Faxi - 01.12.2019, Blaðsíða 21
FAXI 21
Veturinn hefur aldrei verið minn tími og sú tilfinning ágerist með aldrinum.
En óumdeilanlegur kostur við þessa dimmu
tíma er að þá er gott að gleyma sér yfir
orðum, myndum og minningum – það
styttir biðina eftir birtunni. Þetta er tíminn
þegar ég nýt þess að loka að mér, vinna úr
ljósmyndaverkum, skrifa og hanna bækur
og sýningar, hugsa aftur. Og nú á myrkum
sunnudagsmorgni á aðventunni sit ég og
horfi hálfa öld aftur, heim til Keflavíkur.
Ég hef skannað inn kámugar og rispaðar
skyggnur úr myndasjóð fjölskyldunnar,
skyggnur frá síðustu árum sjöunda ára-
tugarins sem eru þaktar litlum fingraförum
eftir að við systkinin höfum borið þær upp
að ljósi og rýnt í þær í æsku. Nú horfi ég
aftur á myndirnar og minningar sópast að.
Þetta eru myndir teknar á og við æsku-
heimilið við Heiðarveg. Og ég tók þær
fram á dögunum þegar styttist í að áttatíu
ár væru liðin frá fæðingu pabba, Ingólfs
Þ. Falssonar, sem lengi var í Málfundafé-
laginu Faxa. En hann er ekki hér að rifja
þessa tíma upp með okkur, er löngu horfinn
í þetta rót minninganna – krabbinn tók
hann 58 ára gamlan og ekki nema fimm
ár í að ég nái sjálfur þeim aldri. En hérna
erum við saman á einni myndinni, tveir
strákar, og hann að klippa á mér hárið
heima í eldhúsi. Man ég eftir þessari stund,
þegar ég sat þarna svona grafkyrr uppi á
borði og mamma lyfti myndavélinni? Ljós-
myndafræðingar halda því fram að myndir
taki yfir minningar, að við nútímamenn
gleymum því sem ekki hefur verið fryst með
slíkum myndum, að myndirnar jafnvel búi
minningarnar til. En við að horfa á þessa
ljósmynd er ég óneitanlega kominn heim
í eldhúsið – ég er líklega á þriðja ári og er
þetta jólaklippingin?
Og hérna er önnur mynd, hversdagsleg
mynd eins og ég hrífst svo gjarnan af úr
söfnum annarra, en það gefur þessari aukið
persónulegt gildi að ég er sjálfur í for-
grunni. Með húfuna sem ég skildi víst ekki
við mig og kallaði „barnið“, svo mjúk sem
hún var. Tölti í átt að skugga annars barns
sem stingst inn í myndflötinn úr vinstra
horninu – er það skuggi bróðurins sem lést
áður en ég fæddist og var alltaf til staðar,
allan minn uppvöxt? Og fyrir aftan í inn-
keyrslunni við heimilið, eitthvað að bauka í
nýprjónaðri peysu, er Margeir stóri bróðir
sem mér finnst nú að hafi alltaf passað
samviskusamlega upp á þennan veiklulega
litla bróður,
sem var sem
pakkað inn
í bómull öll
æskuárin, og
lifði. Þannig
horfi ég á
fimmtíu
ára gamlar
ljósmyndir
hverja á fætur
annarri og
þessar minn-
ingar þyrlast
að; þarna á
horninu fyrir
aftan bjó Einar
í Merki og
kom stundum
á hjólastólnum
í kaffi og var
svo erfitt að skilja hann, Gústi á Vatnsnesi
kom í hádegismat og það var ævintýri að
sjá hann stinga fiskbitum upp í sig og tína
beinin síðan út, timburport Kaupfélagsins á
móti var ögrandi ævintýraheimur. Svo fór
vörubíll hlaðinn loðnu framhjá en pallurinn
illa lokaður svo einhverjar loðnur láku
niður á malarvegin fyrir framan, þar sem
ég lék mér með þær í drullupolli.
Og einhverjum árum seinna lék hljóm-
sveitin Júdas inn í nóttina í húsinu við
hliðina svo ég náði ekki að sofna. Það mætti
skrifa um þetta allt. Og stundum er gott að
gleyma sér yfiir orðum, myndum og minn-
ingum…
Einar Falur Ingólfsson
Jólaklipping
Þá og þar...