Skessuhorn


Skessuhorn - 11.05.2016, Blaðsíða 18

Skessuhorn - 11.05.2016, Blaðsíða 18
MIÐVIKUDAGUR 11. MAÍ 201618 Lárus Sighvatsson lætur af störf- um sem skólastjóri Tónlistarskól- ans á Akranesi þegar kennslu lýkur nú í vor. Hann hefur gegnt stöðunni í rúmlega þrjá áratugi. „Ég flutti á Akranes 1981 og fór að kenna í tón- listarskólanum, þangað sem ég var ráðinn sem blásarakennari. Ég tók síðan við af Jóni Karli Einarssyni sem skólastjóri fjórum árum síðar,“ segir Lárus í samtali við Skessuhorn. Hann segist hafa átt þess kostað láta af störfum á síðasta ári, í samræmi við 95 ára regluna, en ákveðið að vera eitt ár til viðbótar. „Ég tók við sem skólastjóri á 30 ára afmæli skólans og það var kannski hálfgert egóflipp að mér fannst ég þurfa að klára 60 ára afmælið sem var í fyrra,“ segir hann og hlær við. Lárus segir að ýmislegt hafi breyst á þeim tíma sem hann hefur ver- ið skólastjóri tónlistarskólans. Fyrst flýgur honum í hug húsnæðismál skólans. „Þegar ég kom 1981 var kennt á Skólabraut 22. Á efstu hæð í því húsi þar sem þá var verslun- in Bjarg á jarðhæðinni,“ segir hann og bætir því við að skólinn hafi einn- ig haft aðstöðu í Sjálfstæðishúsinu á Heiðarbraut. „Það var bara íbúð með tveimur herbergjum og renni- hurð á milli,“ segir Lárus og bætir því við að aðstaðan hafi engan veg- inn verið fullnægjandi. „Ég man að við vorum að kenna þar oft á sama tíma ég og Andrés Helgason. Æfing- arnar hljómuðu eins og keppni í því hvort herbergið gæti búið til meiri hávaða,“ segir hann og brosir. Endurnýja þarf hljóð- færa- og tækjakost Þá voru forsvarsmenn og stjórnend- ur skólans þegar farnir að berjast fyr- ir því að skólanum yrði fundið varan- legt húsnæði. Tónlistarskólinn flutti næst í gömlu bæjarskrifstofurnar að Kirkjubraut 8, þar sem lögreglustöð- in var þá á neðstu hæð, en það hús- næði var ekki fullnægjandi. Þá var starfrækt við skólann lúðrasveit en hún gat ekki æft í húsnæði tónlist- arskólans. „Það er eftirminnilegur hópur, sú skólahljómsveit. Hún varð ein besta lúðrasveit á Íslandi og gerði garðinn frægan undir stjórn Andr- ésar. En sveitin þurfti að æfa í kjall- ara íþróttahússins við Vesturgötu við mjög frumstæðar aðstæður,“ segir Lárus. Skólinn flutti inn á Þjóðbraut, þar sem nú er frístundamiðstöðin Þorp- ið, með pompi og prakt árið 1993. Það var svo ekki fyrr en árið 2007 að flutt var inn í núverandi húsnæði á Dalbraut. „Nú erum við í glæsilegu húsnæði og erum sá íslenski tónlist- arskóli sem er hvað best settur varð- andi húsnæði,“ segir Lárus ánægður. Engu að síður segir hann að fram- undan séu aðkallandi verkefni. „Verk- efni eftirmanna minna og þeirra sem ráða verða endurnýjun á tækjabún- aði skólans, ekki síst tölvubúnaði,“ segir Lárus. „Tölvubúnaðurinn er aftarlega á merinni. Þegar við flutt- um í þetta húsnæði voru nýjar tölv- ur hér í hverri kennslustofu, en þær eru orðnar gamlar núna. Það er orð- ið aðkallandi að teknar verði ákvarð- anir um hljóðfærakost og tæknimál skólans,“ bætir hann við. Tónlistarnám var mjög klassískt Breytingar hafa einnig orðið á kennslu í tónlistarskólum. „Þegar ég byrjaði að starfa sem tónlistar- kennari á Sauðárkróki árið 1975 þá var ég blautur á bakvið eyrun. Ný- útskrifaður úr tónlistarkennaranámi á franskt horn og trompet. Þá var allt tónlistarnám mjög klassískt. Það voru bara ákveðnar bækur sem átti að kenna, aðrar komu ekki til greina og nær eingöngu var um klassíska tón- list að ræða,“ segir Lárus. „Ég hafði ákveðnar hugmyndir um breytingar á kennslu, vildi meðal annars skoða annað námsefni. En þær hugmynd- ir mínar féllu ekki í góðan jarðveg og eru ein af ástæðum þess að ég hætti fyrir norðan á sínum tíma,“ bætir hann við. „Nú er námið hins vegar orðið miklu frjálsara. Ekki þessi stífa áhersla á klassíska tónlist heldur er komið til móts við óskir nemenda við lagaval og slíkt. Sú breyting hefur eingöngu verið til góðs.“ Eftirminnilegar hljómsveitir Aðspurður segir skólastjórinn fráfar- andi margt eftirminnilegt úr starfi skólans frá þeim árum sem hann hefur verið við stjórnvölinn. „Rós- in í hnappagati tónlistarskólans nú er þjóðlagasveitin okkar, sem nú ber heitið Slitnir strengir. Það var geysi- lega gaman að fá að vera þátttakandi í því verkefni. Sú sveit hefur farið víða og vakið mikla athygli á strengja- deildinni okkar,“ segir Lárus. Slíkt gerist þegar um góðar hljómsveitir er að ræða. Þær veki athygli á starf- inu og nemendum fjölgi sem læri á ákveðin hljóðfæri. Þegar hann hugs- ar til baka segir hann að sér finnist merkilegt að hugsa til þess hvernig aðsókn nemenda í ákveðin hljóðfæri gengur í bylgjum. „Þegar hér var á sínum tíma harmonikkusveit þá varð það til þess að hér var um tíma harm- onikkukennari í fullu starfi. Eins þegar lúðrasveitin, sem ég minnt- ist á áðan, var starfandi. Þá voru hér fjölmargir blásturshljóðfæraleikarar, sveitin kom víða fram og er mjög eft- irminnileg. En nú er barátta að halda úti lúðrasveit. Sérstaklega vantar nemendur sem vilja læra á brass, það er að segja málmblásturshljóðfæri,“ segir Lárus en kann engar skýring- ar þar á. „Ég veit ekki hvað veldur. Sama staða er uppi víða um landið, þrátt fyrir að brassið sé áberandi í poppmúsík, bæði saxófónn, trompet og fleiri hljóðfæri.“ Góðir kennarar og gott bakland Starf tónlistarskólans segir Lárus að hafi alla tíð verið gott. Þakkar hann það starfsfólkinu. „Við höfum ver- ið rosalega heppin með kennara í gegnum tíðina. Upp til hópa höfum við fengið frábært fólk til starfa, vel menntaða og áhugasama kennara,“ segir hann og nefnir sem dæmi um áhuga að á sínum tíma hafi kennarar búsettir á höfuðborgarsvæðinu siglt með Akraborginni þrisvar til fjórum sinnum í viku. Rekstur skólans segir hann að hafi einnig gengið vel alla tíð. Starfsfólk eigi þar mikinn þátt en einnig vel- vilji stjórnenda sveitarfélagsins á öll- um tímum. „Bærinn er náttúrulega ábyrgur fyrir því að hér sé rekinn tónlistarskóli og það kostar auðvitað peninga,“ segir Lárus. „En af öllum þeim bæjarfulltrúum og stjórnend- um sem ég hef átt í samskiptum við í gegnum tíðina hefur enginn sýnt annað en áhuga á að starfi tónlistar- skólans verði haldið áfram. Það er ég mjög þakklátur fyrir,“ segir hann. Þakklátur samfylgdinni Aðspurður um framtíðina segir Lár- us hana óskrifað blað. „Ég hef ákveð- ið verkefni í huga sem tengist tónlist. Framundan er svolítil heimildaöflun sem varðar tónlistarsköpun á Akra- nesi,“ segir hann en vill ekki að svo komnu máli gefa neitt nánar upp. „Ég mun þó taka mér eitt ár eða svo í að átta mig á hlutunum og undirbúa þetta verkefni. Eitthvað hlýtur að bíða mín hinum megin við hornið, ég er ekki orðinn svo gamall,“ segir hann og brosir. Að lokum vill Lárus koma á fram- færi þökkum til allra samferðamanna sinna. „Miklar þakkir til þessa samfé- lags fyrir samfylgdina í gegnum árin. Ég er þakklátur fyrir hvað starf skól- ans hefur verið farsælt og vel staðið á bakvið það. Ég vona að sá sem tek- ur við keflinu verði jafn heppinn og ég.“ kgk „Starf skólans hefur verið farsælt og vel staðið á bakvið það“ - segir Lárus Sighvatsson, fráfarandi skólastjóri Tónlistarskólans á Akranesi Lárus Sighvatsson með franska hornið. Þjóðlagasveit Tónlistarskólans á Akranesi, sem nú heitir Slitnir strengir. Lárus segir hana eina af eftirminnilegum hljóm- sveitum í sögu skólans. „Sú sveit hefur farið víða og vakið mikla athygli á strengjadeildinni okkar,“ segir Lárus. Ljósm. Ómar Lárusson. Margir hafa lært að plokka gítarstrengi í Tónlistarskólanum á Akranesi. Hér leikur ungur gítarnemi undir leiðsögn Eðvarðs Lárussonar kennara og eins fremsta gítarleikara landsins. Ungir nemendur bíða þess með eftirvæntingu að stíga á svið á sextugsafmæl- istónleikum skólans í nóvember síðastliðnum.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.