Náttúrufræðingurinn

Volume

Náttúrufræðingurinn - 2018, Page 69

Náttúrufræðingurinn - 2018, Page 69
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags 69 NÁTTÚRUFRÆÐINGURINN Frá síðasta aðalfundi hafa komið út tvö tvöföld hefti af Náttúrufræðingnum – þ.e. 87. árgangur, 1.–2. hefti og 3.–4. hefti. Álfheiður Ingadóttir er ritstjóri en við seinna heftið var Sigmundur Einarsson ráðinn sem ritstjóri henni við hlið. Sig- mundur vinnur einnig að þemahefti um Þingvallavatn og Mý- vatn sem áætlað er að komi út á því starfsári sem nú fer í hönd. Ritstjórnin er óbreytt frá fyrra ári: Droplaug Ólafsdóttir, dýrafræðingur, formaður Esther Ruth Guðmundsdóttir, jarðfræðingur Hafdís Hanna Ægisdóttir, plöntuvistfræðingur, fulltrúi stjórnar HÍN Hlynur Óskarsson, vistfræðingur Ó. Sindri Gíslason, sjávarlíffræðingur Tómas Grétar Gunnarsson, dýravistfræðingur Þóroddur F. Þóroddsson, jarðfræðingur Mörður Árnason er prófarkalesari og málfarsráðunautur tímaritsins. NEFNDIR Samstarfshópur frjálsra félagasamtaka á sviði umhverfis- mála á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytis er hópur fé- laga og samtaka sem hafa með sér samráð um ýmis mál sem ráðuneytið beinir til þeirra. Árni Hjartarson er fulltrúi HÍN en Hólmfríður Sigurðardóttir hjá Fuglavernd er talsmaður og tengiliður hópsins við ráðuneytið. Hópurinn hefur verið beðinn um tilnefningar í nefndir og ráð og fleira smálegt. Hópurinn á fulltrúa í nokkrum nefndum á vegum um- hverfis- og auðlindaráðuneytisins. Þetta eru Ráðgjafarnefnd hagsmunaaðila um stjórn vatnamála, Stjórn og svæðisráð Vatnajökuls þjóðgarðs, Ráðgjafarnefnd um stefnumarkandi landsáætlun til 12 ára um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, Nefnd um um- hverfisviðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytis – Kuðunginn, og Samráðsnefnd um sjálfbærar veiðar, svo eitt- hvað sé upp talið. Í ársbyrjun var Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlinda- ráðherra og í ráðherratíð sinni kallaði hún hópinn tvívegis saman til skrafs og ráðagerða í ráðuneytinu. Ágætur sam- hljómur var í málflutningi ráðherrans og fólks í samstarfs- hópnum á þessum fundum. Ráðherradómurinn varð þó stuttur, innan við ár, því stjórnin sprakk á haustmánuðum. Ný ríkisstjórn tók við stjórnartaumunum í árslok og Guð- mundur Ingi Guðbrandsson varð umhverfis- og auðlinda- ráðherra, en hann var raunar áður fulltrúi Landverndar í Samstarfshópnum. Guðmundur Ingi kallaði hópinn saman strax í byrjun febrúar og bætti við allmörgum félögum sem hann taldi að ættu þar heima, þannig að nú eru þau milli 20 og 30. Þar kom því saman allfjölmennur og fjölbreytilegur mannsöfnuður frá umhverfis samtökunum og úr ráðuneytinu. Ráðherra fór yfir stefnumið sín, viðhorf og áherslur. Fulltrúar samtakanna sögðu frá sínum baráttumálum og komu ýmsum erindum á framfæri. Almenn ánægja ríkti með þennan fund og það virtist samdóma álit manna að hann væri til vitnis um góða byrjun á ráðherraferli Guðmundar Inga. Á fundi með menntamálaráðherra 8. mars 2017. Kristján Þór Júlíusson, Ester Rut Unnsteinsdóttir, Árni Hjartarson, Margrét Hugadóttir og Eiríkur Þorláksson.

x

Náttúrufræðingurinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Náttúrufræðingurinn
https://timarit.is/publication/337

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.