Náttúrufræðingurinn

Volume

Náttúrufræðingurinn - 2018, Page 38

Náttúrufræðingurinn - 2018, Page 38
Náttúrufræðingurinn 38 INNGANGUR Ágengar framandi lífverur, dýr, plöntur og örverur, geta ógnað nátt- úrulegum vistkerfum og valdið fjár- hagstjóni.1–3 Á Íslandi eru skilgreindar sjö ágengar framandi tegundir plantna og dýra.4 Af þeim eru tvær plöntu- tegundir, alaskalúpína (Lupinus nootka- tensis) og skógarkerfill (Anthriscus syl- vaticus). Ljóst þykir að yfirvofandi lofts- lagsbreytingar hafi mikil áhrif á hvernig útbreiðsla framandi ágengra tegunda þróast í framtíðinni. Almennt er talið að á norðurslóðum og á hálendi Íslands geti skapast talsverð hætta af framandi ágengum plöntutegundum með breyttu loftslagi.5 Talið er að áhrif hlýnunar hér á landi geti valdið því að skógar- kerfill auki einnig útbreiðslu sína, einkum norðaustan- og suðaustanlands.6 Skógarkerfill á náttúruleg heimkynni víða í Evrópu, Vestur-Asíu og Norðvest- ur-Afríku.7 Í Evrópu er hann einkum algengur í Mið-Evrópu og Suður- Skandinavíu en virðist ekki ná sömu út- breiðslunni við Miðjarðarhaf.8–10 Á síð- ustu árum hefur hann aukið útbreiðslu sína, bæði þar sem hann finnst náttúru- legur og á svæðum þar sem hann hefur numið land. Hann telst framandi tegund í Finnlandi, í Færeyjum, á Grænlandi, Svalbarða, Jan Mayen og hér á Íslandi.4 Á þessum svæðum er hann þó einungis skilgreindur ágengur á Svalbarða, Jan Mayen og Íslandi. Í Norður-Ameríku er útbreiðsla hans orðin umtalsverð og má finna hann í Alaska, Austur- og Vestur- -Kanada og víða um meginland Banda- ríkjanna. Á suðurhveli jarðar vex hann nú einnig í Mið- og Suður-Afríku, í Suð- ur-Georgíu-eyju og á Nýja-Sjálandi.7,8,11 Skógarkerfill hefur dreifst um heiminn af eigin rammleik sem fræ en einnig verið fluttur í ný heimkynni sem skrautjurt og síðan dreifst um vistkerfið. Vaxtarsvæði hans er helst í vegköntum, á urðunarstöðum, í skógar- jöðrum, á náttúruverndarsvæðum og í túnum7,12,13 og hann virðist þrífast best í frjósömum og rökum jarðvegi.7 Kerf- illinn myndar víða þéttar breiður sem mjög ber á snemmsumars þegar hann er í blóma.14–16 Þar sem skógarkerfill nemur land eru megináhrif hans á einn veg. Mikil breyting verður á gróðurfari, tegundum fækkar verulega og kerfillinn verður ríkjandi. Hann hefur yfirburði í samkeppni við aðrar, oftast lágvaxnari jurtir um ljós, vatn og næringu.13 Hér á landi á skógarkerfill sér fremur stutta sögu. Hann var fyrst skráður hér- lendis árið 1927 og er líklegt að hann hafi verið fluttur hingað sem skraut- jurt í garða á fyrsta fjórðungi síðustu aldar.17 Í seinni heimsstyrjöldinni var hann orðinn allalgengur í görðum og við herbúðir í Reykjavík og nágrenni. Hann breiddist síðan nokkuð hratt út um land bæði í þéttbýli og sveit.18 Upp úr miðri síðustu öld var hann orðinn talsvert útbreiddur og finnst nú í öllum lands- hlutum, nema helst á suðaustanverðu landinu (1. mynd).19,20 Útbreiðsluhrað- ann má sennilega rekja til breyttra búskaparhátta (minnkandi beitar), aukinnar frjósemi jarðvegs (vegna lúpínubreiðna) og loftslagsbreytinga (hlýnunar).13,19,21–23 Eftir að hann nemur land á nýjum, oftast óbeittum svæðum, breiðist hann frekar hratt út og sækir í lækjargil, skurðruðninga, skjólbelti, vegkanta og í tún eða engjar sem ekki eru lengur slegin. Hér á landi eru sam- félög skógarkerfils það ung að fram- vinda þeirra er ekki vel þekkt, en ljóst er að öðrum plöntutegundum fækkar verulega á flestum þeim stöðum þar sem kerfillinn nær að mynda samfelldar breiður. Ekki liggja fyrir margar rannsóknir um eyðingu skógarkerfils hérlendis. Nokkur sveitarfélög hafa gripið til að- gerða gegn útbreiðslu skógarkerfils (Akureyrarbær, Stykkishólmsbær, Blá- skógabyggð o.fl.) en lítið hefur verið birt um ávinning þeirra aðgerða. Á árunum 2007–2009 lét Akureyrabær vinna skýr- slu um eyðingu ágengs gróðurs í Hrísey og var þar lagt til að skógarkerfli yrði eytt með plöntueitri.24,25 Ekki er vitað til að þessari aðgerðaáætlun hafi verið fylgt eftir. Þá hefur Stykkishólmsbæ tekist að halda útbreiðslu skógarkerfils í skefjum með endurteknum slætti frá árinu 2010.26 Erlendar rannsóknir sýna að erfitt getur reynst að stemma stigu við út- breiðslu kerfils eftir að hann hefur á annað borð komið sér fyrir í sverðinum og myndað samfelldar breiður. Aðgerðir felast fyrst og fremst í því að hindra fræ- dreifingu og myndun nýrra hliðarsprota af brumum efst á rót. Hefðbundnar að- ferðir, svo sem að stinga upp plöntur og eyða þeim, virðast helst skila árangri á svæðum þar sem um stakar plöntur er að ræða.21 Mikilvægt er að ná upp að minnsta kosti efstu 4–5 sentimetrunum af rótinni og gæta verður þess að fylgja eyðingunni eftir næstu ár og stinga upp nýjar fræplöntur sem kunna að skjóta upp kollinum. Plæging og jarð- vinnsla þykja vinnufrekar og kostnað- arsamar aðgerðir og árangurinn hefur ekki staðið undir væntingum.27 Heim- ildaleit sýnir að þeim aðferðum sem einkum hefur verið beitt erlendis til að eyða skógarkerfli úr landi má skipta í þrennt – eyðingu með beit, slætti og plöntueitri.21,22,28 Áhrif beitar og sláttar á útbreiðslu skógarkerfils eru afar misjöfn.22,28 Er- lendar rannsóknir sýna að sláttur og/ eða beit snemma sumars, fyrir fræ- þroskun, hindrar frædreifingu, en getur einnig leitt til þess að hliðar- sprotum af brumum efst á rót fjölgar og kynlaus fjölgun verður þar af leið- andi meiri.12,13,21,29,30 Í tilraun þar sem sauðfé var beitt á skógarkerfil í gras- lendi í Norður-Finnlandi reyndust langtímaáhrif beitarinnar afar lítil.28 Það sama kom fram í umfangsmiklu rannsóknarverkefni sem Norðmenn stóðu fyrir á árunum 2010–2013 (Hund- ekjeksprosjektet) þar sem þeir skoðuðu ólíkar leiðir til eyðingar skógarkerf- ils.22 Sauðfjárbeit að vori og hausti dró úr þéttleika skógarkerfils tímabundið en náði ekki að útrýma honum af við- komandi svæðum. Mikilvægt var að beit hæfist snemma að vori því að þegar plantan var orðin hávaxin leit sauðféð ekki við henni. Sláttur, jafnvel endurtek- inn sláttur, leiddi til þess að útbreiðsla skógarkerfilsins jókst fremur en að drag- ast saman á viðkomandi svæði. Sláttur- inn kom vissulega í veg fyrir að kerfill- inn myndaði fræ og dreifði sér þannig inn á ný svæði en rótarskotum hverrar plöntu fjölgaði umtalsvert, sem skilaði sér í auknum þéttleika.22 Niðurstöður annarra rannsókna um áhrif sláttar eru samhljóma hinum norsku. Sums staðar virðist endurtekinn sláttur draga veru- lega úr vexti kerfilsins12 en dæmi eru einnig um að hann færist í aukana við slátt.23 Sláttutími og sláttutíðni eru talin ráða miklu um árangurinn.23,29 Ef slegið er þrisvar til fjórum sinnum á sumri, dregur úr mætti kerfilsins, að minnsta kosti tímabundið.21

x

Náttúrufræðingurinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Náttúrufræðingurinn
https://timarit.is/publication/337

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.