur það því ekki skýrt
hvers vegna svo hátt hlutfall kvenna í þessari rannsókn hefur
lokið menntun á háskólastigi. Í rannsókn Gamble o.fl. (2005) þar
sem þátttakendur voru valdir eftir áfallastreitueinkennum, hafði
um 40% kvenna lokið námi á háskólastigi. Möguleg skýring á
háu menntunarstigi í okkar rannsóknarhópi getur verið að líklega
er stór hluti hópsins af höfuðborgarsvæðinu þar sem menntunar-
stig er almennt hærra samanborið við landsbyggðina (Hagstofa
Íslands, 2014). Önnur möguleg skýring á háu menntunarstigi hjá
þeim hópi sem leitar aðstoðar hjá Ljáðu mér eyra gæti verið sú
að háskólamenntaðar konur sæki frekar upplýsingar og ráðgjöf
almennt, en það samræmist innlendum og erlendum rannsóknum
(Helga Gottfreðsdóttir, 2011; Fabian, Radestad og Waldenström,
2005). Ef sú er raunin, er mikilvægt að huga að því hvernig ljós-
mæður geta náð til þeirra sem hafa ekki frumkvæði að því að
leita sér hjálpar vegna neikvæðrar fæðingarreynslu.
Langflestir þátttakenda eru giftir eða í sambúð (93,1%) en
erfitt er að alhæfa um hvort hópurinn er sambærilegur við tölur
frá Hagstofu um hjúskaparstöðu þar sem vitað er að verðandi
foreldrar eru oft í sambúð þó það sé ekki skráð þar. Langflestar
kvennanna stunda vinnu utan heimilis. Aldursdreifing hópsins er
sambærileg við tölur Hagstofunnar, en meðalaldur frumbyrja á
Íslandi var tæp 27 ár árið 2012 (Hagstofa Íslands, e.d.).
Það er athyglivert að í gegnum árin hafa einungis 50 - 70 konur á
ári (1-2%) sótt meðferð hjá Ljáðu mér eyra á meðan vísbendingar
eru um að 5,0 - 5,7% kvenna hérlendis hafi neikvæða fæðingar-
reynslu (Sigurdardottir o.fl., 2017). Þó gera megi ráð fyrir að
einhver hluti þessa hóps leiti til annarra fagaðila, bendir margt til
þess að umtalsverður fjöldi þeirra sem upplifir fæðingu neikvætt,
fái ekki viðeigandi hjálp. Það má spyrja sig hvers vegna - getur
verið að konur segi ekki frá neikvæðri reynslu af fæðingu? Eða
eru þær ekki spurðar um upplifun sína af fæðingu? Erfitt er
að segja til um ástæður þessa en ljóst er að það má gera mun
betur, bæði í að greina þær konur sem hafa þörf fyrir að vinna
úr fæðingarreynslu sinni og að vísa þeim með markvissum hætti
í úrræði. Hér mætti líta til rannsóknar Gamble o.fl. (2005) þar
sem skimunarlistar voru notaðir til að finna konur með einkenni
um áfallastreitu eftir fæðingu en með því skapast tækifæri til að
hefja umræðuna um fæðingarupplifun og í kjölfarið bjóða konum
meðferð ef þörf er á.
Ljáðu mér eyra viðtalsmeðferðin hefur staðið til boða frá árinu
1999 en ekki liggja fyrir upplýsingar um árangur hennar og er
það verðugt rannsóknarefni í framtíðinni. Vert er að skoða þær
rannsóknir sem sýnt hafa jákvæðan árangur meðferðar þegar
hugað er að meðferðarmöguleikum fyrir konur með neikvæða
fæðingarreynslu (Gamble o.fl., 2005; Meades o.fl. 2011; Di
Blasio o.fl., 2015; Lavender og Walkinshaw, 1998). Í rannsókn
Meades o.fl. (2011) virtist draga úr áfallastreitueinkennum hjá
konum sem óskuðu eftir og fengu viðrunarviðtöl samanborið við
konur með sambærileg einkenni um áfallastreitu sem ekki sóttust
eftir aðstoð. Hér virðist vilji konunnar til meðferðar skipta máli
fyrir árangur.
Þá er vert að huga að tímasetningu viðtals en í rannsókn
Gamble o.fl. (2005) og Di Blasio o.fl. (2015) var meðferð veitt á
fyrstu dögunum eftir fæðingu. Erfitt er að greina á milli tegundar
íhlutunar því segja má að margt sé líkt með viðrun (Meades o.fl.,
2011; Lavender og Walkinshaw, 1998) og þeirri aðferð að skil-
greina hugsanir og tilfinningar á blað (Di Blasio o.fl., 2015).
Skilgreiningin á þeirri íhlutun sem veitt var í rannsókn Gamble
o.fl., (2005) var ráðgjöf en þó má sjá í lýsingu meðferðarinnar að
hún innihélt einnig viðrun, umræðu um ákveðna þætti fæðingar
og stuðning frá ljósmóður. Því er ekki einfalt að segja af eða á
um hvers konar íhlutun virkar eða á hvaða tímapunkti hún myndi
gagnast best en hafa ber í huga að í flestum rannsóknum er það
mat kvennanna sjálfra að meðferðin sem var í boði hafi verið
gagnleg (Baxter o.fl., 2014).
Styrkleikar og takmarkanir rannsóknar
Svarhlutfall er svipað því sem almennt gerist í spurningalista-
könnunum (Baruch og Holtom, 2008) en svörun var betri eftir
því sem styttra var liðið frá viðtalinu. Ekki var leitað neinna
upplýsinga um rannsóknarhópinn úr öðrum gagnagrunnum.
Engar upplýsingar voru fengnar um þann hóp sem hafnaði þátt-
töku í rannsókninni og því er ekki hægt að alhæfa að hópurinn
sem tók þátt endurspegli þýðið, þ.e. hópinn sem leitar sér hjálpar
hjá Ljáðu mér eyra vegna neikvæðrar fæðingarreynslu. Þá er ekki
vitað hve stór hluti hópsins var barnshafandi þegar Ljáðu mér
eyra viðtal fór fram en þær upplýsingar hefðu verið áhugaverðar
til að öðlast betri innsýn inn í hvað einkennir hópinn og jafnvel
til samanburðar við þær sem voru ekki barnshafandi þegar viðtal
fór fram. Hafa ber í huga að gögnin byggja á svörum kvennanna
sjálfra og hjá hluta hópsins var töluverður tími liðinn frá viðtali
þegar þær fengu spurningalistann og gæti minnisbjögun (e. recall
bias) þannig haft áhrif á svörin. Að lokum má nefna að í þessari
rannsókn er því ekki svarað hvort einkenni þeirra sem ekki leita
sér hjálpar eða svara spurningalistunum séu sambærileg við
þennan hóp.
Hagnýting fyrir ljósmóðurfræði
Í ljósi þess að neikvæð fæðingarreynsla getur haft í för með
sér neikvæð áhrif á velferð móður og barns er mikilvægt er að
huga að henni sérstaklega, mögulega með reglubundinni skimun.
Slík skimun fellur vel að starfssviði ljósmæðra sem eru aðalu-
mönnunaraðilar í öllu barneignarferlinu hér á landi. Stór hluti
kvennanna sem leitaði til Ljáðu mér eyra hafði leitað sér aðstoðar
vegna andlegrar vanlíðunar og undirstrikar það mikilvægi þess
að skimað sé fyrir fyrri sögu um geðheilsuvanda snemma í
meðgönguvernd líkt og mælt er með í klínískum leiðbeiningum
um meðgönguvernd (NICE, 2014; Embætti landlæknis, 2010).
Þverfræðileg samvinna og samtal um fæðingarreynslu getur
verið liður í þeim stuðningi sem veittur er bæði á meðgöngu og
eftir fæðingu. Við búum nú þegar yfir þekkingu á mikilvægi þess
að finna þær konur sem hafa þörf fyrir að vinna úr fæðingar-
reynslunni sinni. Í framhaldinu er síðan brýnt að í boði séu
viðeigandi úrræði handa þeim konum sem hafa neikvæða reynslu
af fæðingu.
ÞAKKIR
Bestu þakkir fá konurnar sem tóku þátt í rannsókninni. Auk þess
þökkum við Guðrúnu Sigríði Ólafsdóttur, Jóhönnu Valgerði