Morgunblaðið - 01.08.2019, Page 60
60 ÍÞRÓTTIR
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 1. ÁGÚST 2019
Knattspyrnumaðurinn Birnir Snær
Ingason gekk í gær í raðir HK frá Ís-
landsmeisturum Vals á lokadegi fé-
lagaskiptagluggans hér heima og
skrifaði undir þriggja ára samning við
Kópavogsfélagið. Birnir Snær kom til
Vals frá Fjölni í haust en hefur ekki átt
fast sæti á Hlíðarenda eftir að hafa
leikið 64 leiki í efstu deild með uppeld-
isfélagi sínu í Grafarvoginum. Læri-
sveinar Brynjars Björns Gunn-
arssonar hjá HK hafa unnið þrjá af
síðustu fjórum leikjum sínum.
Ísak Bergmann Jóhannesson, sex-
tán ára knattspyrnumaður frá Akra-
nesi, er í leikmannahópi Norrköping
sem hefur verið tilkynntur fyrir leik
sænska liðsins gegn Liepaja frá Lithá-
en í 2. umferð undankeppni Evr-
ópudeildarinnar í kvöld. Ísak er í hópn-
um í fyrsta sinn fyrir mótsleik, en
hann kom til félagsins síðasta vetur.
„Hann hefur tekið ótrúlega miklum
framförum og verður að sjálfsögðu að
halda áfram að styrkja sig, en hann er
einstaklega góður í fótbolta,“ er haft
eftir þjálfaranum Jens Gustafsson á
heimasíðu Norrköping.
Bakvörðurinn Davíð Ingvarsson
hefur skrifað undir nýjan þriggja ára
samning við knattspyrnudeild Breiða-
bliks. Hinn tvítugi Davíð var á láni hjá
Haukum í fyrra en hefur spilað sjö leiki
í efstu deild með Blikum í sumar þar
sem hann hefur brotið sér leið inn í
liðið og vakið verðskuldaða athygli.
Íslenska U18 ára landslið karla í
körfuknattleik fór illa með Lúxemborg
í lokaleik sínum í riðlakeppni B-deildar
Evrópumótsins í Rúmeníu í gær. Ísland
vann 96:38 þar sem strákarnir fengu
aðeins á sig 13 stig allan síðari hálf-
leikinn. Júlíus Orri Ágústsson var
stigahæstur með 15 stig og tók auk
þess 10 fráköst og gaf 8 stoðsend-
ingar. Ísland hafnaði í fjórða sæti rið-
ilsins og spilar um 9.-16. sætið.
Ejub Purisevic náði einstökum
áfanga þegar hann stýrði Víkingi
Ólafsvík gegn Þór í 1. deild karla í
knattspyrnu í fyrrakvöld. Hann stýrði
þá liði Víkings í 300. skipti í deild og
bikar, en hann hefur þjálfað liðið sam-
fleytt frá árinu 2003 að einu tímabili
undanskildu. Hann tók við Ólafsvík-
ingum sem botnliði í 3. deild en hefur
síðan leikið þrjú tímabil í úrvalsdeild
og komist tvisvar í undanúrslit bik-
arkeppninnar.
Kylfingurinn Guðmundur Ágúst
Kristjánsson úr GR hefur farið upp um
1.087 sæti á heimslistanum í golfi
fyrstu sjö mánuði ársins. Á nýja listan-
um sem gefinn var út í þessari viku er
Guðmundur í 576. sæti og fór niður
um sjö sæti milli vikna,
en í ársbyrjun var
hann í 1.656 sæti
listans. Guð-
mundur er að nálg-
ast besta árangur
Íslendings á
listanum frá
upphafi, en
Birgir
Leifur
Haf-
þórs-
son komst í
459. sæti fyrir
tveimur árum.
Eitt
ogannað
NOREGUR
Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Norska knattspyrnuliðið Start frá
Kristiansand er á góðri siglingu undir
stjórn Skagamannsins Jóhannesar
Þórs Harðarsonar í næstefstu deild
karla. Er liðið nú í 3. sæti og hefur
unnið fjóra leiki í röð. Jóhannes tók
við liðinu þegar deildin var að byrja.
Til stóð að ráðningin yrði til skamms
tíma en fyrr í sumar var tilkynnt að
hann myndi stýra liðinu út tímabilið
hið minnsta.
„Til að byrja með var ég ráðinn
tímabundið og stjórnarmenn fóru í
það ferli að skoða nokkra sem komu
til greina og ég var svo sem einn
þeirra. Það ferli dróst aðeins og við
náðum að komast að samkomulagi
um að ég myndi sinna starfinu út
tímabilið og þá verður staðan tekin.
Þá förum við yfir málin,“ sagði Jó-
hannes þegar Morgunblaðið náði tali
af honum og hann kvartar ekki undan
úrslitunum í síðustu leikjum.
„Okkur hefur gengið ágætlega og
ágætur meðbyr verið frá byrjun. Það
var ekkert stórmál þannig lagað að
hoppa inn í starfið. Til að byrja með
var þetta náttúrlega tímabundin
ráðning. Þess vegna fylgdi manni allt-
af að einhver annar gæti tekið við. Þá
vissi maður ekki hvort það yrði dag-
inn eftir eða eftir tvær vikur. Það gat
gerst hvenær sem var og því var
ágætt að fá það út úr heiminum þegar
ákveðið var að ég myndi sjá um þetta
út tímabilið. Þá gat maður farið á fullt
í þau verkefni sem maður vildi fara í.
Núna erum við að vinna í leikmanna-
málum. Félagaskiptaglugginn er að
opnast (í gær) og við þurfum að sinna
því og sjá til þess að við séum með
betra lið þegar glugginn lokast aftur.
Það verða breytingar á hópnum.
Flóki (Kristján Flóki Finnbogason)
fór heim til Íslands og við erum búnir
að fá sóknarmann í staðinn. Líklega
verða einhverjar frekari breytingar á
leikmannahópnum.“
Flóka mun vegna vel hjá KR
Kristján Flóki er genginn í raðir
KR-inga. Sýnir Jóhannes ákvörðun
hans um að fara heim til Íslands skiln-
ing?
„Já ég geri það en það er synd að
hlutirnir hafi ekki gengið almennilega
upp hjá honum hérna hjá okkur.
Flóki er frábær fótboltamaður og
honum á eftir að vegna vel hjá KR.
Ég held að það verði bara jákvætt
skref fyrir hann,“ sagði Jóhannes sem
síðast var meistaraflokksþjálfari þeg-
ar hann stýrði ÍBV til skamms tíma
árið 2015. Er hann ánægður með að
vera kominn aftur í slaginn?
„Jú það má alveg segja það. Þegar
ég var kominn til Vestmannaeyja, og
orðinn þjálfari ÍBV, þá tóku hlutirnir
óvænta stefnu. Dóttir okkar veiktist
og ég fór til baka til Noregs. Þá fór
maður að hugsa hlutina aðeins upp á
nýtt og metnaðurinn gagnvart þjálf-
uninni róaðist aðeins, alla vega tíma-
bundið. Ég fékk fljótlega vinnu aftur
hjá Start og var fyrst um sinn í ung-
lingaakademíunni. Ég kom inn í þjálf-
arateymi aðalliðsins árið 2017 og hef
verið þar síðan. En þegar mér var
kastað inn í þjálfarastarfið í upphafi
þessa tímabils þá gerðist það óvænt.
Dóttir mín hefur náð sér vel og maður
getur sinnt þessu af meiri krafti en ég
gat um tíma.“
Flakk á milli deilda
Jóhannes hefur búið erlendis með
fjölskyldu sinni frá því hann gerðist
atvinnumaður í Hollandi snemma árs
2001. Er Íslandstengingin ennþá
sterk?
„Já já, hún er mjög sterk. Ég fylg-
ist vel með og fer heim reglulega.
Maður veit aldrei hvernig hlutirnir
fara á endanum en eins og er þá er ég
bundinn hér. Þjálfarastarfið hjá Start
er virkilega spennandi en um leið
krefjandi verkefni vegna þess að stöð-
ugleikann hefur vantað hjá liðinu síð-
ustu tíu til tólf árin. Fjárhagurinn hef-
ur verið erfiður og liðið hefur flakkað
á milli úrvalsdeildarinnar og 1. deild-
ar í mörg, mörg ár. Nú eru komnir
nýir eigendur sem eru fjársterkir og
hafa mikinn metnað. Við erum að
byggja upp lið sem gæti farið upp um
deild og spjarað sig í úrvalsdeildinni,“
útskýrði Jóhannes en eftir björgunina
frá gjaldþroti glímir félagið þó við há-
an kostnað vegna mannvirkjaleigu.
Kostnaður vegna leikvangs
„Við erum með frábæran leikvang
sem Start átti til að byrja með. Þegar
Start varð nánast gjaldþrota fyrir
nokkrum árum keypti sveitarfélagið
leikvanginn. Um leið var samið við
sveitarfélagið um að félagið leigði
leikvanginn. Því fylgir gríðarlegur
kostnaður og ég held að félagið sé að
borga 14 milljónir norskra króna (um
197 milljónir íslenskra) til sveitarfé-
lagsins á hverju einasta ári til þess að
geta notað leikvanginn. Hefur þetta
rosalega mikil áhrif á rekstur félags-
ins og möguleika okkar til þess að
sækja leikmenn. Unnið er að því að
semja upp á nýtt og auka skilning
sveitarfélagsins á því hversu mikil
áhrif þetta hefur á félagið. Mikil um-
fjöllun hefur verið um þetta í bænum
og vonandi munu þeir sem stjórna
sýna þessu skilning,“ sagði Jóhannes
Harðarson enn fremur.
Gott gengi við krefjandi
aðstæður í Kristiansand
Start hefur unnið fjóra leiki í röð undir stjórn Jóhannesar Harðarsonar Lang-
tímamarkmið að festa liðið í sessi í úrvalsdeild Leikvangurinn er þungur baggi
Ljósmynd/Ole Endre Kallhovd/IkStart
Þjálfarinn Jóhannes Harðarson stjórnar sínum mönnum á hliðarlínunni.
Start er í þriðja sæti norsku B-deildarinnar þegar keppnin þar er hálfnuð.
Nú er orðið ljóst að Caster Sem-
enya, heims- og ólympíumeistari í
800 metra hlaupi, grein Anítu Hin-
riksdóttur, fær ekki tækifæri til að
keppa á heimsmeistaramótinu í
frjálsum íþróttum sem haldið verð-
ur í Katar í september.
Málið er allt hið óvenjulegasta
en eins og fjallað hefur verið um í
Morgunblaðinu og á mbl.is síðustu
mánuðina mældist magn testó-
steróns meira í Semenya en eðli-
legt telst af náttúrulegum ástæð-
um. Hún er sem sagt ekki grunuð
um lyfjamisferli en þykir hafa for-
skot á keppinauta sína.
Alþjóðafrjálsíþróttasambandið
bjó í fyrra til reglu um leyfilegt
hámark testósteróns hjá konum í
400, 800 og 1.500 metra hlaupum
eða einungis í hluta þeirra keppn-
isgreina sem stórmót í frjálsum
bjóða upp á.
Meðfram nýrri reglu er Seme-
nya, og þá öðrum sem gætu verið í
sömu stöðu, boðið að taka lyf sem
eiga að minnka testósterónmagnið.
Semenya hefur ekki viljað una
þessu og lagt á sig mikla baráttu
gegn breytingunum. Málið fór fyrir
alþjóðaíþróttadómstólinn og einnig
fyrir dómstóla í Sviss en þar er
íþróttadómstóllinn með aðsetur.
Henni tókst ekki að fá reglubreyt-
ingunni hnekkt en um tíma leit út
fyrir að gildistökunni yrði frestað
fram yfir HM en svo fór þó ekki.
Fram kom hjá lögmanni Seme-
nya í gær að baráttunni væri ekki
lokið og myndi hún halda áfram á
grundvelli mannréttindasjón-
armiða.
Caster Semenya er frá Suður-
Afríku og er 28 ára gömul. Hún
ætti því að vera á hátindi ferilsins
ef mið er tekið af því hvenær flest
íþróttafólk nær sínum besta ár-
angri. Hún sigraði í greininni á ÓL
2012 og 2016 og á HM 2009, 2011
og 2017. kris@mbl.is
AFP
Keppir ekki Caster Semenya verður ekki með á heimsmeistaramótinu.
Heimsmeistari
fær ekki að keppa
Óvenjuleg staða Caster Semenya