Dagblaðið Vísir - DV - 31.05.2019, Síða 74
74 31. maí 2019FRÉTTIR - RÍKIR ÍSLENDINGAR
Íslendingarnir sem byrjuðu
með tvær hendur tómar
DV tók saman nokkur dæmi um íslenskar alþýðu-
hetjur sem fæddust ekki með silfurskeið í munni.
Þetta eru frumkvöðlar sem byrjuðu með tvær
hendur tómar og uppskáru að lokum árangur erf-
iðisins, þökk sé dugnaði og þrautseigju.
Jóhannes Felixsson, betur þekktur sem
Jói Fel, byrjaði með tvær hendur tómar
þegar hann stofnaði bakaríið Hjá Jóa Fel,
brauð og kökulist, árið 1997. Hann hafði
þá gengið með hugmyndina í maganum
í fimm ár. Jói var á þessum tíma þrítugur
og starfaði sem bakari hjá Myllunni.
Jói veðsetti íbúðina sína til að láta
drauminn um bakarí rætast og festi kaup
á húsnæði á Kleppsvegi 152. Hann endur-
skipulagði þvínæst húsnæðið, henti út
gömlu innréttingunum og teikn-
aði og hannaði nýjar inn-
réttingar sjálfur.
„Bakaríið stofn-
aði ég með það
í huga að baka
þau brauð sem
markaðurinn
vildi, en ekki
þau brauð
sem voru á
markaðinum,“ sagði Jói í samtali við Morgunblað-
ið árið 1997 en hann fetaði nýjar slóðir með því
að hafa brauð í fyrirrúmi í bakaríinu og festi kaup
á stórum steinofni sem blasti við viðskiptavinum
þegar þeir komu inn. Í umræddu viðtali sagði
hann að mönnum hefði ekki litist alltof
vel á þessa hugmynd hans í fyrstu en
í ljós kom að áhættan borgaði sig.
Bakaríin eru í dag fjögur talsins og
starfsfólk rúmlega 70 talsins.
„Ég hafði mikla trú á því sem ég
var að gera og var með stórar hug-
myndir sem hafa ræst,“ sagði Jói
í samtali við Frjálsa verslun árið
2008.
Jóhann Óli Guðmundsson stofnaði lítið fyrirtæki
í kringum öryggisgæslu árið 1979 og hlaut það
nafnið Securitas. Jóhann var á þessum tíma í námi
og vann ýmis störf samhliða enda þurfti hann að
sjá fyrir fjögurra manna fjölskyldu. Hann hafði
meðal annars unnið sem öryggisvörður og ákvað
að stofna fyrirtæki í kringum þá þjónustu. Til að
fjármagna stofnun fyrirtækisins seldi Jóhann
meðal annars gamla Lödu sem hann átti. Hann
setti síðan upp skrifstofu í leiguíbúð sinni í Stóra-
gerði með því að koma upp litlu borði og stól inni
í geymsluherbergi. Starfsemi fyrirtækisins óx hratt
og í dag telur Securitas yfir 400 starfsmenn.
„Ég neita því ekki að stjórnendum fyrirtækja
fannst þetta svolítið framandi þjónusta og nokkr-
ir voru svo undrandi þegar ég bar upp erindið að
þeir litu nánast á mig eins og ég væri frá öðrum
hnetti, grænn með tvö horn út úr höfðinu,“ sagði
Jóhann í samtali við Frjálsa verslun árið 1996 og
bætti við á öðrum stað að hugarfarið skipti öllu
máli í farsælum fyrirtækjarekstri.
„Þeir sem á endanum ná árangri einbeita sér
að uppbyggingu í stað niðurrifs og þeir geta sam-
glaðst öðrum. Þeir læra af árangri annarra.“
Árið 1944 sneri Alfreð Elíasson flugstjóri heim til Ís-
lands eftir að hafa verið í námi í Kanada. Hann fékk
félaga sína, þá Kristin Olsen og Sigurð Ólafsson til
að kaupa með sér litla Stinson Reliant-sjóflugvél og
fjármögnuðu þeir kaupin með hjálp vina og vanda-
manna. Planið var að færa Flugfélagi Íslands vélina og
fá vinnu í staðinn. Það gekk ekki eftir og ákváðu þeir
félagar þá að stofna sitt eigið flugfélag: Loftleiðir hf.
Stinson-flugvélin, sem tók aðeins þrjá farþega,
var eina vél félagsins í upphafi og í fyrstu ferð fé-
lagsins var einn farþegi fluttur til Ísafjarðar. Þrem-
enningarnir unnu baki brotnu og börðust áfram í
erfiðu viðskiptaumhverfi en fljótlega eftir að félagið
var stofnað skall á kreppa, viðskiptahöft jukust og
gengi krónunnar sveiflaðist. Árið 1952 sneri félagið
sér alfarið að millilandaflugi og varð brautryðjandi
í lággjaldaflugi á milli Evrópu og Bandaríkjanna.
Árið 1980 vann Tómas Andrés Tómasson við að steikja hamborgara
á veitingastaðnum Winnies. Hann var þá nýkominn úr áfengismeð-
ferð og hafði lokið námi í Bandaríkjunum. Hann átti ekki krónu í
vasanum og var nýbúinn að kaupa íbúð þegar hann ákvað að opna
hamborgarastað. Eftir aðeins nokkrar vikur var Tommi farinn að
selja yfir þúsund hamborgara á dag. Í dag þekkja hann allir sem
Tomma á Búllunni.
„Þegar ég opnaði Tommahamborgara árið 1981 þá svaf ég ásamt
þáverandi eiginkonu minni, Helgu Bjarnadóttur, sem var sem
klettur mér við hlið í rekstrinum, á skrifstofunni, sem var ekki mik-
ið stærri en þessi, í átta mánuði,“ sagði Tommi í viðtali við DV árið
2016. Á öðrum stað sagði hann: „Þegar ég opnaði Tommaham-
borgara átti ég ekki neitt. Ég tók sénsinn og það fór allt úr böndun-
um því það var svo brjálað að gera.“
Í dag eru útibú Hamborgarabúllu Tómasar um 20 talsins í sex
löndum og sjö á Íslandi. „Þetta var bara heppni, ég var á réttum
stað á réttum tíma. Fáir nýir staðir höfðu opnað árin þar á undan
og þetta var rétta stundin,“ sagði Tommi í viðtali sem birtist í Frétta-
blaðinu árið 2004. Þar sagðist hann jafnframt hafa haft skýra sýn á
reksturinn frá upphafi. „Ég ætlaði annaðhvort að hætta eftir þrjú ár,
eða þegar ég seldi milljónasta hamborgarann. Það vildi þannig til að
þessi tímamót bar upp um svipað leyti, það tók mig þrjú ár að selja
milljón hamborgara.“
Kristján Einarsson og eiginkona hans, Sigríður Bára Hermannsdótt-
ir, stofnuðu fyrirtækið Rekstrarvörur árið 1982. Kristján hafði unnið
sjálfstætt við að selja hreinlætisvörur til stofnana og fyrirtækja og
þróaði út frá því viðskiptahugmynd. Fyrsta húsnæði fyrirtækisins
var í 30 fermetra bílskúr á Laugateig og einu starfsmennirnir voru
þau hjónin. Í dag er starfsmannahópurinn hátt í 50 manns og þá
starfa 14 manns hjá útibúi fyrirtækisins í Danmörku.
Kristján lýsti upphafsárum fyrirtækisins í viðtali við Frjálsa versl-
un um miðjan tíunda áratuginn. „Ég ákvað að taka eitt skref í einu
í uppbyggingu fyrirtækisins og byggja sem minnst á lánsfé. Þetta
kostaði mikla vinnu í umhverfi þar sem viðhorf voru ekki sérlega
hlynnt því að maður færi út í eigin atvinnurekstur. Enda hafa frekar
fáir af minni kynslóð farið út í sjálfstæða starfsemi. Fleiri hafa leitað
til fyrirtækja eða hins opinbera um vinnu.“
Helgi Vilhjálmsson, betur þekktur sem Helgi í
Góu, kynntist sælgætisgerð þegar hann starfaði hjá
Nóa Siríusi á fyrri hluta sjöunda áratugarins. Eftir
að hafa misst vinnuna hjá fyrirtækinu fór hann að
búa til karamellur og fleira sælgæti í kjallaranum
heima hjá sér og dreifði því síðan sjálfur í verslan-
ir. Sælgætisgerðin Góa var stofnuð þann 1. janúar
1968 af þeim Helga og Karli Ágústssyni. Þeir
félagarnir létu enda ná saman með því að
stunda aðra vinnu á daginn en einbeittu
sér að sælgætisgerðinni á kvöldin og átti
fyrirtækið aðeins eina karamelluvél til
að byrja með. Þegar betur fór að ganga
hjá fyrirtækinu keypti Helgi fé-
laga sinn út úr rekstrinum.
„Þegar ég stofnaði Góu
árið 1968 spurði ég sjálf-
an mig oft að því hvort ég
gæti keppt við þetta fólk.
Það átti Skeljung, Ræsi, HP heildverslun, það átti
þetta og hitt og svo átti ættin afa og ömmu í póli-
tíkinni. En maður reyndi,“ sagði Helgi í samtali við
Lifðu núna fyrir nokkrum árum.
Góa er í dag næststærsti sælgætisframleiðandi
landsins en starfsmannafjöldinn er um 50 manns
og hafa sumir þeirra starfað hjá fyrirtækinu í yfir
40 ár.
Helgi kom sömuleiðis skyndibitakeðjunni
Kentucky Fried Chicken á laggirnar hér á landi í
byrjun níunda áratugarins og kostaði það blóð,
svita og tár. Fáir höfðu trú á hugmyndinni og
mönnum fannst einhæft að ætla einungis að
selja kjúkling. Þegar Helgi fór að falast eftir
leyfi erlendis til að opna KFC-veitingastað
hér á landi vissi nær enginn hvað Ísland var
en hann gafst þó ekki upp og hætti ekki
fyrr en hann var kominn með leyf-
ið í hendurnar. Rekstur KFC gekk
vel frá fyrsta degi enda hafði lengi
vantað ódýran skyndibitastað hér
á landi.
Tommi á Búllunni
Jói Fel
Alfreð Elíasson
Seldi Lödu til að
fjármagna reksturinn
Byrjuðu í bílskúrnum
Helgi í Góu