Faxi - 01.12.2019, Blaðsíða 27
FAXI 27
Nú er aðventan hafin, þessi dásemdar-tími þegar allir sem hafa ráð á því njóta
lífsins í dimmu skammdegisins og aðdrag-
anda jólanna. Fólk leyfir sér aðeins meira
í mat og drykk á þessum vikum en öðrum
tímum ársins. Jólaljós skreyta hús og híbýli,
ljósastaura og götur, allt til að minna okkur
á fæðingu frelsarans. Ljósin létta okkur lífið
í myrkrinu sem liggur yfir öllu og minna
okkur á sama tíma á það að ljósið sigrar
alltaf myrkrið að lokum.
Í upphafi aðventunnar skreytum við flest
híbýli okkar og umhverfi með jólaljósum.
Þannig lýsum við upp skammdegið sem
hefur ráðið ríkjum að undanförnu en er
nú senn á undanhaldi. Jólaljósin lýsa alls-
staðar og sólin hefur hafið sigurför sína yfir
myrkrinu hér á norðurhjara veraldarinnar.
Myrkrið er mörgum þungbært þegar það
leitar uppi hvert skúmaskot og þrengir sér
í krók og kima. Sumsstaðar á landinu sést
ekki til sólar langtímum saman og því er
það svo mikið fagnaðarefni þegar dag tekur
að lengja á ný.
Neyðin í samfélaginu okkar er mikil
og alls ekki allir sem búa við þann kær-
leika og það öryggi sem við þráum öll.
Það fylgir því myrkur þegar við heyrum
af útköllum lögreglu tengdum áfengis- og
fíkniefnaneyslu, við heyrum af týndum og
vanræktum börnum og það berast fréttir
af sjálfsvígum og af dauðsföllum af völdum
neyslu fíkniefna. En að sama skapi fylgir
því gleði og birta, að heyra af góðum huga
þeirra sem leggja fólki lið. Það virðist sem
flestum sé mikið í mun að sinna þeim sem
minna hafa í samfélaginu þegar líður að
jólum. Við gefum peningagjafir, kirkjan og
önnur hjálparsamtök gera sitt besta til að
styrkja fólk sem á þarf að halda, til að allir
geti haldið jól.
Flestir taka jólaljósin niður í kjölfar
jólanna, og margir sinna ekki þeim sem
þurfa á aðstoð og kærleika náungans að
halda fyrr en á aðventu næsta árs. Sífellt
fleiri skilja eftir jólaljós á svölunum eða á
trénu í garðinum til að vinna áfram á móti
myrkri skammdegisins á sama tíma og það
hörfar jafnt og þétt undan hækkandi sólu
og birtu. Væri það ekki góð hugmynd að
skilja jafnframt eftir jólaljós í hjörtum okkar
og leyfa þannig fallega jólaandanum að lifa
áfram með okkur alla mánuði ársins, þannig
að við gleymum aldrei þeim sem þurfa mest
á náungakærleikanum að halda.
Jólin hafa fylgt okkur mönnunum frá
ómunatíð. Framan af til heiðurs hækk-
andi sólar og þar með lífsins sem kviknar
með birtunni. Orðið Jól er gildishlaðið og
hljómar líkt á mörgum tungumálum. Ár
hvert er talað um ólíkindi þess að Kristur
hafi fæðst um jól og það má vel vera að
slíkar vangaveltur eigi rétt á sért en um jólin
höldum við kristnir upp á fæðingahátíð
hans engu að síður og það gerir daginn ekki
síðri að neinu leyti. Við höldum hátíð þess
sem færir okkur ljós í allar kringumstæður
samhliða hátíðinni sem haldin hefur verið
til fagnaðar yfir sigri sólarinnar sem færir
birtu yl og lífsafkomu á sama hátt og Jesús
Kristur, jólabarnið okkar kristinna færir
okkur fyrirheit um eilíft líf.
Frelsari okkar Jesús Kristur kenndi okkur
að koma fram við náungann eins og við
viljum að náungi okkar komi fram við
okkur. Það er ekki dýr jólagjöf til okkar
sjálfra að velja það að gefa fólkinu sem við
hittum í lífinu kærleika og umhyggju. Guð
gefi ykkur öllum gleðileg jól og farsælt
komandi ár.
Séra Fritz Már Jörgensson
Hér og nú
Ljósið sigrar alltaf
myrkrið að lokum
Fritz Már Jörgensson prestur
í Keflavíkurprestakalli