Skessuhorn


Skessuhorn - 04.01.2017, Blaðsíða 19

Skessuhorn - 04.01.2017, Blaðsíða 19
MIÐVIKUDAGUR 4. JANÚAR 2017 19 Hafdís Alda Sigurlaugsdóttir, Ólafsvík: „Trúlofaði mig á árinu“ „Það sem stóð upp úr á þessu ári var meðal annars mjög gott sumar. Ég man sérstaklega eftir því að sumarið var æðislegt,“ segir Hafdís Alda Sigurlaugsdóttir í Ólafsvík. Hún var mikið á faraldsfæti í sumar og náði að njóta veðursins. „Ég er útilegufíkill og það kom sér vel að veðrið var svona gott. Ég man ekki eftir því að hafa lent í rigningardegi,“ bætir hún við. Hafdís fór einnig erlendis á árinu og stendur sú ferð einnig upp úr þegar hún lítur til baka. „Ég trúlofaði mig á árinu, í september úti í Bratislava. Það stendur algerlega upp úr.“ Af öðru nefnir hún að hið víð- fræga víkingaklapp gleymist seint og hún er sátt við nýja forset- ann. „Hann tekur meiri þátt í því sem er að gerast í þjóðfélaginu en Ólafur gerði, þó ég hafi ekkert verið neitt ósátt við hann. Ég var reyndar ekki alveg sátt við úrslit alþingiskosninganna og það mætti alveg ganga betur að mynda ríkisstjórn. Maður bíður bara eftir að eitthvað gerist,“ heldur hún áfram. Nýja árið leggst vel í Hafdísi Öldu. „Ég held að það leggist bara mjög vel í mig. Miðað við „veðurblíðuna“ sem við höfum fengið síðustu daga, þá vona ég allavega að nýja árið verði betra. Það hefur varla sést á milli húsa undanfarna daga fyrir stór- hríð.“ Stefán Gíslason, Borgarnesi: „Vaxandi misskiptingu fylgir vaxandi áhætta“ „Ef ég lít á sjálfan mig, þá stendur upp úr að á árinu lauk ég svo- nefndu Fjallvegahlaupaverkefni sem ég hef unnið að í tíu ár. Það fólst í því að hlaupa yfir 50 fjallvegi á tíu árum, það er að segja áður en ég yrði sextugur,“ segir Stefán Gíslason í Borgarnesi. Hann segir að síðasta skrefið í þessu verkefni hafi verið að hlaupa yfir Arnarvatnsheiði í júlí. „Svo má kannski tengja við þetta að í árslok tek ég alltaf saman hlaupaannál ársins. Ég hef gert það í mörg ár og á árinu 2016 hljóp ég samtals 2.625,51 kílómetra, sem gerir 2016 að næstbesta hlaupaári ævi minnar.“ Stefán seg- ir að ef hann líti aðeins út fyrir sjálfan sig megi þá kannski nefna að kosnir voru tveir forsetar á árinu, annar á Íslandi og hinn í Bandaríkjunum. „Mér finnst gaman að sjá hvernig forseti Íslands virðist ætla að breyta því embætti og stíga niður af einhverjum stalli sem forveri hans stóð á. Hins vegar er ég ekki jafn bjartsýnn á þróun mála í Bandaríkjunum og það má segja að í því sambandi hafi ég sérstakar áhyggjur af hvaða áhrif hann kunni að hafa á umhverfismál heimsins,“ segir Stefán. Hann nefnir einnig að þegar litið er yfir nýliðið ár þá sé hafi veðurfarið verið afskaplega gott. „En um leið þá minnir það mann á þá ógn sem stafar af loftslagsbreytingum, þó að ég ætli ekki að fullyrða um að þetta veður hafi verið þess vegna. En af áhyggjum ársins, fyrir utan áhyggjum af loftslagsbreytingum og Donald Trump, þá hef ég áhyggjur af vaxandi misskiptingu, bæði innanlands og á heimsvísu. Ef menn vilja finna eina ástæðu fyrir erjum og styrjöldum, þá er það misskipting. Vaxandi misskipt- ingu fylgir vaxandi áhætta.“ Nýja árið leggst vel í Stefán. „Að öðru leyti en því að ég hef tekið eitthvað af áhyggjum síðasta árs með mér. Mér finnst ártalið 2017 einhvern veginn efnilegt og ég held að þetta verði gott ár, en við ráðum því auðvitað sjálf.“ Brynja Reynisdóttir, Stykkishólmi: „Yndislegt útivistarsumar“ Brynju Reynisdóttur í Stykkishólmi fannst veðrið standa upp úr á liðnu ári. „Mér fannst sumarið bæði langt og gott, það byrjaði á sumardaginn fyrsta og svo tók við langt og gott haust. Veturinn er fyrst að reyna að sýna sig núna,“ segir hún. Hún segir sumarið hafa verið frábært til útivistar. „Þetta var yndislegt útivistarsumar og það voru margir sem fóru í margar góðar gönguferðir. Jóla- veðrið hér í Stykkishólmi var líka yndislegt, eins og á póstkorti. Logn og hvítt teppi yfir öllu - svo fallegt.“ Af íþróttunum fannst Brynju eftirminnilegur árangur vestlenskra kvenna í körfuknatt- leik. „Ég fylgist með körfunni og fannst gaman að fylgjast með velgengni snæfellskra stúlkna á árinu. Mér finnst líka flott að það séu tvö vestlensk lið í úrvalsdeild kvenna.“ Brynja lítur björtum augum á komandi tíð. „Ég er bara bjart- sýn á nýtt ár, hiklaust. Ég bíð bara spennt, það hlýtur eitthvað gott að gerast á árinu,“ segir hún hress. Hún segist vera ánægð með að sjá hlutina ekki fyrir. „Maður tekur því bara sem kemur og vinnur úr því.“ Jóhannes Haukur Hauksson, Dalabyggð: „Held að þetta verði gott ár“ Flutningar voru meðal þess sem stóðu upp úr á árinu 2016 hjá Jóhannesi Hauki Haukssyni í Dalabyggð. „Við fjölskyldan flutt- um í hús sem við keyptum í Búðardal, það er það stærsta sem gerðist á árinu hjá okkur,“ segir hann. Þá opnuðu hjónin einnig gistingu á neðri hæð hússins og segir Jóhannes það hafa gengið mjög vel. „Svo eignaðist ég barnabarn á árinu, það er nú ekkert lítið. Elsti sonur minn, Jóhannes Haukur Jóhannesson, eignað- ist sitt þriðja barn.“ Líkt og aðrir er Jóhannes Haukur bjartsýnn á nýtt ár. „Nýja árið leggst mjög vel í mig. Ég held að þetta verði gott ár,“ segir hann. Edda Arinbjarnar, Húsafelli: „Hlakka mikið til að ömmubarnið komi“ „Ég vinn á Hótel Húsafelli og það sem stendur upp úr á árinu er hvað það hefur gengið svakalega vel. Maður hefur verið vak- inn og sofinn í vinnunni stanslaust og það hefur borgað sig, það þarf,“ segir Edda Arinbjarnar í Húsafelli. Hún segir fleiri hluti hafa staðið upp úr á árinu sem var að líða. „Við vorum að gera upp húsið okkar og það er eins og nýtt hús. Það gekk rosalega vel og við erum mjög ánægð. Svo má ekki gleyma því að allir eru hraustir og ég er að verða amma í mars,“ heldur hún áfram. Nýtt ár leggst því vel í Eddu. „Ég hlakka mikið til að ömmubarnið komi, að geta knúsað það og kreist.“ Edda hefur sett sér mark- mið á nýju ári, að hreyfa sig meira og ganga það sem hún hefur ekki gengið í nærumhverfinu. „Ég hef lengi ætlað að klára ýms- ar leiðir hér í kring og ætla alveg örugglega að gera það á árinu. Svo fer ég í árlega gönguferð með gönguhópnum mínum í júlí og núna ætlum við að fara í Kverkfjöll og Öskju. Þetta er hóp- ur af eldra fólki með ung börn og færri komast að en vilja í dag. Við förum alltaf í einhverja svona svakalega ferð og látum ekkert stoppa okkur í þessu,“ segir Edda kát að endingu. Hannes Marinó Ellertsson, Akranesi: „Árið verður fullt af nýjum áskorunum“ Hannes Marinó Ellertsson á Akranesi segir ýmislegt hafa staðið upp úr á nýliðnu ári. „Við Lára Dóra fermdum fyrsta barnið okk- ar síðastliðið vor og frábær sólarlandaferð með fjölskyldunni er einnig eitthvað sem stendur upp úr,“ segir hann. Þá nefnir hann, líkt og fleiri, veðurblíðuna sem var 2016. „Veðrið í sumar var frá- bært í alla staði og þá sérstaklega með tilliti til golfiðkunar. Svo má nefna íþróttaafrek Íslendinga, ég veit ekki hvar ég á að enda hvað þau varðar. Þá má nefna að mitt gamla íþróttafélag, Snæfell í Stykkishólmi, landaði nokkrum titlum í safnið þegar stelpurnar lönduðu Íslands- og bikarmeistaratitlum í körfubolta.“ Aðspurður um nýja árið segir Hannes: „Árið 2017 leggst mjög vel í mig, ég held að árið verði fullt af nýjum og skemmtilegum áskorunum í lífi og starfi sem án efa verður gaman að takast á við.“ grþ Hafdís Alda Sigurlaugsdóttir man ekki eftir því að hafa lent í rigningardegi á ferðalögum sínum um landið sl. sumar. Flutningar voru meðal þess sem stóðu upp úr á árinu 2016 hjá Jó- hannesi Hauki Haukssyni. Brynju Reynisdóttur í Stykkishólmi fannst gott veður standa upp úr á liðnu ári. Stefán Gíslason lauk tíu ára Fjallvegahlaupaverkefni sínu á árinu. Ljósm. Kristín Gísladóttir. Nýtt ár leggst vel í Eddu Arinbjarnar í Húsafelli. Ferming og sólarlandaferð er meðal þess sem stendur upp úr hjá Hannesi M. Ellertssyni á árinu sem leið. Stefán Gíslason hefur í mörg ár tekið saman hlaupaannál og hér má sjá afraksturinn settan upp í graf. Líkt og sjá má var árið 2016 í öðru sæti frá upphafi en á árinu hljóp Stefán samtals 2.625,51 km.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.