Morgunblaðið - Sunnudagur - 21.10.2018, Blaðsíða 6
ERLENT
6 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 21.10. 2018
Íranar unnu nauman sigur á Bóliv-íu, 2:1, í vináttuleik á Azadi-leikvanginum í Teheran á þriðju-
dag. Viðureign þessi mun ekki fara í
sögubækurnar vegna stórkostlegra
tilþrifa á leikvellinum. Öllu fréttnæm-
ara var að konur fengu að vera meðal
áhorfenda. Reyndar voru aðeins 100
konur í þeim hópi, en hingað til hafa
yfirvöld ekki liðið slíkt frjálslyndi.
Það kom líka í ljós daginn eftir leikinn
að ekki ríkir sátt um þessa ákvörðun
þegar æðsti yfirmaður dómsmála í
Íran, Mohammad Jafar Montazeri,
lýsti yfir því að ekki ætti að verða
nein endurtekning á því að konur
fengju að vera á áhorfendapöllum þar
sem það gæti „leitt til syndar“.
„Ég mótmæli því að konur séu á
Azadi-leikvangi,“ hafði íranska
fréttastofan Mehr eftir Montazeri.
„Við erum múslimaríki. Við erum
múslimar. Við munum taka á hverj-
um þeim embættismanni, sem vill
leyfa konur inni á leikvöngum, sama
með hvaða fyrirslætti. Þegar kona fer
inn á leikvang og við henni blasa hálf-
naktir menn í íþróttafötum og hún
sér þá mun það leiða til syndar.“
Knattspyrna nýtur mikilla vin-
sælda í Íran og má segja að þar rekist
á hið veraldlega og geistlega.
Mohammed Reza Pahlavi Írans-
keisari var forfallinn áhugamaður um
fótbolta. Slakt gengi landsliðsins á
sjötta áratugnum varð til þess að
hann fór að leggja aukna áherslu á
framgang íþróttarinnar. Fótbolta-
vellir fylltust af áhorfendum og þeir
sem ekki náðu í miða sátu límdir við
sjónvarpsskjái.
Í bókinni How Soccer Explains the
World lýsir Franklin Foer því hvern-
ig einn leikur réði úrslitum um vin-
sældir íþróttarinnar. Í kjölfar sex
daga stríðsins árið 1967 lék Íran
landsleik við Ísrael. Mikill atgangur
var á vellinum. Áhorfendur slepptu
blöðrum með hakakrossum og hróp-
uðu ókvæðisorð. Íranar unnu leikinn
2:1 og var mikið úr sigrinum gert.
Poppstjörnur sömdu um hann söngva
og leikmennirnir urðu þjóðhetjur.
Reynt að þurrka fótbolta út
1979 var keisaranum steypt og
klerkastjórnin tók við völdum undir
forustu Khomeinis erkiklerks.
Þurrka átti út merki vestrænnar
menningar, Nánast öll skemmtun á
almannafæri var bönnuð og skipulögð
keppni í fótbolta lagðist af.
Í bókinni The Ball Is Round eftir
David Goldblatt er því lýst hvernig
fótboltinn færðist á götur út eftir að
félagslið voru leyst upp. Haldin voru
hverfamót og sjálfsprottin fótboltalið
ollu varðliðum hreinleikans miklum
vanda. Klerkastjórnin áttaði sig brátt
á að ástríðan fyrir knattspyrnu væri
slík að því myndi fylgja of mikill pólit-
ískur kostnaður að ætla sér að þurrka
íþróttina út. Þess í stað reyndu yfir-
völd að eigna sér hana.
Áratug yfir valdatökuna var stofn-
uð hálfatvinnumannadeild. Áhorf-
endur streymdu á völlinn og segir
Foer frá því að í fyrstu hafi verið
reynt að hafa áhrif með því að lauma í
stúkurnar útsendurum, sem reyndu
að leiða dýrðarsöng til Allah. Um-
hverfis völlinn var komið fyrir spjöld-
um með vígorðum á borð við „Niður
með Bandaríkin“ í stað auglýsinga.
Áhorfendur létu sér fátt um finnast
og hæddust að trúarklappstýrunum
þannig að þær hröktust á braut.
Stjórnvöld reyndu líka að koma í
veg fyrir að andrúmsloftið í stúk-
unum kæmi fram í fjölmiðlum.
Stundum voru leikir ekki sendir út
beint heldur með örlítilli töf þannig að
ritskoða mætti óæskileg hróp og köll í
stúkunni. Einnig var þess gætt að
sýna ekki myndir úr stúkunni ef birt-
ast skyldu borðar með óæskilegum
áletrunum. Í staðinn voru notaðar
myndir úr safni og gat það virkað af-
káralega þegar kappklæddir áhorf-
endur fylgdust með á heitum sumar-
degi.
Konum hefur verið bannað að fara
á völlinn frá klerkabyltingunni. Í
þeim efnum hafa Íranar ekki sér-
stöðu í múslimaheiminum. Munurinn
er þó sá að í Íran höfðu konur þekkt
meira frelsi en kynsystur þeirra í
löndum á borð við Sádi-Arabíu.
Foer segir frá því að konur leggi
ýmislegt í sölurnar fyrir knattspyrn-
una og hafi lengi vel jafnvel dulbúið
sig sem karla til þess að komast á
völlinn þrátt fyrir að eiga harða refs-
ingu yfir höfði sér.
Khomeini erkiklerkur lét undan
þrýstingi kvenna 1987 þegar hann gaf
út tilskipun eða fatwa þess efnis að
konur mættu horfa á fótbolta í sjón-
varpi. Enn mættu þær þó ekki fara á
völlinn. Þessi málamiðlun dugði, en
aðeins um tíma.
Taumlaus gleði á götum úti
Árið 1997 áttu Íranar þess kost að
komast á heimsmeistaramótið í
knattspyrnu í úrslitaleik gegn Ástr-
alíu. Lengi vel var engu líkara en
stjórnvöld hefðu fyrirskipað liðinu að
gefa leikinn af ótta við fagnaðarlætin,
sem gætu brotist út. Á síðasta kort-
erinu tók liðið við sér, skoraði tvö
mörk og náði jafntefli, sem tryggði
farseðilinn á HM.
Almenningur streymdi út á götur
Teheran, drakk og dansaði við vest-
ræna popptónlist. Konur létu ekki sitt
eftir liggja, köstuðu af sér slæðum og
höfuðfötum og fögnuðu af engu
minna taumleysi en karlarnir. Trúar-
lögreglan hugðist hemja fagnaðar-
lætin, en mátti sín einskis.
Klerkastjórnin frestaði heimkomu
knattspyrnuhetjanna í þeirri von að
sigurvíman yrði runnin af almenn-
ingi. Konur voru hvattar til að halda
sig fjarri. Stjórnvöld fögnuðu lands-
liðinu á Azadi-leikvanginum þar sem
aðeins körlum hafði verið hleypt að.
Þúsundir kvenna óhlýðnuðust boði
stjórnvalda og mótmæltu fyrir utan
leikvanginn þótt hiti væri undir frost-
marki. „Erum við ekki hluti af þessari
þjóð? Við viljum líka fagna. Við erum
ekki maurar,“ hrópuðu þær.
Lögreglan hleypti þrjú þúsund
konum inn á aflokað svæði á vellinum.
Enn voru tvö þúsund konur fyrir ut-
an og nú brutu þær sér leið inn og
komu sér fyrir á áhorfendapöllunum.
Lögreglan lagði ekki í að beita valdi
með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og
hleypti þeim í gegn.
Rúmum tveimur áratugum síðar er
málið enn jafn umdeilt. Spurningin er
hvað verður um glufuna sem opnaðist
með vináttuleiknum gegn Bólivíu.
Birst hafa fréttir um að konur muni
einnig fá að vera meðal áhorfenda á
heimaleik Persepólis í undanúrslitum
meistaradeildar Asíu 23. október.
Montazeri hefur varað embættis-
menn íþróttamála við að slíkt verði
ekki látið afskiptalaust.
„Verði þetta endurtekið mun ég
fyrirskipa saksóknaranum í Teheran
að láta til skarar skríða,“ sagði
Montazeri.
Klerkastjórnin í Íran hefur löngum bannað
konum að fara á völlinn. Konur fengu þó að fara á
landsleik í vikunni og nú hefur yfirmaður
dómsmála hótað öllu illu endurtaki það sig.
Karl Blöndal kbl@mbl.is
AFP
Íranskar konur fagna á áhorfendapöllum á Azadi-leikvangi í Teheran á vináttuleik Írans og Bólivíu á þriðjudag.
„Þegar kona fer inn á leikvang
… mun það leiða til syndar“
BÚTAN
THIMPHU Kjósendur í konungsrík-
inu Bútan í Himalajafjöllum gengu að
kjörborðinu í þriðja sinn á fi mmtudag
frá því að konungur hætti að vera
alvaldur 2008. Búist er við valdaskiptum
í landinu. Íbúar Bútan eru 800 þúsund.
Þar hefur verið lögð meiri áhersla á
verga þjóðarhamingju en verga þjóðar-
framleiðslu.
KANADA
OTTAWA
Kanadamenn
hafa nú lögleitt
kannabis til al-
mennrar neyslu.
Banninu var
afl étt formlega
á miðvikudag og fetuðu Kanadamenn þar í fótspor
Úrúgvæja. Biðu menn í röðum frá því snemma um
morguninn eftir að geta keypt lyfi ð með löglegum
hætti. Hlutabréf í kannabisfyrirtækjum hafa rokið
upp í verði, en sérfræðingar í heilbrigðismálum og
stjórnarandstæðingar hafa gagnrýnt lögleiðinguna.
KRÍMSKAGI
KERCH Vopnaður ungling-
ur myrti 20 manns í háskóla
í borginni Kerch á Krím-
skaga og svipti sig lífi í kjöl-
farið. Vinkona drengsins, sem
var 18 ára gamall, sagði að
hann hefði rætt um að hefna
sín vegna eineltis. Vladimír
Pútín, forseti Rússlands, sagði á ráðstefnu í Sotsí að árásarmaðurinn
hefði verið undir áhrifum frá skotárásum í Bandaríkjunum.
NÍKARAGVA
MANAGUA Mannréttindasamtökin Amnesty International fullyrtu í
skýrslu, sem birt var í París á fi mmtudag, að yfi rvöld í Níkaragva hefðu
vísvitandi tekið upp þá stefnu að skjóta mótmælendur til bana. Mikil
mótmæli hafa verið gegn stjórnvöldum í landinu og hefur þeim verið
mætt með hörku. Í apríl og maí féllu rúmlega 70 mótmælendur. Sendi-
herra Níkaragva í París sagði fullyrðingarnar tilhæfulausar.