Skessuhorn - 23.09.2015, Blaðsíða 26
MIÐVIKUDAGUR 23. SEPTEMBER 201526
Vísnahorn
Þessi þáttur verður að
mestu helgaður gangna-
vísum Höskuldar frá
Vatnshorni enda bæði sá
árstíminn og þar einnig
af miklu og góðu að taka.
Nokkuð af þessum vísum er ort undir sléttu-
bandahætti en eins og allir bænabókarfær-
ir landsmenn eiga að vita eiga þær að halda
formi sínu hvort sem þær eru lesnar afturábak
eða áfram. Greinarmerki og upphafsstafir
gætu því aldrei orðið rétt nema í aðra áttina
þannig að eðlilegt þótti að sleppa þeim alveg í
þeim vísum sem eru þá líka þannig auðkennd-
ar þeim sem ekki kynnu að átta sig strax. Þessi
vísnaflokkur sem kemur hér fyrst mun ortur
1964:
Þokuvegginn þó ei birti,
þjóti hregg um brúnirnar,
fast mig eggja ekki þyrfti
upp að leggja í göngurnar.
Fjalla greiðast göngur senn
gæða skeiðið rekkar
fram til heiða ætla enn
öræfa leiðir þekkar.
Fláar-móinn, grundir, gil,
gljúfur, tóar, stalla,
gjáar-mjóu þverbrött þil
þrengsli, flóa hjalla.
Hlakka löngum margir menn
mæna svöngu geði
þakka göngum ýmsir enn
yndi söngva gleði.
Tindaskallinn falda fær
feldi mjallar laga
rinda hjalla gróður grær
gæðir fjallahaga.
Sneiða landið dala-drög
dokkir randir balar
breiða sanda flesjur flög
feta vandir smalar.
Fjalla róin rofin öll,
refur smó í grjóti,
smali hóar, heyrast köll
hundur gó á móti.
Vaknar flest á fjallaslóð
fælt af gestastraumnum
fer í lestum fé og stóð
fyrir mesta glaumnum.
Sléttar leiðir bakka band
blakkur skeiðið gengi
léttar reiðir svartan sand
sumir þreyðu lengi.
Skeiða greiðir víðan vang
vosið leiðist eigi
breiða heiðar flatar fang
frjálsa reiðar vegi.
Fjalla svala faðminn enn
fyllir tal og kliður.
Framan dali frískir menn
fénu smala niður.
Élja galdur hríðar hret
hroða skvaldur tíða
helja baldin freðin flet
firðum tjaldar víða.
Snjóa hríðar byrgja börð
byljir níða sandinn
móa víði skríður skörð
skaðar tíðar fjandinn.
Læðist tíminn fjúkið frýs
frónið hrími bundið
glæðist skíma roði rís
rökkri grímu hrundið.
Rétta glaumur skála sköll
skvaldurs flaumur hlátur
létta drauma eigum öll
orðinn naumur grátur.
Og þeir sem eru brottfluttir sakna gömlu
daganna. Hugurinn reikar:
Heyri ég þegar hausta fer
hóað upp í dölunum,
þó ég sé að þvælast hér,
þá er ég einn af smölunum.
Og áfram:
Út við bláinn æviskeið
áður lá til fjalla
sveimar þráin þessa leið,
þegar stráin falla.
Gamla svipu og gangnahnakk
geymi ég í skoti.
Yndisfríðum ái blakk
oft í hugans koti.
Dreymir þegar dimmir nótt
dali fjöll og heiðar.
Tel mig hafa tekið og sótt
tvo eða þrjá til reiðar.
Það fækkar orðið vaninhyrndum forystu-
sauðum með hljómmiklar klukkur í báðum
hornum eins og sáust stundum fyrir svona
hundrað árum eða svo og jafnvel lengur. Má
þó vera að þeir finnist enn. Hinsvegar gátu
þeir orðið svolítið fyrirferðarmiklir ef þeim
þótti að sér þrengt:
Þrengist hringur, fjölgar fé,
Flekkur klingir bjöllum,
feta slyngan fremstan sé
flagðsnilling af öllum.
Sú var tíð að það þótti ekki fullgildur leita-
maður sem ekki hafði hund með sér og eitt
sinn þegar skæð hundapest hafði gengið var
gripið til þess ráðs að fjölga mönnum úr 18 í
26 á því svæði sem mest þótti um vert. Ekki hef
ég heyrt um slíkar aðgerðir nýlega en vissu-
lega getur einn góður hundur unnið margra
manna verk sé honum rétt og vel stjórnað.
Þorleifur Ólafsson í Rauðanesi heilsaði eitt
kvöld í skála með þessum orðum:
Leifs nú hrósið lítið grær,
ljótur er sá glanninn,
en hérna eru tíkur tvær
til að bæta upp manninn.
Ætli við leitum svo ekki aftur í smiðju
Höskuldar í lokin með þessari:
Gangnaómur glæðast fer,
gleðihljómar vaka,
kvölds í ljóma kveðin er
kátum rómi staka.
Með þökk fyrir lesturinn,
Dagbjartur Dagbjartsson
Hrísum, 320 Reykholt
S 435 1189 og 849 2715
dd@simnet.is
Rétta glaumur skála sköll – skvaldurs, flaumur hlátur
Bílaþjónustufyrirtækið Bílar og
Dekk á Akranesi bættu við þjón-
ustuna í desember í fyrra þegar opn-
að var sprautu- og réttingaverk-
stæði við Akursbrautina. Settur var
upp vandaður sprautuklefi af þýskri
gerð og rúmar klefinn stóra bíla. Til
að byrja með var einn starfsmaður
á verkstæðinu en í sumar réði fyr-
irtækið til sín þá Þorbjörn Heið-
ar Heiðarsson bílamálara og Svav-
ar Abraham Jónsson bifreiðasmið.
„Það var ekki nema eitt fyrirtæki hér
á svæðinu fyrir sem bauð þessa þjón-
ustu. En miðað við biðlistann þar
veitti ekki af öðru,“ segja þeir.
Stutt bið
Þorbjörn og Svavar eru báðir í fullu
starfi á verkstæðinu en segja hlutina
hafa farið rólega af stað. „Það hef-
ur bæði verið lítið um tjón í sumar
og svo virðist fólk ekki vita almenni-
lega af þessu hér,“ segja þeir. Þó hef-
ur verið nóg að gera en biðlistinn á
verkstæðinu er stuttur. „Maður hef-
ur heyrt að sums staðar sé biðlistinn
að minnsta kosti fjórir mánuðir, til
að láta gera við smávægilegt tjón.
Hérna er biðin ekki nema ein til tvær
vikur.“ Fyrirtækið er með samning
við öll tryggingafélög landsins og er
því boðið upp á réttingar og spraut-
un bæði fyrir einstaklinga og trygg-
ingafélög. „Við erum að taka inn
bíla sem eru mikið tjónaðir og allt
niður í litlar dældir eða rispur. Það
tekur okkur frá einum degi og allt
upp í viku að lagfæra einn bíl. Það
fer alveg eftir verkefnum, stundum
þarf að taka hálfan bílinn í sundur
bara til að geta málað tvær hurðar.
Við reynum þó að stíla inn á að skila
bílunum alltaf á föstudögum ef hægt
er,“ segir Þorbjörn. „En annars er
boðið upp á bílaleigubíl á meðan, ef
fólk á rétt á því,“ bætir Svavar við.
Þeir segja tegund bílsins ekki skipta
neinu máli þegar kemur að rétt-
ingar- eða sprautuviðgerðum. „Það
skiptir engu máli hvort maður tekur
Lödu eða Bentley. Þetta er allt eins,
bíll er bara bíll þegar kemur að þess-
um viðgerðum.“
Fáir sem ljúka námi
Félagarnir hafa báðir starfað í bíla-
geiranum í nokkur ár. Þorbjörn
byrjaði fyrir hrun en lauk sveinsprófi
2010 og ári síðar lauk Svavar prófi
í bifreiðasmíði. Þeir segja fáa sem
byrja í náminu enda á vinnumark-
aði við greinina. „Það byrja kannski
tólf manns í bílamálun en ekki nema
helmingurinn af þeim tekur sveins-
próf. Svo er kannski bara helming-
urinn af þeim sem ljúka sveinspróf-
inu sem fara að starfa við þetta,“ seg-
ir Þorbjörn. Það sama er uppi á ten-
ingnum með bifreiðasmíðina. „Þeg-
ar ég byrjaði vorum við tólf í náminu
en ég var sá eini sem tók sveinspróf-
ið,“ útskýrir Svavar. Áður en þeir
byrjuðu hjá Bílum og dekkjum unnu
þeir báðir hjá BL í Reykjavík. „Þeg-
ar það var hringt í mig og ég beð-
inn um að sjá um sprautuverkstæðið
spurði ég hvort þá vantaði ekki bif-
reiðasmið líka og tók Svavar þannig
með mér í þetta,“ segir Þorbjörn.
Öll þjónusta
á einum stað
Með þessari viðbót er fyrirtækið
komið með alhliða viðgerða- og við-
haldsþjónustu á bílum. Þjónustan er
öll á sama stað við Akursbrautina,
í aðskildum rýmum. „Það er hægt
að láta gera nánast allt hérna. Hér
eru líka almennar bíla- og vélavið-
gerðir, dekkjaverkstæði, framrúðu-
skipti, smurþjónusta og svo fram-
vegis. Bara allt sem viðkemur bíl-
um, nema bón og þrif,“ segir Svavar.
„Við bjóðum samt upp á mössun ef
svo ber við,“ heldur Þorbjörn áfram.
Þeir félagarnir segja að nýjasta við-
bótin hjá fyrirtækinu sé útleiga bíla-
leigubíla. Fram til þessa hefur fyrir-
tækið þurft að stóla á aðrar bílaleig-
ur til að fá bíla meðan gert er við
fyrir þá, en á næstu dögum verður
sú þjónusta einnig í boði hjá Bílum
og dekkjum. „Bílaleigubílarnir eru
klárir, það er bara verið að bíða eftir
leyfinu. Þetta er bara tímaspursmál
hvenær við getum leigt okkar eigin
bíla út til þeirra sem koma með bíla
hingað í viðgerð.“ grþ
Alhliða þjónusta hjá Bílum og Dekkjum
Bílaréttingar- og sprautun nú í boði og bílaleiga væntanleg á verkstæðinu
Svavar Abraham Jónsson bifreiðasmiður og Þorbjörn Heiðar Heiðarsson bílamálari fyrir framan sprautuklefann.