Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.02.2019, Page 31

Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.02.2019, Page 31
stjórnar og löggjafarvalds um að fá að greiða úr slík- um sjóðum til félaganna án skattlagningar en að henda þeim á bál sem notað verður til að eyðileggja rauntekjur félaganna, eins og nú er stefnt í. Ljósrita gömul mistök og sjá hvort þau lagist ekki Það er óneitanlega kúnstugt að heyra ungt fólk, sem komist hefur til mikilla ábyrgðarstarfa, hlaupa undan spurningum sem þeirra eigin félagar þrá jafnmikið að fá svör við eins og aðrir og seilast í klisjur, af þeirri hillu í forngripasafni sögunnar sem geymir það sem fengið hefur hvað þyngsta og mest afgerandi dóma frá henni. Kannski er það örlagadómur þessarar þrætu að reynslulítið fólk hefur komist í aðstöðu sem tryggir því að fá skoðað, hvort undangengin reynsla hafi ekki örugglega öll verið á misskilningi byggð og þeir Kastró, Chavez, Sjáseskú og „sonur skóarans“ sjálf- ur hafi í raun haft rétt fyrir sér allan tímann. Það er vissulega afsakanlegt að áskilja sér rétt til að læra af eigin mistökum og blása á allt það sem er vel þekkt og skráð. Það gerir þá kröfu hins vegar óafsakanlega að henni mun fylgja stórkostlegt tjón fyrir þeirra eigin félaga og þjóðfélagið allt. Hitt hlutverkið: Jóakim frændi En svo hrekkjótt er tilveran að mitt í öllum klisj- unum situr þetta fólk með öreigatalið á vörunum nú á fúlgum sem fáir aðrir í samfélaginu sitja á. Og því ber að ávaxta það fé eins og best verður á kosið í þágu félaganna. Formaður verslunarmanna lenti í klemmu á dög- unum þegar þeir sem tekið hafa að sér gegn gjaldi að ávaxta fúlgurnar gengu of langt að hans mati. Hann hótaði því á svipstundu að svipta umsjónaraðilana verkefni sínu með tilheyrandi tekjutapi fyrir báða aðila. Vörslumenn sjóða samkvæmt samningi tapa auðvitað gangi hótunin eftir. Það gerir eigandi fjár- ins sennilega líka og það má hann ekki gera vitandi vits. En þannig vill fara þegar launþegahreyfing er með mörg ólík markmið í farteski sínu í einu, sem hvert rekur sig á annars horn. Enn eru þeir til sem muna eftir því þegar verka- lýðshreyfing tók um árið forystuna í baráttunni gegn háum vöxtum bankakerfisins. Skorað var á banka með harðorðum yfirlýsingum og lítt földum hótunum að lækka vexti sína ekki seinna en strax. Einn bankinn brást sýnu verst við þessum kröfum að mati verkalýðsfélaganna. Og þannig hittist á að það var einmitt bankinn sem geymdi og ávaxtaði sjóði eins baráttuglaðasta félagsins í slagnum við háa vexti. Forsvarsmenn þess héldu því með fylgismönnum og fjölmiðlum í afgreiðslusal þessa okurbanka og að gjaldkerastúkunni og sögðust komnir til að taka út sjóð sinn úr þessum banka. Segjum fyrir söguna að nefnd hafi verið talan 100 milljónir króna, sem er há tala nú en endurspeglaði ofurfé þá. Gjaldkerinn skrifaði ávísun upp á þá upphæð og af- henti formanninum. Hann þakkaði pent, snerist á hæli og hraðaði sér, með alla hersinguna, niður hringstigann í hvelfingar bankans sem geymdu bankahólf kúnnanna. Þar opnaði vörður stálgrindurnar og foringinn gekk þungum skrefum að sinni skúffu, sem var í stærri kantinum, dró hana út í allra augsýn og setti ávísunina ofan í með hnykk, eins og væri hann að taka í nefið. Lokaði og læsti með tveimur lyklum og fékk vörðurinn annan. Mikið lófatak kvað við í hvelf- ingunni. En í rauninni voru allir að klappa fyrir bankanum þótt þeir vissu það ekki. Hann var enn með alla sína peninga og yrði á meðan ávísunin stæði óútleyst í bankahólfinu. Útlán hans sem byggðust á þessu mikla og trausta innláni stóðu ósködduð og bankinn malaði af þeim gull. Sá eini sem tapaði var sjóður félagsins sem hafði áður notið of hárra vaxta að mati stjórnenda þess, en bankinn hafði nú í sinni vörslu án þess að greiða vexti. Walter á leik Þetta minnir á jarðarför heiðursmeðlims fjölskyldu í Sviss. Eftir að mold hafði verið kastað á kistuna tóku helstu fjölskyldumeðlimir, samkvæmt sinni hefð, upp veskið og létu svissneska franka í seðlum falla á lokið. Svo hittist á að flestir gáfu hinum látna 50 franka í farareyri. Þegar sjö deildarforingjar fjöl- skyldunnar höfðu þannig gefið 350 franka var komið að Walter vogunarsjóðsstjóra. Hann tók upp ávísanaheftið sitt, skrifaði ávísun upp á 500 franka og hoppaði svo sprækur niður á kistulokið (grafið grynnra en hér), tók þessa skitnu 350 franka og stakk í vasann en skildi 500 franka ávísun eftir á lokinu. Alltaf skyldi Walter frændi þurfa að slá alla aðra út, hugsuðu sumir. Þetta gæti verið vont fordæmi, ef heilsuleysi gripi um sig í ættinni, hugsuðu aðrir. En einhverjum þótti sem eitthvað vantaði upp á þessa atburðarás, þótt þeir næðu því ekki til fulls hvað væri að. Skömmu síðar var búið að fylla gröfina og laga yfirborðið og erfidrykkjan beið. Walter kaus að sleppa henni, sem sýndi enn hversu störfum hlaðinn hann var. Þessi saga og sögurnar tvær úr raunveruleikanum segja einkum það, að það er ekki endilega allt sem sýnist. En þá má spyrja sig: Hvers vegna voru þessir miklu peningar verkalýðsfélagsins góða einmitt geymdir í bankanum vonda sem vildi ekki lækka vexti sína þegar í stað að kröfu foringjanna? Ástæð- an var sú, að verkalýðsfélagið hafði staðið faglega að sínum málum, eins og þess var von og vísa. Það bauð út vörsluna á hinum mikla sjóði, sem láglaunafólkið hafði önglað saman með erfiði sínu um langa hríð. Sá banki myndi fá að ávaxta sjóðinn sem byðist til að borga hæstu vextina. Nema hvað? Morgunblaðið/RAX ’Mörg fyrirtæki eru fyrir nokkru tekin aðfækka fólki til að geta greitt þeim semáfram verða samkvæmt hinum metnaðar-fullu samningum. Eins og staðan er nú orðin stefnir í að kaupmáttarsigurinn sem þótti vinnast með síðustu samningum fjúki út um gluggann ásamt þeim nýja. 24.2. 2019 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 31

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.