Morgunblaðið - Sunnudagur - 21.07.2019, Blaðsíða 15
21.7. 2019 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15
vinna hér í Þjóðleikhúsinu,“ segir Ari, en meðal þeirra verkefna
sem hann hefur lagt áherslu á er að fjölga ferðum leikhússins til
að sýna verk um land allt.
„Sjónarmiðið með þessum ferðum er list án aðgreiningar út
frá búsetu og efnahag. Þær fjölskyldur sem búa við nauman
efnahag verða oft að neita sér um að fara í leikhús. Þess vegna
förum við út um allt land og bjóðum börnum á sýningar,“ segir
Ari.
„Nýlega var framkvæmd mjög stór könnun meðal allra stofn-
ana í sviðslistum og Þjóðleikhúsið kom best út í þessari könnun.
Hér er mikil starfsánægja, mikið traust á yfirstjórn, fá tilfelli
áreitis, og svo framvegis, sem er mjög gleðilegt,“ heldur Ari
áfram. „Það gefur til kynna að hér sé góður starfsandi og hér sé
vinnustaðarstemning góð.“
Ari segir höfundastarf einnig öflugt innan leikhússins og
skyldur Þjóðleikhússins við íslenska tungu séu ofarlega á baugi
meðal stjórnenda þess. „Tæplega helmingur þeirra verka sem
við sýnum er íslensk verk. Við erum á hverjum tíma með höf-
unda að skrifa sérstaklega fyrir okkur, við erum að vinna að leik-
gerðum upp úr skáldsögum og við leggjum áherslu á að finna
glæsileg hlutverk fyrir konur, því það skortir í leikbókmennt-
irnar,“ segir Ari. „Ég held að Þjóðleikhúsið eigi meiri hljóm-
grunn meðal almennings núna en oft áður, sem birtist í aðsókn-
inni. Þjóðleikhúsið má ekki vera einstrengingslegt sjónarmið
eins manns heldur þarf það að endurspegla samfélagið sem við
búum í; annars vegar með því að fjalla um málefni sem máli
skipta og í öðru lagi með því að vera með sýningar sem vekja
áhuga og fólk langar til að sjá.“
Ósætti hluti af starfinu
Ferill Ara sem þjóðleikhússtjóri hefur ekki alltaf verið hæglátur.
Kvartanir um erfið samskipti og hegðun hans hafa komið upp á
yfirborðið og deilur við Félag íslenskra leikara (FÍL) ratað í fjöl-
miðla. Ari hefur fengið á sig gagnrýni og ástandi innan Þjóðleik-
hússins verið lýst sem viðkvæmu.
„Ég virði og skil þá gagnrýni sem ég hef fengið á mig,“ segir
Ari. „Þjóðleikhússtjóri þarf oft að taka ákvarðanir sem varða
starfsframa listamanna og þeir eðlilega taka það nærri sér. Ég
auðvitað hef alltaf reynt að taka þær ákvarðanir á málefnalegan
hátt og eins vel og hægt er og stend alveg við þær þótt ég skilji að
það séu ekki allir fullkomlega sáttir við það.“
Ari segist taka það nærri sér ef einhver er ósáttur við hann, en
það sé hluti af starfi þjóðleikhússtjóra. „Ég verð að sætta mig við
það að ekki sé alltaf sagt rétt frá samskiptum, en ég tek það til
mín. Ég tek gagnrýninni þannig að ég hugsa um það sem að mér
snýr og reyni að bæta það sem ég get bætt,“ segir hann.
Afmælissýning í minningu Egners
Ari telur að leikhúsið hafi sjaldan haft stærra hlutverki að gegna
gagnvart andlegu lífi almennings á Íslandi en í dag. „Ég held að
hin ótrúlega mikla aðsókn að Þjóðleikhúsinu sýni að við erum að
svara einhverri þörf hjá almenningi. Þú færð í leikhúsinu dýpri
og hreinni skilning á hlutskipti mannsins. Bíómyndir eru allt
öðruvísi og verka allt öðruvísi á mann. Ég held að leikhúsið hafi
mjög mikilvægum skyldum að gegna í dag. Það er eins og sam-
félagsmiðlar dragi fram í okkur vonda þætti, sem eru dómharka
og skortur á umburðarlyndi og virðingarleysi fyrir skoðunum
annarra, og það sé enginn miðill annar en leikhúsið sem geti bet-
ur svarað þessu. Ég hef trú á að leikhúsið hafi nær helgan til-
gang.“
Þjóðleikhússtjórinn kveðst spenntur yfir komandi leikári, en
sýningar í leikhúsinu hefjast í september með verkinu Brúð-
kaupi Fígarós, sem unnið er með Íslensku óperunni.
Leikhúsið heldur upp á 70 ára afmæli á næsta ári og af því til-
efni verður Kardimommubærinn eftir Thorbjørn Egner settur
upp á stóra sviðinu.
„Ég held að ekkert leikskáld hafi verið Þjóðleikhúsinu jafn
gjöfult og Thorbjørn Egner,“ segir Ari, en Egner gaf leikhúsinu
sýningarrétt á verkum sínum í eitt hundrað ár. Hafa höfundar-
réttartekjur sem hefðu annars runnið til Egners runnið í Egner-
sjóðinn, sem nýttur er til að efla leikhússtarf á Íslandi, sér í lagi
leikhússtarf fyrir börn og ungmenni.
„Þetta verður ein stærsta sýningin sem við frumsýnum á því
leikári og ástæðan er að heiðra minningu þessa mikla velgjörð-
armanns íslensks leikhúss,“ segir Ari.
Áður en við kveðjumst fáum við okkur göngutúr um leikhúsið.
Ari gengur rösklega um og rifjar upp hvernig ásýnd Þjóðleik-
hússins hefur breyst síðan hann kynntist því fyrst, sem nýút-
skrifaður leikari, fyrir hartnær þrjátíu árum. Hann minnist þess
að hafa leikið sitt fyrsta hlutverk eftir útskrift úr Leiklistarskól-
anum í Gleðispilinu eftir Kjartan Ragnarsson, sem frumsýnt var
á stóra sviði leikhússins árið 1991. Við röltum um húsið og kveðj-
umst loks fyrir utan norðurhlið byggingarinnar, og Ari hverfur
aftur inn í leikhúsið.
Morgunblaðið/Árni Sæberg