Fréttir - Eyjafréttir - 31.05.2012, Side 17
Fréttir / Fimmtudagur 31. maí 2012 17
byrjaði minn stýrimannsferil.
Svona fer þetta í hring,“ segir
Ólafur sem minnist þessa sumars
um borð í Heimaey með ánægju.
„Það var góður skóli að vera með
Svenna Valgeirs, sem var afburða
dugnaðarmaður. Þetta var oft erfitt
en Svenni var svo duglegur að
maður bara hreifst með honum, það
var ekki hægt annað.“
Síldveiðar á Breiðafirði
alskemmtilegastar
Ólafur segir að hann hafi byrjað
sína skipstjórn á árunum 1985 til
1986. „Ég man það ekki alveg en
þetta þróaðist þannig að ég fór að
leysa pabba af á Kap VE túr og túr
á loðnunni.“ Og aðspurður hvort
ekki hafi fylgt því smáfiðringur að
taka við skipstjórn, segist hann bara
ekki muna það. „Jú, það hefur
ábyggi lega verið einhver spenn -
ingur, það hlýtur bara að vera. En
ég man að mér fannst það dálítið
skrýtið að vera yngstur um borð og
vera skipstjóri. En það voru svo
góðir karlar þarna um borð að það
var aldrei neitt vandamál.“
Þær breytingar urðu á útgerðinni á
Kap VE á þessum árum að faðir
Ólafs, Einar Ólafsson og Ágúst
Guðmundsson, sem áttu Kap VE,
ákváðu að selja Vinnslustöðinni í
Vestmannaeyjum útgerðina. „Þeir
sem voru aðalmenn í stjórn
Vinnslustöðvarinnar á þessum tíma
voru Haraldur Gíslason og Bjarni
Sighvatsson. Þrátt fyrir ungan aldur
og takmarkaða reynslu buðu þeir
mér að halda áfram með skipið sem
ég gerði og held að hafi bara tekist
nokkuð þokkalega. Ég á þeim
mikið að þakka, þeim Haraldi og
Bjarna, að þeir skyldu treysta mér
fyrir þessu,“ segir Ólafur.
Og þegar Ólafur er spurður hvaða
veiðiskapur sé skemmtilegastur, þá
stendur ekki á svarinu. „Það eru
nótaveiðarnar, tvímælalaust, enda
hef ég verið mest við þær á mínum
ferli. Og alskemmtilegastar eru
síldveiðarnar á Breiðafirði undan-
farin ár. Það er alveg frábærlega
gaman að þeim. Þarna er verið á
grunnu vatni og stundum erfitt að
eiga við þetta en mikil spenna sem
fylgir þessum veiðum.“
Ekki var hægt að sleppa því að
spyrja Ólaf hvernig góður skipstjóri
ætti að vera. Og aldrei slíku vant,
þá vafðist honum tunga um tönn.
„Sennilega er vandfundin upp-
skriftin að því,“ sagði hann. „En
ætli það sé ekki að hafa vilja og
áhuga fyrir því sem maður er að
gera. Og svo er það mikið atriði að
hafa gott fólk með sér.“
Í beinu framhaldi var svo spurt
hvernig góður mannskapur ætti að
vera og þá stóð ekki á svarinu.
„Það er mannskapur sem þú getur
treyst og þarft ekki að hafa áhyggj -
ur af. Þegar hlutirnir gerast bara án
þess að þurfi eitthvað að vesenast
sjálfur í því. Ég er svo heppinn að
vera með svoleiðis mannskap.“
Miklir Vestmannaeyingar
á heimilinu
Ólafur er kvæntur Höllu Svavars -
dóttur, kennara og klettanörd, eins
og Ólafur orðar það, en þau giftu
sig árið 1982. Og börnin eru fjögur.
Sindri er framkvæmdastjóri Skipa -
lyftunnar í Vestmannaeyjum, Daði
er í háskólanámi í Kaupmannahöfn,
Einar Gauti sem er að hefja há -
skólanám og Svava Tara, sem er
yngst, er enn í framhaldsskóla og
efnileg knattspyrnukona.
„Já, þau eru þekkt fyrir það feðg -
inin, Halla og Svavar tengdapabbi,
að ganga á Heimaklett, helst á
hverjum degi árið um kring,“ segir
Ólafur. Og þetta er smitandi. „Ég
fer daglega með henni ef ég er í
landi, á síðasta ári held ég að ég
hafi farið rúmlega hundrað sinnum
upp á Heimaklett. Svo höfum við
líka farið í heilmiklar gönguferðir
uppi á landi, á Hornströndum og
víðar. Ég hef tekið virkan þátt í
þessum göngum með henni. Svo
hef ég smávegis verið að byrja í
golfinu aftur en það er alveg von-
laust að ná konunni með í það,
þvert nei við því. Kannski er það
tilhugsunin um að tapa fyrir mér
sem stendur í vegi fyrir því,“ segir
Ólafur og brosir út undir eyru.
Ólafur segir að í raun hafi fjöl-
skyldulíf sjómanna ekki breyst
mikið á undanförnum áratugum.
„Þetta hefur alltaf verið þannig að
konan hefur séð um nær alla hluti í
landi, sem viðkoma heimilinu og
rekstri þess. Þannig hefur það alltaf
verið og hefur ekkert breyst. En
það var mikil breyting að fá síma -
samband út á sjó svo ekki sé nú
minnst á internetið. Það hefur gjör-
breytt öllum samskiptum manna
við sína nánustu í landi.“
Og þeim fáu tómstundum sem
gefast í landi segist Ólafur reyna að
eyða í samskipti við fjölskylduna
og svo útivist. „Eins og ég minntist
á áðan þá reyni ég komast af og til
á golfvöllinn og svo kom mér það
verulega á óvart hvað ég hef haft
gaman af að hjálpa konunni í
garðinum. Nú, svo eigum við
Zodiac-tuðru og höfum verið að
brölta svolítið í því. Það eru miklir
Vestmannaeyingar á heimilinu og
undanfarið hefur eggjasnatt verið í
fyrirrúmi.“
En Ólafur segir að félagslíf, svona
eins og flestir þeir sem vinna í
landi þekkja það, verði alltaf dálítið
útundan hjá sjómönnum. „Ég er
félagi í Akóges en get sáralítið
stundað fundi og skemmtanir þar.
Það er einn af fylgifiskum sjó-
mennskunnar að slíkir þættir verða
útundan.“
Föstudagurinn 13.
kom ekki til greina
Eins og fram hefur komið í fréttum,
þá eru Ólafur og hans menn ný -
komnir heim með nýjasta skipið í
flotanum, Heimaey VE 1. „Við
fórum héðan til að sækja skipið
fimmtudaginn 12. apríl, degi áður
en ráð hafði verið fyrir gert; það
kom ekki til greina að byrja þessa
ferð föstudaginn 13.“ segir Ólafur.
„Flugum til Parísar og svo þaðan til
Santiago í Chile og flugið tók 14
tíma og 14 mínútur. Ég held að það
sé lengsta flug sem boðið er upp á
heiminum í dag,“ bætir hann við.
„Svo var tekið innanlandsflug til
Concepcion þar sem skipasmíða -
stöðin er og þangað komum við 15.
apríl. Skipið fengum við afhent 17.
apríl og lögðum af stað þann 19.
apríl.“
Og Ólafur segir að sú sigling hafi
verið tíðindalaus þar til komið var
að því að fara gegnum Panama -
skurðinn. „Við lögðumst við akkeri
fyrir utan Panama og þar fengum
við að bíða í fjóra sólarhringa þar
til þeim loksins þóknaðist að
hleypa okkur í gegn,“ segir Ólafur
og af svip hans má ráða að hann
hafi ekki verið alveg sáttur við þá
bið. „Því var haldið fram að við
hefðum ekki verið með alla pappíra
í lagi sem var tóm þvæla. Að
lokum var það eitt skjal sem stóð út
af borðinu og olli einhverjum
töfum en svo var því kippt í lag og
þar með var okkur hleypt inn í
skurðinn.“
Í gegnum Panamskurðinn
í myrkri
Ólafur segir Panamaskurðinn hreint
ótrúlegt fyrirbæri. „Eini ókosturinn
við þessa ferð gegnum skurðinn var
sá að við vorum lengst af í myrkri
og gátum því ekki notið þessarar
siglingar eins og best hefði verið,“
segir Ólafur en alls tók siglingin
gegnum skurðinn sjö klukkustundir.
„Svo var leiðin greið yfir Karaíba -
haf og stefnan síðan sett á Vest -
mannaeyjar. Og hingað komum við
þriðjudaginn 15. maí, eftir tæplega
mánaðarferð, þar af 22 daga á
siglingu.“ Á þessari siglingu var
um borð sjö manna áhöfn ásamt
því að einn var frá skipasmíðastöð -
inni til að fylgjast með að allt
virkaði sem skyldi.
Fyrsta verkefni nýja skipsins, eftir
að prufutúr er afstaðinn, verður að
fara á makrílveiðar. Ólafur segir að
ekki sé búið að tímasetja það ná -
kvæmlega en væntanlega verði það
í júní. Síðan taka við áframhaldandi
uppsjávarveiðar. „Og vonandi
verður þetta bara hefðbundið hjá
okkur,“ segir Ólafur.
Breytingarnar
eftirminni legastar
Þegar Ólafur er beðinn um að rifja
upp eitthvað eftirminnilegt frá ferli
sínum, hugsar hann sig um góða
stund og segir síðan: „Veistu, að ég
hef verið svo lánsamur að hafa
aldrei lent í slysum eða skaða til
sjós. Ég get engar frægðarsögur
sagt af slíku. En það sem mér er
hvað eftirminnilegast eru allar þær
breytingar sem orðið hafa á þeim
árum sem liðin eru frá því að ég
byrjaði til sjós. Hver heldurðu til
dæmis að hefði trúað því fyrir svo
sem tíu, fimmtán árum að við
ættum eftir að fara að veiða makríl
við Ísland? Og þar áður, þegar við
fórum að veiða kolmunna og norsk-
íslensku síldina.
Sjálfsagt óraði engan fyrir þessu á
sínum tíma og ég reikna með að
við eigum eftir að upplifa eitthvað
ámóta í framtíðinni, einhvern veiði -
skap sem okkur þætti fáránlegt að
hugsa um í dag. En þessar veiðar,
sem að verulegu leyti voru í upp -
hafi tilraunaveiðar, kostaðar af
útgerðarmönnunum sjálfum, gerðu
það að verkum að Íslendingar
áunnu sér rétt til áframhaldandi
veiða úr þessum stofnum. Þess
vegna fer það virkilega í taugarnar
á mér þegar misvitrir menn eru í
dag að tala um gjafakvóta til út -
gerðanna. Þarna voru menn í raun
og veru að vinna brautryðjendastarf
í þágu þjóðarinnar, oft með ærnum
tilkostnaði og þetta átti sinn þátt í
því að bæta lífskjör allrar þjóðar -
innar, við njótum góðs af þessu í
dag.
Auðvitað eiga menn að njóta góðs
af því sem þeir leggja á sig. Aftur á
móti finnst mér stundum eins og
menn og konur í ábyrgðarstöðum í
þjóðfélaginu séu þeirrar skoðunar
að það beri að refsa þeim fyrir að
hafa staðið í þessu brautryðjenda -
starfi. Mér finnst þetta nær óskilj -
anlegt.“
En einhverja stærstu stundina í
lífinu segir Ólafur líklega vera
þegar þeir sigldu á Heimaey með -
fram hraunkantinum inn til Vest -
mannaeyja, þriðjudaginn 15. maí
síðastliðinn. „Að koma að Eyjum í
blíðuveðri og mörghundr uð manns
saman komin til að taka á móti
okkur, það var hreint stórkostlegt
móment, sem ekki gleymist. Þarna
fékk maður að kynnast því hvernig
íþróttamönnum líklega líður sem
koma með bikar heim til Eyja, það
er sennilega svipuð tilfinning,“
sagði Ólafur.
Og ekki er hægt að enda þetta
spjall án þess að spyrja kafteininn á
Heimaey VE 1 hvernig honum lítist
á framtíðina í sjávarútvegi á
Íslandi.
„Já, það er stóra spurningin. Ég
vona svo sannarlega að sjávarútveg-
urinn megi verða, eins og hann
hefur verið, undirstaða atvinnulífs á
Íslandi, og menn fái vinnufrið til að
geta rekið fyrirtæki sín, fjárfest og
haldið áfram á sömu braut og
hingað til. Hins vegar óttast ég þá
um ræðu sem er í gangi núna. Gangi
það eftir, þau lagafrumvörp sem
lögð hafa verið fram, getur það haft
hroðalegar afleiðingar fyrir lands-
byggðina. Mér finnst einhvern veg-
inn alveg nóg að þurfa að glíma við
duttlunga náttúrunnar, þó að við
þurfum ekki að vera að slást í
svona rugli,“ sagði Ólafur Ágúst
Einarsson að lokum.
Sigurgeir Jónsson-
sigurge@simnet.is
Eins og ég minntist á áðan þá reyni ég
komast af og til á golfvöllinn og svo kom
mér það verulega á óvart hvað ég hef haft
gaman af að hjálpa konunni í garðinum.
Nú, svo eigum við Zodiac-tuðru og höfum
verið að brölta svolítið í því. Það eru miklir
Vestmannaeyingar á heimilinu og undan-
farið hefur eggjasnatt verið í fyrirrúmi.
” Að koma að Eyjum í blíðuveðri ogmörghundr uð manns saman komin til aðtaka á móti okkur, það var hreintstórkostlegt móment, sem ekki gleymist.Þarna fékk maður að kynnast því hvernigíþróttamönnum líklega líður sem koma
með bikar heim til Eyja, það er sennilega
svipuð tilfinning.
”
FJÖLSKYLDAN MÆTT Börnin, Svava Tara og Einar Gauti og tengdaforeldrarnir, Svavar Steingrímsson og Eygló Óskarsdóttir og eiginkonan,
Halla Svavarsdóttir voru mætt þegar Ólafur kom með skip sitt til Eyja.