Náttúrufræðingurinn

Volume

Náttúrufræðingurinn - 2018, Page 30

Náttúrufræðingurinn - 2018, Page 30
Náttúrufræðingurinn 30 INNGANGUR Hér er leitað lausnar á nokkrum ráðgátum sem hrannast hafa upp um breytingar á náttúrufari í Kollsvík og ef til vill víðar um land. Tekið skal fram að hér eru á ferðinni athuganir og tilgátur alþýðufræðimanns, byggðar annars vegar á birtum rannsóknum vísinda- manna og hins vegar á þeirri þekkingu sem lífsbaráttan og reynslan af um- gengni við íslenska náttúru hefur skilað. Ráðgáturnar má setja fram í spurn- ingaformi og eru hér afmarkaðar við Kollsvík: 1. Hver er skýringin á hinu aukna magni skeljasands á sandfjörur í Kollsvík? 2. Hvers vegna berst skeljasandur nú upp á fjörur þar sem hann var ekki áður? 3. Hvers vegna sjást miklir þarabakkar nær aldrei í fjörum, en voru algengir fyrrum? 4. Hvers vegna ganga brimhnútar nú á land og valda spjöllum, en ekki fyrrum? Svör við þessum spurningum geta væntanlega einnig skýrt að verulegu leyti alvarlegar afleiðingar þessara breytinga, annars vegar stóraukinn upp- blástur fjörusands á gróður, sem valdið hefur jarðvegseyðingu, einkum neðar- lega í landi Láganúps í Kollsvík (sjá 2. mynd) og hins vegar þau uggvænlegu spjöll sem eru að verða á fornminjum á og í Grundabökkum (3. mynd). Þar er hin forna og mikla verstöð, Láganúps- ver, óðum að hverfa í hafið vegna svör- funar úr bökkunum. Að auki hafa brim- skaflar ætt á land og brotið skörð í hina miklu og fornu Garða nokkru sunnar (4. mynd). Tilgáta mín er sú að setja megi þessar breytingar í samhengi við gríðar- lega fjölgun ígulkersins skollakopps. Fjölgunin leiddi til þess að þaraskógar eyddust, sem áður drógu verulega úr orku brimöldu. Afleiðingarnar eru annars vegar stóraukinn sandburður á fjörur með tilheyrandi uppblæstri, og hins vegar rof sjávarbakka í áður óþekktum mæli. Líklegt er að með þessu megi einnig skýra aukinn sjáv- 2. mynd. Kollsvík og nágrenni. Gráa svæðið við sjóinn er skeljasandur, sumpart uppgró- inn. Laus sandur í fjörum jókst á síðustu ára- tugum 20. aldar og sandfok sömuleiðis. arágang og strandrof víðar um land, þar á meðal í nærliggjandi fornum ver- stöðvum, Breiðavíkurveri og Brunnum í Látravík. OFFJÖLGUN SKOLLAKOPPS Á síðari áratugum 20. aldar fór að bera á því aukna rofi sem að ofan greinir, einkum í sjávarbökkunum neðan Grunda. Slíkt rof var reyndar nánast óþekkt í öllum mínum uppvexti í Kollsvík þar til eftir 1980. Uppblástur sands jókst einnig um það leyti, en það er ef til vill ekki eins góður mæli- kvarði, bæði vegna þess að inngrip með áburðargjöf höfðu staðið nokkurn tíma á undan og svo eru veruleg áraskipti að því hve mikið fýkur upp af sandi. Þó var þar greinileg aukning líka, og hefur til dæmis oftar þurft að moka sandsköflum frá húsum og görðum eftir 1980 en fyrir. Svo vill til að á þessum tíma, eða milli 1970 og 1990, stóð blómatímabil grá- sleppuútgerðar í Rauðasandshreppi. Grásleppusjómenn – ég var þá þeirra á meðal – urðu óþyrmilega varir við það þegar kom fram á níunda áratug síðustu aldar að víða var að hverfa hinn mikli þaraskógur sem er hrygningarsvæði grá- sleppunnar. Á örfáum árum eyðilögðust grásleppumið við ströndina. Þar sem áður höfðu verið þéttpökkuð net af grá- sleppu varð eyðimörk og auðn. Í stað bústinnar grásleppu kom úr sjó urmull af grænleitum ígulkerum, og voru net víða upprúlluð og samanhnýtt af þeim óþverra. Einnig dauðum þaradræsum og dauðum svampvöxnum þönglaræflum ásamt krabba og sæbjúgum sem sólgin eru í ýlduna. Um sama leyti bárust fréttir af sama ástandi víðar um land: Skollakoppi virtist hafa fjölgað óeðli- lega mikið af einhverjum orsökum og hann var að éta upp þaraskógana, líkt og engispretta leggst á akur. Þessu ígul- kerafári var ekki mikill gaumur gefinn á þeim tíma, nema hvað menn hörmuðu horfin grásleppumið og ræddu sín á milli um orsakir plágunnar. Hverjar sem orsakir eru fyrir þessari gríðarlegu fjölgun ígulkeranna þá er það staðreynd að þegar ég var síðast á grásleppuveiðum í Útvíkum (Kolls- vík, Breiðavík og Látravík) og sunnan- verðum Patreksfirði, árið 1990, höfðu mikil svæði eyðst af þara, og sú eyðing var þá enn í gangi (5. mynd). Hröðust var eyðingin á grunnum sandbotni, til dæmis undan Urðavelli á Gjögramiðum, við Selsker utantil við Hænuvík, í Kolls- vík og undan miðri Breiðavík, en á öllum þessum miðum var ég með net ásamt hásetum mínum. Þessi mið öll urðu ónothæf á 2–3 árum. Þar sem þara- skógurinn var þéttari, líklega þar sem minna var af sandi í botninum og skjól- sælla, virtist ígulkeraplágan ekki ná sér á strik. Af svæðum sem sluppu má nefna mið á Hænuvík, bæði undan Klakk og Bökkum, svæðið undan Helmum, Lát- urdal, Bænagjótu og Kofuhleinum við Hænuvíkurhlíðar, frammí í suðurk- anti Patreksfjarðarflóa, undan Krossa- dal í Kóp, undan Landamerkjahlein við Breið og hinn mikli þaragarður undan Breiðavík sunnanverðri, sunnan Kumbaravogs. AFLEIÐINGAR Í KOLLSVÍK Eftir 1980 urðu þær breytingar í Kollsvík að sandur barst í mun meira magni upp í fjörur, en þaradyngjur minnkuðu þar smám saman, og eru nú sjaldséðar (6. mynd). Á sama tíma varð sífellt erfiðara að stunda netaveiði á vík- inni; netum hætti oftar til að fyllast af rekþara og skollakoppi í netum fjölgaði stórum. Sandur í fjöru jókst verulega, þar sem meira barst upp í hafáttum en gutlaðist aftur út á milli. Kringum alda- mótin 2000 varð það æ oftar að brim- hnútar æddu hátt í fjöru á flæðum. Þeir brutu niður Bakkana og rufu skörð í hina fornu Garða. Slíkt hafði ekki skeð í manna minnum.

x

Náttúrufræðingurinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Náttúrufræðingurinn
https://timarit.is/publication/337

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.