Náttúrufræðingurinn

Volume

Náttúrufræðingurinn - 2018, Page 49

Náttúrufræðingurinn - 2018, Page 49
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags 49 Ritrýnd grein Sigurður H. Magnússon og Hörður Kristinsson Gróður í Bláfellshólma, Koðralækjarhólma og öðrum beitarfriðuðum hólmum Beitarfriðaðir hólmar og eyjar í ám og vötnum eru lítil afmörkuð vistkerfi sem gefa vísbendingu um hvernig gróður landsins hefur þróast án víðtækra áhrifa mannsins. Í greininni er greint frá nýlegum athugunum á gróðri tveggja hólma í Árnessýslu, Bláfellshólma í Hvítá og Koðralækjarhólma í Tungufljóti. Flóra þeirra er síðan borin saman við flóru fjórtán beitarfriðaðra hólma sem áður höfðu verið rannsakaðir. Bláfellshólmi og Koðralækjarhólmi eru vel grónir. Í þeim báðum eru birki- skógarlundir og lítil votlendissvæði en að öðru leyti er gróður þeirra ólíkur. Í Bláfellshólma er mosaþemba með stinnastör ríkjandi en þar finnast einnig allstór mólendissvæði og lítt grónar klappir og melar. Stærsti hluti Koðra- lækjarhólma var árið 2012 vaxinn alaskalúpínu sem ásamt ætihvönn, víði- tegundum og birki hafði numið land á eyrum við skóginn. Aðstæður eru misjafnar í hólmunum sextán. Ellefu þeirra eru í stöðuvötnum en fimm í straumvatni. Þeir eru misstórir (0,06–15,4 ha), liggja mishátt í landi (70–560 m), þar er ársúrkoma ólík (690–2.300 mm) og yfirborð breytilegt. Í hólmunum voru alls skráðar 194 tegundir æðplantna. Mikill munur var á fjölda tegunda eftir hólmum (41–106) en ekki var greinilegt samband á milli stærðar hólma og fjölda tegunda. Flóra hólmanna er hins vegar tengd hæð þeirra yfir sjó. Í hólmunum eru allmargar sjaldgæfar tegundir, einkum í þeim sem lágt liggja. Í tveimur hólmum á láglendi, Viðey í Þjórsá og Koðralækjarhólma, hafa framandi tegundir numið land á síðustu árum og breytt gróðri þeirra talsvert. Gera má ráð fyrir að ágengar framandi tegundir ofar á vatnasviði straumvatna eða í nágrenni stöðuvatna geti í framtíðinni haft veruleg áhrif á gróður beitar- friðaðra hólma. Í ljósi þess að náttúruverndargildi hólmanna er mikið er brýnt að kanna gróður í fleiri hólmum og grípa til aðgerða til að vernda gróður þeirra sem verðmætastir eru. INNGANGUR Gróður í beitarfriðuðum hólmum og eyjum er yfirleitt mjög ólíkur þeim gróðri sem finnst á beittu landi í ná- grenni þeirra.1–3 Þetta hefur þótt bera vitni um mikil áhrif manna á gróður landsins. Margra alda búfjárbeit og önnur landnýting hefur gerbreytt gróðri bæði á hálendi og láglendi. Birkiskógi var eytt af stórum svæðum, ekki aðeins var hann beittur, heldur einnig nýttur til eldiviðar, kolagerðar og bygginga. Þá var land víða brennt til að bæta beitiland og greiða fyrir umferð og ræktun.4–6 Í kjölfarið hófst sums staðar mikið jarð- vegsrof, sem að hluta má einnig rekja til kólnandi veðráttu og eldgosa, sem olli gríðarlegum breytingum í landinu.5–10 Beitarfriðaðir hólmar og eyjar hafa að öllum líkindum orðið fyrir talsverðum áhrifum við þessi umskipti, m.a. vegna breytinga á fræregni, áfoki og sums staðar vegna minna skjóls þegar skógur og kjarr eyddist, en þessi beitarfriðuðu svæði gefa þó hugmynd um hvernig gróður hefði þróast án þeirra miklu áhrifa mannsins sem víðast hvar gætir hér á landi. Á undanförnum áratugum hefur gróður á beitarfriðuðum svæðum verið kannaður allvíða um land. Í sumum tilvikum til að afla vitneskju um gróður á lítt snortnu landi1,11,12 en í öðrum rannsóknum hefur gróður á beittu landi einnig verið rannsakaður til samanburðar.2,3,13 Niðurstöður sýna að á þessum gam- algrónu beitarfriðuðu svæðum er gróður yfirleitt hávaxnari en á samsvar- andi landi í grenndinni. Tré og runnar eru oft ríkjandi og skapa skilyrði fyrir aðrar tegundir sem annars þrifust þar ekki. Þar vaxa ýmsar tegundir sem eru viðkvæmar fyrir beit og eru því sjald- gæfar á beittu landi. Á beitarfriðuðum svæðum er því sums staðar að finna tegundir sem eru sjaldgæfar og hafa mikið verndargildi. Ætla má að gróður landsins hafi tekið miklum breytingum á síðustu árum.14 Víða hefur dregið úr búfjárbeit, land- græðsla og ræktun af ýmsu tagi hefur aukist og loftslag hlýnað. Tegundum hefur fjölgað vegna innflutnings, bæði af ásetningi og með óbeinum hætti. Framandi tegundir eru teknar að breiðast út, einkum á beitarfriðuðum Náttúrufræðingurinn 88 (1–2), bls. 49–67, 2018

x

Náttúrufræðingurinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Náttúrufræðingurinn
https://timarit.is/publication/337

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.