Náttúrufræðingurinn - 2018, Blaðsíða 39
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags
39
Erlendis hafa margskonar plöntu-
eiturtegundir verið prófaðar gegn
skógarkerfli í gegnum tíðina. Niður-
stöður þessara prófana hafa verið
nokkuð misvísandi. Sum efnin hafa gefið
góða raun, að minnsta kosti tímabundið,
en árangur af öðrum hefur ekki staðið
undir væntingum.27,29 Erlendar rann-
sóknir hafa sýnt að svo virðist sem
hefðbundið tvíkímblöðungaeitur (t.d.
mecoprop-P og chlorfurecol-methyl) geti
haft tímabundin áhrif á vöxt skógar-
kerfils en nái ekki að eyða skógarkerfli
varanlega af tilteknu svæði.21,29 Eit-
urtegundir sem innihalda virka efnið
glýfosat virðast vera þær einu sem
geta drepið eldri skógarkerfilsplöntur
og eytt þeim þannig af tilteknu svæði,
að því gefnu að ekki verði samhliða
nýliðun frá fræforða eða fræregn úr
nágrenninu.31,33 Glýfosat er breiðvirkt
plöntueitur sem fyrst kom á markað um
1974 og hefur verið mikið notað í land-
búnaði um allan heim.32,33 Þekktustu
plöntueitrin hér á landi sem innihalda
glýfosat eru Roundup og Clinic og hafa
þau einkum verið notuð hingað til í bar-
áttunni gegn skógarkerfli. Í innlendri
rannsókn þar sem prófuð voru tvenns
konar plöntueitur, annars vegar hefð-
bundin tvíkímblöðungaeitur og hins
vegar eitur með glýfosati, kom í ljós að
áhrifaríkasta eitrið innihélt glýfosat.16
Skógarkerfill er afar útbreiddur í
Eyjafirði enda er jarðvegur þar frjó-
samur og veðurfar almennt fremur
hagstætt (2. mynd). Útbreiðsla hans
í Eyjafirði er gott dæmi um hve hröð
framvinda skógarkerfils getur verið.
Landeigendur þar tala margir um að
á einungis 5–6 árum nái stök skógar-
kerfilsplanta að verða að skógarkerf-
ilsbreiðu, sé ekkert að gert. Á árunum
2007–2014 stóð sveitarstjórn Eyja-
fjarðarsveitar fyrir átaksverkefni þar
sem markmiðið var að hefta útbreiðslu
skógarkerfils í sveitarfélaginu, en að
auki var unnið að því að safna gögnum
um eðli plöntunnar, útbreiðslu og ár-
angur við eyðingu. Talsverðir fjármunir
voru settir í átaksverkefnið og í það
fékkst styrkur á fjárlögum frá ríkinu.
Markmið rannsóknanna voru fjórþætt.
Þar skyldi athuga a) útbreiðslu skógar-
kerfils í vegköntum í Eyjafirði, b) hvort
hægt væri að eyða skógarkerfli af svæði
með endurtekinni notkun á plöntueitri
nokkur ár í röð, c) hvaða tímasetningar
hentuðu til úðunar, og d) hvort styrk-
leiki plöntueiturs skipti máli.
AÐFERÐIR
Þær niðurstöður sem hér verða
kynntar byggjast á þremur sjálfstæðum
rannsóknarverkefnum sem öll fóru fram
í Eyjafirði á árunum 2011–2014.
Skógarkerfill í vegköntum: Í grein frá
árinu 2006 greindu Sigurður H. Magn-
ússon16 og félagar frá því þegar ekið var
eftir stofnbrautum nokkurra sveitar-
félaga í Eyjafirði árið 2005 og lagt mat
á umfang og þéttleika skógarkerfils-
brúska í vegköntum. Í kjölfar átaks-
verkefnisins í Eyjafjarðarsveit var
ákveðið að endurtaka þetta mat árið
2011 (sex árum síðar) og fara sömu leiðir
3. mynd. Yfilitskort af Eyjafirði. Svarta
línan sýnir þá þjóðvegi sem eknir voru
við talningu á skógarkerfilsbrúskum. Gulu
punktarnir sýna staðsetningu úttektarreita
eftir mismargar úðanir með plöntueitri og
rauði punkturinn sýnir Kaupang þar sem til-
raun með tímasetningar úðunar og styrk
plöntueiturs fóru fram. – An overview map
of Eyjafjördur. Black line represents driven
roads when counting cow parsley patches.
Yellow dots show the location of experimental
plots and the red dot shows the location of
Kaupangur where the main experiment took
place. (Kort/Map: BB).
2. mynd. Skógarkerfilsbreiður (ljósir flekkir) í landi Knarrabergs og Kaupangs í Eyjafjarðarsveit – Cow parsley (white patches) in Knarraberg and
Kaupangur in Eyjafjardarsveit, N-Iceland. (Ljósm./Photo: JIC).