Skessuhorn


Skessuhorn - 23.09.2015, Blaðsíða 19

Skessuhorn - 23.09.2015, Blaðsíða 19
MIÐVIKUDAGUR 23. SEPTEMBER 2015 19 Bandaríska fyrirtækið Silicor Ma- terials kynnti í liðinni viku tvo samn- inga hér á landi sem segja má að hvor um sig hafi verið með síðustu púsl- unum í heildarmyndinni í aðdrag- anda þess að byggð verður sólarkís- ilverksmiðja á Grundartanga. Búið er að tryggja fjárfesta sem að fyrsta áfanga verkefnisins koma og sömu- leiðis orkusölusamninga. Þar sem stóriðja af þessu tagi er flókið verk í undirbúningi og margir sem koma að borðinu, hafa heimamenn á Vest- urlandi fram að þessu talað varlega um möguleg áhrif sólarkísilverk- smiðju. Nú er hins vegar fátt sem getur komið í veg fyrir að af verk- efninu verði. Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur fylgst náið með undirbúningi og verið í sambandi við hagsmuna- aðila. Hann hefur í gegnum starf sitt á liðnum árum öðlast mikla reynslu í samskiptum við stóriðjufyrirtækin. Vilhjálmur dregur ekki dul á mik- ilvægi svo stórs vinnustaðar inn í vestlenskt atvinnulíf. Skessuhorn fékk verkalýðsforingjann í spjall um væntanlega sólarkísilverksmiðju, hlutverk sveitarfélaganna í heild- armyndinni og hvað menntakerf- ið þarf að lagfæra. „Þeir samningar sem undirritaðir voru í síðustu viku eru afar mikilvægir. Í mínum huga er nú 100% öruggt að verksmiðj- an verður reist við Grundartanga. Nú er komið að sveitarstjórnum og menntakerfinu að vinna sína vinnu til að heildar ávinningurinn fyrir Vesturland verði sem mestur,“ seg- ir Vilhjálmur. Stuðningur Íslendinga lykill að áframhaldi „Það er forsenda þess að erlend- ir fjárfestar komi að svona risastóru verkefni að innlendir fjárfestar og stjórnvöld staðfesti vilja sinn í verki. Það hafa heimamenn gert með því að fjárfestar leggja peninga í verk- efnið og stjórnvöld gefa út afdrátt- arlausa yfirlýsingu um stuðning við það. Bæði var í mínum huga gert í síðustu viku og fagna ég því. Inn- lendir fjárfestar, lífeyrissjóðir og fleiri, hafa nú lagt sex milljarða í verkefnið af þeim 120 milljörðum sem bygging verksmiðjunnar og tækjabúnaður í hana mun kosta. Nú hafa útlendingarnir fengið það stað- fest að verksmiðjunni er tekið fagn- andi hér á landi og munu ljúka við fjármögnun verkefnisins. Mér sýnist að síðari hluta fjármögnunar verði lokið um mitt næsta ár. Þá er búið að skrifa undir sölu Orku Náttúr- unnar á helmingi þeirrar orku sem fullbyggð verksmiðjan þarf, og það sem upp á vantar mun skila sér. Það er því í mínum huga ekkert sem get- ur komið í veg fyrir að þetta verk- efni verði að veruleika og nú fara því hlutirnir að gerast,“ segir Vilhjálm- ur. „Það er einnig rétt að geta þess að þessi nýja verksmiðja verðu sú umhverfisvænasta sem byggð hef- ur verið hér á landi enda hefur hún það meginmarkmið að framleiða hér sólarkísil sem notaður er í sólar- rafhlöður sem gefur öðrum þjóðum kost á að fara úr orkugjöfum sem menga meira yfir í endurnýtanlegan og vistvænan orkugjafa.“ Blönduð störf menntaðs fólks og ófaglærðra Aðspurður um næstu skref segir Vil- hjálmur að nú sé komið að Faxaflóa- höfnum að leggja veg út á Katanes og jarðvegsframkvæmdir geti þá haf- ist strax á næsta ári. „Það er gert ráð fyrir að 600-700 starfsmenn þurfi við uppbyggingu verksmiðjunnar og hér verða varanleg störf eftir að verksmiðjan verður fullbyggð um 450. Það eru til dæmis mun fleiri störf en verða til við kísilverksmiðj- una sem reisa á við Bakka á Húsa- vík. Hjá Silicor Materials verður auk þess töluvert stór hópur hátækni- menntaðs starfsfólks, eða um 30%. Um 300 ófaglærðum býðst auk þess vinna og mun þessi fjölbreytni hafa gríðarlega jákvæð áhrif á vinnu- markaðinn á okkar svæði,“ segir Vil- hjálmur. Bygging verksmiðjunnar mun taka skamman tíma miðað við stærð verkefnisins en gert er ráð fyr- ir að framleiðsla hefjist árið 2018. Vilhjálmur segir að Capacent hafi verið fengið til að annast manna- ráðningar. „Þetta verður væntanlega unnið þannig að fyrst verður ráðinn kjarni starfsmanna sem mun fá þjálf- un í Kanada þar sem Silicor rekur litla starfsstöð. Sá hópur mun síð- an taka að sér þjálfun annarra starfs- manna þegar þar að kemur.“ Stefnt að átta tíma vaktafyrirkomulagi Vilhjálmur segir að þessi viðbót við starfsemina sem nú þegar er á Grundartanga muni hafa gríðar- lega jákvæð áhrif á vinnumarkaðinn á Vesturlandi. „Önnur fyrirtæki á svæðinu þurfa að aðlaga sig að þess- ari breytingu og aukinni eftirspurn eftir vinnuafli. Nú þurfa allir að vera ennþá meira á tánum svo sem með að tryggja góðan aðbúnað, kjör og vinnuaðstæður almennt. Það gefur auga leið að það verða starfsmenn sem munu njóta þess þegar innspýt- ing af þessari stærðargráðu kem- ur inn í atvinnulífið á svæðinu. Það er svo hlutverk okkar sem störfum í stéttarfélögunum að vinna í góðu samstarfi við fyrirtækin til að tryggja megi starfsfólkinu góð kjör og laun. Í viðræðum við Silicor munum við leggja ofuráherslu á að það verði sett upp átta tíma vaktafyrirkomulag, ekki tólf tíma vaktir. Slíkt er einfald- lega miklu manneskjulegra. Hjá El- kem vinna menn t.d. átta tíma vakt- ir, taka sex vaktir á fimm dögum og fá síðan fimm daga frí. Við hvetjum Silicor til að taka þetta fyrirkomu- lag Elkem sér til fyrirmyndar. Slíkt vaktakerfi gerir það eftirsóknarverð- ara fyrir fólk af báðum kynjum að sækja þarna um vinnu og í alla staði er það fjölskylduvænna.“ Vilhjálmur hefur orðið talsverða reynslu í samningum við stóriðju- fyrirtæki og kveðst fullviss um að tryggt verði að kjör og aðbúnað- ur á þessum nýja vinnustað verður til fyrirmyndar. „Stjórnendur Sili- cor eru ágætlega meðvitaðir um þau áhersluatriði sem við leggjum mesta vigt á. Ég hef átt ágæt samskipti við forsvarsmenn Silcor og ekki síður við Davíð Stefánsson talsmann fyr- irtækisins hér á landi og á von á að samskiptin verði áfram góð.“ Komið að sveitarfélögunum Vilhjálmur Birgisson segir að nú sé komið að því að sveitarfélögin á starfssvæðinu þurfi að fara í þarfa- greiningu og aðgerðir í kjölfar henn- ar ef þau ætli að setja stefnuna á að fá til sín eðlilega hlutdeild þeirra nýju starfsmanna sem Silicor mun ráða til sín. „Það er hátt í 70% þeirra starfsmanna sem nú starfa á Grund- artanga sem býr í sveitarfélögun- um með póstnúmer 300-311, þ.e. á Akranesi, í Hvalfjarðarsveit, Borg- arbyggð og Skorradal. Aðrir búa svo á höfuðborgarsvæðinu. Innvið- irnir í þessum sveitarfélögum þurfa hins vegar að vera í lagi til að þau eigi að geta tekið við auknum íbúa- fjölda. Sveitarfélögin þurfa að fara í gegnum þarfagreiningu hvað varðar húsnæðismál, skóla og svo framveg- is. Þau hljóta að vilja fá þær auknu útsvarstekjur sem þarna verða til. Það vantar til dæmis augljóslega að byggja fleiri fjölbýlishús og hugsan- lega þurfum við aukið úrval stórra og góðra byggingalóða. Ég nefni það ekki síst vegna þess að ég legg mikla áherslu á það við Silicor Ma- terials að höfuðstöðvar fyrirtækis- ins hér á landi verði á Akranesi og stjórnendur búi þar. Hátekjustörfin í svona fyrirtækjum þurfa að vera á svæðinu allra hluta vegna og þetta fólk mun gera kröfur um rúmgóð- ar eignir til að búa í. Í dag eru allt- of mörg hátekjustörf í öðrum stór- fyrirtækjum á Vesturlandi skipuð fólki sem býr á höfuðborgarsvæð- inu og greiðir þar sitt útsvar. Hvað þetta varðar þurfa sveitarstjórnirn- ar hér á Vesturlandi að vera á tán- um og ná þessu fólki hingað inn á svæðið strax í upphafi.“ Vilhjálmur kveðst hafa vitneskju um að bæjar- yfirvöld, allavega á Akranesi, séu vel meðvituð um þessa mikilvægu þætti. „Sveitarfélögin þurfa því að standa sig vel í ímyndar- og markaðsmálum þannig að ávinningurinn skili sér að fullu til okkar.“ „Samfélagsskylda að sameina“ Vilhjálmur segir það auk þess sína skoðun að það sé samfélags- leg skylda íbúa í sveitarfélögunum Hvalfjarðarsveit og Akraneskaup- stað að þau verði sameinuð í eitt. „Það yrði eitt af öflugustu sveitarfé- lögum landsins. Þessar sveitarstjórn- ir hafa reyndar í seinni tíð unnið vel saman. Engu að síður er allt sem bendir til þess að sameinuð yrðu þau miklum mun öflugri til að takast á við verkefni af þessari stærðargráðu en þau eru í dag. Við eigum einmitt að sameina kosti dreifbýlis og þétt- býlis og nýta styrkleika hvors annars til að byggja upp öfluga heild. Ef við eigum kost á að byggja upp öflug- asta sveitarfélag landsins, af hverju skyldum við þá ekki gera það?“ spyr Vilhjálmur. Fjárhagslegur ávinn- ingur af iðnmenntun Talið berst að fjölda iðnmennt- aðra einstaklinga á Vesturlandi og þeirri staðreynd að nú þegar virð- ist skorta fólk í ýmsar starfsgreinar. Í frétt á öðrum stað í blaðinu seg- ir meðal annars frá því að skortur á húsasmiðum í Borgarfirði sé tilfinn- anlegur og dragi úr framkvæmda- hraða. „Það skortir fólk með iðn- menntun og menntakerfið er engan veginn að taka mið af þeim sóknar- færum sem við höfum, t.d. í ferða- þjónustu og stóriðju. Við sáum í haust tölur um að einungis 14% af þeim sem skrá sig til framhaldsnáms er að fara í iðngreinar. Stóriðjufyr- irtæki eins og Silicor mun bjóða fjöldan allan af störfum sem beinlín- is krefjast iðnmenntunar. Við sjáum það í fyrirtækjunum sem nú þeg- ar eru starfandi á Grundartanga að iðnmenntaðir hafa á að giska þriðj- ungi hærri laun en þeir sem ófag- lærðir eru. Fjárhagslegur ávinning- ur er því greinilegur af því að afla sér iðnmenntunar og því er það sorglegt hversu fá ungmenni sækja í þessar iðnbrautir. Skólakerfið þarf að rísa upp og vera tilbúið að bjóða upp á iðnnám og gera það kræsilegt fyrir unga fólkið að sækja menntun í þeim greinum sem eftirspurn er eftir.“ Vilhjálmur áréttar að Verka- lýðsfélag Akraness er með iðnað- armannadeild innan félagsins og eru uppundir 200 iðnaðarmenn nú félagsmenn í VLFA. Mögulega hátt í 10% fjölgun Að endingu er Vilhjálmur Birgisson beðinn að slá á tölu um mögulega fjölgun íbúa samhliða svo stórum nýjum vinnustað sem sólarkísilverk- smiðja Silicor verður. „Það eru um ellefu þúsund íbúar í sveitarfélög- unum 300 til og með 311. Ef sveit- arfélögin á þessu svæði verða með alla sína innviði í lagi má búast við verulegri fólksfjölgun hér á svæðinu. Ef þau hins vegar sofa á verðinum, nýta ekki tækifærin sem eru handan við hornið, þá verðum við einfald- lega af þeirri fjölgun og starfsfólkinu mun verða ekið í rútum frá Reykja- vík. Ég trúi því hins vegar að pass- að verði upp á að hafa lóðaframboð í lagi, greiða götur þeirra verktaka sem vilja byggja íbúðarhúsnæði og að skólarnir verði í stakk búnir til að taka við auknum fjölda nemenda. Ef þetta tekst þá má búast við að íbú- um fjölgi að lágmarki um 8-9% ein- ungis út af beinum störfum sem eru að verða til hjá Silicor. Þar að auki verður fjöldi afleiddra starfa. Það er því til mikils að vinna,“ segir for- maður Vilhjálmur Birgisson for- maður VLFA að endingu. mm Til mikils að vinna fyrir sveitarfélögin að hafa innviðina í lagi Rætt við Vilhjálm Birgisson formann VLFA um væntanlega kísilverksmiðju á Grundartanga Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA. Athafnalóð Silicor á Kataneslandi er hér mörkuð innan gulu línunnar.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.