Morgunblaðið - 28.12.2018, Blaðsíða 30

Morgunblaðið - 28.12.2018, Blaðsíða 30
30 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 28. DESEMBER 2018 Valgarður Egilsson Fjörður. Ungur að árum fékk hann áhuga á landafræði og nátt- úru Íslands og sem fararstjóri og leiðsögumaður hafði hann sér- hæft sig í ferðum um Fjörður og Héðinsfjörð. Leiðsögnin varð að listgrein í flutningi Valgarðs. Og það var ekki bara að hann væri tilbúinn eins og hann svaraði af hógværð í upphafi ferðar. Hann var búinn að undirbúa sig í marg- ar vikur fyrir hverja ferð. Þekkti alla þátttakendur í ferðinni og ættir þeirra og þekkti náttúruna og söguna betur en nokkur. Landnáma var ein af hans uppá- haldsbókum og hann virtist kunna hana utan að. Brodd- stafinn góða sem hann fékk að gjöf notaði hann af mikilli snilld og stundum var eins hann svifi niður skriðurnar í frakkanum þegar við goretex-fólkið með stafina vorum að paufast niður skref fyrir skref. Valgarður var listamaður, rithöfundur og skáld og þó að hann sinnti þeirri köllun að mestu í hjáverkum samhliða sínu starfi sem læknir og vísinda- maður þá liggja eftir hann fjöl- margar bækur og greinar. Í þeim birtist sýn Valgarðs á umhverfi sitt, mannfólkið, náttúruna og söguna. Og skín þar í gegn um- hyggja, væntumþykja, vinátta og hlýja sem einkenndi Valgarð sem persónu. Valgarður var traustur og góður vinur og gott að geta leitað til hans. Hann var öruggur, yfirvegaður og réttsýnn og mál sem maður leitaði til hans með leystust oft af sjálfu sér í stuttu spjalli og iðulega með vinsamleg- um hætti og sátt að leiðarljósi. Margar góðar stundir áttum við á veitingastaðnum á BSÍ. Þangað vildi Valgarður fara þegar við fórum út að borða. Þar var í boði þjóðlegur matur og var jafnan lesið úr verkum sem hann var að vinna að. Það voru forréttindi að kynnast Valgarði Egilssyni og eiga að vini. Ég votta Katrínu Fjeldsted og fjölskyldu innilega samúð. Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferða- félags Íslands. Valgarður Egilsson kollegi minn og vinur er látinn og farinn á vit forfeðra, sem hann á stór- brotinn hátt fjallaði um í bókinni „Steinaldarveislan“. Þar lýsir hann mannlífinu frá uppvaxtar- árum sínum á Grenivík og fram á okkar tíma. Enn fremur er bókin veraldarsaga séð með augum víð- sýns manns, sem var allt í senn læknir, raunvísindamaður, rit- höfundur og teiknari, en umfram allt mannvinur og náttúruvernd- arsinni. Valgarður var frumumeina- fræðingur með doktorsgráðu á því sviði, en á námsárum í Lond- on lagði hann einkum stund á grunnrannsóknir á efnaskiptum æxlisfruma, sérstaklega hlutverk hvatbera, sem eru orkustöðvar sérhverrar frumu. Erfiðlega gekk að halda þeim rannsóknum áfram eftir heimkomuna til Ís- lands þar sem áhugi vísindasam- félagsins á slíkum rannsóknum á þeim árum var enginn. En neyðin kennir naktri konu að spinna og rannsóknarstofa hans á Landspítalanum varð með tímanum tileinkuð erfðafræði brjóstakrabbameins. Frá árinu 1986 var byrjað að safna blóðsýn- um frá öllum nýjum einstakling- um sem greindust með brjósta- krabbamein, svo kallað „Valgarðsblóð“. Enn fremur fór Valgarður um landið þvert og endilangt og safnaði blóði úr þeim sem höfðu greinst með brjóstakrabbamein og ættingjum þeirra. Ættir þessa einstaklinga voru raktar saman með hjálp erfðafræðinefndar og Krabbameinsskrárinnar. Þarna var unnið brautryðjendastarf, sem var einn lykillinn að fundi brjóstakrabbameinsgensins BRCA2. Undir forystu Valgarðs unnu ýmsir ungir rannsakendur, sem síðar urðu virtir vísinda- menn og mætti þar nefna Vil- mund Guðnason, forstöðumann Hjartaverndar, Rósu Barkar- dóttur, Aðalgeir Arason, Sigurð Ingvarsson, forstöðumann Til- raunastofnunnar á Keldum, og Óskar Þór Jóhannsson krabba- meinslækni. Valgarður er höf- undur eða meðhöfundar að fjölda vísindagreina, sem oftar en 5.000 sinnum hefur verið vitnað til í vísindatímaritum. Valgarður var unnandi útivist- ar og náttúruskoðunar og af- burða leiðsögumaður. Ég naut þess að fara með honum í ferðir, en sú fyrsta var árið 2004, þar sem fjölmennur hópur fór undir hans leiðsögn frá Siglufirði til Ólafsfjarðar. Gengið var meðal annars yfir í Héðinsfjörð og Hvanndali. Í þessari ferð varð til gönguhópur, sem hefur haldið saman allt síðan og kallar sig Hvatbera, Valgarði til heiðurs. Valgarður teiknaði merki hóps- ins, sem sýnir Hvatbera í göngu- ferð upp bratta fjallshlíð. Hvat- berahópurinn hefur breyst með árunum og Sigríður Berg- vinsdóttir, sem Valgarður kallaði gjarnan frænku sína, tekið við forystunni enda var hann hreyk- inn af því að vera hennar læri- meistari sem leiðsögumaður. Það sem einkenndi ferðir Valgarðs var frábær undirbúningur, skemmtilegar frásagnir um nátt- úruna, örnefni og ekki minnst um mannlífið fyrr á tímum. Ég mun sakna Valgarðs og ekki minnst spjallsins um eitt af hans uppáhaldsumræðuefnum, efnaskipti, orkubúskap æxlis- fruma og hvatbera. Við vorum um tíma með hóp vísindamanna sem myndaði leshring um efnið. Ég votta Katrínu og öllum af- komendum Valgarðs samúð mína. Helgi Sigurðsson, prófessor í krabbameins- lækningum. Við andlát Valgarðs Egilsson- ar er fallinn frá einstakur hæfi- leikamaður; vísindamaður, lista- maður, sögumaður, náttúruunnandi, vinur. Valgarður var okkur lækna- nemum óvenjulegur en mikil- vægur lærifaðir. Ég man fyrst þegar hann flutti okkur kostu- legt, frumort kvæði á menning- arkvöldi læknanema og hélt svo áfram og brýndi fyrir okkur mik- ilvægi þess að láta ekki hræðslu við álit annarra, spéhræðslu, halda aftur af okkur. Það ráð var mikilvægt veganesti út í lífið og það má fullyrða að Valgarður hafi gengið þar á undan með góðu fordæmi. Leiftrandi, lág- stemmdur húmor, meitlaður í enskri menningu, óvenjulegt auga fyrir stærra samhengi hlut- anna, svipur sem oft var ærið sposkur – frábær blanda sem ásamt óvenjulega lítilli spé- hræðslu gerði manninn að alveg þrælskemmtilegum læriföður og félaga við ótal tækifæri. Ólöf kona mín hélt sýningu í galleríi Kling og Bang haustið 2004 og þá varð Valgarður við ósk hennar um að taka þátt. Hann stóð þar, talaði við fólk um allt á milli himins og jarðar og út- skýrði mál sitt með teikningum – talandi skáld sem varð líka myndlistarmaður í sömu andrá. Það sem hann sagði var frábært; óvenjulegar tengingar, óvenjuleg sýn, hrein snilli – og á sama tíma gat hann teiknað allt beint á blöð sem fóru svo upp á veggi. Val- garður var listamaður, jafnvígur á mörg form listarinnar. Fyrir rúmum þremur árum gengum við feðgar með Valgarði og fleirum um Viðey, til að heyra sögur af því þegar sá heims- þekkti listamaður Richard Serra setti upp listaverkið Áfanga í eynni. Valgarður hafði verið for- maður Listahátíðar í Reykjavík á þessum tíma og sagði sögur af því hvernig þetta kom allt til og meðal annars af því hvernig hann óð með konu Serra á bakinu og leiðandi listamanninn sjálfan úr Geldinganesi, þar sem kom til greina að setja upp verkið. Þótt hreystimennið Valgarður væri augljóslega ekki eins léttur í spori og fyrrum, þá dró hann ekkert af sér í þúfum Vestureyj- ar og manaði meira að segja son minn 13 ára í kapphlaup, enda enn sprettharður með afbrigð- um. Við hjónin áttum því láni að fagna að vera nágrannar Val- garðs og Katrínar í meira en ára- tug. Heimili þeirra einstaklega fallegt, dásemdar garður framan við húsið og Valgarður oft þar úti við þegar maður gekk hjá. Hann minnti okkur reglulega á það að við gætum alltaf fengið skessu- jurt í kjötsúpu í garðinum hjá sér og þyrftum ekki að spyrja leyfis – iðulega bauð hann okkur inn í kvöldhressingu. Heimili þeirra hjóna var einstakt menningar- heimili – ég man eitt kvöld fyrir mörgum árum þegar heimsókn okkar Ólafar til þeirra hjóna breyttist í allsherjar ljóðalestur, þar sem fólk skiptist á að fara með þau fegurstu ljóð sem ort hafa verið á íslenska tungu. Mað- ur var svo sannarlega uppveðr- aður þegar maður gekk út af þeim fundi, út í haustnóttina, með ljóðabók upp á vasann. Og ekki í eina skiptið enda þau hjón gestrisin og gjafmild með ein- dæmum. Á leiðarenda fyllist hugurinn ótal myndum af einstökum manni. Missir Katrínar og af- komenda þeirra er mikill og er hugur okkar Ólafar hjá þeim í sorg þeirra. Meira: mbl.is/minningar Páll Matthíasson. Þeim sem samferða urðu Val- garði Egilssyni frá æskuárum varð fljótt ljóst að þar fór flug- skarpur og íhugull námsmaður, gæddur óvenjulegum frumleik og viðkvæmri listamannslund. Hann var mörgum kostum og íþróttum búinn, svo að minnt gat á sumt í mannlýsingum forn- sagna. Þekking hans og ímynd- unarafl var svo fjölþætt að vinir hans og skólafélagar áttu ósjald- an erfitt með að fylgja honum eftir á fluginu þegar hann var að útlista hugmyndir sínar og vangaveltur um hin meiri við- fangsefni mannshugans og farn- að manns og heims. Ekki skorti hann heldur skopskyn. Þá sagði hann hiklaust meiningu sína og fór sínar eigin leiðir að verkefn- unum og leitaðist við slíta þannig viðjar blindu og vanahugsunar. Ég er ekki fær um að dæma af neinu viti um vísindastörf hans og rannsóknir, en ég hef grun um að alls þess sem hér var nefnt hafi fræðasvið hans notið ríku- lega, m.a. í fjölda vísindaritgerða og -greina og ekki síst skáldskap hans og ritum um önnur efni. Í ljóð sín sótti hann sér gjarnan föng úr fornritum og gamalli hefð, en orti líka í nýstárlegri stíl. Bæði þar og eftir fund á förn- um vegi eða önnur mannamót skildi hann stundum viðmælanda sinn eða áheyranda eftir með gátur sem voru svo stórrar ættar að þær kröfðust óþægilega mik- illa heilabrota og létu þá ekki í friði. Þeim sem fræðast vilja um úr hvaða jarðvegi Valgarður Egils- son var sprottinn og hver hann var er nærtækast að vísa á bæk- ur hans og þá sérstaklega Stein- aldarveisluna og Waiting for the South Wind sem hann samdi á ensku og gaf búning og frelsi skáldsögu. Þar segir hann margt af sér og sínum og lítur langt um öxl og fram á veg, þótt til þeirrar áttar skyggi nú Skuld fyrir sjón, en snemma var hann meðvitaðri en margir um ýmsa þá verald- arvá sem nú er á allra vörum. Margt tengdi okkur Valgarð saman, en fyrstu kynni urðu í MA. Þar lukum við prófi sama ár, og nú minnist stúdentsár- gangur ’61 þess að Valgarður átti hugmyndina að sumarferðum hópsins sem hófust um sextugs- aldurinn og nú eru orðnar býsna margar. Sú fyrsta var farin út í Fjörður undir leiðsögn Valgarðs og tjaldað á Þönglabakka. Þær slóðir þekkti hann öðrum betur og hefur margt um útbyggðirnar við Eyjafjörð skráð og skrafað. Hann hef ég einan manna heyrt taka sér í munn orðið Vestur- Þingeyingur – í gamni og alvöru – um okkur sem bornir vorum og barnfæddir í vestursveitum sýsl- unnar, en ekki austur á háslétt- unni! Við töldum til frændsemi gegnum Steinkirkjuætt, sem hann kallaði svo, afar okkar höfðu búið á Skuggabjörgum hvor eftir annan og spor sumra forfeðra okkar og formæðra leg- ið um Fnjóskadal, Fjörður og Flateyjardal, þótt víðar sæjust, væri lengra rakið. Andlát Valgarðs bar óvænt að og Katrínu, börnum þeirra og ástvinum vottum við Steinunn samúð okkar. Hann kynntist sem fleiri um sína daga sætu og salti lífsins, en nú verður honum hvíldin góð. Horfinn er merkur og minnisstæður iðkandi vísinda og lista að loknu miklu ævistarfi – í faðm lands sem hann unni, náttúru þess, þjóðarerfða, tungu og sögu. Farðu vel, vinur og bróðir! Hjörtur Pálsson. Á Eskifirði sést fyrst til sólar á nýju ári þann 27. febrúar – en stundum bregst það. Ég minnist við freðin moldarbörðin mjög er þar komið jafnt. Grátum við bæði, ég og jörðin jafnvel þó dugi skammt. Sólin nær ekki niður í fjörðinn, nóg var þó fyrir samt. (VE) Þessi vísa varð til í læknishús- inu á Eskifirði fyrir um hálfri öld og skrifuð hér niður eftir minni og án ábyrgðar. Þannig var það veturinn 1968 að sólin lét bíða eftir sér. Lækn- irinn og listamaðurinn Valgarður Egilsson var þá héraðslæknir á Eskifirði. Á þessum árum var heilsu- gæsla og bráðaþjónusta staðsett í læknisbústaðnum. Þar var líka apótek. Þar kynntist ég Valgarði. Það var bæði lærdómsríkt og gott að vinna hjá honum. Hann byrjaði á því að hækka launin hjá konunni sem skúraði og stelpunni í apó- tekinu. Svo átti hann það líka til að gefa frí þegar sólin skein. Hann varð heimilisvinur fjöl- skyldu minnar á Eskifirði og traustur vinur alla tíð. Á þessum árum var einn lækn- ir á vakt í héraðinu allan sólar- hringinn alla daga árins. Val- garður lagði mikla vinnu og metnað í að gera sjúkraskrár listilega vel úr garði en slíkar skrár voru ekki til staðar og læknaskipti orðin tíðari en áður var. Það var bæði fræðandi og hvetjandi að vinna með Valgarði. Ég er honum ævinlega þakklát fyrir að eiga stóran þátt í því að ég ákvað að fara í hjúkrunarnám. Katrínu, nöfnu minni, eigin- konu Valgarðs kynntist ég fyrst í heimsóknum hennar austur á Eskifjörð og okkur varð strax vel til vina. Þessi vinátta við Katrínu og Valgarð hefur haldist alla tíð. Með þeim hjónum höfum við Kjartan átt margar góðar og skemmtilegar stundir. Börnunum okkar var ógleym- anleg sögustund með Valgarði, í máli og myndum eins og honum einum var lagið, þegar þau hjón- in heimsóttu okkur til Vest- mannaeyja í apríl árið 1987. Elsku Katrín. Við Kjartan sendum þér og fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur. Katrín Þórlindsdóttir. „Vinur minn einn í læknastétt teiknar íslenska hænurassa í vindi á servéttur á bæjarkránni í Tipperary. Regnið bylur á bílrúð- unum í ljósaskiptunum þegar stefnan er tekin til suðurs frá Limerick. Farþegarnir eru daufir, en þá tekur hann við þá viðtal til flutn- ings í útvarpi um leið og hann æf- ir fjórraddaðan pólýfónískan kór til að skemmta Mið-Evrópu- mönnum. Sá söngur gefur kristal að kveldi í Killarney. Mér er sagt að sami maður veki upp heilu fjölskyldurnar úr kirkjugörðum norður við Dumbshaf á sumrin, öðrum til skemmtunar. Hann er patalóg. Jafnvel patalógar geta auðgað líf manns.“ Svo segir frá í pistli í Lækna- blaðinu aldamótaárið 2000, sem sendur var frá Taorminu á Sikil- ey. Þar opnuðust augu mín fyrir frábærum hæfileikum Valgarðs til að vinna bug á leiðindum ann- arra. Hann var að vísu víðsfjarri en konan hans Katrín með í för og Skáldatími Laxness. Talað var fyrir þeirri skyldu stjórnar Læknafélags Íslands að forða læknastéttinni frá þarflausum leiðindum í tengslum við sam- félagsleg átök. Því segir í fram- haldinu. „Erlendur í Unuhúsi sagði, „að sér þætti betra að lesa skemmtilegar bækur til stuðn- ings þeim skoðunum sem hann væri mótfallinn en leiðinlegar til framdráttar hugmyndum sem hann aðhyltist …“. Fátt þykir mér lýsa Valgarði betur en þessi orð Nóbelsskálds- ins. Alvaran átti sinn stað en hún fékk aldrei að njóta vafans, þegar skemmtun var í boði. Það voru ógleymanlegar stundirnar í lobbíinu á virðulegu hóteli í mið- borg Lundúna, þar sem kóreskt rafmagnspíanó var látið stytta hótelgestum stundirnar við smá- réttaát. Það var aldrei ávarpað öðruvísi en herr Busendorfer og píanistinn, sem enginn var, fékk alla þá virðingu, sem meinafræð- ingurinn úr Höfðahverfi gat veitt honum. Enda vel kunnugur bæði dragspili og harmoníum. Það er auðvelt að ímynda sér Valgarð við önnur störf en þau, sem hann lagði fyrir sig. Hann var opinn og skapandi í víðum skilningi og fjölfróður um flesta hluti. Átti sú fróðleiksþörf djúpar rætur í æsku hans eins og hann lýsir svo vel í minningum „Wait- ing for the South Wind“ sem hann skrifaði handa vinum sín- um. sem ekki skildu íslensku. Þar er að finna litla og látlausa bók, sem er samfellt prósaljóð til æsk- unnar og þeirrar veraldar, sem var við yzta haf. Gersemi. Náttúran var honum bæði huggun og áhyggja. Þar liggja þræðir „Steinaldarveislunnar“, sem er og verður hans bauta- steinn. Þar kemur fram vísinda- maðurinn, sem er viðkvæmur fyrir afdrifum afkomenda sinna og annarra jarðarinnar barna. Heimspekingurinn Valgarður þráir nýja hugsun, nýjan skiln- ing, sem hrífur manninn frá sjálfseyðingarhvöt sinni og sín- girni. Lái honum hver sem vill. Valgarður var hversdagslega dagfarsprúður og hófsamur í allri framgöngu. Hann var umtals- frómur á tveggja manna tali og lagði aldrei illt til nokkurs manns þó að skoðanir hans gæfu tilefni til annars. Dómharkan vék ætíð fyrir hlýlegu spaugi og mann- legri reisn. Hann var ekki handgenginn almættinu en fáir menn gengu í jafn góðum takti við það um sína daga og Valgarður Egilsson. Sigurbjörn Sveinsson. Ég kynntist Valgarði sem yfir- manni frumulíffræðideildar Rannsóknarstofu Háskólans í meinafræði á Landspítala, þegar ég hóf þar störf síðsumars 1985. Hann varð þar fljótt fremur vinur en yfirmaður og sautján ára aldursmunur skynjaðist lítt. Í kringum sig hafði hann góðan hóp starfsfólks, með brennandi áhuga á rannsóknarstörfum en líka margháttuð önnur áhugamál og í spjalli í kaffitímum var kom- ið víða við. Eitt þótti honum ég henta í fyrir utan það að hand- fjatla tilraunaglös, og það var að sjá sér fyrir nógu asnalegum fyrripörtum. Ef mér tókst að bulla einhverju upp var hann jafnskjótt búinn að botna. Hitti ég eina freyju flugs, forðum hér um daga, byrjaði ég einhvern tíma. Hann hló og svaraði: En hún vildi ekki buxurnar niður draga. Lífið áfram líður hægt, byrjaði ég síðar í einhverri hug- ljúfri taóískri uppljómun og fékk jafnskjótt þetta kaldhæðnislega áframhald: Leiðast fer mér biðin, helmingurinn hefði nægt og hann er þegar liðinn. Hann átti þau snjöllustu sléttubönd sem ég hef vitað og í þeim, einkanlega þegar vísunni er snúið aftur á bak, viðr- ar hann álit sitt á sumum þeim sem mest höfðu sig í frammi í þjóðlífinu á þeim tíma: Hljóta virðing mestu menn meðal vorrar þjóðar. Njóta heiðurs æðsta enn andans leita slóðar. Viðsnúin verður sagan svona: Slóðar leita andans enn, æðsta heiðurs njóta. Þjóðar vorrar meðalmenn mestu virðing hljóta. Penninn þaut þegar hann teiknaði. Hann gat á örskotstund stillt upp á A4-blaði trúverðugri mynd af liðsveitum þúsunda kappa með tiltæk vopn, að mæt- ast í Örlygsstaðabardaga. Held- ur stærra lið Kolbeins og Giss- urar í forgrunni og Sturla og Sighvatur með sína menn fjær, og aðeins ógreinilegra þeim meg- in að sjá hver var hver. Einn daginn komst hann að þeirri niðurstöðu að vinskapur með kommum gæti verið var- hugaverður og endað með drykkju. Það tók mig smá stund að sjá að þetta var rétt. Sem bet- ur fer slettist aldrei upp á vín- skápinn í samskiptum okkar Val- garðs. Árin liðu og margvíslegt amst- ur á rannsóknastofunni hélt mér löngum uppteknum en alltaf stakk hann kollinum inn í dyra- gættina annað veifið og gerði daginn skemmtilegri. Heim kom maður síðan þrautþjálfaður í orðaleikjum og engin leið að hætta því, ég hugsa að margur hláturinn og skemmtilegar stundir í fjölskyldunni hafi verið eðlilegt framhald af þessu and- rúmslofti nálægt Valgarði. Margir munu verða til að minnast Valgarðs betur en ég í þessum stuttu sundurlausu skrif- um sem hugsanlega gefa til kynna að allir dagar hafi verið honum án sorga. Svo var ekki en aldrei bar hann þær á torg. Þær gátu aftur á móti átt til að fá vandaðan búning í útgefnum ljóðum. Eftir starfslok hans á frumu- líffræðideild sáumst við sjaldnar og að því er eftirsjá, sem við frá- fall hans verður mér ljósari. Ég votta Katrínu og fjölskyldunni allri innilega samúð. Aðalgeir Arason. Þegar ég að morgni 18. desem- ber sl. frétti af skyndilegu andláti Valgarðs Egilssonar var mér brugðið og hugurinn leitaði ósjálfrátt til baka í samstarfstím- ann á meinafræðinni og vinasam- band æ síðan. Valgarður kom til starfa á meinafræðideild Landspítalans, sem þá hét Rannsóknarstofa Há- skólans í meinafræði, árið 1979 og starfaði þar í 31 ár og þar af yfirlæknir í 13 ár. Hann hafði áð- ur verið við nám og vísindarann- sóknir í London og tengdust rannsóknir hans aðallega erfða- efni í hvatberum og tengslum við myndun krabbameina.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.